Morgunblaðið - 07.02.1989, Blaðsíða 16
16
MORGUNBLAÐIÐ ÞRIÐJUDAGUR 7. FEBRÚAR 1989
Kristján Alberts-
son — Minning
Kristján Albertsson lézt 31. jan-
úar sl., 91 árs gamall. Eins og
vænta mátti var aldurinn farinn að
gera honum ýmsan óleik; hann
hafði misst sjónina fyrir nokkrum
árum. Hinsvegar vóru andlegir
kraftar hans óbilaðir. Minnið, sem
var held ég öruggasta minni sem
ég hefi kynnzt hjá nokkrum manni,
virtist óskert.
Honum hafði sjaldan orðið mis-
dægurt um ævina og lífsfjör hans
var furðu mikið til hins síðasta.
Eins og alla tíð fylgdist hann af
brennandi áhuga með því sem var
að gerast í bókmenntum, í stjóm-
málum, í svokölluðu menningarlífi
yfirleitt. Ýmsir litu inn til hans til
að fræðast af honum og fræddu
hann í leiðinni um viðburði dagsins.
Stundum greip hann inn í dægur-
málin með blaðagreinum sem hann
las fyrir. Hann hlustaði mikið á
upplestur af spólum og á útvarp.
Þegar það þraut, „þá segi ég mér
sjálfur sögur," sagði hann, „og hefi
alveg eins gaman af því“.
Allt til hins síðasta gat hann
fagnað og 'nneykslazt, reiðst og
glaðzt af fulium sannfæringarkrafti
útaf atburðum og umræðum líðandi
stundar.
í eðli sínu var nafni minn mildur
■naður en ör og skapheitur og fljót-
ur að taka afstöðu. Það var aldrei
hætta á að lognmolla settist að
honum. Hann var frábærlega
mælskur og málfar hans ljóst og
beinskeytt. Hann iðkaði ekki háð
eða tvíræðni í tali heldur bein rök.
Hann veik sér ekki undan brýnum
og lét ekki hlut sinn. En hann var
sáttfús jafnvel við þá andmælend-
ur, sem ekki vóru jafnvandir að
málflutningi eða siðaðir í máli og
hann. Auk þess var alltaf stutt í
gamansemi hans, þó að dálítið tæki
í hnúkana. En hann var fastur fyrir
í skoðunum og breytti þeim ekki
auðveldlega.
í frásagnarlist stóðu fæstir hon-
um á sporði. Hann hafði á langri
ævi haft kynni af fjölda manns,
ekki sízt listamönnum, rithöfund-
um, blaðamönnum, stjómmála-
mönnum og diplómötum bæði hér
og erlendis. Hann beitti ekki eftir-
hermum en með örlitlum blæbrigð-
um raddarinnar laðaði hann fram
einkenni manna svo að ekki varð
um villzt. Mannlýsingar hans vóru
útúrdúralausar eins og framsetning
hans yfírleitt, og dramatískar.
Hann var mikill leiksviðsmaður.
Ahugi hans á bókmenntum var
auðvitað margvíslegur. Hann hafði
yndi af ljóðagerð, en sagnagerð var
honum ef til vill enn hugstæðari,
einkum hinir mikiu höfundar raun-
sæisstefnunnar og impressjónism-
ans. En ég held að leikhúsið hafi
átt meiri ítök í tilfinningum hans
en nokkur önnur grein bókmennt-
anna. Hver var uppáhaldshöfundur
hans í leikhúsi? Líklega Ibsen.
Hann hafði séð ógrynni af leik-
sýningum um ævina, í Kaupmanna-
höfn, í París, í Berlín. Og aftur síðar
í París og New York. Og í Reykjavík
bæði fyrr og síðar. Sjálfur samdi
hann leikrit og skrifaði stundum
leikdóma. Hann var leikstjóri Leik-
félags Reykjavíkur 1924—25, og
formaður þess 1925—26.
Fátt var skemmtilegra en heyra
hann lýsa eða réttara sagt endurlifa
leiksýningar sem hann hafði séð
fyrr á árum ýmist hér eða erlendis.
