Dagur - 22.08.1983, Blaðsíða 4

Dagur - 22.08.1983, Blaðsíða 4
ÚTGEFANDI: ÚTGÁFUFÉLAG DAGS SKRIFSTOFUR: STRANDGATA 31, PÓSTHÓLF 58, AKUREYRI SÍMI: 24222 ÁSKRIFT KR. 120 Á MÁNUÐI - LAUSASÖLUVERÐ 15 KR. RITSTJÓRI OG ÁBYRGÐARM.: HERMANN SVEINBJÓRNSSON FRÉTTASTJÓRI: GlSLI SIGURGEIRSSON BLAÐAMENN: EIRlKUR ST. EIRlKSSON, GYLFI KRISTJÁNSSON, ÓLAFUR JÓHANNSSON (SAUÐÁRKRÓKI) OG ÞORKELL BJÖRNSSON (HÚSAVlK) AUGLÝSINGASTJÓRI: FRlMANN FRlMANNSSON ÚTBREIÐSLUSTJÓRI: HAFDlS FREYJA RÖGNVALDSDÓTTIR FRAMKVÆMDASTJÓRI: JÓHANN KARL SIGURÐSSON PRENTUN: DAGSPRENT HF. Á þröskuldi nýrra tíma Margt bendir til þess að íbúar hins tækni- vædda heims standi nú á krossgötum. Fram- undan sé bylting sem á sína vísu geti orðið jafn örlagarík og iðnbyltingin á sínum tíma. Það segir sína sögu um hinn mikla hraða á þróun mannsins, að nú skuli tíminn milli grundvallarþáttaskila í sögunni talin í áratug- um á móti árþúsundum sem liðu frá landbún- aðarbyltingunni að iðnbyltingunni. Sjálfsagt eru lesendur búnir að átta sig á að hér er til umræðu tölvuvæðing atvinnulífsins, sem er að vísu fyrir nokkru hafin, en virðist nú vera að skella á í auknum mæli. Vissulega hef- ur hún tilefni til vissra efasemda og það er full ástæða til þess að fylgjast grannt með gangi mála. Það er hins vegar staðreynd að fram- þróunin verður ekki stöðvuð. Það er í eðli mannsins að leita ætíð lengra, kanna ókunna stigu, bæði í eiginlegum og óeiginlegum skiln- ingi. Ef þetta mál er hugsað nánar kemur í ljós að þær aðferðir sem notaðar hafa verið síðustu áratugi á Vesturlöndum til þess að skipta þjóðartekjum milli þegnanna verða sífellt haldminni. Staða þeirra sem hafa ekkert tromp á hendi annað en eigið vinnuþrek versnar stöðugt í þjóðfélögum þar sem þeir sem ráða yfir fjármagninu, verða sífellt valdameiri. Það er ekki að efa að hið alþjóðlega fjármagn mun í auknum mæli sækjast eftir að skipta á vinnuafli mannsins og tölvuvæddum vél- mennum. Getur ekki verið að hið mikla atvinnuleysi á Vesturlöndum stafi af því að ekki hefur tekist að aðlaga þjóðfélögin breyttum atvinnuhátt- um? Þjóðartekjur hafa ekki minnkað í heild, sé til lengri tíma litið, þannig að það ætti að vera jafnmikið til skiptanna. Það væri miklu nær að ætla að ef hægt væri að haga málum þannig að hver starfhæfur einstaklingur finni sig þátt- takanda í sköpun þjóðartekna þá geti það ekki skipt neinu höfuðmáli hvort hinn mældi vinnu- tími er 20 eða 40 stundir á viku. Takist að snúa þessum málum á þann veg að örtölvubyltingin verði ekki aðeins tæki hinna ríku til þess að margfalda auð sinn. Það finnist hentugt munstur til þess að nýta hina nýju tækni til almannaheilla, þá þurfum við ,ekki að óttast þessa þróun. Það hlýtur að telj- ast jákvætt ef við getum losað okkur við störf, sem í síendurteknum einfaldleika sínum of- bjóða fjölþættum hæfileikum mannsins. Þá mætti ætla að til mótvægis við tölvuvætt um- hverfi eigi hagur hvers konar handverks eftir að aukast. Síst ættum við íslendingar að þurfa að óttast framtíðina, við sem búum í landi sem býður upp á ótæmandi möguleika til tóm- stundastarfa tengdum