Dagur - 03.12.1984, Page 9
Guðmundur Bjarnason alþingismaður:
3. desember 1984 - DAGUR - 9
Reynt að auka ráðstöfunartekjur og
mæta skerðingu á kjörum almennings
í því fjárlagafrumvarpi sem
hér er nú til umræðu hefur að
venju verið reynt að gæta aðhalds
og sparnaðar og viðleitni sýnd til
að draga úr útgjöldum ríkisins.
Samkvæmt þessu frumvarpi er
gert ráð fyrir því, að útgjöld
ríkissjóðs á næsta ári verði 29,2%
af þjóðarframleiðslu, sem er
lægra hlutfall en verið hefur frá
árinu 1981. Á þennan hátt hefur
ríkisstjórnin viljað stuðla að því,
að auka ráðstöfunartekjur ein-
staklinga og mæta þannig að ein-
hverju leyti þeirri skerðingu á
kjörum almennings í landinu,
sem ríkisstjórnin taldi óhjá-
kvæmilegt að grípa til á síðasta
ári. Einnig er með þessu hugsað,
að auka svigrúm til athafna fyrir
einstaklinga, félög þeirra og
fyrirtæki til að gera þeim mögu-
legt, að bæta sinn hag, efla og
treysta atvinnulífið og auka hag-
vöxtinn svo að þjóðin geti á kom-
andi árum bætt afkomu sína á
traustari grunni en verið hefur á
undanförnum árum.
Lækkun tekjuskatta
Nú er gert ráð fyrir því, að veru-
lega verði lækkaðar tekjur ríkis-
sjóðs af tekjusköttum einstakl-
inga. Er hér gert ráð fyrir lækkun
að upphæð 600 millj. kr. Hér er
um að ræða áfanga í þeirri stefnu
ríkisstjórnarinnar, að fella niður
tekjuskatt af almennum launa-
tekjum.
Á undanförnum árum hefur
skapast það ástand í þjóðfélaginu
að fleiri og fleiri skattgreiðendur
hafa fundið smugur í skattakerf-
inu eða skattalögunum og komist
undan að greiða til samfélagsins
það sem þeim hefur borið. Þó
mikið sé rætt manna á milli um
margvísleg skattsvik og undan-
drátt virðist, sem mikill fjöldi
fólks sé í raun tilbúinn að taka
þátt í þessum leik beint eða
óbeint. Margvíslegar duldar
greiðslur eða greiðslur undir
borðið eru keðjuverkandi og
gætu ekki átt sér stað nema þátt-
takendur í leiknum séu fjölmarg-
ir. Aðeins á þann hátt getur hið
svokallaða neðanjarðarhagkerfi
þrifist. Almennur hugsunarhátt-
ur er því miður slíkur, að svo
virðist sem útilokað sé að ná til
þessara skattgreiðenda með
lögum eða stjórnvaldsaðgerðum.
Tekjuskattur sem slíkur er auð-
vitað m.a. hugsaður sem tekju-
jöfnunarleið, aðferð til að jafna
tekjur milli þeirra, sem minna
mega sín og hinna, sem meira
bera úr býtum, aðferð til að láta
þá sem hærri tekjurnar hafa
greiða stærri hluta af okkar sam-
félagslegu þörfum, en því miður
hefur það ástand skapast að nú er
að mínu mati ekki lengur hægt að
una við það misvægi og það rang-
Iæti, sem ríkir varðandi þessi
mál. Stórir hópar þjóðfélags-
þegna greiða ekki sinn hluta af
sameiginlegum útgjöldum ríkis
og sveitarfélaga og virðast þó
með sinni einkaneyslu sýna, að
þeir hafa úr allmiklu að spila, þó
skattframtölin beri það ekki með
sér.
Vissulega má telja það uppgjöf
stjórnvalda að hverfa að þessu
leyti frá tekjujöfnunarhugmynd-
inni, sem í tekjuskattinum felst,
en ástandið er orðið slíkt, að ég tel
það nú óumflýjanlegt, hvort sem
við köllum það uppgjöf eða
stefnubreytingu. Við náum ekki
lengur með þessari aðferð til
fjölda fólks, sem virðist hafa
miklar tekjur, en greiðir litla
skatta og eina ráðið virðist því
vera, að ná greiðslum frá þessum
þjóðfélagsþegnum til samfélags-
ins í gegnum neyslu þeirra, það
er auka hlutdeild óbeinna skatta
eða neysluskatta í tekjuöflun
ríkisins.