Hann kunni utanbókar löng orða-
skipti bæði úr frægum leikritum og
öðrum löngu gleymdum. Allt hjálp-
aðist að, frábært minni hans, innlif-
un og leikhæfileikar. Mér fannst
þá eins og þessi maður með óþrot-
legan áhuga sinn á lífinu hefði lifað
margar sinar beztu stundir í leik-
húsi og fann að það var engin
mótsögn.
Kristján Albertsson var alltaf
áhugamaður um stjómmál. Hann
var jafnframt ákaflega vel að sér í
tjómmálasögu okkar tíma, inn-
lendri og erlendri. Á yngri árum
hafði hann átt kost á þingsæti,
m.a. á Akureyri, en hafnað því. Þó
að hann væri áhlaupamaður í
stjómmálaumræðu, áttu þrotlausar
eijur stjómmálanna ekki vel við
hann til frambúðar. Hann tók að
vísu beinan þátt í íslenzkum stjóm-
málum meðan hann var ritstjóri
Varðar á ámnum 1925—27. Hann
gerði Vörð menningarlegt blað og
að því er virðist nokkuð áhrifamik-
ið. Raunar hafði Vörður verið stofn-
aður beiniínis handa honum, af
Magnúsi Guðmundssyni og ein-
hveijum fleiri forastumönnum
íhaldsflokksins. Þannig virðist ljóst
að honum stóðu opnar dyr til
pólitísks frama á yngri áram.
Seinna, á sjötta áratug aldarinnar,
var hann fulltrúi landsins á vett-
vangi alþjóðlegra stjómmála hjá
Sameinuðu þjóðunum. Meðal ann-
ars af reynslu sinni þar gekk hann
fram fyrir skjöldu í blaðagreinum
til að vara okkur landa sína við
pólitík kommúnismans en blandaði
sér að öðra leyti ekki i stjómmál,
þegar hér var komið. Hann var
auðvitað sjálfstæðismaður en sagð-
ist stundum vera „gamaldags líber-
al“ sem kannske var ekki fjarri lagi.
En hversvegna sló hann hendi
við pólitískum ferli? Ég ætla mér
ekki þá dul að gefa neitt fullnægj-
andi svar við þeirri spumingu hér
í stuttu máli. Til þess þyrfti ég
meðal annars að skilgreina í fáum
orðum, hvað sé stjómmálamaður
annarsvegar og hvað á hinn bóginn
listamaður og til þess hefi ég litla
löngun. Kristján Albertsson var
enginn óhagsýnn draumóramaður,
fremur en flestir listamenn sem ég
hefi þekkt. En ég ætla að leyfa
mér að staðhæfa að viss hreinleiki
hugans og rómantísk fegurðar-
hyggja hafi ráðið miklu um það að
Kristján Albertsson tók bókmenntir
fram yfir stjómmál. Mér kemur
ekki til hugar að dæma um það
hvort val hans var sprottið af „rétt-
um“ skilningi á þessum greinum.
En hann valdi á milli.
í þessum kveðjuorðum er ekki
staður til að gera ritverkum hans
néin skil. Hann skrifaði leikrit,
skáldsögur, smásögur og fjölda rit-
gerða. Eftir að hann var orðinn
blindur samdi hann endurminning-
ar, með aðstoð Jakobs F. Ásgeirs-
sonar rithöfundar. En af verkum
hans ber vafalaust hæst hina miklu
ævisögu Hannesar Hafstein. Þessi
verk verða með okkur áfram, þó
að allt sé í heiminum hverfult.
En hin listin sem hann iðkaði,
samtalslistin, er hverfulust allra
lista og svo einræn að hún er bezt
og sönnust sem tveggja manna tal.
En þessvegna ber hún líka í sér þá
umbun að geta ekki að eilífu úrelzt.
Þegar Kristján Albertsson hvarf
af landi burt 1935, til að gerast
lektor við háskólann í Berlín, héldu
nokkrir vinir hans honum samsæti
í Oddfellow. Þar komst Sigurður
Nordal svo að orði f ræðu fyrir
minni hans: „Ég veit ekki um marga
menn sem kunna jafnvel og hann
að láta sér og öðram líða vel.“
Um leið og ég kveð Krisiján Al-
bertsson með þakklátu hjarta fyrir
löng samtöl okkar og fyrir óijúf-
andi vináttu og drengskap vildi ég
gera þessi gömlu ummæli Nordals
að mínum.
