Morgunblaðið - 12.11.1982, Síða 12
12
MORGUNBLAÐIÐ, FÖSTUDAGUR 12. NÓVEMBER 1982
Minning:
Krístján Guðlaugsson
hæstaréttarlögmaður
Fæddur 9. september 1906
Dáinn 2. nóvember 1982
Á þessu ári hefur stúdentsár-
gangurinn frá 1927 orðið að sjá á
bak þremur félögum, nú síðast
Kristjáni Guðlaugssyni, hæsta-
réttarlögmanni. Hann andaðist 2.
þ.m. í Borgarspítalanum. Meðan
heilsan leyfði, tók hann mikinn
þátt í félagslífi okkar og lét sér
annt um að treysta og viðhalda
vináttutengslum við gamla skóla-
félaga.
Fullu nafni hét hann Kristján
Magnusen Guðlaugsson. Var hann
skírður nafni náins ættingja úr
móðurætt, Kristjáns Magnusen,
sýslumanns og kammerráðs á
Skarðsá á Skarðsströnd. Er mér
kunnugt um, að þessi nafngift var
honum ekkert hégómamál, miklu
fremur hvatning og áminning um
að hann ætti til góðra að telja og
bæri að hafa það hugfast er út í
lífsbaráttuna kæmi.
Foreldrar Kristjáns voru séra
Guðlaugur Guðmundsson, síðast
prestur á Stað í Steingrímsfirði og
kona hans Margrét Jónsdóttir,
prests á Staðarhrauni. Kristján
fæddist 9. september 1906 á Dag-
verðarnesi í Dalasýslu, yngstur
tólf systkina. Hann ólst að mestu
upp að Stað í Steingrímsfirði þar
til hann hóf nám í Menntaskólan-
um í Reykjavík. Um líkt leyti
hætti faðir hans prestsskap og
þau hjón fluttu til Reykjavíkur og
hjá þeim átti Kristján síðan heim-
ili alla sína skólatíð. Varð það
vinsæll samastaður margra skóla-
bræðra Kristjáns, einkum þeirra
sem áhuga höfðu á skáldskap og
íslenskum fræðum, enda var séra
Guðlaugur fjölfróður í þeim efn-
um og skáldmæltur vel. Hann
sendi raunar frá sér ljóðabók um
þessar mundir, þá kominn nokkuð
yfir sjötugsaldur og orðinn bjind-
ur.
Á seinni árum hafði Kristján
stundum orð á því, að hann hefði
verið hálfgerður sveitamaður, eins
og hann komst að orði, fyrst eftir
að hann kom hingað til bæjarins.
Ekki urðu menn þess þó varir að
það tæki hann langan tíma að
samlagast bæjarbragnum. Hann
var að upplagi mjög félagslyndur,
ófeiminn og frjálsmannlegur í
framkomu. Mjög fljótt fór hann að
taka virkan þátt í félagslífi nem-
enda. Naut það góðs af því, að um
þessar mundir fékkst hann tals-
vert við eigin ljóðagerð og
skáldskap. Átti hann ekki langt að
sækja þá áráttu þar sem faðir
hans var, svo sem fyrr segir. Hér
má einnig geta þess, að elsti bróðir
hans, Jónas, var á sínum tíma vel-
þekktur rithöfundur og skáld.
Hann var lengi búsettur í Dan-
mörku og starfaði þar um skeið,
m.a. sem blaðamaður við „Social-
Demokraten". Hann andaðist árið
1916 á Skagen. Kristján bar mikla
virðingu fyrir þessum bróður og
tel ég líklegt, að minningin um
skáldferil hans hafi orðið Krist-
jáni hvatning til dáða á þessu
sviði. Því var það, að þegar árið
1927, er Kristján lauk stúdents-
prófi, sendi hann frá sér ljóðabók
og var hún að mestu árangur þess,
sem hann hafði ort í menntaskól-
anum. Hann nefndi bókina
Skugga og fékk hún góða dóma.
Þvi miður lét Kristján hér staðar
numið, enda þótt hann legði
skáldskapinn ekki með öllu á hill-
una. Telja ýmsir, sem um það
mega teljast dómbærir, að mikils
hefði mátt vænta af Kristjáni í
þessum efnum, hefði hann áfram
lagt rækt við skáldgáfu sína.
