Dagblaðið Vísir - DV - 30.04.1987, Blaðsíða 7
FIMMTUDAGUR 30. APRÍL 1987.
57
Eg er ekki
metnaðargj örn
fyrir sjálfa mig
— segir Málmfríðnr Signrðardóttir, ný þingkona Kvennalistans
Stríðsárin
„Nei, ég hef aldrei verið flokks-
bundin og var ekki, þannig séð,
þátttakandi i stjórnmálum áður.“
Spennandi
kosninganótt
- Nú er að baki ein eftirminnilegasta
kosninganótt í langan tíma. Var hún
spennandi?
„Já, hún var ægilega spennandi,
ekki síst fyrir mig, því ég var ýmist
úti eða inni. Við vorum þarna nokk-
ur að skiptast á þingsætum. Ég vakti
alla kosninganóttina. Það hef ég
aldrei gert áður. Mig minnir að ég
hafi sagt sem svo að það væri alveg
nóg að vita úrslitin þegar maður
vaknaði.
Þetta var spennandi en ég er ekki
metnaðargjörn fyrir sjálfa mig. Ég
held að það sé andstætt mínu hugar-
fari. En auðvitað vil ég veg Kvehna-
listans sem mestan og hefði þótt það
ansi súrt í broti hans vegna hefðum
við misst manninn. Þá skipti minna
máli hver okkar hefði náð kjöri.
Það má einnig segja að það hefði
verið áfall fyrir okkur í Norðurlands-
kjördæmi eystra að fá ekki mann í
annað skiptið sem við hjóðum fram.
Það munaði ekki miklu síðast. Þá
þótti okkur ágætt að það fór kona á
þing í kjördæminu fyrir Bandalag
jafnaðarmanna þótt það væri á tals-
vert færri atkvæðum en við fengum."
Dóttir skáld-
bónda
1 Mývatnssveit
Málmfríður er Mývetningur að ætt
og uppruna. Hún er fædd á Arnar-
vatni, dóttir Sigurðar Jónssonar
skálds og bónda þar og Hólmfríðar
konu hans. Sigurður er ef til vill
þekktastur fyrir kvæðið sem hefst á
orðunum Blessuð sértu sveitin
mín...
Heilar bækur hafa verið skrifaðar
um menningarlíf í Mývatnssveit frá
því á 19. öld og Málmfríður hlær við
þegar hún er minnt á að hún er öðr-
um þræði fulltrúi Mývetninganna á
þingi.
„Ég hef verið að hugsa um það
undanfarið að trúlega er það sem ég
er að gera núna náskylt því sem ég
ólst upp við í Mývatnssveit. Þegar
ég var að alast upp voru foreldrar
mínir báðir á kafi í félagsmálum og
móðir mín var mikil kvenréttinda-
kona og mjög framarlega í félagsmál-
um kvenna. Við sögðum stundum
eftir á, systurnar, að við hefðum trú-
lega fengið bólusetningu fyrir þeim
málum í uppvextinum. En eitthvað
hefur nú síast inn samt.
Það er þó engan veginn hægt að
segja að þótt ég tali í hálfkæringi
um bólusetningu fyrir félagsmálum
í uppvextinum að það hafi orðið þess
valdandi að ég hafi ekki tekið þátt í
þeim af fullum krafti fyrr en nú síð-
ustu árin. Mínar aðstæður leyfðu
það einfaldlega ekki. Ég á sjö börn
og frá þeim verður ekki hlaupið.
Ráðskona
hjá Vegagerðinni
Ég var búandi á Jaðri í Reykjadal
um 30 ára skeið. Maðurinn minn,
Haraldur Jónsson, var þaðan. Ég á
þar heima enn en bý ekki lengur.
Maðurinn minn missti heilsuna og
við urðum að minnka við okkur bú-
skap vegna þess. Til að bjarga
fjárhagnum fór ég út í að gerast
matráðskona hjá Vegagerðinni og
var það í 17 ár á sumrin. Þetta var
eftir að börnin voru orðin nokkuð
stálpuð en framan af var ég með tvær
yngstu stelpurnar með mér.
Börnin eru nú komin víðs vegar
um landið. Tvö þeirra eru í Grímsey,
einn sonur á Isafirði og dóttir hér í
Reykjavík þannig að þau hafa dreifst
víða.
Nú síðari árin hef ég verið aðstoð-
armatráðskona við Kristnesspítal-
ann og var það raunar á vetrum
seinustu sumrin sem ég var hjá Vega-
gerðinni."
- Hvað finnst börnunum um stjórn-
málavafstrið og þingmennskuna?