Kristján Karlsson
Kristján Albertsson var einn í
hópi þeirra andans- og mennta-
manna, sem fæddust skömmu fyrir
eða kringum síðustu aldamót og
komu fram á sjónvarsviðið á öðram
og þriðja áratug aldarinnar. Þessir
menn lögðu allir fram sinn skerf
til þroska og andlegrar eflingar
þjóðarinnar, sem sótti öraggum
skrefum fram til sjálfstæðis og
þurfti á slíkum mönnum að halda.
Þetta var síður en svo einsleitur
hópur, hvorki um skoðanir, vinr.u-
brögð né viðfangsefni. En eitt áttu
þessir andans menn sameiginlegt -
sterka þjóðemiskennd og trú á land
sitt og þjóð — og vora þeir því oft
býsna samtaka margir hveijir.
Áhrif þessara manna era ómæld.
Hyggjum einungis að því, sem
gleggst blasir við — bókmennta-
verkunum, sem litu hér dagsins ljós
milli 1925 og 1945 og beram þá
sköpun saman við hvaða tvo ára-
tugi sem er aðra í íslandssögunni.
Ætli við verðum ekki að leita aftur
á 13. öldina til að finna eitthvað
sambærilegt.
Þessir andans menn aldamót-
anna era nú flestir horfnir. Við
fylgjum eihum af þeim síðustu,
Kristjáni Albertssyni, til grafar í
dag.
Sennilega má segja, að Kristján
Albertsson hafi verið einna alþjóð-
legast sinnaður af þessum mönnum
og sá þeirra, sem vann einna ötul-
legast að því að opna gluggana að
umheiminum, kynna þjóðinni, hvar
feitast var á stykkinu í erlendum
bókmenntum. í því skyni gaf hann
t.d. út ásamt Jóni frá Kaldaðamesi
Sögur frá ýmsum löndum I-III,
1932—34, og ritaði Qölda greina.
Hann var síleitandi að því, sem var
nýtt og ferskt og manna fundvís-
astur á slíkt. Þess vegna varð hann
fyrri til en aðrir að koma auga á
mikilleik Halldórs Laxness sem rit-
höfundar, finna nýjabrarnið í ljóðum
Jóhanns Jónssonar, svo að eitthvað
sé nefnt.
Kristján Albertsson stóð eigi að
síður afar föstum fótum í íslenskri
menningu og bókmenntaarfleifð —
hann kunni sumar íslendingasög-
umar utan bókar, að mér fannst —
en í skrifum sínum fjallaði hann
oftast um samtíðina, einkenni henn-
ar og vandamál. Áhugamál hans á
samtímanum breyttist ekkert, þó
að hann yrði gamall og blindur.
Hann reyndi að fylgjast vel með
og tókst það, svo var Ríkisútvarpinu
og Hljóðbókasafni Blindrafélagsins
fyrir að þakka. Um vandamál
liðandi stundar var hann að hugsa
fram á síðasta dag. Þegar ég hitti
hann síðast málhressan fyrir um
þremur vikum, ræddum við um
stjómmálaviðhorfið, og hafði hann
áhyggjur af þvi.
„Ekkert mannlegt er mér óvið-
komandi" er haft eftir hinum
aþenska Menander. Þessi grund-
vallarsetning vestræns húmanisma
átti sannarlega vel við Kristján Al-
bertsson. Þótt hann væri umfram
allt bókmenntamaður, lét hann sig
skipta allt, sem snerti á einhvem
hátt velferð mannsins og mannlega
reisn á jörðu hér. Hann íhugaði
málin vandlega, myndaði sér
ákveðnar skoðanir og ritaði svo um
þau með skaphita, eins og Zola vildi
að rithöfundar gerðu. Þess vegna
stóð hann oft í ritdeilum og það við
ágæta vini sfna, eins og Þórberg
Þórðarson og Halldór Laxness.
