Dagur - 22.09.1986, Blaðsíða 2

Dagur - 22.09.1986, Blaðsíða 2
2 - DAGUR - 22. september 1986 ÚTGEFANDI: ÚTGÁFUFÉLAG DAGS SKRIFSTOFUR: STRANDGATA 31, PÓSTHÓLF 58, AKUREYRI SlMI: 24222 ÁSKRIFT KR. 480 Á MÁNUÐI LAUSASÖLUVERÐ 50 KR. RITSTJÓRI OG ÁBYRGÐARMAÐUR: HERMANN SVEINBJÖRNSSON FRÉTTASTJÓRI: GYLFI KRISTJÁNSSON RITSTJÓRNARFULLTRÚI: BRAGI V. BERGMANN BLAÐAMENN: ÁSLAUG MAGNÚSDÓTTIR, EGGERT TRYGGVASON, GESTUR E. JÓNASSON, GESTUR KRISTINSSON (Blönduósi vs. 95-4070 hs. 95-4368), HELGA JÓNA SVEINSDÓTTIR, INGIBJÖRG MAGNÚSDÓTTIR (Húsavlk vs. 41585 hs. 41529), KRISTJÁN KRISTJÁNSSON, MARGRÉT Þ. ÞÓRSDÓTTIR, RÚNAR ÞÓR BJÖRNSSON, STEFÁN SÆMUNDSSON, ÞÓRHALLUR ÁSMUNDSSON (Sauðárkróki vs. 95-5960 hs. 95-5729) AUGLÝSINGASTJÓRI: FRÍMANN FRlMANNSSON ÚTBREIÐSLUSTJÓRI: HAFDlS FREYJA RÖGNVALDSDÓTTIR, HEIMASÍMI 25165 FRAMKVÆMDASTJÓRI: JÓHANN KARL SIGURÐSSON PRENTUN: DAGSPRENT HF. leiðan_______________________________ Fiskveiðistjórnunin hefur reynst vel Eins og áður hefur verið bent á eru efnahagshorf- urnar hér á landi mun betri en fyrri spár gerðu ráð fyrir. Hagvöxtur verður töluvert meiri og megin- ástæðan er aukinn afli og aukin framleiðsla sjáv- arafurða. Meginskýringin á minnkandi viðskipta- halla er mun meiri aukning útflutningsverðmætis sjávarafurða en áður var gert ráð fyrir. Hagur botn- fiskútgerðar er góður og betri en um langt árabil og þar veldur mestu aukinn afli án þess að veiði- skipum hafi fjölgað. í raun ber flest að sama brunni, þegar leitað er skýringa á því hvers vegna efnahagshorfurnar eru betri nú en áður. Miðin við ísland hafa verið óvenju gjöful, en það eitt segir ekki alla söguna. Á undan- förnum áratugum hafa íslendingar sífellt veitt meira og meira og notað við það stærri, fullkomnari og dýrari flota. Að því kom að miðin þoldu ekki ásóknina, en hin mikla og dýra fjárfesting var eftir sem áður til staðar. Því varð að grípa í taumana. Það var m.a. gert með þeim hætti sem áður hefur ekki þekkst hér á landi. Settur var kvóti á afla- brögðin. Fram að þeim tíma hafði aðgangur að þessari auðlind sem sjórinn umhverfis landið er verið frjáls öllum þeim sem hafa vildu. En fleira var gert. Settar voru hömlur á fjölgun veiðiskipa og stækkun flotans. Nú hefur kvótakerfið á ný verið til umræðu. Ráðuneyti, hagsmunaaðilar í sjávarútvegi og sjáv- arútvegsnefndir Alþingis hafa orðið ásátt um að framlengja lögin óbreytt til ársloka 1987. Sjávarút- vegsráðherra telur þó að reynslan af núverandi fiskveiðistjórn sé það góð að ástæða sé til þess að framlengja meginatriði lagaákvæðanna til ársloka 1990. Halldór Ásgrímsson, sjávarútvegsráðherra, hef- ur mikið til síns máls. Reynslan af því kerfi sem hann kom upp og náði allvíðtækri samstöðu um, þrátt fyrir töluverða andstöðu í upphafi, hefur reynst ákaflega vel og við erum m.a. að sjá þess merki í batnandi efnahag þjóðarinnar. „Aðalatriðið er að festa þarf fiskveiðistjórnunina í sessi með ákveðnum hætti þannig að höfð sé stjórn á flotan- um miðað við afrakstur fiskistofnanna. Ég tel að ekki hafi komið fram neinar tillögur ennþá sem geti leyst þetta kerfi í meginatriðum af hólmi. Ég tel mikilvægt að hagsmunasamtök og aðrir fjalli um það í tíma með hvaða