Einn er sá vettvangur annar
sem Kristján haslaði sér völl á í
skólalífinu. Hann tók fljótt að
sækja málþing nemenda. Varð
hann þar brátt vel hlutgengur,
mælskur vel og sérstaklega orð-
heppinn og hnyttinn í andsvörum.
Kom þessi æfing honum að góðu
gagni síðar á lífsleiðinni, því að
um aldarfjórðungsskeiö tók hann
mikinn þátt í stjórnmálum. Þann-
ig var hann um skeið formaður
sambands ungra sjálfstæðis-
manna, einnig í miðstjórn Sjálf-
stæðisflokksins og í framboði
fyrir hann. Ritstjóri Vísis var
hann í 15 ár og annaðist einnig
ritstjórn ýmissa stjórnmálarita
um lengri eða skemmri tíma, s.s.
Stefnis, Heimdallar, blaðs ungra
sjálfstæðismanna o.fl. rita, sem
hér verða ekki talin.
I skóla fylgdi Kristján frjáls-
lynda flokknum að málum, en síð-
ar Sjálfstæðisflokknum, eftir
sameiningu íhalds- og frjálslynda
flokksins.
Kristján var ávallt eindreginn
fylgismaður hins frjálsa framtaks
einstaklingsins, fastur fyrir í
skoðunum og þótti því ekki alltaf
þægur flokksmaður.
Að loknu stúdentsprófi innrit-
aðist Kristján í lögfræðideild Há-
skóla íslands og lauk þar prófi
með lofsverðum vitnisburði 1932.
Um sex ára skeið eftir lögfræði-
próf var Kristján starfsmaður Hf.
Shell á Islandi. Þar komst hann í
kynni við fjölbreytt viðskiptalíf
landsmanna. Var það honum góð-
ur undirbúningur fyrir þann vett-
vang, sem hann hafði stefnt að
með háskólanámi sínu. Árið 1938
hóf hann sjálfstæð lögfræðistörf
og stofnaði sína eigin lögfræði-
skrifstofu.
Þegar litið er á starfsferil hans
er það áberandi, að hann hefir
nýtt lögfræðimenntun sína meira
en almennt gerðist í þágu fyrir-
tækja atvinnulífsins, bæði með
lögfræðilegri ráðgjöf og síðan á
stundum með beinni stjórnun
þeirra í formi eða hlutverki
stjórnarformanns eða meðstjórn-
anda þessara félaga.
Ekki hefir það verið tilviljun að
Kristján var 1974 skipaður í nefnd
til að athuga frumvarp til laga um
hlutafélög.
Þau eru orðin mörg fyrirtækin,
sem Kristján hefur á þennan hátt
haft afskipti af. Skulu nokkur
þeirra nefnd hér og er þá aðeins
drepið á fáein, sem við sögu hafa
komið. Hann var í blaðaútgáfu-
stjórn Vísis frá 1936—’59, í stjórn
Félagsprentsmiðjunnar frá 1939
og formaður frá 1952, ennfremur
form. Anilinprents hf. frá 1954 og
í stjórn Hvals hf. frá stofnun fé-
lagsins 1947. Þá hafði Kristján
mikil afskipti af flugmálum og var
raunar einn í forystusveit þeirra,
sem byggðu upp þennan þýð-
ingarmikla atvinnuveg íslendinga.
Þannig var hann formaður félags-
stjórnar Loftleiða hf. frá 1953 þar
til hann varð varaformaður Flug-
leiða hf. í júlí 1973 og síðar for-
maður um eins árs skeið til aðal-
fundar 1976. Það er engum vafa
undirorpið, að afskipti Kristjáns
af flugmálum munu jafnan verða
talin einn merkasti þátturinn á
starfsferli hans. í þessu sambandi
má ekki gleyma, að á þessu sviði
og tímabili var við mörg erfið
lögfræðileg vandamál að glíma —
ekki aðeins er taka til íslensks
réttarfars, heldur einnig til al-
þjóðaréttar og réttarreglna um
flugmál, sem á þessum tíma voru í
hraðri þróun.
Þetta var ekki síst mikilsvert
atriði eftir að íslensku flugfélögin
fóru að hasla sér völl á alþjóða
vettvangi.
Eins og að líkum lætur hefur
Kristján að makleikum hlotið
margvíslega viðurkenningu. Þann-
ig hefur hann verið sæmdur orðu
riddara og síðar stórriddara hinn-
ar islensku fálkaorðu. Þá hefur
hann verið sæmdur danskri orðu
(D.Chr. X. frm.) og orðu frá Lux-
emborg (Off. Lux. O.M.j. Þá var
Kristján á sínum tíma sæmdur
gullstjörnu Stúdentafélags
Reykjavíkur. Hygg ég, að það hafi
verið honum einkar kær viður-
kenning.
