Dagur - 22.08.1992, Blaðsíða 6

Dagur - 22.08.1992, Blaðsíða 6
6 - DAGUR - Laugardagur 22. ágúst 1992 Hestar Ævintýraferðir yfir Kjöl og í Mývatnssveit með Hestasporti Tveir ungir Skagfirðingar, þeir Björn Sveinsson á Varmalæk og Magnús Sigmundsson frá Vindheimum, eiga og reka ferðaþjónustufyrirtækið Hestasport í Skagaflrði. Tilurð Hestasports má rekja allt aftur til ársins 1974, þegar Sveinn á Varmalæk, faðir Björns, hóf að fara í hestaferðalög með erlenda ferðamenn. Segja má að Sveinn hafí í raun verið upphafsmaður að hestaferðum fyrir erlenda ferðamenn eins og fyrirkomulag þeirra er í dag um land allt. Þegar Sveinn lést fyrir nokkrum árum héldu Björn sonur hans og Magnús þessari starfsemi áfram. Samstarf þeirra hófst árið 1986 og í dag er á vegum Hestasports rekin margþætt ferðamanna- þjónusta, sem byggð er að öllu leyti á íslenska hestinum. Hjá Hestasporti eru um þessar mundir hátt á annað hundrað hestar á járnum. Magnús Sigmundsson varð við þeirri ósk að svara nokkrum spurningum um starfsemina, en vegna mikilla anna reyndist ógerlegt að ná tali af þeim félögum báðum, Magnúsi og Birni, samtímis. - Magnús, hvernig gengur rekstur Hestasports? „Fyrirtækið hefur fengið að þróast hægt og rólega enda tekur mörg ár að skapa sér sess á ferða- markaðnum. Það sem stendur allri ferðaþjónustu fyrir þrifum og einnig okkur er hvað það er skammur tími á hverju ári sem fyrirtækið getur starfað. Það er að segja aðeins á meðan erlendir ferðamenn eru hér á landi yfir hásumarið. í dag rekum við tvær hestaleigur, aðra í tengslum við tjaldstæðin við Steinsstaðaskóla og hina við tjaldstæðin í Varma- hlíð. Á okkar vegum eru haldin reiðnámskeið fyrir erlenda ferða- menn en einu slíku er að ljúka um þessar mundir. Einnig förum við í lengri hestaferðalög yfir Kjöl, milli Skagafjarðar og Mývatnssveitar og höldum sýn- ingar á íslenska hestinum á Vind- heimamelum. Eftirspurnin hefur vaxið stig af stigi allt þar til nú en mér virðist vera ákveðið bakslag í allri ferðaþjónustu í ár. Hins vegar halda langferðirnar hjá okkur nokkuð sínum hlut enda yfirleitt bókaðar langt fram í tím- ann og draumaferðir þeirra sem í þær ætla. Fækkun á ferðamönn- um kemur fram í hestaleigunum og styttri hestaferðum. Hjá Hestasporti komu hestasýning- arnar á Vindheimamelum hins vegar inn sem nýr þáttur nú í vor og það vegur á móti minni eftir- spurn á öðrum sviðum.“ - Telur þú ferðaþjónustu mikilvæga fyrir hestamennsku sem atvinnugrein? „Ferðaþjónusta sem byggir á íslenska hestinum er að mínum dómi gífurleg lyftistöng fyrir hestamennsku sem atvinnugrein. Bæði vegna þeirrar kynningar sem hún er á hestinum og vegna þeirra atvinnutækifæra sem hún skapar. Þeir ferðamenn sem kynnast íslenska hestinum hér og hrífast af honum eru væntanlegir viðskiptavinir þeirra sem ala upp, temja og selja hross til útflutn- ings. Það kemur oft fyrir að gestir okkar vilja ekkert fremur en kaupa einn þeirra hesta sem þeir hafa riðið á í hestaferðalaginu og oft hefur okkur tekist að verða við þeim óskum.