Um neysluskatta
Að því verður vissulega að gæta
þegar tekjuöflunin er færð frá
tekjusköttum til neysluskatta, að
gætt sé hagsmuna þeirra, sem
minna mega sín og þyngst fram-
færi hafa. Séu neysluskattar lagð-
ir í æ ríkara mæli á almenna
neysluvöru svo sem matvæli, þá
hlýtur það að koma mjög þungt
niður á þessum aðilum t.d. barn-
mörgum fjölskyldum. Því ber að
reyna að finna leiðir, þar sem
skattbyrði yrði aukin á ýmiss
konar neyslu, sem þeir veita sér
er meiri tekjur og fjárráð virðast
hafa.
Varðandi neysluskatta ber
einnig að geta þess, að því miður
er talið, að þar eigi sér líka stað
veruleg skattsvik og til dæmis
álagður söluskattur skili sér ekki
líkt því allur til ríkissjóðs. Skatt-
yfirvöld hafa ávallt talið mjög
erfitt að bæta innheimtu skattsiná
vegna þess, hve margvíslegar
undanþágur eru veittar frá álagnr
ingu hans og því lagt áherslu á
það, að ef verulega eigi að efla
innheimtuaðgerðir og bæta inn-
heimtu skattsins, þá þurfi jafn-
framt að afnema allar undanþág-
ur. Mundi þetta að sjálfsögðu
koma harðast niður á matvörum,
sem eru að mestu leyti undan-
þegnar söluskattsálagningunni og
ef þessi leið verður farin ber að
hafa í huga, að með einhverjum
aðferðum verður að mæta skatt-
íþyngingu þeirra fjölskyldna, sem
þungt framfæri hafa, eru barn-
margar eða tekjulágar. Það þarf
að gera með einhvers konar fjöl-
skylduafslætti og hækkuðum
barnabótum.
Ég hef hins vegar enga sann-
færingu fyrir því, að þetta sé rétt
mat hjá skattyfirvöldum. Ég hef
ekki þá trú, að skattsvik séu
meiri hjá þeim, sem versla með
matvöru heldur en hjá ýmsum
öðrum aðilum og þá einkum
hvers konar þjónustuaðilum, sem
engar undanþágur hafa heldur
draga undan verulegan hluta af
sinni heildarveltu með aðstoð al-
mennings, þ.e. þeirra sem kaupa
þjónustuna en gera enga kröfu til
að fá kvittun fyrir greiðslu sinni.
Þessu verður að breyta, en þá
þarf líka að koma til hugarfars-
breyting hjá almenningi. Hér
þarf verulega að efla eftirlit og er
þá full ástæða til þess, að skatt-
eftirlitið og skattstofurnar snúi
sér í æ ríkara mæli að því, að inn-
heimta þann söluskatt sem ríkinu
ber og vinnubrögð verði skipu-
lögð á þann hátt, að það megi
takast.
Verði teknir upp neysluskattar
í æ ríkara mæli þarf að leggja enn
meiri áherslu á þann þátt skatt-
eftirlitsins, sem fylgist með
skilum á álögðum neyslu-
sköttum.
Ég vil taka skýrt fram, að þetta
er ekki sagt í neinum ámælistón í
garð starfsfólks í skatteftirliti eða
á skattstofum heldur aðeins sem
ábending um hvort ekki sé rétt og
nauðsynlegt að breyta áherslu og
endurskipuleggja vinnubrögð.
Eignaskattar
Þá vil ég einnig minna á það, að
á undanförnum árum, eða verð-
bólgutímum undanfarinna ára
hefur myndast hópur manna í
þjóðfélaginu, sem á verulegar
eignir sem þeir hafa lítið þurft að
hafa fyrir að eignast á meðan
verðbólgan greiddi niður skuld-
irnar. Ég tel því vel koma til
greina að hækka eignarskatt og
hafa hann jafnvel stighækkandi
eftir því sem skuldlausar eignir
manna eru meiri. I því sambandi
þarf á skipulegan hátt að endur-
skoða allt fasteignamat og ganga
úr skugga um það, að allar fast-
eignir séu skráðar og af þeim séu
greidd gjöld, bæði eignarskattur
og fasteignagjöld eins og vera
ber. Heyrst hefur að jafnvel sé
svo komið, að sumar eignir séu
hreint ekki á fasteignaskrá og
því engar greiðslur inntar af
hendi af þessum eignum. Þá þarf
einnig að gæta þess, að mat sé
rétt miðað við það verðgildi, sem
í þessum eignum felst.
