Dagur - 23.01.1984, Blaðsíða 8

Dagur - 23.01.1984, Blaðsíða 8
8 - DAGUR - 23. janúar 1984 f Minning Kristinn Jónsson F. 26. nóv. 1903 - D. 6. jan. 1984 Á þrettánda dag jóla, barst mér sú fregn vestur um heiðar að látinn væri að Kristnesi í Eyjafirði, Krist- inn Jónsson, sem lengst af mun hafa verið kenndur við Syðra-Laugaland, og af vinum og samferðamönnum oftast kallaður Kiddi á Laugalandi. Þessi helfregn kom vissulega ekki svo mjög á óvart, því að vinnudag- urinn var orðinn býsna langur, og sól tekið að halla í vestur. Ungur var hann, aðeins á þriðja ári, þegar hann fluttist að Syðra- Laugalandi með móður sinni, Berg- þóru Stefánsdóttur, sem þar var þá kaupakona, en eftir lát hennar ári síðar, ólst hann upp á Laugalandi ásamt börnum þeirra Þóru Árna- dóttur og Jóhanns Helgasonar, ábúenda þar, og dvaldist á Lauga- landi að mestu frá því, ásamt föður sínum Jóni Gunnlaugssyni, sem var þar til æviloka. Kiddi var meðalmaður á hæð, grannvaxinn, liðlegur og léttur í spori, snýrtimenni í útliti og klæða- burði, og í ðllum þeim verkum sem hann sinnti. Hann var ekki átaka- maður, en skilaði ótrúlegum afköst- um við vinnu, án þess að nokkru sinni væri unnt að merkja að hann beitti kröftum eða flýti. Snemma gekk hann til liðs við Ungmennafélagshreyfinguna og var alla tíð mjög virkur í félagi sínu Ársól, og þar sem annars staðar var hann góður liðsmaður. Alltaf starf- aði hann af þeirri trúmennsku sem honum var í blóð borin.undir kjör- orðunum: „Ræktun lýðs og lands" og „íslandi allt". Hann var ágætur íþróttamaður, - fyrst og fremst hlaupari, og oft keppti hann fyrir félag sitt í þeirri grein. Eftirminnilegastur mun hon- um hafa verið góður árangur þriggja manna sveitar frá Ársól, í víða- vangshlaupi sumardaginn fyrsta á Akureyri vorið 1929, en þar varð hann í öðru sæti, en félagið átti sigurvegarann, Ingólf Pálsson og fimmta mann Valtý Jónsson, en keppt var við marga af bestu hlaupurum landsins, sunnan og norðan heiða. Oft minntist hann þessara góðu daga, og hafði gaman af því að rifja upp ýmis atvik þeim tengd. En hann stundaði fleiri íþróttir sér til gamans, hann var góður glímu- maður, og naut þar lipurðar sinnar og léttleika, þegar hann átti við sér öflugri menn. Hann fór bæði á skíð- um og skautum, þá orðinn harðfull- orðinn maður, þegar jafnaldrar hans höfðu löngu lagt það af að leika sér t.a.m. á skautum, með þeim börnum og unglingum sem oft gripu til þeirra þegar skyggð svell, spegilslétt, lágu nálega yfir öllum Staðarbyggðarmýrum. Þar sem ann- ars staðar var hann glaður með glöðum, þar sem Kiddi var þekktist ekkert sem kallaðist kynslóðabil. En honum lét einnig vel einvera og kyrrð, og hennar naut hann sér- staklega við sín eftirlætis störf, við hirðingu fjárins. Það var notaleg stund í húsunum, þegar gefið hafði verið á garðann, þá leið öllum vel, mönnum og skepnum. Það ríkti friður og gagnkvæmt traust milli hjarðar og hirðis. Inni í húsi jafnt sem úti, gat hann gengið innan um fjárhópinn án þess að nokkur skepna styggðist við, og þótti ekki umtalsvert, „þær vita það ærnar, að ekki geri ég þeim neitt," svaraði hann gjarna ef um þetta var rætt. Eins og áður er að vikið var Kiddi hið mesta snyrtimenni í útliti og framgöngu og í öllum hans daglegu störfum var þessi þáttur ríkjandi, hann fór vel með hey, og þeir sem komu í húsin til hans tóku til þess hve allt var þar vel um gengið, það var sjálfsagt. Rúmlega tvítugur settist Kiddi í Hólaskóla, lauk þaðan prófi með ágætum, og útskrifaðist búfræðingur árið 1926. Ekki átti það þó fyrir honum að liggja að standa fyrir eig- in búi, en hins vegar vann hann hjá öðrum allt sitt líf, fyrst hjá Jóhanni Helgasyni, en síðar Birni syni hans er tók við búinu að föður sínum látnum. Þegar svo Björn brá búi 1966 og Óttar sonur hans tók við, var Kiddi þar enn, óaðskiljanlegur hluti þeirrar fjölskyldu sem þarna bjó. Með Óttari fluttist hann svo að Garðsá í sömu sveit og átti þar heima til 1979 er hann af heilsufars- ástæðum vistaðist að