Morgunblaðið - 25.08.1983, Page 37
MORGUNBLAÐIÐ, FIMMTUDAGUR 25. ÁGÚST 1983
37
1
komiö víst!“ Og hún hafði auðvitað
rétt fyrir sér.
En nú komum við ekki oftar til
hennar, ekki af því að við viljum
það ekki, heldur af því að Elín er
farin. Hún veiktist fyrir níu mán-
uðum. Stríð hennar, því þrotlaust
stríð var það, var háð af hetjuskap
og æðruleysi. Jafnvel þegar henni
leið verst var aldrei erfitt að
heimsækja hana.
Árni, Anna Gunna og Gunna
Beta kveðja Elínu „ömmu“ með
tárum og söknuði, við Stefán með
tómarúm hið innra.
Þér, Albert, sem mest hefur
misst og annast Elínu af svo ein-
stakri nærgætni í veikindum
hennar, svo og Guðjóni og fjöl-
skyldu, sendum við innilegar sam-
úðarkveðjur.
Hólmfríður Árnadóttir
17. ágúst sl. kom ég í mína síð-
ustu heimsókn á Landspítalann til
minnar kæru mágkonu Elínar
Guðjónsdóttur. Þetta var okkar
kveðjustund, hálfri klukkustund
síðar var hún látin. Sá sjúkdómur
sem Elín svo hetjulega hafði bar-
ist við sl. ár hafði að lokum yfir-
bugað hana.
Elín, sem í fjöldamörg ár starf-
aði í Kexverksmiðjunni Esju og
síðar á Borgarspítalanum var
dugmikil kona, ósérhlífin, fasmikil
og kom ætíð til dyranna eins og
hún var klædd.
Það leyndi sér ekki þegar komið
var í heimsókn á hennar fallega og
snyrtilega heimili við Bústaðaveg-
inn að hún var höfðingi heim að
sækja. Aldrei mátti það bregðast
þegar ég var á ferð í bænum með
börnin mín, að koma við hjá Ellu
og allt fram á síðustu stund mundi
hún eftir þeim með sínum alkunna
rausnarskap.
Við heimilisfólkið á Neðri-Þverá
þökkum henni fyrir allt sem hún
hefir fyrir okkur gert og þá sér-
staklega fyrir börnin. Frá fyrstu
tíð hafði hún áhuga á framgangi
þeirra og þroska.
Allt sem lifnar deyja hlýtur, en
minningarnar varðveitast og lifa í
geymd sinni.
Við sem hana þekktum kveðjum
hana með hlýhug og kærleika.
Blessuð sé hennar minning.
Kristín Aradóttir,
Neðri-Þverá.
Er dró að kvöldi hins 17. ágúst
sl. lézt á kvennadeild Landspítal-
ans frú Elín Guðjónsdóttir, Bú-
staðavegi 91, Reykjavík. Hún
hafði um skeið háð harða baráttu
við þann sjúkdóm, sem verður svo
mörgum að aldurtila nú um stund-
ir og eins og þeir hlaut hún að lúta
í lægra haldi fyrir honum að lok-
um. En með henni er gengin merk
sæmdarkona, sem rétt og skylt er
að minnast nokkrum orðum.
Elín fæddist að Neðri-Þverá í
Fljótshlíð hinn 2. apríl 1918, dóttir
hjónanna Sigríðar Sigurðardóttur
frá Árkvörn í Fljótshlíð og Guð-
jóns Árnasonar, bónda á Neðri-
Þverá. Hún kom með langþráðu
vori yfir íslandsbyggð, sem þreyj-
að hafði óvenju langan, harðan og
erfiðan vetur og varð því ungu
hjónunum á Neðri-Þverá tvöfált
gleði- og fagnaðarefni. Með henni
fæddist þeim frumburður í löngu
og hamingjuríku hjónabandi, sem
færði þeim alls 6 börn. Næst henni
að aldri er Þórunn, húsfreyja að
Borgarholti í Ásahreppi, gift
Kristni Jónssyni, bónda þar. Því
næst fæddist þeim Sigurpáll, síðar
bóndi á Neðri-Þverá, er hann tók
þar við búi, kvæntur Kristínu
Aradóttur. Þá kom Sigurður Ingi,
einnig bóndi á Neðri-Þverá. Síðan
fæddist Árni, síðar héraðsdóms-
lögmaður og forstjóri Innheimtu-
stofnunar sveitarfélaga, kvæntur
Steinunni Gunnlaugsdóttur. Og
loks fæddist þeim yngsta barnið
er þau fögnuðu Magnúsi, nú raf-
virkjameistara, sem kvæntur er
Hönnu Kristjánsdóttur. Allt er
þetta traust og öruggt heiðursfólk,
sem ber foreldrum sínum og
bernskuheimili fagurt vitni.