Hér að framan hefur það verið
rakið, að Kristján var einkar far-
sæll í starfi. í einkalífi var hann
einnig hamingjusamur, enda helst
slíkt oft í hendur. Árið 1932, 7.
október, kvæntist Kristján Berg-
þóru skólasystur sinni. Var hún
dóttir Brynjúlfs Björnssonar,
tannlæknis í Reykjavík og konu
hans Guðrúnar Önnu Guðbrands-
dóttur. Þau Kristján felldu þegar í
skóla hugi saman og bundust þar
ævarandi tryggðaböndum. Hefur
Bergþóra jafnan staðið við hlið
manns síns með sóma, auk þess
sem hún hefir skapað honum og
börnum þeirra fagurt heimili, ríkt
af hlýju og menningu.
Þeim Kristjáni varð tveggja
barna auðið; eru það Anna gift
Hauki Steinssyni, tannlækni og
Grétar Brynjúlfur, lögfræðingur,
nú varaformaður stjórnar Flug-
leiða hf.
Kona mín og ég, svo og stúd-
entsfélagar úr árgangnum 1927
sendum Bergþóru og fjölskyldu
hennar innilegar samúðarkveðjur
um leið og við minnumst Krist-
jáns og þökkum samfylgdina.
Oddur Guðjónsson
Með Kristjáni Guðlaugssyni,
sem andaöist 2. þ.m. í Borgarspít-
alanum, er genginn mikill at-
hafnamaður og góðviljaður
mannvinur. Að loknu háskólaprófi
í lögfræði frá Háskóla íslands
1932 hóf hann störf hjá einu af
stærstu fyrirtækjum landsins
Shell á íslandi og kynntist þá at-
vinnulífinu hvarvetna um landið.
Hann varð hæstaréttarlögmað-
ur 1940. Á þessum árum tók hann
virkan þátt í stjórnmálum en
starfaði jafnframt að málflutningi
í Reykjavík. Ritstjóri dagblaðsins
Vísis var hann um 15 ára skeið,
1938—1953, en ritstýrði auk þess
ýmsum öðrum blöðum og tímarit-
um.
Kristján unni frjálsu framtaki
og jafnrétti í hvívetna. Svo sem
vænta mátti um svo víðsýnan at-
hafnamann, voru honum falin
margvísleg trúnaðarstörf, en þar
ber hæst þátttaka hans í uppbygg-
ingu flugsins hér á landi.
Kynni okkar Kristjáns hófust
þegar við fórum að starfa saman í
stjórn Félagsprentsmiðjunnar hf.,
fyrir 43 árum. Hann var þá ritari
stjórnarinnar, en var kjörinn
formaður 1952 og formaður
stjórnar Anilinprents hf. síðan
það fyrirtæki var stofnað 1954.
Öll stjórnarstörf Kristjáns báru
vott um drengskap, sanngirni og
víðsýni. Ómetanleg þekking hans
á þjóðmálum og stjórnsýslu varð
meðstjórnendum hans leiðarljós í
hverjum vanda. Hann var fljótur
að átta sig á kjarna hvers máls og
greina hann frá hisminu.
Þótt Kristján ætti svo annríkt
um dagana, að sjaldan mætti um
frjálst höfuð strjúka fyrir verk-
efnunum, tók hann sér stöku sinn-
um frí og naut þá hvíldar og
hressingar við jarðræktar- og
gróðursetningarstörfin í sumar-
bústaðalandinu í Rauðhólum.
Hann unni landi og þjóð og undi
sér hvergi betur en hjá fjölskyld-
unni í guðs grænni náttúrunni.
Eiginkonu Kristjáns, Bergþóru,
börnum þeirra, Önnu og Grétari,
og fjölskyldum flyt ég fyrir hönd
fjölskyldu minnar, stjórnar og
allra starfsmanna prentsmiðj-
anna hugheilar samúðar- og sakn-
aðarkveðjur við fráfall forustu-
manns og vinar.
Bjami Konráðsson
Kristján Guðlaugsson var fædd-
ur að Dagverðarnesi í Dölum, 9.
september 1906. Foreldrar hans
voru frú Margrét Jónasdóttir og
séra Guðlaugur Guðmundsson.
