Dagur - 19.01.1993, Blaðsíða 15

Dagur - 19.01.1993, Blaðsíða 15
Þriðjudagur 19. janúar 1993 - DAGUR - 15 kirkjunni var gert. Hann hélt þar í gamlar hefðir en kunni um leið að bæta þar inn nýjum tónum. Og skemmtilegast af öllu var að fá hann í heimsókn til að undirbúa kirkjulegar athafnir. Það þurfti frá svo mörgu að segja og oftar en ekki að teygja sig í smákökudunkinn. Það þurfti að ræða um landið og þjóðina, sam- vinnuhreyfinguna og pólitíkina. Þá voru einnig langar umræður hans og konu minnar um Akur- eyri og Reykjavík. Hann eins og aðrir sannir Akureyringar talaði um Akureyri sem nafla alheims. Hún hélt því fram að norðan- menn hefðu gott af því að dvelja um stund fyrir sunnan, en hann þvert á móti. En það kom að því að hann hafði vetursetu hér syðra fyrir nokkrum árum og bjó í götunni þar sem hún var uppalin. Og þeg- ar hann kom norður renndi hann við rétt til að láta okkur vita að þetta væri alveg rétt hjá henni, það hefðu allir gott af því að kynnast öðrum stöðum, lífi og viðhorfum. Mér finnst þetta atvik e.t.v. lýsa Ingimari um margt. Hann var fyrstur manna til að virða skoðanir annarra og láta þá vita ef eitthvað breytti hans eigin skoðun. Heiðarleiki var honum sterkur eiginleiki, sem aldrei brast. Það væri efni í heila bók, að ætla að geta um tónlistarferil þessa vinar. Orðin megna aldrei að koma í stað tónanna hans. En minningin geymir bjarta og ljúfa tóna hans. En ofar öllu lifir sú persóna, sem Ingimar Eydal bar með sér hvar sem hann fór. Það verður ekki hljótt á svið- inu og tónarnir hætta ekki að hljóma. En þeir verða allir blandnir trega og þakklæti þegar við kveðjum þennan einlæga og góða vin. Okkur finnst við öll hafa átt hann. Eiginkonu hans, Ástu, og börnum þeirra þakka ég að hafa leyft okkur að njóta hans með þeim í jafn ríkum mæli og minningin þakkar. Stundir sam- starfs og vináttu eru nú helgaðar þeim sem öllu ræður. Megi góður Guð blessa minn- ingu þessa prúða og hógværa vinar. Ástvinum hans bið ég blessunar Guðs. Við söknum öll vinar, eins þeirra sem var sannur og trúr í öllu sínu, sannur íslandssonur. Pálmi Matthíasson. Kveðja frá Framsóknar- félagi Akureyrar Ingimar Eydal er dáinn. Fréttin barst eins og eldur um sinu um allt land mánudaginn 11. janúar sl. Allir vissu að Ingimar barðist við erfiðan sjúkdóm, sem lækna- vísindin hafa enn ekki náð tökum á. Það kom þó flestum á óvart að hann skyldi vera kallaður á brott svo fljótt, aðeins 56 ára að aldri. Ingimar Eydal fæddist á Akur- eyri 20. október 1936 og hér bjó hann og starfaði alla tíð. Skólar bæjarins ásamt samkomuhúsun- um o. fl. nutu starfskrafta hans, því eins og allir vita var hann einn af þekktustu og vinsælustu tónlistarmönnum landsins í ára- tugi. Ingimar tók virkan þátt í félags- störfum. Hann var einlægur sam- vinnumaður og sat í stjórn Akureyrardeildar Kaupfélags Eyfirðinga um árabil og einnig í félagsráði KEA. Þá tók hann mikinn þátt í störfum framsókn- armanna á Akureyri. Hann var varabæjarfulltrúi á Akureyri 1974-82; sat í æskulýðsráði Akur- eyrar 1970-74; í áfengisvarna- nefnd Akureyrar frá 1970 til dauðadags, þar af sem formaður nefndarinnar síðustu 10 árin; í skólanefnd Akureyrar sat hann 1974-82; í félagsmálaráði Akur- eyrar 1982-86 og í umhverfis- nefnd frá 1986 til dauðadags. Ingimar var einlægur bindindis- maður og var æðstitemplar stúk- unnar Brynju nr. 99 á Akureyri um langt árabil og átti sæti í stjórnum fyrirtækja I.O.G.T. á Akureyri, m.a. í stjórn Borgar- bíós. Framsóknarmenn á Akureyri sakna nú sárt góðs vinar, sem allt- af flutti með sér hressandi andblæ á fundi þeirra og tók þátt í starf- inu eftir því sem hann frekast mátti vegna anna á öðrum vett- vangi, en Ingimar var þekktur fyrir ótrúlegt starfsþrek og lét víða gott af sér leiða í þjóðfélag- inu. Við kveðjum nú okkar ágæta félaga, Ingimar Eydal, og send- um eiginkonu hans, Ástu Sigurð- ardóttur, börnum þeirra og öðr- um ástvinum hjartanlegar sam- úðarkveðjur. Fyrir hönd Framsóknarfélags Akureyrar, Svavar Ottesen. Kvedja frá Gagn- fræðaskóla Akureyrar Sú harmafregn barst hingað í skólann fyrir