Elín ólst upp með foreldrum
sínum í hinni stóru fjölskyldu
þeirra að Neðri-Þverá, þar sem
hún lagði gjörva hönd á flesta
hluti og gekk að verkum með for-
eldrum sínum og systkinum með
öllum þeim röskleik, er síðan ein-
kenndi hana alla tíð. En lífið ætl-
aði henni þó ekki að sitja í sveit og
una þar alla tíð. Um tvítugt
kynntist hún mannsefni sínu,
Albert Sigurðssyni, verkamanni,
syni Sigurðar Gunnarssonar,
járnsmiðs og Ástbjargar Guð-
mundsdóttur konu hans. Með þeim
tókust ástir og þau gengu í hjóna-
band hinn 27. maí 1939. Veður
voru þá öll válynd en Djartsýn
héldu þau út í lífið, staðráðin í að
standa af sér alla storma og búa
sér trausta fjölskyldu og sem bezt
heimili. Að leiðarlokum má full-
yrða, að því markmiði náðu þau
hjón. Því var létt að líta með
ánægju yfir farinn veg er aldurinn
sótti að.
Þau Albert og Elín stofnuðu
þegar í upphafi heimili sitt í
Reykjavík og bjuggu alla tíð hér í
borginni. Þar fæddist þeim einka-
barn þeirra, Guðjón Albertsson,
héraðsdómslögmaður og deildar-
stjóri í Tryggingastofnun ríkisins,
kvæntur Kristínu Guðmundsdótt-
ur, framkvæmdastjóra Alþýðu-
flokksins. Síðar fæddist þeim
dóttir, sem lézt þegar í fæðingu og
varð þeim hjónum mikið harms-
efni. Bæði unnu þau hjón hörðum
höndum fyrir heimili sínu og fjöl-
skyldu alla tíð. Löngum starfaði
Elín við heyskap flest sumur,
framan af á bernskuheimili sínu í
Fljótshlíð, sem hún var tengd
sterkum böndum og leitaði löng-
um til. Um 20 ára skeið starfaði
hún við afgreiðslustörf í Kexverk-
smiðjunni Esju hf. og síðustu 5
árin vann hún í eldhúsi Borgar-
spítalans. Hvarvetna sótti hún
störf sín fast og dreif þau áfram
af kappi. Lognmolla var henni lítt
að skapi, enda konan nokkuð skap-
rík, stórlynd og eindregin í skoð-
unum, bæði á mönnum og málefn-
um. En hún átti fleiri hljómmikla
strengi í hörpu sinni. Vinir hennar
og ættingjar munu ætíð minnast
þeirrar frábæru gestrisni, sem
alltaf beið þeirra á litlu en vel
búnu heimili þeirra hjóna. Aldrei
mátti hún aumt sjá án þess að
vera óbeðin komin á vettvang með
alla þá aðstoð, sem á hennar valdi
var. Sízt munu vinir hennar
gleyma gjafmildi hennar og ör-
læti, sem þeir nutu í ríkum mæli,
ekki sízt börnin, bæði skyld og
óskyld. Þessi eiginleiki var henni
svo eðlislægur og lítt beizlaður, að
til fádæma má telja. Engu að síð-
ur héldu þau hjón vel á sínum litlu
efnum og komust ætíð vel af.
