Dagur - 22.08.1992, Blaðsíða 9
Laugardagur 22. ágúst 1992 - DAGUR - 9
Heim að Hólum
- hið forna biskupssetur heimsott a Holahatið
Hólar í Hjaltadal. Kirkjan var reist árið 1763 og var nýlega endurbætt. Myndir: sþ
Hólahátíð hefur verið haldin
að Hólum í Hjaltadal frá því á
6. áratugnum. Hún er haldin
einu sinni á ári í ágúst. Þar
hafa komið saman fjölmargir
prestar við hátíðarmessu og
fjöldi fólks streymt í kirkjuna
til að vera viðstaddur. I ár var
Hólahátíð með nokkuð öðru
og stærra sniði en venjulega og
uppi eru ýmsar hugmyndir til
upplyftingar Hólastað í fram-
tíðinni.
Örfá atriði um Hólastól
Hið forna biskupssetur Hólar í
Hjaltadal skipar stóran sess í
íslenskri sögu og í hugum manna.
Þar hafa setið margir merkir
biskupar og þekktir. Sá fyrsti var
Jón Ogmundsson helgi er byggði
fyrstu dómkirkjuna og kom á
skóla á Hólum. Hann var vígður
árið 1106. í kaþólskum sið eru
eflaust þekktastir þeir Guðmund-
ur Arason á Sturlungaöldinni og
Jón Arason, síðastur kaþólskra,
er hálshöggvinn var árið 1550. Eft-
ir siðaskipti ber sennilega hæst
nafn Guðbrands Þorlákssonar
(1571-1627). Árið 1801 var
biskupsstóll lagður af á Hólum.
Stóð svo allt til ársins 1990 er ný
lög tóku gildi og Hólastóll var
endurreistur. Það hafði verið
markmið Hólanefndar um nokk-
urt skeið, en í henni eiga sæti
ýmsir menn og er vígslubiskup
formaður hennar. „Það er svolít-
ið gaman að því að Ólafur Rögn-
valdsson sem var fyrsti lútherski
biskupinn var prestur í Laufási.
Það er skemmtileg tilviljun að
það skuli koma menn úr Laufási
bæði á þeim tímamótum við siða-
skiptin og eins núna þegar þessi
lög taka gildi og biskupsstóll er
raunverulega endurreistur,“
sagði sr. Bolli Gústavsson vígslu-
biskup í samtali við blaðið.
Gísli Magnússon biskup reisti
þá kirkju er enn stendur á Hólum
árið 1763. Kirkjan var lokuð um
skeið vegna viðgerða en því verki
lauk 1989. Margt fagurra gripa er
í Hóladómkirkju. Einn þeirra er
altaristaflan, en hún er nýkomin
aftur eftir að hafa verið í viðgerð
á Þjóðminjasafni talsvert lengi.
Hólahátíð 1992
Hólahátíð í ár var með þeim
aðdraganda að 9. ágúst var opn-
uð myndlistarsýning á olíumynd-
um eftir Gísla Sigurðsson í
Bændaskólanum og í kirkjunni
sýning á gömlum guðsorðabók-
um. Elsta bókin er biblía á skinn-
handriti frá 13. öld, ættuð úr
frönsku klaustri. Þessi bók er í
einkaeign eins og flestar hinar.
Það eru þeir sr. Ragnar Fjalar
Lárusson í Hallgrímskirkju og sr.
Björn Jónsson á Akranesi sem
eru svo auðugir að eiga þessi
gömlu og ómetanlegu rit, en þeir
eru báðir miklir bókasafnarar.
Sr. Ragnar Fjalar og sr. Björn
héldu báðir erindi um bækurnar
við opnun sýningarinnar. Hátíð-
inni lauk sunnudaginn 16. ágúst
með árlegri guðsþjónustu og var
kirkjugestum síðan boðið í kaffi.
Þá hélt Njörður P. Njarðvík
erindi um Sólarljóð sem eru frá
13. öld eftir ókunnan höfund.
Haukur Þorsteinsson frá Leik-
félagi Sauðárkróks flutti úr Sólar-
ljóðum, en ljóðin eru einmitt
þemað að myndum Gísla Sig-
urðssonar. Hátíðin var mjög vel
sótt, en aðsókn hefði mátt vera
betri fyrri helgina. Slíkir menn-
ingarviðburðir þurfa auðvitað að
festast í sessi og vera vel kynntir.
Biblíuleit og bókasöfnun
Eins og áður sagði héldu þeir sr.
Ragnar Fjalar Lárusson og sr.
Björn Jónsson erindi við opnun
bókasýningarinnar. Erindi sr.
Ragnars Fjalars fjallaði m.a. um
leit hans að gömlum biblíum,
Guðbrandsbiblíu, Þorláksbiblíu
og Steinsbiblíu. Hann hefur
einnig leitað að Nýjatestamenti
Odds Gottskálkssonar frá 1540
og Guðbrands Þorlákssonar
prentað 1609 að Hólum og að
svokallaðri Summariu sem er
útdráttur úr bæði Gamla- og
Nýjatestamenti og var prentað á
Núpufelli 1589. Af biblíunum er
Guðbrandsbiblía elst og
merkust. Hún var prentuð á Hól-
um árið 1584, að mestu þýdd af
Guðbrandi Þorlákssyni biskupi.