Systkinin voru tólf. Elstur var
Jónas Guðlaugsson skáld, en
Kristján var yngstur. Eftirlifandi
systkin eru þrjú: frú Jóhanna
Guðlaugsdóttir, frú Theódóra
Guðlaugsdóttir og Guðmundur
Guðlaugsson fyrrv. framkvæmda-
stjóri.
Útför tengdaföður míns, Krist-
jáns Guðlaugssonar fer fram í
dag. Með honum er genginn val-
inkunnur sæmdarmaður og dreng-
ur góður. Ég átti því láni að fagna
að kynnast Kristjáni Guðlaugs-
syni fyrir um þremur áratugum
síðan. Þau kynni urðu nánari, er
ég síðar gekk að eiga dóttur hans
Önnu Kristjánsdóttir. Ég minnist
þess með hlýju, hve vel þau hjón
Kristján og kona hans Bergþóra
Brynjúlfsdóttir (Björnssonar
tannlæknis) og sonur þeirra Grét-
ar Br. Kristjánsson, tóku mér.
Árin liðu og milli okkar styrkt-
ust böndin, sem urðu að órjúfan-
legri vináttu.
Áhugamálin voru mörg. Þekk-
ing Kristjáns var djúptæk og víð-
feðm, bókmenntir, listir, stjórn-
mál, gróður jarðar, skógrækt,
ættfræði og mannleg samskipti að
viðbættri góðri kímnigáfu.
Oft höfum við hjón ásamt
tengdaforeldrum mínum eytt
sumarleyfum okkar saman, í
ógleymanlegum ferðum til fjöl-
margra landa, og það er ekki að-
eins með sólskin í huga, sem ég
hugsa til þessara ferða, það var
sólskin hvern einasta dag.
Minnisstæð er einnig ferðin um
Dalina, á gamlar æskuslóðir
Kristjáns. Komið var við á Skarði,
eina höfuðbóli landsins, sem verið
hefur í leigu sömu ættar frá land-
námstíð, en þangað rakti hann ætt
sína.
Þó var einn staður öllum öðrum
fremri. Unaðsreiturinn við Rauð-
hóla, þar sem hann byggði falleg-
an sumarbústað og gróðursetti
fjölda trjáa. Þar undi hann öllum
stundum.
Kristján var farsæll maður
bæði í starfi og einkalífi. Hann
átti traust og gott heimili, góða
konu, góð börn, barnabörn og ný-
fætt barnabarnabarn.
Ég vil kveðja vin minn Kristján
Guðlaugsson með ljóði, sem hann
orti sjálfur til látins vinar síns
Péturs Hafstein lögfræðings, sem
fórst með togaranum Apríl 1. des-
ember 1930, um leið og ég sendi
samúðarkveðjur til allrar fjöl-
skyldunnar.
Vinur og bróðir,
við horfum hljóðir
í helgra minninga aringlóðir.
Þau gleymast eigi
á einum degi
hin góðu kynni
frá gengnum vegi.
Þú vildir bæta,
þú vildir kæta,
illgresi úr hverjum akri ræta.
Létta höfga
og lýðinn göfga,
kenna val milli vits og öfga.
Hvern grunaði grandið
og gæfustrandið,
þú áttir að byggja og nema landið.
I>ú hefir ei flúið
ei hopað né snúið
frá háu marki, nei stríðið er búið.
Við skiljum ei sköpin
en skynjum töpin,
störum á dauðann og stjörnuhröpin.
Hlustum á niðinn
heiminn og kliðinn,
en þú hefir öðlast eilífa friðinn.
(K.G.)
Haukur Steinsson
Upp úr seinni heimsstyrjöldinni
komu fram hugmyndir um að
stofna hlutafélag til hvalveiða og
hvalvinnslu hér á landi. Kristján
Guðlaugsson var einn af hvata-
mönnum þess framtaks að Hvalur
hf. var stofnaður 1947. Átti hann
sæti í stjórn Hvals hf. allt frá upp-
hafi og var dyggur og trustur
máttarstólpi fyrirtækisins alla
tíð.
Sem unglingur minnist ég nafna
(en þannig ávörpuðum við hvor
annan) sem hins hógværa og yfir-
lætislausa manns. Var ég oftast í
fylgd með föður mínum heitnum
er fundum okkar bar saman á
þeim árum. Man ég hve faðir minn
mat mikils álit nafna á hinum
ýmsu málum er upp komu og feng-
ist var við á hverjum tíma.