í æsku hlaut Elín þá menntun,
sem sveitabörn áttu þá kost á. En
vafalaust hefur þá hugur hennar
staðið til þess að afla sér meiri
menntunar og fróðleiks en lífið
gaf henni kost á. Því greip hún til
þess er færi gafst og efnin leyfðu
að halda yfir hafið til að kynnast
erlendum þjóðum og málefnum.
Síðustu ferð sína fór hún á síðasta
ári er hún ferðaðist um Bandarík-
in með vinkonum sínum. Mátti
hún þá vissulega teljast víðförul
alþýðukona, er hún hafði ferðast
um Norðurlöndin öll, flest lönd
vestantjalds á meginlandi Evrópu,
Mexikó og Bandaríkin, auk ann-
arra sem ég kann ekki að telja.
Síðustu árin hafði hún gjarnan
þann hátt á, að þegar farfuglarnir
komu til landsins hélt hún utan i
sumarleyfi sínu og lagði þá gjarn-
an hálfar og heilar heimsálfur að
baki. Ekki efa ég að hefði henni
enzt aldur til, hefði hún haldið
stórreisum sínum áfram og ekki
vílað neitt fyrir sér, hvað sem
aldrinum leið.
Það lætur að líkum, að jafn
trygglynd kona og Elín var, lét sér
afar annt um fjölskyldu sína. Um-
hyggja hennar og alúð náði m.a.
til sonarfjölskyldu hennar, sem
hún lagði mikla elsku við. Þar
fylgdist hún grannt með uppvexti
tveggja dætra þeirra hjóna, sem
voru henni sannkallaðir auga-
steinar. Sú eldri er alnafna henn-
ar, Elín Guðjónsdóttir, sem lýkur
stúdentsprófi á komandi vori og
amma hennar hafði mikið dálæti
á. Ekki var þó ástin minni á yngri
dótturinni, Sif, sem amman batt
miklar vonir við. Vafalaust hefur
hún gert sér vonir um að fá að
fylgjast lengur með þeim og styðja
með ráðum og dáð, en óblíð örlög
komu í veg fyrir það. í staðinn
mun minningin um hana verða
þeim stoð og styrkur.
Ég kynntist Elínu fyrir all-
mörgum árum er systir mín varð
tengdadóttir hennar. Mér þótti
konan strax nokkuð aðsópsmikil
og ekki skar hún utan af skoðun-
um sínum. Síðar kynntist ég henni
mun betur og þarf nú ekki að
skoða hug minn um það, að þar
var mannkostamaður á ferð þar
sem hún var. Hún átti sýnilega
margt ógert og hafði til þess bæði
vilja og burði, þegar banamein
hennar gerði svo óvænt vart við
sig á liðnu ári. Þá orrustu háði
hún af sama kappi og þreki og all-
ar hinar, þótt henni hafi vafalaust
verið snemma ljóst að hverju
stefndi. En hún var ekki þeirrar
gerðar að gefast upp fyrr en í fulla
hnefana.
Þegar Elín Guðjónsdóttir er nú
öll, minnist ég hennar með hlýju
og þakklæti fyrir alla hennar vin-
semd í minn garð og míns fólks,
fyrr og síðar. Við vottum aðstand-
endum hennar samúð okkar og
biðjum sálu hennar blessunar þar
sem öllum er búin vist að lokum.
Sigurður E. Guömundsson.
lífsförunautur, enda mat hann
hana mikils. Ólafur átti oft við
nokkra vanheilsu að stríða. Þá var
það óbrigðul umhyggja og nær-
gætni hennar, sem öðru fremur
gaf honum þrek og bata á ný.
Eins og áður segir var ólafur
skipaður stöðvarstjóri Pósts og
síma á Sauðárkróki árið 1958.
Starf stöðvarstjóra þá var æði
umfangsmikið og erilsamt, og ekki
hefur dregið úr því í áranna rás
með ört vaxandi byggð á Sauð-
árkróki, auk margháttaðra breyt-
inga í starfsemi stofnunarinnar.