„Þau líta öll svo á að ég eigi að
gera það sem mig langar til.“
Náum ekki
nógu vel
til bændakvenna
- Nú á Kvennalistinn fyrir norðan
þegar nokkra sögu að baki. Er þessi
hópur samstæður?
„Á Akureyri, og einnig víðar á þétt-
býlisstöðum, er mjög harður kjarni
kvennalistakvenna. Hópurinn, sem
myndaðist við framboðið til bæjar-
stjómar á Akureyri árið 1978, stendur
alltaf saman. Það er líka mjög sam-
stilltur hópur á Húsavík.
En þetta er víðlent kjördæmi og það
er erfiðara að halda úti starfsemi út
um byggðirnar. Einhvem veginn hefur
það verið þannig að okkur hefur ekki
gengið nógu vel að ná til bænda-
kvenna og til þess eru trúlega margar
ástæður.
Auðvitað hafa þær áhuga á þessum
málum en ég hygg að skýringin liggi
að einhveiju leyti í því að t.d. í Þing-
eyjarsýslum em mjög öflug og vel
uppbyggð kvenfélög. Kvenfélögin hafa
forðast pólitík eins og heitan eldinn
alveg frá upphafi. Ég ætla ekki að
dæma um hvort það er miður eða ekki
en tilgangurinn með því að forðast
pólitíkina er að koma í veg fyrir sundr-
ungu innan þeirra.
Auðvitað er það mjög mikilsvert að
konur geti starfað saman á breiðum
gmndvelli. Það er hins vegar spimning
hvort félögin eigi samleið með
Kvennalistanum. Það hefur aldrei
reynt á það. Við höfúm ekki gengið
eftir þeim. Við þrýstum ekki á konur
að ganga til liðs við okkur. Það er af
og frá. Konur innan kvenfélaganna
em auðvitað að nokkrum hluta stuðn-
ingsmenn okkar en kvenfélögin sem
slík vilja ekki taka afstöðu í pólitík.
Við virðum þau sjónarmið.
Við finnum það samt að við höfum
ekki náð til bændakvenna eins og við
vildimi. Við náum vissulega til þeirra
en samstaðan er ekki afgerandi. Á
Vesturlandi veit ég að þetta er allt
öðmvísi. Fyrir norðan er fylgið fyrst
og fremst í þéttbýliskjörhunum. Þar
eiga konur yfirleitt auðveldara með
að koma saman og ræða sín mál.
„Við viljum
hafa ykkur“
Kona úti í sveit gefur ef til vill þá
yfirlýsingu að hún sé kvennalista-
kona og þá fara hinar að sækja að
henni og spyrja: Af hverju? Til hvers?
Hún er ef til vill ekki reiðubúin að
svara þessu og gefur það þá ekki upp
þótt hún hugsi það í hjarta sínu.
Þarna er mikið starf óunnið hjá okk-
ur.
Mér finnst af fundum, sem við höf-
um haldið úti um kjördæmið, að við
höfum fengið afskaplega vinsamleg
viðbrögð. Það hafa komið til okkar
konur eftir þessa fundi og sagt: Ég
veit ekki hvort ég kýs ykkur en ég
vil hafa ykkur. Það breytir umræð-
unni.
Það kemur líka fram í starfinu í
þéttbýlinu að aðstæður kvenna til
að vinna að stjórnmálum eru óskap-
lega misjafnar. Þótt kvennalistakon-
ur á Akureyri séu vel samstæðar
lendir starfið alltaf meira á vissum
hópi heldur en öðrum. í hópnum á
Akureyri vinna flestar konurnar
fullt starf utan heimilis fyrir utan
heimilishald. Síðan bætist þetta við.“
Svörum fyrir
okkur af kurteisi
- Nú hefur oft farið mikið orð af
hörku í pólitíkinni en þið hafið helst
ekki viljað heyja ykkar baráttu á
þeim nótum, jafnvel þótt andstæð-
ingarnir hafi deilt hart á ykkur.
Hefur þetta ekki valdið erfiðleikum.
t.d. á fundum?
„Ég'er orðin það gömul að ég er
mótuð af viðhorfum karla og það er
töluvert átak að brjótast út úr því.
Framan af þótti mér þetta dálítið
erfitt. Ég vildi sko láta þá hafa það
óþvegið. Núna finnst mér þetta eðli-
legasti hlutur í heimi að svara ekki
svona nema í fullri kurteisi ef okkur
finnst mjög ómaklega að okkur veg-
ið.
En við vitum vel af vilja margra
karlmanna til að reka pólitíkina eins
og hanasiag. Mér fannst þetta koma
vel í ljós í haust þegar við fórum í
kynningarferð til Raufarhafnar og
héldum þar fund. Við vorum þar í
samkomuhúsinu. nokkuð margar
konur. og sátum i hring við borð.
