Morgunblaðið - 05.10.1982, Blaðsíða 16

Morgunblaðið - 05.10.1982, Blaðsíða 16
16 MORGUNBLAÐIÐ, ÞRIÐJUDAGUR 5. OKTÓBER 1982 Dagatal íylgiblaóanna * ALLTAF Á ÞRIÐJUDÖGUM * ö«óm. <ut» ALLIAFÁ FIMMTUDÖGUM Alltaf á fóstudögum ALLTAF A LAUGARDÖGUM ALLTAF A SUNNUDÖGUM SmRA OG EFNISMEIRA BLAÐ! Fimm sinnum í viku fylgir auka fróóleikur og skemmtun Mogganum þínum! AF ERLENDUM VETTVANGI Eftir SVEIN SIGURÐSSON V estur-Þýskaland: Erfiðleikarnir eru veganesti ríkisstjórnar Helmut Kohls MIKIL þáttaskil urðu í vestur-þýskum stjórnmálum þegar Hel- mut Kohl var kjörinn kanslari í stað nafna síns Schmidt. Löngum valdafcrli jafnaðarmanna er lokið og við hefur tekið flokkur Adenauers og Erhardts, mannanna, sem á sínum tíma áttu meg- inþáttinn í þýska efnahagsundrinu. Eftir sem áður er Schmidt mjög vinsæll meðal Vestur-Þjóðverja en það sama verður ekki sagt um Kohl. Fáir eða engir hafa verið úthrópaðir jafn rækilega og hann og jafnt samherjar hans sem andstæðingar líta á hann sem litlausan meðalmann, sem lítt sé til höfðingja fallinn. Hans nánustu samstarfsmenn eru á öðru máli. Þeir trúa því, að það muni verða Helmut Kohl sjálfur, sem þáttaskilum muni valda í vestur-þýskum stjórnmálum, miklu fremur en gjörbreytt stefna í innanríkis- og utanríkismálum. Helmut Kohl lýsti því yfir strax eftir að hann hafði verið kjörinn kanslari, að meginverkefni stjórnar hans yrðu innanlandsmálin, eink- um efnahagsmálin og atvinnu- leysið í landinu, sem nú nemur 7,4% af vinnufærum mönnum. Gerhard Stoltenberg, fjár- málaráðherra hinnar nýju stjórnar, hefur komist þannig að orði um efahagsmálin, að þau séu í „kaldakoli" og að viðbúið sé að atvinnuleysið muni halda áfram að aukast í vetur fram til fyrirhugaðra kosninga í mars nk. „Ef við bregðumst hins vegar rétt og skjótt við má búast við fyrstu merkjum hagvaxtar og auk- innar atvinnu á næsta ári og áfram árið 1984,“ sagði Stolt- enberg. Ekki eru allir svona bjart- sýnir á framtíðina og jafnvel stuðningsblöð stjórnarinnar eins og t.d. Frankfurter Allge- meine Zeitung og Siiddeutsche Zeitung eru efins um skjótan árangur af efnahagstillögum stjórnarinnar. I utanríkismálunum er bú- ist við meiri breytingu. Sam- skipti stjórna Vestur-Þýska- lands og Bandaríkjanna munu verða nánari og þótt Kohl tali ekki ensku og Reagan ekki þýsku eiga þeir það sameigin- legt, að báðir eru þeir glað- hlakkalegir íhaldsmenn af gamla skólanum, reynslulitlir í utanríkismálum og engir ástmegir Sovétmanna. Kohl mun ekki fara að dæmi Schmidts og lesa yfir hausa- mótunum á Reagan vegna vaxtastefnunnar vestra, held- ur mun hann tala um ást sína á átthögunum og fósturjörð- inni og mun slíkt tal falla í góðan jarðveg hjá Reagan. Hvað sem þessu líður mun hin nýja stjórn ekki komast hjá glímunni við það mál, sem nú veldur mestum erfiðleikum í samskiptum Vestur-Þjóð- verja og Bandaríkjamanna, en það er fyrirhuguð endurnýjun á kjarnorkuvopnabúnaði NATO í Þýskalandi á næsta ári. Helmut Schmidt átti fullt í fangi með að hafa hemil á andstæðingum áætlunarinnar innan síns eigin flokks en við þá erfiðleika á Helmut Kohl ekki að stríða. Hins vegar eru allir sammála um, að með til- Helmut Kohl: Litlaust meðalmenni eða verðugur arftaki Adenauers? komu hægristjórnarinnar muni vestur-þýska friðar- hreyfingin fá byr undir báða vængi. Kemur þar einkum tvennt til. í fyrsta lagi eru nú skilin skarpari milli stjórnar og stjórnarandstöðu en áður var og í öðru lagi fyrirhugaðar kosningar 6. mars nk. Ef af kosningunum verður, sem margir efast um, mun