Þróunarfélag
í stefnuyfirlýsingu stjórnarflokk-
anna frá því í haust er gert ráð
fyrir því, að stofnað verði hluta-
félag einstaklinga, félaga, stofn-
ana og fyrirtækja í atvinnu-
rekstri, banka og ríkissjóðs, sem
starfi að rannsóknar- og þróunar-
verkefnum, eflingu iðnþróunar
og tækninýjunga í atvinnulífinu
og er hér gert ráð fyrir því, að
verja 50 millj. kr. í hlutafjárfram-
lag ríkisins í hinu nýja félagi. Ég
álít að hér sé um mjög mikilvægt
og þýðingarmikið atriði að ræða.
Við vitum öll að undirstöðuat-
vinnuvegirnir, sem stundum eru
nefndir svo, landbúnaður og
sjávarútvegur, eiga nú við marg-
víslega erfiðleika að etja.
Ég ætla ekki að þessu sinni að
eyða mörgum orðum að því.
Þetta er öllum Ijóst og því enn
meiri þörf að leggja mikla
áherslu á nýsköpun í atvinnulíf-
inu. Við stöndum að vissu leyti á
vegamótum hvað þetta varðar.
Talað hefur verið um að á næstu
árum verði bylting í atvinnulífi
þjóða um allan heim, ekki ólíkt
því sem varð á sínum tíma, er
iðnvæðingin gekk yfir, hvaða
nafn sem menn vilja svo gefa
þessu breytingaskeiði nú, ör-
tölvubylting, þróunarbylting eða
þekkingarbylting, en ýmislegt slíkt
hefur verið nefnt. Álla vega er
ljóst, að þörf er verulegra breyt-
inga og til að gera þær mögulegar
þarf að útvega mikið fé.
í samkomulagi stjórnarflokk-
anna frá því í haust er gert ráð
fyrir, að útvega þessu nýja félagi
500 millj. kr. á árinu 1985 til
þeirrar nýsköpunar og uppbygg-
ingar í atvinnulífi sem nauðsyn-
leg er.
Ég vil einnig nota þetta tæki-
færi og minna aðeins á þá þróun,
sem orðið hefur í atvinnulífinu á
undanförnum mánuðum eða
misserum. Uppbygging hefur
orðið geysileg hér á suðvestur-
horninu. Skapast hefur mikið
þensluástand hér á sama tíma og
samdráttur hefur orðið úti um
land svo að vart verður við unað.
Byggðaþróun
Á seinasta áratug átti sér stað
mikil uppbygging til dæmis í sjáv-
arútvegi í kaupstöðum og sjávar-
plássum úti um land og nú þegar
dregur úr möguleikum sjávarút-
vegsins a.m.k. um sinn, þá kem-
ur þetta mjög harkalega niður á
atvinnulífinu þar sem það er ein-
hæfast. Þetta hygg ég að stjórn-
völd verði að hafa í huga og beita
öllum ráðum sem þau hafa tiltæk
til að sem mest jafnræði ríki í
þessum efnum.
Ég vil skjóta hér fram þeirri
hugmynd, að hið nýja þróunar-
félag verði sett á fót og hafi sitt
aðal aðsetur á Akureyri. Það hef-
ur margsinnis verið rætt um flutn-
ing ríkisstofnana út á land, en
meira verið í orði en á borði. Nú
er hins vegar kjörið tækifæri til
að sýna vilja stjórnvalda í þessu
efni. Samgöngur fara sífellt batn-
andi og tækni á sviði hvers konar
fjarskipta eykst með degi hverj-
um svo upplýsingamiðlun á að
geta verið auðveld milli lands-
hluta og hinna ýmsu stofnana,
sem þurfa að hafa samskipti við
hið væntanlega þróunarfélag.