Yfirleitt er mjög erfitt að fá konur
til að tala úr pontu þannig að við
höfum þennan hátt á.
Þarna kemur inn karlmaður. út-
gerðarmaður á staðnum. og sest hjá
okkur. Við höldum áfram að tala og
við vorum að tala um hápólitisk
mál: launamál kvenna og hvernig
hægt væri að koma þeim i betra horf.
Hann situr þarna töluvert lengi en
stendur síðan upp og segir með-
nokkrum þjósti að hann hafi haldið
að hann væri kominn hér á pólitísk-
an fund með fjörugum umræðum en
svo sé þetta bara kjaftavaðall í kell-
ingum við borð.
Hans viðhorf var það að af því að
það var ekkert rifrildi og ekkert
skammast þá var þetta engin pólitík.
Við urðum mjög varar við það á
framboðsfundunum núna. meira en
síðast, því þá tók því víst ekki að
veitast að okkur, að þetta var ofar-
lega í mörgum að revna að pirra
okkur og koma okkur út i rifrildi en
við önsuðum þvi ekki. Ég held að
við vinnum á þessari afstöðu."
- Þú segist vera mótuð af karlaheim-
inum. Hvernig finnur þú fvrir því?
„Ég þarf dálítið að taka í mig sjálfa
og athuga að hlutir, sem mér hafa
alltaf fundist eðlilegir af því að ég
hef vanist þeim, eru það ef til vill
ekki. Ég hef þurft þessa undanfarin
ár en ég held að ég sé að komast
yfir þetta.“
Fjölfróð
- Þú varðst fyrst þjóðkunn fyrir ein-
dæmagóða frammistöðu í spurninga-
keppni lengi vetrar í útvarpinu fyrir
nokkrum árum ...
„Já, það var nú aðallega fyndið.
Ég hugsaði sem svo að ég gæti farið
í þessa keppni einu sinni en svo ætl-
aði ég aldrei að losna úr henni. Þetta
var að mörgu leyti gaman en varð
nokkuð þrevtandi. Ég er engin
kappsmanneskja og gamanið var far-
ið af undir það síðasta."
- En þetta bendir til að þú hafir les-
ið mikið.
„Já, ég hef lesið mikið enda ólst
ég upp á miklu bókaheimili. í Mý-
vatnssveit var mjög gott lestrarfélag
sem átti góðar bækur. Á sýslubóka-
safni Þingeyinga á Húsavík var
einnig mikið af góðum bókum. ís-
lenskum og erlendum. Benedikt á
Auðnum réð þar þegar ég man fyrst
eftir mér.
Hjá sýslubókasafninu var sú regla
að lána íslenskar bækur ekki út fyr-
ir þorpið því þær áttu lestrarfélögin
í sveitunum að eiga. En erlendar
bækur voru lánaðar og ég man að
faðir minn fékk alltaf á haustin kassa
af bókum frá Benedikt. Þessarbækur
voru flestar á dönsku og einnig á
öðrum Norðurlandamálum og þær
las ég. Ef til vill hefur vdrið tilvilj-
anakennt hvað hefur komið upp í
hendurnar á mér af bókum á lífsleið-
inni en það var ekki tilviljunum háð
á þessum árum. Þetta voru allt vel
valdar bækur.
Þessar bækur. sem komu frá sýslu-
bókasafninu. voru aðallega höfuð-
skáldrit. Með fyrstu bókum. sem ég
þrælaðist í gegnum á dönsku. var
Forsyte-sagnabálkurinn. Ég hafði
trúlega ekki mikið út úr því þá en
ég fann að þetta voru góðar bók-
menntir.
Hrifin af
Sókrates
Ég man einnig eftir þykkum doð-
ranti sem hét Store tænkere - um
mikla hugsuði. Ég man mjög vel eft-
ir þegar ég las kaflann um Sókrates
því ég var svo hrifin af honum. Þarna
voru líka bækur höfuðskálda Norð-
urlandanna. Ég man lika eftir þegar
við systurnar vorum að berjast í
gegnum eina af bókum Brandesar.
Ég hef haldið þvi við að lesa á er-
lendum tungumálum og les síst
minna á þeim en islensku."
- En hvérnig var með skólagöngu?