útivist og nýtingu hlunninda landsins. En í þessu máli eins og öllum öðrum veldur sá er á heldur og hér veltur allt á því að takist að finna pólitískan grunn til þess að nýta þessa nýju tækni til velferðar. Ef það á að tak- ast verða stjórnmálamenn að fara að gefa sér tóm til þess að líta lengra en til moldviðris vandamála hinnar líðandi stundar. J.G.S. Sigtryggur Símonarson: Athugasemd f þættinum „Smátt og stórt“, í Degi miðvijcudag 17. ágúst sl. birtist frásögn í tveim þáttum og nefnist sá fyrri „Tillingur", en sá seinni „Ólafur á Hlíðarenda“. Að venju í „Smátt og stórt“ eru þátta- skil aðgreind með kolsvörtum deplum, sem minna allmjög á þá mynd tunglsins, er það snýr al- myrkvaðri hlið að okkur jarð- arbúum. Og raunar finnst mér það sæmileg samlíking, þegar þess er gætt að í nefndri frásögn er naumast sannleiksvottur, en hyl- dýpi rangfærslu. Ekki veit ég hver skrifaði pistilinn, en það er full- víst að þeim postula sannleikans hafa verið ögn mislagðar hendur. Hann segir að bær í Hlíðinni, sem varla þarf útskýringa við að er Kræklingahlíð, hafi heitið Tilling- ur. Þetta hygg ég vera rétt, utan þess að ypsilon vantar í nafnið. í daglegu máli var býlið nefnt Titt- lingur, manna á meðal. Því nafni sá ég hann sæmdan, þá sem barn, innan tíu ára aldurs, í Markaskrá Eyjafjarðarsýslu, sem mun hafa verið gefin út stuttu fyrir 1920. Ef ég man rétt bjó þar þá bóndi er hét Jósep, ekki man ég hvers son. Er ég undraðist nafngift þessa býlis sögðu mér kunnugir menn að það hefði hlotið hana vegna þess að því hefði, svo að segja, verið tyllt þarna framan í fjalls- hlíðina og þá nefnt Tyllingur, sem vitanlega er dregið af sögninni að tolla. En gárungar, sem líklega hafa verið uppi á öllum tímum, breytt því í þetta Tittlings nafn, sem mun hafa loðað við það nokkurn tíma. Þá segir í Degi: „Bóndinn hét Ólafur". Það sannleikskorn er í þessari frásögn að Ólafur Thorar- ensen, lengi bankastjóri Lands- bankaútibúsins á Akureyri keypti þetta býli og rak þar búskap stutt- an tíma. Ekki veit ég með vissu hvenær hann eignaðist Hlíðar- enda en það hygg ég að hafi verið rétt um 1940. Þá var nafnbreyt- ingin þegar komin fyrir allmörg- um árum og býlið ætíð síðan nefnt Hlíðarendi. Það nafn kannast Akureyringar vel við og margir fleiri, því að þar hefur Baldur Halldórsson, skipasmiður, gert garðinn frægan um alllangt skeið. Það er gróf lýgi að Ólafur hafi fengið „kunnan hagyrðing“ til að gera vísu þá sem „Smátt og stórt“ birtir, hroðalega afbakaða. Það er alveg öruggt og margir kunningjar Ólafs gerðu sér til gamans að stríða honum á hinni fyrri nafngift Hlíðarenda og ekki veit ég hvort hann tók það nærri sér - og má þó vera. Hann var barn gamla tímans, heiðarlegur, formfastur og siðavandur, þrátt fyrir mikið skopskyn sem kom reyndar sjaldan í ljós nema í fé- lagsskap sem honum hugnaðist sæmilega vel. Ólafur Thoraren- sen seldi Hlíðarenda örugglega án þess að biðja nokkurn hagyrðing aðstoðar til afléttingar ógeðfelldu fyrra nafni jarðeignar sinnar, eða til afléttingar því að hann væri nefndur: ÓlafuríTittlingi, ígrófri gamansemi