“ Fjalltraustir hestaleiguhestar - Geta þeir sem varla vita hvað snýr aftur eða fram á hrossi farið á bak hjá ykkur í hestaleigunni? „Já, ég held að það sé óhætt að segja það. Hestarnir sem við not- um í hestaleigurnar eru fjall- traustir og því upplagt fyrir þá sem aldrei hafa fengið tækifæri til að fara á hestbak að nýta sér það. Bæði íslenskir og erlendir ferða- menn eru viðskiptavinir hjá hestaleigunum og börn og ungl- ingar hafa sérstaklega gaman af heimsókn þangað. Algengast er að farið sé í eins eða tveggja klukkustunda útreiðartúr. Klukkustund á hestbaki í hesta- leigu kostar í dag kringum eitt þúsund krónur. Það er kjörið fyr- ir ferðamenn að stöðva bílinn við einhverja hestaleigu og kynnast íslenska hestinum af eigin raun í stað þess að á í enn einni sjopp- unni.“ Pílagrímsferöir íslandshestaunnenda - Á vegum Hestasports er farið í allt að átta daga hestaferðalög með erlenda ferðamenn. Hverjir eru það sem kjósa að ferðast um íslensk fjöll á hestum? „Hestaferðalög í ýmsum myndum eru stór þáttur í ferða- þjónustu víðsvegar í heiminum og hestaferðir á Islandi fylla upp í þá mynd. Margir erlendu ferða- mannanna sem fara í þessi ferða- lög eru að koma hingað í eins- konar pílagrímsferð. Þeir eiga hugsanlega íslenska hesta erlend- is eða hafa kynnst þeim þar og vilja heimsækja landið þeirra. Draumurinn er að fá tækifæri til að kynnast íslenska hestinum á heimavelli. Annar hluti ferða- mannanna er hestafólk sem aldrei hefur komið á bak á íslenskum hesti en er vant stórum hestum. Flestir viðskiptavinir okkar eru Þjóðverjar, Austurríkismenn eða Svíar, en tölvert af Bandaríkja- mönnum hefur einnig ferðast með okkur. Sumir gesta okkar eru búnir að spara og safna í tvö þrjú ár til að geta komist í hesta- ferðalag á íslandi. Þegar nóg er orðið í buddunni koma þeir og njóta hverrar mínútu til hins ítrasta. Annar hluti viðskiptavina okkar er verulega vel efnað fólk. Við erum svo heppnir að sömu ferðamennirnir kjósa að ferðast með okkur aftur og aftur og vinir þeirra og kunningjar. Það færir okkur heim sanninn um að gestir okkar eru ánægðir og að við Björn Sveinsson á gæðingnum Hrímni. erum á réttri leið. Ferðamennirn- ir sem fara með okkur í hesta- ferðirnar eru á öllum aldri allt frá unglingum til ellilífeyrisþega og það skemmtilegasta við þetta allt saman er að við erum mun eftir- sóttari af kvenkyninu en karlkyn- inu.“ Bjóðum engum manni upp á truntu - Nú eruð þið nýkomnir úr hestaferð frá Skagafirði í Mývatnssveit. Hvernig gengur slfk ferð fyrir sig? „Við höfum farið í um það bil sex langar hestaferðir á hverju sumri. Við ríðum austur að Mývatni á sjö dögum, áttunda daginn skoða ferðamennirnir Mývatnssveit, að. því loknu kveðjum við hópinn og nýr hópur ferðamanna kemur og ríður með okkur úr Mývatnssveit í Skaga- fjörð um Sprengisand. Við förum yfirleitt eina ferð á sumri yfir Kjöl, einn hópur fer með okkur suður Kjöl og annar norður. I langferðirnar leggjum við upp með milli tíu og tuttugu erlenda ferðamenn og um það bil þrjá hesta á mann. Auk ferða- mannanna eru nokkrir aðstoðar- menn með í ferðinni, leiðsögu- menn, bílstjóri og kokkur. Hestaferðalögin hafa gengið alveg ótrúlega vel miðað við hvað þau eru í raun