Hann hvorki vildi né gat þagað við
því, sem var að hans dómi rangt,
og gilti þá einu, hver í hlut átti.
En hann taldi fráleitt, að deilur um
málefni, þótt harðar væra, þyrftu
að hafa áhrif á persónuleg kynni.
Það var víst oft litið öðravísi á það
frá hinni hliðinni, en þeir sem stór-
ir vora, eins og Kristján Albertsson
sjálfur, komu hér að fullu til móts
við hann. Ég var viðstaddur, þegar
þeir hittust í síðasta sinn Kristján
Albertsson og Halldór Laxness og
mun hafa lýst því lítið eitt í af-
mælisgrein um Kristján níræðan,
sem birtist í Morgunblaðinu 9. júlí
1987. Það er mér vissulega ógleym-
anleg stund, en mijcils þótti mér
um það vert að mér fannst ég
skynja að aldrei hefði borið skugga
á vináttu þessara tveggja samferða-
manna þrátt fyrir ólíkar skoðanir
og hatrammar ritdeilur um skeið —
tveir rosknir séntilmenn og áhuga-
menn um framtíð Iands og heims,
sem sannarlega gerðu greinarmun
á mönnum og málefnum.
Kristján Albertsson var kominn
af merkum bændaættum á Vestur-
landi. Móðir hans var Steinunn
Sigríður dóttir Kristjáns Sigurðs-
sonar bónda og sjósóknara í Hraun-
höfn á Snæfellsnesi og konu hans
Steinunnar Jónsdóttur, hreppstjóra
í Bergsholti. Kona Jóns í Bergs-
holti og móðir Steinunnar var Þor-
björg Guðmundsdóttir, prests og
fræðimanns á Staðastað, þess er
samdi Safn af íslenzkum orðskvið-
um, Khöfn 1830. Séra Guðmundur
ritaði einnig í Ármann á Alþingi,
enda var sonur hans annar útgef-
enda ritsins. Það var Þorgeir Guð-
mundsson „í lundinum góða“, sá
sem Jónas Hallgrímsson orti um
Nú er vetur úr bæ.
Systir Steinunnar móður Krist-
jáns Albertssonar var Margrét Þor-
björg kona Thors Jensens, og vora
þeir því systrasynir Thorsbræður
og Kristján. Albert faðir Kristjáns
var síðast skrifstofustjóri við Lands-
banka íslands og lést 1911. Hann
var sonur Þórðar Sigurðssonar
bónda á Fiskilæk í Borgarfirði.
Þórður hafði lært trésmíði í Kaup-
mannahöfn og gerðist þá mikill
aðdáandi _ Alberts Thorvaldsens,
eins og íslendingar nefndu hann
jafnan, og skírði einn af sonum
sínum eftir listamanninum. Af öðr-
um bömum Þórðar á Fiskilæk varð
kunnastur Matthías Þórðarson
þjóðminjavörður.
Móðir Alberts og amma Kristjáns
Albertssonar var Sigríður Runólfs-
dóttir frá Saurbæ á Kjalamesi, sem
þekkt var fyrir sínar læknishendur.
Hún var systir Guðrúnar Runólfs-
dóttur, þriðju konu Matthíasar
Jochumssonar skálds og móðir allra
bama hans. Var Matthías Þórðar-
son látinn heita í höfuðið á þjóð-
skáldinu. Af bræðrum Alberts föður
Kristjáns varð kunnastur Ágúst
Flygenring útgerðarmaður í Hafn-
arfirði.
Kristján Albertsson var séntil-
maður bæði í sjón og reynd, dvald-
ist langdvölum erlendis, en hugsaði
sífellt heim. Hann kynntist stór-
mennum og þá ekki síst úr stétt
skálda og rithöfunda, enda var það
honum auðvelt, sagði hann mér,
slíkir menn tóku honum vel, þegar
þeir vissu að hann var bókmennta-
maður úr landi fslendingasagna.
Kristján var mjög vel máli farinn —
eins og raunar margir af hans kyn-
slóð vora, og þurfti ekki mennta-
menn til — og hann hafði frá mörgu
að segja og sagði þannig frá að
unun var á að hlýða.
