Tölvumál - 01.02.1995, Blaðsíða 9

Tölvumál - 01.02.1995, Blaðsíða 9
Febrúar 1995 Hér á eftir fer hluti áramótaávarps forseta íslands, frú Vigdísar Finnbogadóttur. Það er birt hér vegna þess að í því er fjallað um málefni sem tengjast öðru efni þessa blaðs og er athyglisvert að sjá að fleirum en félögum í Skýrslutæknifélaginu er þetta efni hugleikið. / "N Af mannauði vex allur annar auður Aldrei fyrr hefur tæknin sýnt okkur jafnmarga möguleika og um þessar mundir. Stundum ertalað um þekkingarsprengingu sem orðið hafi á liðnum áratugum. Nú blasir við okkur ný sprenging í þekkingar- miðluninni. Á örskotsstundu komumst við í samband við upplýsingabanka um allan heim, getum leitað okkur fróðleiks frá fyrstu hendi, hvort sem við erum skólafólk á Kópaskeri eða í Króksfjarðarnesi eða starfsmenn í Reykjavík eða á Raufarhöfn. Allur heimurinn liggur fyrir fótum okkar. í þessum efnum þarf hvorki að há okkur einangrun né fámenni. Það er ekki spurt um fjöldann sem myndar þjóð, heldur hverjir eru kostir þessarar þjóðar, hvar er hún stödd á þekkingarvegi, hvað kann hún, hvað getur hún gert? Tæknin sem er að halda innreið sína er svo ævintýraleg að henni verður naumast lýst í orðum. Kannski segir það eitthvað ef ég nefni að geisladiskur fyrir tölvu, jafnstór hinum sem flytur okkur tónlist, getur geymt allt að 200.000 blaðsíður af texta, ef ekki er sett á hann annað efni. Það myndi líklega jafngilda því að ævistarf Halldórs Laxness kæmist tíu sinnum á einn disk. í útlöndum er þegar búið að gefa út mikið námsefni og fróðleiksefni á slíkum geisladiskum, og er þar blandað saman texta, hljóði, kyrrum og lifandi myndum, ásamt línuritum og skýringarefni. Enn sem komið er eigum við engan íslenskan upplýsingadisk. Þar er verk að vinna, því varla unum við því að ungir íslendingar þurfi að leita sér allra nýjustu upplýsinganna á erlendum málum þegar fram líða stundir. Erlendir forystumenn á ýmsum sviðum hafa á undanförnum mánuðum fullyrt að það sem ráða muni úrslitum varðandi velgengni einstakra þjóða í harðnandi samkeppni á komandi árum verði menntun þeirra og þekking. Mitterand, forseti Frakklands, skoraði nú á haustdögum á alla stjórnmálaflokka landsins að setja menntamál í öndvegi þegar stefnan yrði mörkuð fyrir næstu kosningar. Hliðstæða áskorun ber ég nú fram gagnvart íslenskum stjórnmálamönnum og bið þá að bera menntunina sérstaklega fyrir brjósti, svo kunnátta okkar um haf og land, um vernd og nýtingu sjávar, um uppgræðslu lands og ræktun bústofna, og margbrotið völundar- hús tækninnar, megi verða kunn um allan heim svo til verði vitað. En vitanlega gildir enn sem fyrr að lítð stoðaði okkur að eignast allan heiminn ef við látum undir höfuð leggjast að rækta með okkur vinarþel, sjálfsaga og virðingu. Ég hef nefnt það áður á þessum vettvangi og nefni það enn, að án sjálfsaga verða okkur flestar leiðir torfærar. Og sjálfsagi rís upp af heiðarleika, heiðarleiki rís á virðingu fyrir sjálfum sér og öðrum mönnum, - öllu sínu umhverfi, í einu orði sagt: á siðgæði. Það er sannfæring mín að með aga, menntun og þekkingu, sem eftir yrði tekið víða á byggðu bóli, verði okkur allar leiðir færar, við innri styrk íslensk þjóðfélags, því mannauðinn erum við svo lánsöm að eiga. Tölvumál - 9

x

Tölvumál

Beinir tenglar

Ef þú vilt tengja á þennan titil, vinsamlegast notaðu þessa tengla:

Tengja á þennan titil: Tölvumál
https://timarit.is/publication/239

Tengja á þetta tölublað:

Tengja á þessa síðu:

Tengja á þessa grein:

Vinsamlegast ekki tengja beint á myndir eða PDF skjöl á Tímarit.is þar sem slíkar slóðir geta breyst án fyrirvara. Notið slóðirnar hér fyrir ofan til að tengja á vefinn.