Morgunblaðið - 23.06.1990, Blaðsíða 14

Morgunblaðið - 23.06.1990, Blaðsíða 14
14 MORGUNBLAÐIÐ LAUGARDAGUR 23. JÚNÍ 1990 André Masson: Hugleiðing um eikarlauf. 1942. André Masson: Sý- billa. Olía á striga 1944. „Hræðileg fegurð“ Hugleiðingar um myndlist André Massons Þegar súrrealísk myndlist er til umræðu, verður flestum sjálf- sagt fyrst hugsað til Dalis eða Mirós, og þeir sem eru sæmilega upplýstir geta eflaust bætt við nöfnum þeirra Ernst, Arps og Tanguys. André Masson: Antille. (Eyjagyðjan.) Olía og sandur á striga. 1943. Sennilega verða menn að vera sérstaklega áhugasamir um súr- realisma til að láta sér detta André Masson í hug. Þó var Masson um margt gagnmerkur þátttakandi í hreyf- ingu súrrealista. Hann vann stað- fastlegar en flestir aðrir úr helstu listrænu forsendum hreyfíngar- innar, til að mynda goðsögnum og sálarfræði Freuds, varð einna fyrstur súrrealista til að virkja ósjálfráða skrift til skilvirkrar listsköpunar, auk þess sem hann þróaði þau vinnubrögð í átt til átakamálverks, action painting, með því að teikna á léreft með sjálfum litatúpunum. Sú tækni hafði mikið að segja fyrir atorkumenn á borð við Pollock og de Kooning, þegar þeir innleiddu átakamálverk í Bandaríkjunum, en þar var Mas- son í útlegð meðan á síðari heims- styrjöld stóð. Árið 1953 var hinn áhrifamikli bandaríski gagnrýnandi Clement Greenberg ekki í neinum vafa um þýðingu Massons: „Þótt enn njóti hann sín ekki til fulls, sem út af fyrir sig er hryggileg staðreynd, er hann samt sem áður andríkast- ur listmálara af þeirri kynslóð sem fylgdi í kjölfar Píkassós, og þá undanskil ég ekki Miró. Eng- inn lagði traustari grunn að af- straktmálverki nútímans heldur en einmitt Masson, og fyrir það hefur hann tæplega fengið til- hlýðilegar þakkir.“ Missti af lestinni Greenberg drepur raunar á skýringu þess hvers vegna Mas- son öðlaðist ekki viðlíka vinsældir og aðrir starfsbræður hans meðal súrrealista. Masson „naut sín ekki til fulls“, það er að segja, hann hélt ekki sama dampi og þeir. Því verður nefnilega ekki á móti mælt að á ferli Massons skiptast á skeið róttækra uppgöt- vana og önnur skeið þegar áræð- ið og hugarfarið brugðust lista- manninum. Eftir djarfar tilraunir með ósjálfráða skrift og sjálfsprottin sandmálverk á árunum 1925-30, sneri Masson sér aftur að skreyti- kenndu málverki með kúbiskum formerkjum. í útlegðinni í Banda- ríkjunum gerði Masson fjölda stórbrotinna málverka í lífrænum „all-over“ stíl, en að því loknu hóf hann að gera átakalítil verk í impressjónískum anda, mörgum helstu aðdáendum hans (þar á meðal André Breton, páfa súr- realista ) til sárra vonbrjgða. Það var svo ekki fyrr en löngu seinna að Masson tók aftur upp þráðinn frá styijaldarárunum, að öllum líkindum fyrir áhrif frá Pollock, helsta lærisveini sínum í Bandaríkjunum. En þá var hann búin að missa lestinni í listsögu- legum skilningi. Listfræðingurinn William S. Rubin, sem manna mest hefur skrifað um súrrealísku málarana, telur að það hafí háð Masson hvað mest hve „glámskyggn hann var bæði á takmarkanir miðils síns og það sem lét honum best sem listamanni". Bölsýni og angist Eins og ýjað er að hér á und- an, er almennt talið að listræn blómaskeið Massons hafi verið tvö, súrrealíska tímabilið, 1925-28, og Ameríkutímabilið, 1941-45. Ekki er fráleitt að halda því fram að súrrealisminn hafí beinlínis bjargað geðheilsu hans, eins og raunar má einnig segja um Miró. Fram að heimsstyijöld- inni fyrri stundaði Masson nám í freskutækni við École des Be- aux-Arts í París og virtist eiga framtíðina fyrir sér á því sviði. Sem skotgrafahermaður í stríðinu upplifði hann hins vegar hörmungar sem gengu svo nærri honum að lá við að hann missti vitið. í mörg ár sóttu á Masson ofsjónir og martraðir sem tengd- ust stríðinu — honum er tíðrætt um „hræðilega fegurð" þeirra — og við upphaf þriðja áratugarins, þegar hann loks ákvað að taká aftur upp þráðinn í listinni, leit- aði hann sér ljölfestu í formfestu André Derain, sem þá var farinn að samræma kúbisma og ný- klassísk vinnubrögð. Með því að sökkva sér niður í myndlist af þessu tagi er eins og Masson takist að bægja frá sér bölsýni og angist, að minnsta kosti um stundarsakir. Gerði hann þá mörg frambærileg verk í síðkúbískum stíl. En þegar kom fram á árið 1924, var Masson farinn að líða miklar sálarkvalir sem hann reyndi að lina með linnulítilli áfengisneyslu og hass- reykingum. Um svipað leyti lenti hann i slagtogi með öðrum utangarðs- mönnum sem ekki gátu sætt sig við