af- staðan til kjarnorkuvopnanna verða eitt af meginmálum þeirra hvort sem Kohl líkar það betur eða verr. Vinstri armur Jafnaðarmannaflokks- ins hefur nú frjálsari hendur en áður og umhverfisverndar- menn, „græningjarnir" svo- kölluðu, munu ekki láta sitt eftir liggja nú þegar þeir eiga góða möguleika á að fá full- trúa á sambandsþinginu í Bonn. Vaxandi andstaða við kjarn- orkuflaugarnar gæti valdið því, að Kohl, eins og Schmidt, neyddist til að fara bónarveg- inn að Bandaríkjamönnum í von um að þeir björguðu hon- um fyrir horn með því að kom- ast fljótt að samkomulagi við Rússa í kjarnorkuvopnavið- ræðunum í Genf. Við þá þróun eru þó litlar vonir bundnar og Schmidt, sem sjaldan lætur undir höfuð leggjast að lýsa vantrú sinni á eftirmanninum, sagði á þingi í síðustu viku, að Kohl væri ekki nógu fastur fyrir og myndi auðveldlega láta undan öllum kröfum Bandaríkjastjórnar. Tíminn mun leiða í ljós hvort dómur Schmidts á við rök að styðjast en hvað varðar afstöðuna til Sovétmanna ef- ast enginn um að Kohl er nógu fastur fyrir. Samskiptin við þá munu verða kuldalegri og formlegri en verið hefur og lát mun nú verða á pílagrímsferð- um vestur-þýskra ráðamanna til Moskvu. Á hinn bóginn er talið víst, að staðið verði við þá samninga, sem gerðir voru í tíð Brandts og Schmidts og einnig er það talið sefa ótta Rússa nokkuð, að sami maður- inn, Hans-Dietrich Genscher, mun áfram fara með embætti utanríkisráðherra. Hin nýja stjórn í Vestur- Þýskalandi á við ærinn vanda að stríða og leiðtogi hennar, Helmut Kohl, nýtur ekki sömu tiltrúar og forveri hans, Helmut Schmidt. Hinu vilja þó margir gleyma að Kohl væri ekki það, sem hann er, ef hann hefði ekkert til brunns að bera. Hann er orðinn kansl- ari aðeins 52 ára gamall, yngsti maðurinn, sem hefur gegnt því embætti, og það get- ur hann þakkað stefnufestu sinni og óbilandi sjálfstrausti. Ofsóknir andstæðinganna og grófar móðganir hefur hann látið sem vind um eyru þjóta. Hann var kosinn for- maður Kristilega demókrata- flokksins árið 1973 og hefur síðan staðið af sér alla storma að undanskildum einum, þeg- ar hann vék til hliðar fyrir Strauss sem kanslaraefni í kosningunum 1980. Að þeim loknum kom hann aftur sterkari og öruggari en nokkru sinni fyrr. Kohl hefur ekki gert sér far um að öðlast sérþekkingu á einhverju sviði, hvorki í utan- ríkismálum, öryggismálum, efnahags- né fjármálum. Þess í stað lítur hann á sig sem stjórnanda, mann sem hafi það hlutverk að tryggja, að störf sérfræðinganna beri sem bestan árangur. Hann hefur áður sýnt fram á hæfileika sína í því efni eða þegar hann var forsætisráðherra Rheinl- and-Pfalz. Þá beitti hann sér fyrir fjölmörgum umbótum, endurskipulagði stjórnsýsluna og skólakerfið og þótti ein- staklega heppinn í vali sínu á samstarfsmönnum. Á næstu mánuðum munu Vestur-Þjóðverjar væntanlega fá úr því skorið hvort Helmut Kohl er sá, sem andstæðingar hans segja hann vera, litlaust meðalmenni, eða hvort hann líkist þeim manni sem hann hefur mestar mætur á, en það er Adenauer, fyrsti kannslari Vestur-Þýskalands. (Heimildir: AP, The Times)

x

Morgunblaðið

Beinir tenglar

Ef þú vilt tengja á þennan titil, vinsamlegast notaðu þessa tengla:

Tengja á þennan titil: Morgunblaðið
https://timarit.is/publication/58

Tengja á þetta tölublað:

Tengja á þessa síðu:

Tengja á þessa grein:

Vinsamlegast ekki tengja beint á myndir eða PDF skjöl á Tímarit.is þar sem slíkar slóðir geta breyst án fyrirvara. Notið slóðirnar hér fyrir ofan til að tengja á vefinn.