Dagur - 26.10.1991, Blaðsíða 9

Dagur - 26.10.1991, Blaðsíða 9
Laugardagur 26. október 1991 - DAGUR - 9 „Heftir málkeimd farið dvínandi hjá böraum?“ - Þórey Eyþórsdóttir, uppeldis-og sérkennslufræðingur með sérgrein í mál- og talmeinafræðum ræðir um málkennd, málþroska og starf mál- og talmeinafræðinga Mál- og talþjálfun barna fer meðal annars fram í gegnum leikþjálfun. Mikil eftirvænting er gjarnan á meðal foreldra þegar barn fer að tala. Fyrstu orðin eru ekki síður mikilvæg á þroskabraut þess en fyrstu skrefin sem það tekur óstutt á milli tveggja staða. Þegar barn fer að tjá sig með orðum og síðar heilum setningum hefur það þegar náð að skilja merkingu ýmissa orða, sem það heyrir þótt það hafi ekki fyrr náð valdi á því að bera þau fram og beita við tjáningu. Málþroski og færni til að tala vex síðan jafnt og þétt og mörg börn ná full- komnu valdi á beitingu málsins á skömmum tíma. Önnur eiga í erfíðleikum, sem geta verið af margvíslegum toga og þurfa þá ef til vill hjálpar við. A sama hátt hafa margir kynnst því þegar fullorðnir einstaklingar verða fyrir áföllum og talhæfni þeirra skaðast skyndilega. Al- gengasta orsök þess er að æðar í höfðinu opnast og blæðir inn á heilastöðvar þannig að starfs- hæfni þeirra minnkar veru- lega. Mikil röskun fylgir áfalli af því tagi. Oft getur verið erf- iðleikum háð að greina hugar- ástand fólks við þær aðstæður, sem oft hafa einnig mikil áhrif á aðstandendur og allt nánasta umhverfi. í tilvikum sem þessum, hvort sem málþroska og talfærni er ábótavant í upphafi eða þegar einstaklingur hefur glatað ein- hverju af getu sinni til að tjá sig kemur til kasta mál- og talmeina- fræðinga. Vegna framfara í nútíma þjálfunarvísindum eiga margir, sem ekki ná eðlilegri málfærni eða glata henni að ein- hverju leyti síðar á æfinni, kost á þjálfun til þess að bæta málskiln- ing sinn og hæfni til að tala og einnig að efla á nýjan leik kunn- áttu sem tapast hefur. Úr Handíða- og myndlistarskólanum í sérkennslu- og talmeinavísindi Þórey Eyþórsdóttir er uppeldis- og sérkennslufræðingur með mál- og talmeinafræði sem sérgrein. Hún lauk námi í mál- og tal- meinafræði í Bergen en stundaði síðan framhaldsnám í Osló þar sem hún lauk embættisprófi í uppeldis- og sérkennslufræðum og síðar kynnti hún sér nýjungar í grein sinni í Madison í Banda- ríkjunum þar sem hún starfaði sem „visitina scholar“. Kandí- datsritgerð hennar fjallar um .máltöku barna, nánar tiltekið á hvern hátt börn læra annað tungumál eftir að hafa náð töl- verðu valdi á málskilningi og tali eins tungumáls. Rannsóknir sín- ar byggði hún annars vegar á því á hvern hátt norsk börn brugðust við börnum, sem töluðu íslensku og á sama hátt hvernig íslensku börnin brugðust við þeim norsku og á hvern hátt þau hófu að læra nýtt tungumál. En af hverju fór hún út á þessa braut, sem áður hafði stundað lokið námi og frá Handíða og myndlistaskóla íslands. Hún kveðst hafa farið að starfa við kennslu þroskaheftra barna þeg- ar hún hafi flutt til Noregs. Ástæður þess að hún var beðin um að taka sérkennslustarf að sér hafi fyrst og fremst verið þær að hún var menntuð á sviði hand- mennta. Eftir að hún var farin að vinna með þessum þroskaheftu börnum og unglingum hafi áhugi sinn vaknað á námi í sérkennslu- fræðum. Miklar framfarir hafa orðið á sviði mál- og talmeinafræðinnar Þórey minnir á að tjáskipti séu undirstaða vitsmuna mannsins og allra samskipta hans. í því sam- bandi hafi hann þróað ýmis kerfi til tjáningar. Þar á meðal sé BLITS- og