hætti fiskveiðistjórnunin verði í framtíðinni og að um það sé vitað nokkur ár fram í tímann,“ segir Halldór Ásgrímsson, sjávar- útvegsráðherra, og undir það skal tekið. Þær ráð- stafanir sem hann hefur þegar gripið til hafa reynst ákaflega vel og stjórn hans á sjávarútvegs- málunum hefur verið örugg og farsæl. HS -viðtal dagsins_____________________ „Öflugri skákmenn og breiddin meiri“ - Spjallað við Gylfa Þórhallsson skákmann, formann Skákfélags Akureyrar og vegagerðarmann Gylfi Þórhallsson skákmaður, formaður Skákfélags Akureyr- ar og vegagerðarmaður var numinn brott af þjóðveginum og drifinn í viðtal dagsins. Þar sem lagning slitlags lá að mestu leyti niðri eftir brotthvarf hans lofaði ég að rekja úr honum garnirnar á methraða svo verk- ið gæti haldið áfram. Að þjóð- legum sið spurði ég fyrst um fæðingarstað og stund. „Já, þú segir nokkuð. Ég er fæddur 23. maí 1954 hér í bæ og uppalinn í Innbænum. Hef reynd- ar átt þar heima alla tíð og kunn- að ágætlega við það.“ - Eins og skákmenn eru alltaf spurðir: Hvenær byrjaðir þú að tefla? „Það er nú ekki gott að segja um það. Jú, ætli ég hafi ekki byrj- að á svipuðum tíma og ég byrjaði í skóla, svona um 7 ára gamall. En það var ekkert að ráði sem maður tefldi fyrr en ég var 15-16 ára. Þá fékk ég bakteríuna fyrir alvöru.“ - Hvernig var skáklífið í bæn- um þá? „Það var komið nokkuð gott unglingastarf. Það var haldið námskeið í Gagnfræðaskólanum þegar ég var þar og var hann Júlíus Bogason með það. Hann var mikill og ötull skákmaður hér á Akureyri, fremsti skákmaður okkar í áraraðir. Hann vann þar gott starf og það voru margir sem héldu áfram í skákinni eftir nám- skeiðið hjá honum. Ég gekk í Skákfélag Akureyrar á þessum tíma, upp úr 1970. Þá var þó nokkur gróska í skáklífinu, skák- félagið var starfrækt í Lands- bankahúsinu." - Hefur norðlenskum skák- mönnum farið aftur síðan þá? „Nei, þvert á móti. Þeim hefur frekar farið fram. Þetta eru öflugari skákmenn nú og breidd- in miklu meiri. Á síðustu árum hefur styrkleikinn dreifst niður á breiðari aldurshóp. Menn voru yfirleitt orðnir vel fullorðnir þeg- ar þeir voru hvað sterkastir." - Nú eigum við hvorki stór- meistara né alþjóðlegan hér fyrir norðan? „Nei, að vísu ekki. Það er nú svona. En Áskell Örn Kárason fékk sinn fyrsta áfanga að FIDE meistaratitli á alþjóðlega mótinu á Húsavík. Pálmi Pétursson var bara nokkrum stigum frá fyrsta áfanga á Reykjavíkurskákmótinu 1984. Nú, Jón Garðar Viðarsson tók þátt í tveimur alþjóðlegum mótum í London í ágúst og stóð sig mjög vel og vantaði aðeins einn vinning í seinna mótinu til að hljóta fyrsta áfanga að alþjóð- legum meistaratitli. Við vorum einmitt að fylgjast með einvígi Karpovs og Kasparovs í London og var mjög gaman.“ - Er það aðstöðuleysi og bú- seta sem hefur háð skákmönnum okkar? „Já, það hefur mikið að segja. Hér tefla menn yfirleitt bara svona innanbæjar, oftast við sömu menn og þegar maður kemst á toppinn hér þá kemst maður ekkert lengra nema að fara suður eða út. Hér staðnæm- ast menn bara. Það fóru þrír af okkar sterkari skákmönnum suð- ur í fyrra, þeir Jón Garðar, Áskell og Pálmi. Þeir hafa teflt I Þungt hugsi. Gylfi Þórhallsson að tafli. mikið og bætt sig, sérstaklega Jón Garðar sem var íslandsmeistari í áskorendaflokki.