Hún var fyrsta heildarritið útgef-
ið á íslensku og telja margir að
hún hafi átt stóran þátt í að varð-
veita tunguna. Þegar hún var gef-
in út var hverri kirkju skylt að
kaupa eitt eintak, en Guðbrand-
ur gaf hana mörgum fátækum
kirkjum. Biblían er 1444 síður og
myndskreytt og líklega voru
myndamótin fengin að láni frá
Þýskalandi, en ekki eftir Guð-
brand sjálfan eins og menn töldu.
Þorláksbiblía kom út á Hólum
1644 og Steinsbiblía 1728, báðar
kenndar við þá biskupa sem þar
voru þá. í fyrirlestrinum kom
fram að til er skrá frá árinu 1826
yfir biblíueign í landinu. Sam-
kvæmt könnun sr. Ragnars sem
nú hefur staðið í tvö ár hefur
bókunum fækkað allverulega.
Guðbrandsbiblía var upphaflega
prentuð í 500 eintökum og árið
1826 voru 160 eftir. Nú hefur sr.
Ragnar Fjalar fundið 30 eintök
hér á landi. Af hinum biblíunum
eru 37 eftir af Þorláksbiblíu sem
upphaflega var gefin út í 500 eint.
og mest til af Steinsbiblíu. Nýja-
testamenti Odds var til í 18 ein-
tökum árið 1826 en nú er vitað
um tvö, bæði á Landsbókasafni.
Nýjatestamenti Guðbrands var
þá til í 17 eintökum og eru átta til
nú. Skýringar eru margvíslegar,
m.a. var eitthvað selt úr landi og
er vitað um bækur á erlendum
söfnum, t.d. eru fimm Guð-
brandsbiblíur í Oxford eða Cam-
bridge að sögn sr. Ragnars. í
sumum tilfellum var ein bók búin
til úr fleirum, þegar um var að
ræða skemmd eintök og eflaust
hafa bækur líka týnst og eyði-
lagst. Sr. Ragnar kvaðst hafa
komið fram í sjónvarpi og lýst þá
eftir bókunum og fengið þó
nokkur viðbrögð. Hann telur
ekki líklegt að mikið fleiri finnist
hér á landi. Hins vegar ætlar
hann ekki að gefast upp heldur
halda leit sinni áfram og þá út
fyrir landsteinana ef með þarf.
„Ef fólk skyldi hafa þessar biblí-
ur undir höndum þá má það endi-
lega hafa samband við mig því ég
þarf að ganga frá þessari skrá
sem ég er að gera innan eins -
tveggja ára,“ sagði sr. Ragnar
Fjalar að lokum.
„Ég hef alltaf verið mikill
ljóðavinur og þess vegna hafa
sálmar og sálmakveðskapur stað-
ið mínum huga ákaflega nærri,“
sagði sr. Björn Jónsson. Erindi
hans fjallaði um tvö fyrstu
þekktu sálmakverin sem útgefin
voru á íslensku. Annað var
Gíslakver, kennt við Gísla Jóns-
son Skálholtsbiskup, útgefið
1555. Hitt var kver Marteins Ein-
arssonar, einnig biskups í Skál-
holti, útgefið 1558. Af því fyrr-
nefnda er eitt eintak til og tvö af
hinu. Björn fjallaði einnig um
Hólabók, sálmakver Guðbrands
biskups, útgefið að Hólum 1589
og kom út í 375 eintökum. Af því
eru nú þekkt 3 eintök, tvö á ís-
landi og eitt í Kaupmannahöfn.
Samtals eiga þeir sr. Ragnar
flestar útgáfur Passíusálmanna.
Sr. Ragnar á stærsta safnið af
Hólaprenti hér á landi, næst
Landsbókasafni. Sr. Björn vildi
að lokum þakka Áningu á Sauð-
árkróki þessa menningardaga á
Hólum.
Hugmyndir um framtíð
Hólastaðar
Fyrirtækið Áning var stofnað
árið 1987 sem ferðaþjónustufyrir-
tæki . Markmið þess er að efla
ferðaþjónustu í Skagfirði. Það
rekur m.a. sumarhótel á Sauðár-
króki. Björn Björnsson hjá
Áningu sagði að hugmyndin væri
að nýta Hóla sem menningarstað
og að byrjunin hefði verið nú á
Hólahátíð, en Áning hafði milli-
göngu um bókasýninguna. Björn
sagði að menn hugsuðu sér að í
framtíðinni verði eitthvað um að
vera í hverri viku á Hólum að
sumrinu, t.d. bókmenntakynn-
ingar og annað menningarefni.
Sr. Bolli Gústavsson vígslubiskup
hefur einnig stórar hugmyndir
um framtíð Hólastaðar. Hann
segir gildi Hóla ótvírætt, fólki
þyki vænt um staðinn og kirkj-
una. Sr. Bolli segir að í framtíð-
inni eigi Hólar að eignast kirkju-
sögulegt safn, Þjóðminjasafn að
Hólum. Þar eigi hið forna Hóla-
prent að skipa öndvegi. En það
vekur einmitt athygli að á bóka-
sýningunni komu flestar bækurn-
ar úr einkasöfnum, Hólastóll á
ekki mikið af þessum fornu og
merku guðsorðabókum Hóla-
prents. Vonandi verður úr því
bætt í framtíðinni. ,.u
Sr. Ragnar Fjalar Lárusson og sr. Björn Jónsson eiga stærstan hluta bóka-
safnsins sem sýnt var á Hólum.
Guðbrandsbiblía, gefín út á Hólum árið 1584. Aðeins er vitað um 30 eintök
á landinu.