borgaralega sjálfumgleði Þriðja lýðveldisins í Frakklandi, og þá helst stjórnleysingjunum A.ntonín Artaud, Robert Desnos og Michel Leiris. Artaud, Desnos og Leiris voru síðan í sambandi við þá ungu uppreisnarmenn sem stóðu að tímaritinu „Littérature“, þar á meðal André Breton, og við aukið samstarf stjónrleysingjanna og þessara eldhuga varð til súr- realíska hreyfingin á vordögum 1924. Útrás tilfinninga Súrrealisminn leysti úr læðingi allar þær kenndir sém Masson hafði byrgt innra með sér um áraraðir, kenndir sem voru á góðri leið með að gera út af við hann. Hann fékk fyrst verulega útrás í ósjálfráðum teikningum sínum, en þær urðu eins og barómeter á öll blæbrigði tilfínninga hans um þetta leyti, slitróttar, skarphyrnd- ar og síkvikar. í þeim bregður fyrir minnisbútum úr stríðinu, þegar Masson óð líkamsleifar upp í ökkla í skotgröfunum, ásamt erótísku hugarhvarfli sem oft hefur á sér yfirbragð sadisma. Það leið hins vegar á löngu uns Masson tókst að virkja olíulit og striga með svipuðum hætti og penna og pappír — gera málverk- ið þannig að sálarspegli í sama mæli og teikningarnar. Þar kom til sjálft eðli málverksins, pent- skúfur er þyngri í vöfum en penni og þarfnast stöðugrar endurnýj- unar litarins, en auk þess gekk Masson illa að hrista af sér mynd- byggingu kúbismans. Það var ekki fyrr en 1927 að Masson hugkvæmdist að sletta lími vítt og breitt á striga' og strá sandi yfir, leggja síðan fijálslega út af því mynstri sem myndast með penna eða svartkrít. Þannig lánaðist hounum að skapa mál- verk sem voru eins móttækileg fyrir hugarhvarfli og tilviljunar- kenndum uppákomum og teikn- ingarnar. Þetta voru engan veg- inn óhlutbundin verk — Masson gerði engin slík um dagana — heldur hrönnuðust línur og litir jafnan upp og mynduðu hálf mennskar verur og alls kyns kykvendi, venjulega í blóðugum darraðardansi, sem er óefað endurómur af stríðsupplifunum listamannsins. Stundum vann Masson þessi verk eins og í leiðslu, og þegar hann var litar þurfi, sprautaði hann honum beint úr túpunni ofan á sandmályerk sín. Til að komast „nær“ málverki sínu, jafnvel „inn“ í það, lagði Masson ennfremur strigann á gólfið og athafnaði sig allt í kringum hann. Líklegt er talið að Pollock hafi tekið þau vinnubrögð upp eftir honum. Masson flúði til Bandaríkjanna í byijun síðari heimsstyijaldar, ásamt öðrum frönskum og þýsk- um listamönnum. Kom hann til New York árið 1942, eftir stuttan en þýðingarmikinn stans á eyj- unni Martinique. Þá hafði hann um nokkurt skeið verið fastur í fremur þurrlegri, sundurlausri og frásagnarkenndri málaralist, sem þar að auki var uppfull með alls kyns sadistískar ýkjur. Fyrir vikið hafði sól Massons farið lækkandi í franska listaheiminum, þó svo listhöndlarinn frægi, Kahnweiler, héldi áfram tryggð við hann. Áhrif náttúrunnar í Bandaríkjunum settist Mas- son að uppi í sveit í Connecticut- fylki, en þar er náttúrufegurð mikil. Hvort sem þakka má það náttúrunni eða þeirri fijálslegu málaralist sem nokkrir Banda- ríkjamenn voru farnir að stunda, þá er það staðreynd að í Connec- ticut verða miklar og heillavæn- legar breytingar á málarlist Mas- sons. Myndrænar frásagnir víkja fyrir fijóum ummyndunum nátt- úrulegra forma, þrívídd víkur fyr- ir tvívídd og sundurgerð fyrir markvissri uppbyggingu. í þeim myndræna vef sem Masson spinn- ur leggjast á eitt síkvik, leitandi hönd, fijótt hugarflug og tjáning- arríkt myndmál. Meðal helstu málverka Mas- sons frá þessu tímabili eru „Hug- leiðing um eikarlauf", 1942 (Museum of Modern Art, New York), en það er spunaverk, sam- sett úr aðföngum úr lífríkinu og margræðum goðsagnalegum minnum, og „Antille", 1943 (einkasafn USA), þar sem renna saman tröllslegur líkami negra- konu, sem Masson hafði séð. í Martinique, og glóheit afstrakt form, þakin áferðarfallegum sandi, í villtri hrynjandi. Díón- ýsískt algleymi hefur sjáldan ver- ið betur túlkað en í þessari mynd. Upp á sitt besta var Ándré Masson magnþrunginn listmálari. Því ber að fagna sýningu á verk- um hans í Listasafni íslands á Listahátíð. Texti: Aðalsteinn Ingólfsson

x

Morgunblaðið

Beinir tenglar

Ef þú vilt tengja á þennan titil, vinsamlegast notaðu þessa tengla:

Tengja á þennan titil: Morgunblaðið
https://timarit.is/publication/58

Tengja á þetta tölublað:

Tengja á þessa síðu:

Tengja á þessa grein:

Vinsamlegast ekki tengja beint á myndir eða PDF skjöl á Tímarit.is þar sem slíkar slóðir geta breyst án fyrirvara. Notið slóðirnar hér fyrir ofan til að tengja á vefinn.