“ - Bindið þið miklar vonir við nýtt húsnæði skákfélagsins? „Já, aðstaðan er fyrir öllu. í húsnæði okkar að Þingvallastræti 18 hafa menn aðgang að töflum og bókum. Við ætlum að hafa námskeið fyrir unglinga á laugar- dögum í vetur og skákmót verða haldin reglulega. í október verð- ur haustmót, þá fara menn að undirbúa sig fyrir deildakeppnina í Reykjavík. Þangað sendum við tvö lið, eitt í 1. deild og unglinga- sveit í 3. deild, en hana ætlum við að vinna." - Ég sá í Degi nýlega að þú vilt ekki halda hér mót í sam- vinnu við Jóhann Þóri Jónsson hjá tímaritinu Skák. Ertu kom- inn upp á kant við hann? „Já, við höfum verið á önd- verðum meiði undanfarin ár. Við viljum ekkert fá hann norður og svo er líka um fleiri skákfélög á landsbyggðinni. Okkur finnst miklu öruggara að halda skákmót í samvinnu við Skáksamband íslands. Maður veit aldrei hvar maður hefur Jóhann Þóri.“ - Ég er áhugamaður um góða vegi og veit að þú hefur verið að leggja bundið slitlag um landið síðan sumarið 1981. Geturðu sagt mönnum frá þeirri athöfn? „Ho, ho. Þú ættir nú að kann- ast við starfið. Jæja, en þannig er að eftir að búið er að mæla og byggja vegina upp, setja burðar- lag og jöfnunarlag og víbra vel með valtara, þá er tjöru sprautað á vegarkafla og möl dreift yfir með þar til gerðum tækjum. Síð- an þrýstir valtari mölinni niður í tjöruna og bílarnir sjá svo um afganginn, þjappa slitlagið og loks er umfram möl sópað í burtu. Þá er lagt annað lag ofan á og athöfnin endurtekin.“ - Eru bílstjórar nógu tillits- samir? „Nei, alls ekki. Þeir aka of hratt á nýlagðri klæðningunni og þeyta mölinni í burtu áður en hún nær að þjappast almenni- lega. Sumir aka meira að segja eins og vitlausir á meðan við erum að vinna og skapast af því stórhætta. Bílstjórar virða sjald- an varúðarskiltin og eina ráðið hefur verið að lögreglan sé með radarmælingar á svæðinu. Það verður að breyta lögum, setja upp hraðahindranir eða eitthvað í þeim dúr.“ - Hvar hafið þið verið í sumar? „Við höfum verið mikið á Austurlandi, frá Bakkafirði suð- ur að Breiðdalsvík, einnig á Norð-Austurlandi og í Húna- vatnssýslu. Ætli við höfum ekki lagt eitthvað um 100 kílómetra í sumar." - Er ekki gaman að flakka um landið og leggja góða vegi? „Jú, það getur margt skemmti- legt skeð og maður kynnist mörgu." - Ertu hættur að tefla Gylfi? „Nei, það gengur illa að minnka við sig. Þó er ég kominn meira í félagsstarfið, hlúa að yngri skákmönnum og gera starfsemina markvissari og ná til fleiri. Það má koma fram að við verðum með opið hús á fimmtu- dagskvöldum í vetur og menn hvattir til að mæta.“ Jæja Gylfi, ég ætla ekki að stöðva vegaframkvæmdir lengur og þakka þér fyrir samtalið. SS

x

Dagur

Beinir tenglar

Ef þú vilt tengja á þennan titil, vinsamlegast notaðu þessa tengla:

Tengja á þennan titil: Dagur
https://timarit.is/publication/256

Tengja á þetta tölublað:

Tengja á þessa síðu:

Tengja á þessa grein:

Vinsamlegast ekki tengja beint á myndir eða PDF skjöl á Tímarit.is þar sem slíkar slóðir geta breyst án fyrirvara. Notið slóðirnar hér fyrir ofan til að tengja á vefinn.