Við kveðjum hann með söknuði
og virðingu.
Eiríkur Hreinn Finnbogason
Með Kristjáni Albertssyni er geng-
inn einstakur maður sem sameinaði
nútíð og fortíð með sérstökum
hætti. Enginn sem því kynntist
getur gleymt Kristjáni, þegar hann
var í essinu sínu og sagði leiftrandi
frá; reis snöggt á fætur og krydd-
aði frásögnina með látbragði. Eg á
minningar frá Kristjáni síðan ég
var barn að aldri. Var það fastur
liður í sumarkomunni, að Kristján
kæmi heim frá útlöndum, sækti
foreldra mína heim og sæti löngum
stundum og reifaði landsins gagn
og nauðsynjar eða segði frá því
fólki, innlendu og erlendu, sem
hann hafði kynnst. Sat hann gjarn-
an fram undir morgun, því að af
nógu var að taka. Þekkingin ótæm-
andi og ánægjan af samræðunni
jafnmikil hjá öllum viðstöddum,
jafnt hinum yngri sem eldri. Krist-
ján var ekki heldur í kapphlaupi við
klukkuna og þurfti ekki að ijúka á
fætur fyrir allar aldir heldur gat
farið með tímann eins og hann sjálf-
ur kaus, virt fyrir sér mannlífið,
sest við ritstörf eða lestur. Sagði
hann mér, að í New York, þar sem
hann var oft og lengi vegna setu á
þingi Sameinuðu þjóðanna, hefði
hann haft það fyrir sið að fá sér
kaffi á pela og fara síðan með
vindla og bók eða blað út í Central
Park, setjast á bekk og njóta þess
að fylgjast með mannlífínu á
síðdegisstundum um helgar. Þannig
hefur hann vafalaust einnig eytt
mörgum stundum í París, við að
skoða mannlífið og njóta þess ein-
faldlega að vera til.
Kristján Albertsson fór ekki í
launkofa með skoðanir sínar á
mönnum og málefnum. Eins og rit-
gerðasöfn hans bera með sér fórst
honum það ákaflega vel úr hendi
að skrifa greinar og ádrepur vegna
þeirra mála, sem hæst bar hveiju
sinni og honum vora hugleikin.
Hann var eindreginn talsmaður
þess að sjálfstæði og öryggi þjóðar-
innar væri tryggt með aðild að
Atlantshafsbandalaginu og vamar-
samstarfi við Bandaríkin. Flutti
hann það mál af mikilli festu og
fram á síðustu stundu, eins og sést
af lokaritsmíðinni sem frá honum
kom og birtist sem formáli að rit-
gerðasafninu Menn og málavextir,
er út kom nú fyrir jólin. í bókinni
er að fínna mörg dæmi um ritleikni
Kristjáns og festu hans í málflutn-
ingi, hér birtist eitt úr Morgunblaðs-
grein frá 1956:
„Við höfum allir einn eða fleiri
heimskubletti í heilanum, líka gáf-
uðustu menn. Sumir þeirra geta til
dæmis ekki lært stærðfræði, aðrir
era svo ólagvísir, að þeir geta ekki
lært einfoldustu lög — en miklu
ógreindari menn læra auðveldlega
hvaða lag sem er. Allir kommúnist-
ar, sem eg hef þekkt, hafa það
sameiginlegt, að þeir hafa mjög lítið
vit á stjómmálum og þjóðfélagsmál-
um. Heimskubletturinn f heila
þeirra er nákvæmlega þar sem
stjómmálavitið ætti að réttu lagi
að sitja. Þess vegna era þeir komm-
únistar. Skilja ekki nauðsyn at-
hafna- og hugsanafrelsis — og ekki
glópsku sína og takmarkalausa
bíræfni gagnvart fslenskri þjóð þeg-
ar þeir era að sitja flokksþing í
Moskvu, eða sækja „lfnu“ til
' slungnustu og kaldrifjuðustu
stjómmálarefa hins alþjóðlega
kommúnisma."
Síðustu árin þegar hann dvaldist
blindur að Droplaugarstöðum, þar