kunningja sinna. En það voru til hagyrðingar á Akur- eyri, þá eins og nú, sem kunnu réttar rímreglur fornrar hefðar og Friðjón Axfjörð, þekktur bygg- ingameistari á Akureyri á þeim tíma, kvað eitt sinn er hann sá Ólaf Thorarensen keyra út úr bænum til eftirlits að búgarði sínum: Lögmannshlíðar vífum vænum verður margt að bitlingi. Ók hér fríður upp úr bænum Ólafur íTittlingi. Ef til vill má bæta því við að þegar Ólafur Thorarensen seldi Hlíðar- enda kom vísa á kreik, sem ég reyni ekki að feðra, þar eð ég tel mig ekki hafa fulla sönnun fyrir faðerni. En hún er svona: Margarhafa meyjar grátið, mun svo verða enn um sinn, því Ólafur hefur eftirlátið öðrum manni Tittlinginn. Ekki hefi ég hugmynd um hvaða andlegur undanvillingur sannleik- ans kom þeirri flugu í gin blaða- manns Dag, sem ég hefi hér gert athugasemdir við. En mér finnst að við kaupendur dag- og vikublaða og þá einnig Dags, eigum heimtingu á því að þar sé ekki farið með staðlausa stafi, hreint fleipur um atburði sem ekki eru fjær nútíðinni en 40- 50 ár. Engan þarf víst að undra eins og rit- og fræðimennsku ís- lendinga er háttað í dag, þó að einhver efist um raunsannindi fornsagna okkar, sem við ætl- umst þó til að umheimurinn trúi, þrátt fyrir að þær elstu þeirra séu taldar skráðar fyrir nær átta öldum. Og hvað þá um blessaða Biblíuna, sem er þó miklum mun eldri? Ég vil bæta því við framan- rituð orð að ég er sannfærður um og hefi þar að baki samdóma álit fjölda fólks, að viku- og dagblöð- in okkar ættu að kunna sér meira hóf í pappírsnotkunarútþenslu sinni sem byggist mest á kjaftæði, sem engum tilgangi þjónar og engu bjargar í okkar mikla þjóð- lífsvanda, en kostar lesendur stórfé. Með viðeigandi þökk fyrir væntanlega birtingu. 18. ágúst 1983 Sigtryggur Símonarson, Norðurgötu 34, Akureyrí. Athugasemd blaðamanns Rétt skal vera rétt, sagði skáldið. Ég þakka Sigtryggi Símonarsyni fyrir greinargerð hans um Ólaf og Tylling. Það er nú svo að vart birtist vísa opin- berlega öðru vísi en í sér láti heyra menn sem kunna hana á annan veg og þá réttan. Jafnvel fleiri en einn. Mæta menn hef ég fyrir því að hafa ekki heyrt um- rædda vísu um Ólaf á Tittlingi öðru vísi en eins og ég hafði hana í „Smátt og stórt.“ Ég taldi þessi skrif fremur saklaus, mest til þess fallin að vera skemmti- leg, og þykir ákaflega miður ef ég hef með því sært sannleiksást einhverra sem betur til þekkja. Þar að auki er misjafnt hversu alvarlegum augum við lítum hlutina, og af einhverjum ástæð- um voru mín augu ekki sérlega alvarleg þegar ég reit umrædda grein. Að lokum biðst ég enn og aftur innvirðulega afsökunar. Kristján G. Arngrímsson, blaðamaður. 4 - DAGUR - 22. ágúst 1983

x

Dagur

Beinir tenglar

Ef þú vilt tengja á þennan titil, vinsamlegast notaðu þessa tengla:

Tengja á þennan titil: Dagur
https://timarit.is/publication/256

Tengja á þetta tölublað:

Tengja á þessa síðu:

Tengja á þessa grein:

Vinsamlegast ekki tengja beint á myndir eða PDF skjöl á Tímarit.is þar sem slíkar slóðir geta breyst án fyrirvara. Notið slóðirnar hér fyrir ofan til að tengja á vefinn.