REBUS-kerfið, sem notað sé til þess að gefa fötluðu fólki, sem ekki getur nýtt sér tal- málið sökum fötlunar kost á að tjá sig. Hún nefnir einnig einfalt tjáskiptakerfi, sem þróast hafi eftir landafundina á sínum tíma þegar hvíti maðurinn þurfti að hafa samskipti við indíána, sem dæmi um þörfina til að tjá sig. Þórey segir að mikil framfór hafi orðið á sviði mál- og talmeina- fræðinnar á undanförnum árum og einnig í því að þróa sam- skiptakerfi fyrir þá sem ekki geta notfært sér talmál. Ýmsir við- burðir í Bandaríkjunum hafi orð- ið til þess að fjárveitingar voru auknar til heilarannsókna. Til dæmis hafi orðið miklar og skjót- ar framfarir á sviði mál- og tal- meinafræðinnar eftir morðtil- raunina við Ronald Regan, þáverandi forseta, árið 1981 þeg- ar blaðafulltrúi hans slasaðist alvarlega á höfði og missti mál- tjáninguna. Foreldrar eru of uppteknir af framburðargöllum barna en gera sér oft ekki grein fyrir mál- þroska þeirra Hvað málþroska barna varðar segir Þórey að foreldrar virðist vera mjög uppteknir af fram- burðargöllum en geri sér oft ekki næga grein fyrir því hver mál- þroski barna sé í raun og veru. „Orðaforði fólks er mjög misjafn og eftir því sem börn lesa minna eða einhæfari texta þá verður málþroski þeirra takmarkaðri. Börn hér á landi lesa minna í dag en var fyrir um tveimur áratugum og á tilkoma sjónvarps talsverðan þátt í þeirri þróun. Auk þess byggir sjónvarpið útsendingar sínar að miklu leyti á erlendu efni, sem er þýtt með knöppum skýringartextum. Slíkir textar eru mikil stytting frá þeim orða- forða sem oft er notaður í við- komandi myndum og gefa börn- um því minni tækifæri til að þroska málvitund sína en ef þau ættu þess kost að horfa á sjón- varpsefni og kvikmyndir þar sem talað væri á móðurmáli þeirra." Þórey telur einnig að raun- veruleikabókmenntir fyrir börn, sem komu fram á sjöunda og átt- unda áratugnum, hafi dregið úr áhrifum ímyndunarafls hjá þeim. Æíintýraheimurinn hafi þá orðið að einskonar bannorði í barna- bókmenntum því hann kæmi börnum ekki í nægilega góðan skilning um þann bitra raunveru- leika sem þau byggju við. Hún segir að ævintýrabókmenntirnar hafi mikið fremur auðgað hug- myndaflug barna og þar með málþroska þeirra en frásagnir af hversdagslegum raunveruleika. Mál- og talmeinafræð- ingurinn vinnur með alla þætti mál- og talmeina - allt frá áhrifum af heila- skaða til framburðar- erfiðleika barna Mál- og talfræðingurinn tekst á við alla erfiðleika, sem skapast hjá fólki vegna galla eða skerð- ingar á málhæfni og málbeitingu. Eitt af því er stam. Þórey segir stam vera mun algengara hjá drengjum og áhrif þess séu oft þau að einstaklingurinn verður óöruggur með sig og forðast að tjá sig eðlilega. Þá vinna mál- og talfræðingar með einstaklinga, sem fæðst hafa með klofinn góm og skarð í vör. Jafnframt því að lýtalæknar lagfæra vefræna galla þá þjálfa mál- og talfræðingar viðkomandi einstaklinga til þess að ná valdi á beitingu málsins. Einnig fást þeir við einstaklinga sem eiga við ýmiskonar radderfiðleika að stríða. í því sambandi getur verið um sýkingu í raddböndum að ræða eða bjúg og endurþjálfun sjúklinga sem misst hafa raddböndin vegna sjúkdóma, einkum krabba- meins. Þá má nefna framburð- arerfiðleika af ýmsum toga og nefnir Þórey mongólíta sem dæmi um þá er eigi í erfiðleikum með framburð. Hún vitnar í víð- tækar rannsóknir sem Glenn Miller, amerískur prófessor, hef- ur gert á mongólítum í Banda- ríkjunum. Samkvæmt niðurstöð- um þeirra rannsókna stafi fram- burðarerfiðleikar