Hins vegar er það ljóst, að
þjónustan er og verður vaxandi
atvinnuvegur, trúlega sá sem
mestan mannafla tekur til sín á
næstu árum og ríkið verður
stækkandi vinnuveitandi á því
sviði. Því er það bráðnauðsynlegt
að stjórnvöld hafi víðsýni til að
dreifa þjónustustofnunum sínum
um landið í æ ríkari mæli en verið
hefur og nú er bæði tækifæri og
lag til að gera svo. Það er nánast
óviðunandi ef þær fréttir, sem oft
heyrast, lýsa raunverulegu
ástandi, að þeir sem ekki hafa
næga atvinnu víða úti um land
geti flutt hér til höfuðborgar-
svæðisins, fengið þar svo mikla
vinnu sem þeir nánast þola að
inna af hendi og fái síðan greitt
50-100% hærra kaup heldur en
þeir fengu á meðan þeir höfðu
einhverja vinnu í sinni heima-
byggð. Jafnvel fylgir þessum
fréttum, að hluti af kaupi þessu,
sé ekki talinn fram til skatts og ber
því saman við þá miklu umræðu,
sem nú fer fram í þjóðfélaginu
um skattsvik og neðanjarðarhag-
kerfi, sem ég hef fjallað um hér
fyrr í minni ræðu.
Þar að auki má og benda á að
þeir eru engu landsvæði til góðs,
þessir miklu búferlaflutningar,
hvorki þeim svæðum sem flutt er
frá né heldur þeim svæðum, sem
flutt er til. Þetta sanna e.t.v. best
umræður, sem áttu sér stað á ný-
afstöðnum aðalfundi Sambands
sveitarfélaga á höfuðborgarsvæð-
inu, en samkvæmt fréttum kom
þar mjög skýrt fram, að fulltrúar
á þessum aðalfundi töldu að
stöðva þyrfti fólksflóttann frá
landsbyggðinni.
Háskólanám
í beinu framhaldi af þessu og
þeim hugmyndum mínum um
nauðsyn þess að dreifa þjónustu-
starfsemi ríkisins sem mest um
landið vil ég minna á þær hug-
myndir, sem uppi hafa verið um
að hefja háskólanám á Akureyri.
Svokölluð háskólanefnd skilaði
á sl. vori skýrslu til menntamála-
ráðuneytisins með tillögum um,
hvernig vinna mætti að því, að
efla Akureyri sem miðstöð
mennta og vísinda utan höfuð-
borgarinnar. Þar var hreyft þeirri
hugmynd, að þegar á næsta
hausti þ.e. haustið 1985, yrði haf-
in kennsla á háskólastigi á Akur-
eyri, sem einkum beindist að
tölvuvinnslu og verslunargrein-
um og þar kom einnig fram, að
töluverður hluti þeirra nemenda,
sem á hverju vori ljúka stúd-
entsprófi frá Menntaskólanum á
Akureyri hefði fullan hug á því,
að stunda sitt háskólanám þar
einnig ef þeir ættu þess kost.
Þá hafa komið fram þær hug-
myndir frá skólamönnum, að
fyrstu námsár á háskólastigi gætu
verið á Akureyri en síðari árin í
háskólanum í Reykjavík ef ekki
er talið skynsamlegt eða
hagkvæmt, að hafa einstakar
námsgreinar einvörðungu fyrir
norðan.
Herra forseti. Það er auðvitað
Ijóst af því sem hér hefur komið
fram, að í frumvarpi þessu er
mjög þröngur stakkur sniðinn
ýmsum brýnum þörfum og nauð-
synlegum verkefnum. Svo hlýtur
það auðvitað að verða þegar
þjóðartekjur dragast saman og
þegar minna er úr að spila jafnt
hjá einstaklingum sem opinber-
um aðilum. Við höfum oft heyrt
og heyrum ekki síst nú þá kröfu,
að ríkið sýni fordæmi og taki
einnig á þegar á herðir, þá sé
ekki eingöngu hægt að velta
byrðunum á launþega þessa
lands. Ég tel að fjárlagafrumvarp
þetta sýni, að stjórnvöld hafi
reynt að gera sitt jafnvel til hins
ýtrasta til að gæta aðhalds og
sparnaðar og draga úr ýmsum
verkefnúm sumum hverjum
e.t.v. rninna nauðsynlegum,
öðrum að sjálfsögðu meira nauð-
synlegum og svo hlýtur það að
verða að vera, eins og málum er
nú háttað.
Guðmundur Bjarnason, al-
þingismaður, sem sæti á í
fjárveitinganefnd Alþingis,
tók þátt í umræðum um fjár-
lagafrumvarpið þegar það var
lagt fram í síðustu viku. Hér
fara á eftir nokkrir kaflar úr
ræðu hans.