Kristnesi, þar sem hann dvaldi til æviloka. Svo sem sjá má, var lífshlaup Kidda ekki stórbrotið eða átaka- mikið, engin afgerandi þáttaskil, lít- ið sem braut upp hversdagsleikann. Hann kvæntist aldrei, og átti ekki börn, en hann átti sér öll börn að vinum sem honum kynntust, og hans manngildishugsjón birtist í því að leysa hvert verk af hendi svo sem best mátti verða. Þannig fylgdi Kiddi og tengdist þrem kynslóðum í starfi og leik, vann húsbændum sínum alltaf a.m.k. fullan vinnudag, en yngra fólkinu á heimilinu var hann vinur og félagi og hjálparhella þegar ljúka þurfti heimaverkefnum, og honum mátti trúa fyrir öllum leyndarmál- Kiddi var hógvær maður og hæg- látur, en hann hafði gaman af því að blanda geði við aðra, og naut þess að vera með sér yngra fólki, vera með. Hann lét sig aldrei vanta ef t.a.m. ungmennafélagið kallaði menn til starfa, hvort sem var í sjálfboðavinnu við gróðursetningu, eða vinnu við íþróttavöllinn eða þegar beðið var um nokkur dags- verk vegna þess að unnið var að byggingu félagsheimilis, og hann svaraði hæglátur ef hann var kvadd- ur til leiks eða starfs - „Já ég gæti vel hugsað mér að fara, ef einhver fer." Þeim fækkar nú óðum, sem kall- aðir hafa verið aldamótakynslóðin, - það fólk sem hreifst af hugsjón og eldmóði þeirrar þjóðernisvakningar sem um landið fór með stofnun ung- mennafélaganna, það fólk sem ekki spurði hvað fengist í aðra hönd fyrir hvert viðvik, heldur lagði af mörk- um ómælda fyrirhöfn og jafnvel fjármuni, til þess að leggja sinn hlut fram svo að ísland yrði betra land, og það sjálft betri og riytsamari ein- staklingar, trúrri þegnar þeirri fóst- urjörð sem þeir áttu. Slíkur maður var Kiddi. Ég er þakklátur fyrir þau árin sem við áttum saman heima á Lauga- landi, þakklátur fyrir að hafa átt að vini mann sem hafði þá hugsjón æðsta að níðast aldrei á neinu því sem honum var til trúað, og því einnig að ekkert verk væri svo smátt í sjálfu sér að það væri ekki þess virði að gera það vel. Ég trúi því, að þeir menn sem hvarvetna leggja gott til mála, bæta og laga fyrir samferðamennina og taka á sig krók til þess eins að grípa stein úr götu þeirra sem á eftir koma, þeir sem með græskulausu gamni lífga upp gráan hversdags- leikann, - þeir eiga góða heimvon. Kiddi var jarðsunginn frá Akur- eyrarkirkju fimmtudaginn 12. þ.m. að viðstöddu fjölmenni, sveitunga og vina., Ég votta aldraðri systur hans, Guðrúnu, ásamt öðrum vanda- mönnum og vinum samúð mína. Trúr þjónn hefur verið kallaður til ábyrgðarmeiri starfa. Guð blessi hann. B.B. Bjarni Kristjánsson forstöðumaður vistlicimilisins Sólborgar veitir merkjun- um viðtöku. Aldraöir fá endurskinsmerki JC Akureyri hefur að undan- förnu unnið að verkefninu: Endurskinsmerki fyrir aldraðra Akureyringa og vistmenn á Sólborg. í tilefni af umferðaröryggisári 1983 gaf JC ísland út endurskins- merki. Við hjá JC Akureyri ákváðum að vinna að þessu verk- efni og einbeita okkur þá aðal- lega að afhenda öldruðum Akur- eyringum endurskinsmerki, þeim að kostnaðarlausu. Farið var í fyrirtæki og stofn- anir hér í bæ og leitað eftir fjár- stuðningi og fékk beiðni okkar ágætar undirtektir. Þau fyrirtæki sem styrktu þetta verkefni voru: Almennar tryggingar, Búnaðar- banki íslands og Útvegsbanki íslands. Þessi fyrirtæki gerðu okkur kleift að afhenda endur- skinsmerkin öllum að kostnaðar- lausu. Fyrstu merkin voru afhent á 1 árs afmælishátíð hjá Félagi aldr- aðra sem haldin var í Sjallanum þann 27. nóv. sl. við almenna ánægju viðstaddra. Einnig voru afhent merki á elliheimilinu Skjaldarvík og á Hlíð og síðan á Vistheimilinu Sólborg. Alls voru afhent um 540 merki. Við viljum þakka þeim fyrir- tækjum sem veittu okkur stuðn- ing við þetta verkefni og vonum að endurskinsmerkin komi sér vel fyrir alla sem þau fengu nú í svartasta skammdeginu. Fyrir hönd stjórnar JCA Margrét Brandsdóttir. íslenskunámskeið fyrir útlendinga Það er alltaf talsvert um það að útlendingar dveljist hér á Akur- eyri og í nágrannasveitunum við ýmis