áhættusöm. Erlendu ferðamennirnir standa sig eins og hetjur og óhöpp eru sem betur fer fátíð. í þessum ferðum gistum við ýmist í gangna- mannakofum, í tjöldum, ýmsum fjallakofum eða hjá ferðaþjón- ustubændum. Það er ávallt bíll með í för og kokkurinn okkar sér um alla matseld fyrir hópinn. Að sjálfsögðu leggjum við áherslu á íslenskan mat og íslenskt hráefni. í baðstofunni í Baugaseli í Barkárdal höfum við slegið upp þorrablóti fyrir gesti okkar og hefur það vakið mikla lukku. Við gerum þær kröfur til okkar að ferðamennirnir geti notið hestaferðarinnar til hins ítrasta. Þess vegna leggjum við metnað okkar í að hafa góðan hestakost. Við reiknum með þremur hestum á mann og það er mjög erfitt að finna nægilega marga hentuga hesta. Það er útbreiddur mis- skilningur að heppilegir ferða- þjónustu- og hestaleiguhestar séu einhverjar steindauðar truntur. Hestarnir verða að vera viljugir og getumiklir en samt sem áður hrekklausir. Erlendu ferða- mennirnir eru margir hverjir mjög færir reiðmenn. Við verð- um að gæta þess að bjóða þeim ekki upp á lélega hesta, þeir eiga ef til vill miklu betri hesta heima hjá sér!“ - Er rekstur hestaferðaþjón- ustufyrirtækis skemmtileg atvinna, eða eigum við heldur að segja aukabúgrein? „Það er oft mjög gaman! Ótal skemmtilegar stundir, annars væri algjörlega útilokað að standa í þessum rekstri því hann krefst bæði ákaflega mikillar vinnu og honum fylgir gífurlega mikil ábyrgð,“ sagði Magnús. Erum við náttúrusvín? - Eru hestaferðalangarnir heill- aðir af fegurð landsins? „Vissulega eru þeir það, en við íslendingar verðum að gæta þess að lifa ekki í einhverjum drauma- heimi í fullvissu þess að ísland sé og verði „hreint land, fagurt land“. í raun tel ég að við séum allt að því náttúrusvín! Það sem hefur bjargað okkur og landinu er fyrst og fremst hvað við erum fá. Nær alls staðar þar sem mannaferðir eru að einhverju marki má sjá rusl og drasl á víð og dreif, auk þess er í mörgum tilfellum skammarlegt hvernig framkvæmdir okkar mannanna hafa sett ör og lýti á landið. Við verðum öll að líta í eigin barm, einstaklingar, bændur, forsvars- menn fyrirtækja, sveitarfélaga og ríkisfyrirtækja, enginn er undan- skilinn þegar náttúra landsins er annars vegar. Við sem störfum við ferða- þjónustu erum sífellt minnt á mikilvægi náttúruverndar því að glöggt er gestsaugað. Ferða- mennirnir sem ríða með okkur um öræfi íslands taka eftir þess- um hlutum í landinu sem auglýst er hreint og ómengað. Ég verð að viðurkenna að oft hef ég dauð- skammast mín og virkilega orðið að bíta á jaxlinn þegar þessi mál hafa komið upp á yfirborðið. íslendingar, minnumst þess að ósnortin náttúra er listaverk, sem okkur ber að varðveita eins og gull!“

x

Dagur

Beinir tenglar

Ef þú vilt tengja á þennan titil, vinsamlegast notaðu þessa tengla:

Tengja á þennan titil: Dagur
https://timarit.is/publication/256

Tengja á þetta tölublað:

Tengja á þessa síðu:

Tengja á þessa grein:

Vinsamlegast ekki tengja beint á myndir eða PDF skjöl á Tímarit.is þar sem slíkar slóðir geta breyst án fyrirvara. Notið slóðirnar hér fyrir ofan til að tengja á vefinn.