þeirra fyrst og fremst af því að vöðvar í talfær- um vinna ekki saman á réttan hátt. Margir mongólítar hafa því meiri málskilning til að bera en geta þeirra til þess að tala segir til um. í Bandaríkjunum er fariö að þjálfa þá strax sem tapa málhæfni vegna slysa Mál- og talmeinafræðingar vinna einnig við þjálfun fólks sem glat- að hefur málhæfni sinni að ein- hverju leyti vegna sjúkdóma. Oftast er um afleiðingar heila- blæðingar að ræða. Mál- og tal- stöðvar viðkomandi einstaklinga hafa orðið fyrir skaða og miðast þjálfun fólks í þessum tilvikum við að fá aðrar stöðvar til þess að taka að sér hlutverk þeirra er óvirkar hafa orðið. Með öðrum orðum að kenna fólki að nota inálið á nýjan leik. Þórey segir að í flestum tilfellum verði breyting- ar á persónuleika fólks, sem tap- að hefur málhæfni sinni. Fólk verði meyrara og finni oft fyrir miklu óöryggi auk þess að missa tengslin við umhverfi sitt að nokkru leyti. Hún segir að mál- skaði vegna heilaskemmda komi fram með tvenns konar móti. Annars vegar birtist hann á þann hátt að viðkomandi aðilar glata hæfninni til þess að kalla fram orð og tjá sig með þeim en geti eftir sem áður haldið málskiln- ingi sínum lítið eða ekkert skertum. Einnig geti verið um takmarkaðan málskilning að ræða án þess að orðaforði glatist að neinu leyti og þá geti þeir sem fyrir skaða hafa orðið talað án þess að skynja í raun og veru hvað þeir séu að segja og noti orðin án samhengis við röklega hugsun. Hún kvaðst hafa kynnst því hvernig unnið er í Banda- ríkjunum með skynþjálfun vegna höfuðáverka og athygli sín verið vakin á því að meðferð var hafin strax. Jafnvel áður en fólk hafi verið komið til fullrar með- vitundar í stað þess að bíða með þjálfunaraðgerðir þar til ljóst væri hvaða skaða viðkomandi einstaklingar hefðu hlotið. Hefur málkennd farið dvínandi hjá börnum? Þórey hefur rekið talmeinastofu á Akureyri undanfarin ár. En hún hefur löngun til að ráðast í víðtækari starfsemi. Hún kveðst hafa íhugað vandlega möguleik- ann á því að stofna einskonar málræktarskóla fyrir börn á for- skólaaldri. Þar þurfi ekki endi- lega að vera um börn með frávik í máli og tali að ræða, heldur einnig eðlilega einstaklinga. í slíkum málræktarskóla mætti kenna framsögn, almenna tján- ingu og auka orðaforða og skiln- ing á hugtökum meðal annars með því að ræða við börnin og lesa fyrir þau. Þórey kveðst álíta nauðsynlegt að fá eldra fólk til að taka þátt í slíku starfi, meðal annars til þess að lesa fyrir börnin og ræða við þau með þeim orða- forða sem eldri kynslóðum sé eig- inlegt að nota. Eldra fólk hafi oft þroskaðri málskilning og noti fjölbreyttari orðaforða. Þessa kunnáttu eigi að nýta og flytja hana yfir til komandi kynslóða, sem vart verði gert á annann hátt en að leiða aldna og unga saman. Börn umgangist eldra fólk of lítið í dag og þau bönd er bundu stór- fjölskylduna saman áður fyrr hafi að miklu leyti rofnað á síðari árum. Því sé hætta á að ákveðinn menningararfur glatist, einkum sem snertir málið og á hvern hátt það er notað. Þeir sem áhuga hafa á þessu málefni ættu því að hafa samband við sig. ÞI

x

Dagur

Beinir tenglar

Ef þú vilt tengja á þennan titil, vinsamlegast notaðu þessa tengla:

Tengja á þennan titil: Dagur
https://timarit.is/publication/256

Tengja á þetta tölublað:

Tengja á þessa síðu:

Tengja á þessa grein:

Vinsamlegast ekki tengja beint á myndir eða PDF skjöl á Tímarit.is þar sem slíkar slóðir geta breyst án fyrirvara. Notið slóðirnar hér fyrir ofan til að tengja á vefinn.