Þáttaskil urðu í símamálum, þeg-
ar sjálfvirk símstöð tók til starfa
á Sauðárkróki 1968. ólafur undir-
bjó það mál af mikilli kostgæfni
og lagði sig allan fram um að allt
færi sem best úr hendi. Og þannig
var hann f öllu, er að starfi hans
laut, ötull, nákvæmur og gætinn.
Regla og festa voru kjörorð hans.
Hann stóð vörð um hagsmuni
stofnunarinnar út á við sem inn á
við. Öll fjármál voru í stakri reglu,
svo og eftirlit með eignum stofn-
unarinnar.
En engu að síður lét hann sér
annt um viðskiptamenn hennar og
ætlaðist til, að þjónusta við þá
væri í sem fullkomnustu lagi.
Hann skildi vel, að hagsmunir
beggja fóru oftast saman.
Fyrir tilviljun komst nýlega í
mínar hendur bréf frá Maríusi
Helgasyni á Akureyri, sem var
umdæmisstjóri Pósts og síma í
Norðurlandsumdæmi árin 1966 til
1976. Ég tel mig engan trúnað
brjóta, þótt ég vitni í þetta bréf,
en þar segir Maríus m.a. að hann
hafi „haft mjög mikið og sérlega
ánægjulegt samstarf við stöðvar-
stjóra Pósts og síma á Sauðár-
króki — sem tilheyrir mínu um-
dæmi — herra St. Ólaf Stefáns-
son. Hefur hann reynst mjög
reglusamur, nákvæmur og hug-
myndaríkur í starfi sínu, í einu og
öllu“.
Hér skrifar sá er vel þekkti til,
enda var samstarf Magnúsar og
Ólafs ætíð mikið og gott.
Ólafur var góður og réttlátur
húsbóndi. Hann gerði kröfur til
starfsmanna, lagði áherslu á
stundvísi og áreiðanleika í starfi,
fann að því, sem hann taldi miður
fara, en mat mikils það, sem vel
var gert. Hann var ætíð boðinn og
búinn til að greiða götu sam-
starfsmanna sinna og var aldrei
glaðari en þegar úr vanda leystist.
I samstarfi var hann hreinn og
beinn og sagði það, sem honum bjó
í brjósti. Hann var glöggur og
fljótur að átta sig á mönnum og
málefnum, starfshæfur í besta
lagi, duglegur og allt að því ákafur
að koma frá þeim verkefnum, er
biðu úrlausnar hverju sinni.
Ólafur var skapmaður, örlyndur
og viðkvæmur, en skaphöfn hans
var svo traust, að hann lét ríka
skapsmuni ekki villa um fyrir sér.
Hann var léttur í lund og gaman-
samur, gat stundum verið smá-
stríðinn, en allt var það græsku-
laust og engum til ama.
Leiðir okkar ólafs Stefánssonar
lágu saman árið 1966, er ég hóf
störf í póstafgreiðslunni á Sauð-
árkróki. Mér varð fljótlega ljóst,
hvílíkt happ það var að eignast
hann að húsbónda. Ég get ekki á
þessum vettvangi rakið ítarlega
samvinnu okkar þessi rösklega 17
ár, sem hún varði, enda gerist þess
engin þörf. Milli okkar skapaðist
skjótt trúnaður og vinátta, sem óx
með árunum og varð því traustari,
sem lengra leið. Ég held, að mér sé
óhætt að segja, að við höfum átt
trúnað hvor annars fullkomlega.
Ég gat óhikað rætt persónuleg
vandamál við hann, og ráðhollari
maður gafst ekki. Ef vanda bar að
höndum, var hann allur af vilja
gerður til að leysa hann, og spar-
aði þá hvorki tíma né fyrirhöfn.
Slíkur félagi og vinur er ómetan-
legur. Ég á ólafi og Ölmu og börn-
um þeirra mikið að þakka. Kirkju-
torg 5 hefur í nær tvo áratugi ver-
ið mitt annað heimili. Þaðan á ég
ótal minningar og allar góðar.
Fyrir það skal nú þakkað, og þá
ekki síður góðvild þeirra hjóna í
garð foreldra minna, sem bundu
við þau ævilanga tryggð.