„Ég er ein af þeim sem muna far-
skólann. I Mývatnssveit var alltaf
haldið úti unglingaskóla sem var
eins konar millistig milli barnaskóla
og héraðsskóla og ég var í svoleiðis
skóla. Síðan vissi ég eiginlega ekki
hvað ég átti að gera og fór til Revkja-
víkur. Hér fór ég í hálfsdagsvist og
vann mér þannig fvrir 'húsnæði og
fékk nokkurt kaup. Ég ætlaði að lesa
undir einhvern skóla en var ekki
viss um hvern. Svo vildi til að kon-
an. sem ég vann hjá. var kennari við
Kvennaskólann og það varð til þess
að ég tók próf upp í þriðja bekk þar
og lauk burtfararprófi eftir tvo vetur.
Ég hafði mikið gagn af þessu námi
enda var Kvennaskólinn og er sjálf-
sagt enn afskaplega góður skóli. Ég
á þeim skóla mikið að þakka. Ragn-
heiður Jónsdóttir skólastjóri sagði
að skólinn væri ekki bara til að
mennta fólk heldur einnig til að
manna það.
Þetta var á stríðsárunum. Ég var
hér meiripartinn úr þrem árum. Þá
var ekkert eðlilegt ástand ríkjandi í
bænum. Ég þekki ekki þessa gömlu
Reykjavík sem fólk er að tala um. Á
kvöldin var kvenmaður t.d. ekki einn
á ferli. Það var óhugsandi.
En þrátt fyrir ástandið í bænum
{ireifst hér merkilegt menningarlíf.
Ég man t.d. eftir málverkasýningum
þessa vetur sem ég gleymi ekki. Þar
á meðal voru tvær stórar Kjarvals-
sýningar sem eru alveg ógleymanleg-
ar."
- En eftir námið í Kvennaskólanum
- ætlaðir þú þá að halda áfram námi?
..Ég var mikið að hugsa um það.
Mig langaði alltaf í læknanám en
það var ekki um það að ræða. Ég
vissi að ég fengi ekki styrk að heim-
an. sem réð þar úrslitum. og á þessum
árum var útilokað að kvenmaður
ynni fyrir sínu námi. Það má því
segja að ég hafi gefist upp fyrir þeim
kostum sem voru í boði. Ég fór því
aftur norður og sneri mér að þvi að
gifta mig og eignast börn."
Að axla
ábyrgðina
Það var þegar stríðinu lauk en nú
er Málmfríður aftur komin suður
fyrir heiðar til að taka þátt í viðræð-
um um myndun ríkisstjórnar.
hvernig svo sem þau mál ráðast. Hún
ákvað að taka þátt í haráttu Kvenna-
listans eftir nokkrar andvökunætur
fyrir rúmum fjórum árum og var eft-
ir það tilbúin að ..axla ábyrgðina".
eins og það heitir á þessu vori.
Reyndar er Málmfriður þeirrar skoð-
unar að það hafi alltaf verið hlut-
skipti kvenna og því ekkert nýtt fyrir
bóndakonu úr Reykjadalnum.
..Ég hlustaði á það í útvarpinu í
morgun að hlustendur voru að lýsa
skoðunum sínum á hugsanlegri
stjórnarmyndun." segir Málmfríður.
..Flestir hnýttu því aftan við mál sitt
að það yrði að taka konurnar með.
Samkvæmt því erum við eins konar
aftaníhnýtingar. Við ætlum okkur
ekki að vera það.
Ég get sagt aðra sögu í sama dúr.
Norður á Akureyri hitti ég íjóra
menn á götu. Þeir sögðu: Nú verðið
þið að fara að axla ábyrgð. Enginn
þeirra minntist á að Borgaraflokkur-
inn. sem er nýtt afl. þyrfti að axla
ábyrgð. Það var eins og það væri
sjálfsagt að hann gerði það en ekki
sjálfgefið að konur gerðu það líka.
Ég veit ekki hverjir axla ábvrgð ef
ekki konur sem eru með uppeldi
barna. einn mikilvægasta þátt þjóð-
lífsins. á sinni könnu.
Mér finnst ekkert undarlegt þótt
einhverjar hrökkvi við þegar svona
er tekið til orða. Við reiknum ekki
með stökkbreytingum en það þarf að
breyta hugarfarinu. Það er ekkert
sem gerist á nokkrum dögum. Það
getur vel verið að það þurfi nokkrar
kynslóðir til þess.
Við þessa stjórnarmyndun núna
gerum við okkar kröfur sem við hvik-
um ekki frá. Það er ekkert vist að
flokkarnir vilji ganga að þessum
kröfum og þá verður okkur nuddað
upp úr því, ef við lendum utan stjórn-
ar, að við viljum ekki taka ábyrgð.
En málið er að þá erum við einmitt
að taka á okkur ábyrgð. Við látum
ekki okkar baráttumál fyrir það að
fá að sitja í stjórn," sagði Málmfríður
Sigurðardóttir. -GK