Er ég var ráðinn framkvæmda-
stjóri Hvals hf. að föður mínum
látnum þá hófst samstarf okkar
nafna í stjórn Hvals hf. Varð ég
þess fljótt áskynja að þar fór
skarpgáfaður og víðlesinn maður
er fylgdist vel með þróun mála
bæði innanlands sem utan. Hann
var tillögugóður, ráðhollur, fljótur
að setja sig inn í hlutina og ekkert
banginn við að ráðast á brattann
ef það mátti verða til framfara í
rekstrinum. Nafni var framsýnn
og glöggskyggn, enda slyngur
lögfræðingur.
Nafni var hreinn og beinn og
kom til dyranna eins og hann var
klæddur. Það sannar svo ekki
verður um villst hans litríki ferill
bæði í stjórnmálum og í atvinnu-
lífinu.
Gaman var að heyra hann segja
frá þátttöku sinni í stjórnmálum
og hvernig hlutirnir gerðust á
þeim árum. Endaði það þannig, að
er honum fannst hann ekki passa
inn í kramið lengur, þá sagði hann
skilið við stjórnmálin og helgaði
krafta sína atvinnulífinu. Hann
var mikill talsmaður hins frjálsa
framtaks og eru verk hans í at-
vinnulifinu bezti vitnisburður um
það hverju menn eins og nafni fá
áorkað ef þeir fá að njóta sín.
Hann var ljóðelskur og hag-
mæltur vel og hafði gaman af að
fara með kvæði og vísur á góðri
stund. Var hann þá hrókur alls
fagnaðar eins og reyndar endra-
nær.
Með nafna er genginn einn af
sonum íslands, er braust áfram til
metorða og virðingar úr blárri fá-
tækt fyrir eigin dugnað og kjark.
Það er alltaf mikil eftirsjá að
slíkum mönnum, en huggun er það
harmi gegn að árin voru orðin
mörg og mikið verk hafði áunnist
og fyrir okkur liggur jú öllum að
kveðja einn góðan veðurdag.
Var það mér mikið lán að kynn-
ast og fá tækifæri til að starfa
með og læra af manni eins og
nafna. Fyrir það verð ég ævinlega
þakklátur.
Ég vil fyrir mína hönd, móður
minnar og systur votta frú Berg-
þóru og niðjum þeirra okkar inni-
legustu samúð.
Kristján Loftsson
Kynni okkar Kristjáns Guð-
laugssonar hófust þegar við báðir
vorum kjörnir í stjórn Loftleiða
hf. í fyrsta sinn árið 1953. Krist-
ján átti þá að baki langan starfs-
feril sem ritstjóri og málflutn-
ingsmaður, sem hvorutveggja
voru tímafrek störf og því anna-
samt hjá honum. Auk þess var
Kristján í stjórn nokkurra fyrir-
tækja. Þrátt fyrir það tókst hann
þessi stjórnarstörf á hendur, en
gerði sér væntanlega ekki þá grein
fyrir því hve umfangsmikil þau
áttu eftir að verða.
Á þessum árum voru miklir erf-
iðleikar í rekstri Loftleiða hf., en
þó tókst þá að leggja þann grunn
að uppbyggingu sem síðar leiddi
til mikillar og ábatasamrar út-
þenslu í starfsemi félagsins, sem
alþjóð er kunn.
Það var því mikils virði að njóta
þekkingar og reynslu Kristjáns
við lausn ýmissa vandamála á
þessum árum, enda var hann kjör-
inn formaður félagsins og sat það
sæti til sameiningar íslensku flug-
félaganna 20 árum síðar, 1973.
Kristján var mikill fróðleiks-
brunnur á fjölmörgum sviðum.
Hann var ákaflega vel að sér í
bókmenntum, bæði íslenskum og
erlendum og mikill smekkmaður
um hverskonar listir, enda hinn
mesti fagurkeri og heimsmaður í
þeim efnum. Það var bæði
skemmtilegt og fróðlegt að ræða
slíka hluti við Kristján.
Á yngri árum hafði Kristján
fengist við skáldskap og m.a. gefið
út Ijóðabók. í Kristjáni bjó mikil
skáldaæð, enda var Jónas bróðir
hans Guðlaugsson eitt mest lof-
andi Ijóðskáld á sínum tíma, en