Við Ólafur höfðum þann sið að
ræða saman á morgnana um
helstu verkefni komandi dags. I
byrjun desember sl. var hann
veikur nokkra daga, en morguninn
sem hann kom til starfa á ný
ræddum við ekki verkefni dagsins.
Það var auðséð, að hann gekk ekki
heill til skógar.
Hann fór á fund lækna, sem
ráðlögðu honum að leita til sér-
fræðinga í Reykjavík. Hann kom
aftur heim rétt fyrir jólin. Þá
sagði hann mér frá sjúkdómi sín-
um og jafnframt, að batahorfur
væru taldar allgóðar. En fram-
undan var erfið barátta við skæð-
an sjúkdóm. Ólafur dvaldist að
mestu næstu mánuði í Reykjavík
og leitaði sér lækninga. Um skeið
virtust góðar líkur á nokkrum
bata, en þær vonir brugðust. Síð-
ustu vikur var hann heima í umsjá
konu sinnar, sem annaðist hann af
stakri umhyggju og ástúð. Má
segja, að hún hafi aldrei frá hon-
um vikið nokkra stund í öllu hans
sjúkdómsstríði. Veikindi sín bar
Ólafur af mikilli karlmennsku.
Ekki heyrðist hann kvarta, og
þegar ég spurði um líðan hans,
svaraði hann jafnan: „Hún er fín,
vinur." Hann hélt andlegum kröft-
um óskertum til nær hinstu stund-
ar. Síðast áttum við tal saman
laugardagskvöldið 13. ágúst, en
daginn eftir varð breyting á,
heilsu hans hrakaði skyndilega.
Næsta dag var hann fluttur á
Sjúkrahús Skagfirðinga, og þar
lést hann tæpum sólarhring síðar,
að morgni þriðjudags 16. ágúst,
sem fyrr greinir.
Þar með var horfinn á braut sá
velgjörðarmaður minn, mér
óskyldur, sem ég stóð í mestri
þakkarskuld við. Þegar ég kom frá
dánarbeði þessa vinar míns klukk-
an rúmlega fimm að morgni, var
sólin risin yfir austurfjöllin og
stráði geislum sínum á lognkyrran
fjörðinn. Báran lék við Borgar-
sand, kyrrð og ró ríkti yfir öllu.
Mér komu í hug ljóðlínur Hannes-
ar Péturssonar:
... „í mildu logni og heima:
sandfjaran svört og þvegin
af svalandi næturblæ,
Daginn áður hafði verið norðan
þræsingur og brimað við Borgar-
sand. Nú var veðrið gengið niður,
og Skagafjörður skartaði sínu feg-
ursta í dýrð morgunsins.
í brjósti mér ríkti sár söknuður,
en jafnframt þakklæti fyrir öll ár-
in, sem við Ólafur höfðum starfað
saman, — vináttu hans og óbrigð-
ula tryggð við mig og fjölskyldu
mína. Baráttu hans var lokið —
veðrinu slotað. Nú sveif hann
brott á vængjum morgunroðans.
Blessuð sé minning ólafs Stef-
ánssonar.
Kári Jónsson
+
Hjartans þakkir til allra er vottuöu okkur samúö og heiöruöu
minningu móöur og fósturmóöur okkar,
ÞÓRUNNAR ELÍSABETAR SVEINSDÓTTUR,
leikkonu.
Þórdís Baldvinsdóttir,
Ingvi Br. Jakobsson,
Hólmfríður Jakobsdóttir,
Sveinn H. Jakobsson.
t
Hjartans þakkir sendum viö öllum þeim sem sýndu okkur samúö
og hlýhug við andlát og útför tengdasonar, fööur, tengdafööur, afa
og langafa,
INGÓLFS ÞÓRÐARSSONAR,
skipstjóra,
Selvogsgrunni 26.
Jón Kerúlf Guömundsson,
Grétar K. Ingólfsson, Geröur Bjarnadóttir,
Hrefna Ingólfsdóttir, Finnur Jóhannsson,
Pétur Hafsteinn Ingólfsson, Jóna María Kjerúlf,
barnabörn og barnabarnabarn.