störf. Námsflokkar Akur- eyrar hafa undanfarin ár boðið þéim upp á byrjendanámskeið í íslensku og hafa þau verið haldin við og við eftir því sem aðsókn hefur leyft. En svo er annar hópur útlend- inga sem ekki hefur verið tök að sinna fyrr en nú að neinu marki. Það eru þeir útlendingar sem hér hafa dvalist um eitthvert árabil, kunna nægilega mikið til daglegs brúks, en vantar æfingu á ákveðnum sviðum. Nú hefur ver- ið skipulagt námskeið sem á að geta náð til beggja þessara hópa. Þetta er í heild um 110 kennslu- stunda námskeið, en skiptist í 10 stig eftir því hversu langt þátttak- endur eru komnir og hvaða þætti þeir þurfa að leggja áherslu á. Þátttakendur þurfa ekki að taka allt námskeiðið, heldur geta þeir valið úr þau stig, sem þeir telja sér henta. Kennari á nám- skeiðinu er Guðmundur Sæ- mundsson, cand. mag. Hann veitir jafnframt allar upplýsingar og sér um innritun á námskeiðin í síma 25745 milli kl. 12 og 16 á daginn til 27. janúar nk. Áformað er að kenna tvö kvöld í viku, samtals 4 kennslustundir, og er kennt í Gagnfræðaskóla Akureyrar. _ Minning t Ellen Grant F. 5.8. 1911- Ð. 17.11. 1983 Ellen Grant lést 17. nóvember sl. Hún var dönsk að þjóðerni, fædd á Glud á Jótlandi, 5. ágúst 1911, dóttir Marie og Christian Christ- iansen. Voru þau hjón brautryðj- endur í ræktunarmálum og urðu landsþekkt af. Hjá þeim ólst Ell- en upp ásamt systkinum sínum, og þótti hún þá strax vera dugleg og hagsýn, svo sem hún reyndist síðar í lífinu, í sambúð með eig- inmanni sínum. Eiginmaður hennar var Karl Jóhannes Grant, sonur Einars Grant beykis, sem var danskur, og-Kristjönu Halldórsdóttur, ætt- aðri af Svalbarðsströnd. Þau bjuggu á Akureyri. Ellen og Karl kynntust í Dan- mörku, en þar dvaldi hann um tíma. Til íslands fluttust þau, og giftust þann 11. ágúst 1934. Þau voru bjartsýn og dugleg, og byggðu sér gott íbúðarhús í Fjólugötu 9 hér í bæ. Var það heimk' þeirra alla tíð. Þar fæddust þeim börnin fimm, en þau eru: Erna, sem er ekkja, búsett í Bankok í Thailandi. Vinnur hún mikið og óeigingjarnt starf við flóttamannabúðir þar. Bryndís, gift í Bandaríkjunum. Ásgeir, tækni- fræðingur og búgarðseigandi í Danmörku. Kristján, bifreiða- stjóri á Akureyri, og Einar Örn, húsa- og skipasmiður á Akureyri. Ellen og Karl Grant voru afar samhent um uppeldi barnanna og sáu þau verða dugandi ágætis- fólk, bæði hér og erlendis. Fund- ið höfðu hjónin, að mesti auður og hamingja var í börnunum. Karl J. Grant lést árið 1976. Ellen var mjög listræn við alla handavinnu og heimilishaldið allt, - leit það sem list, er hún bar virðingu fyrir, og öllúm á að vera skiljanleg. Einnig var hún mjög nærfærin við hjúkrun sjúkra í heimahúsum, og nutu margir þeirrar hjálpar hennar um árabil. Þótti mörgum þau handtök henn- ar vera sem af lærðum væru. Ellen náði góðum tökum á ís- lensku máli og varð vel að sér í sögu lands og þjóðar. Hún unni íslensku fjöllunum og þótti þau fögur, en hugurinn leitaði þó oft- ar til heimalandsins. Stundum mun söknuðurinn hafa verið sár eftir fallegu skógunum og betra veðurfari. Líkinguna úr þjóðsögu mætti hér til sanns vegar færa: „Ég á sjö börn í sjó og sjö á landi." Síðari árin átti Ellen þess kost að heimsækja æskustöðvarnar og dvelja þar um tíma ásamt manni sínum. Hennar er nú sárt saknað af ættfólki og vinum, ekki síst ömmubörnunum, er hún lét sér mjög annt um, og þau kunnu svo vel að meta. Öll verðum við að lúta lögmáli flutnings til annarra bústaða, að lífi loknu. Ég veit, að Ellen Grant var þeim breytingum við- búin „meira að starfa Guðs um geim". Halldóra Guðmundsdóttir, Hauganesi.

x

Dagur

Beinir tenglar

Ef þú vilt tengja á þennan titil, vinsamlegast notaðu þessa tengla:

Tengja á þennan titil: Dagur
https://timarit.is/publication/256

Tengja á þetta tölublað:

Tengja á þessa síðu:

Tengja á þessa grein:

Vinsamlegast ekki tengja beint á myndir eða PDF skjöl á Tímarit.is þar sem slíkar slóðir geta breyst án fyrirvara. Notið slóðirnar hér fyrir ofan til að tengja á vefinn.