viku að Ingimar Eydal hefði látist á Fjórðungs- sjúkrahúsinu á Akureyri að kvöldi sunnudagsins 10. janúar. Það var okkur öllum ljóst, samkennurum hans, að hann hef- ur undanfarna mánuði barist við illvígan sjúkdóm, en það kom þó á óvart hve snöggt dauða hans bar að garði. Ingimar Eydal var fæddur 20. október 1936 og var því á fimm- tugasta og sjöunda aldursári þeg- ar hann lést. Hann hóf störf sem kennari við Gagnfræðaskóla Akureyrar 1967 og hefur kennt öll árin síðan eða í 25 ár. Eitt ár var hann í orlofi frá kennslu sem hann notaði til að afla sér viðbót- armenntunar við Kennarahá- skóla íslands. Ingimar var maður þéttur á velli og þéttur í lund. Hans verð- ur lengi minnst sem afburða- manns á sviði tónlistar og þegar hann lék á píanóið var sem hann væri í öðrum heimi. Smekkvísi hans í útsetningum var við brugð- ið og í hörpu hans voru ótrúlega margir strengir. Hann hafði mörg áhugamál og ræddi þau oft opinskátt við þá sem hann hitti. Eitt af því sem hann barðist fyrir var bindindi á vímuefni og hann var sjálfur tal- andi dæmi um það hvernig hægt er að skemmta sér án þeirra. Einnig munu margir minnast hans sem spaugara því að hann átti afar létt með að segja léttar sögur þannig að unun var á að hlýða. Síðast þegar ég talaði við Ingi- mar, minntist hann á það hve mikið það hefði glatt hann að fá blómasendingu frá nemendun- um, nú fyrir skemmstu. Það, hve margir tóku þátt í samskotum vegna þessa, sýnir glöggt hvern hug nemendurnir báru til hans og sá hlýhugur, sem þar kom fram, segir meira en mörg orð. Nú þegar ljóst er orðið að Ingi- mar kemur ekki oftar til starfa í Gagnfræðaskóla Akureyrar minnist ég margra gleðistunda þar sem hann stjórnaði söng bæði á „litlu jólunum" og á árshátíð- um skólans þegar hann stjórnaði oft mjög stórum kórum með mikilli lipurð og smekkvísi. Við minnumst Ingimars Eydals með virðingu og þökk fyrir sam- veruna í aldarfjórðung. Eigin- konu, börnum og fjölskyldum þeirra vottum við samúð okkar. F.h. starfsfólks Gagnfræðaskóla Akureyrar, Baldvin Jóh. Bjarnason, skólastjóri. Kveðja frá Oddeyrarskóla Horfinn er á braut mikill hæfi- leikamaður, sem sárt er saknað um land allt. í vöggugjöf hlaut hann tónlistargáfu sem hann ræktaði af kostgæfni og varð öðr- um til ánægju í áratugi. Hann var einstakur eljumaður, sem skipti sólarhringnum niður í starfsein- ingar og stuttan svefntíma, kátur félagi með gnótt af græskulausum gamansögum, fullur áhuga um heilbrigt mannlíf og mátti ekkert aumt sjá. Stundum tilfinninga- næmur og alvörugefinn viðmæl- andi, vandur að virðingu sinni og fastur fyrir í skoðunum, þegar rætt var um menn og málefni, mikill félagshyggjumaður og svo hjálpsamur að hann gat varla sagt nei við nokkurri bón. Þetta var góður drengur og íslendingur eins og þeir verða bestir. Ingimar Eydal var innfæddur Akureyringur. Kornungur fór hann að leika á hljóðfæri og varla kominn af barnaskólaaldri þegar hann var ráðinn í hljómsveit. Hann stofnaði sína eigin hljóm- sveit 1960 og starfaði á þeim vett- vangi allt til dauðadags. Þær hljómsveitir sem hann stjórnaði náðu allar miklum vinsældum og gerðu nafn hans þekkt um land allt. Hann var líka einstaklega laginn við að finna hæfileikaríkt fólk til samstarfs og það virti hann og dáði. En Ingimar lét sannarlega ekki staðar numið við hljómsveitarstjórnun. Hann afl- aði sér mikillar þekkingar á tón- list svo og kennaraprófs í faginu og 1965 hóf hann kennslu í Tón- listarskóla Dalvíkur og var þar í tvö ár, en eftir það kenndi hann við grunnskólana á Akureyri, mest við Gagnfræðaskóla Akur- eyrar, einnig að hluta við Barna- skóla Akureyrar í nokkur ár og um 15 ára skeið að hluta við Oddeyrarskóla. Ingimar var skemmtilegur kennari, sem fór á kostum við hljóðfærið, spjallaði við krakk- ana, sagði þeim brandara og hló eins og þau. Hann stjórnaði stór- um skólakórum og oftast fór stærð þeirra eftir því hversu margir vildu vera með, því að sönggleði einstaklinganna á grunnskólaaldrinum taldi hann skipta meira máli en afburða- árangur fárra krakka eftir miklar æfingar og oft strangan aga. Ég kynntist Ingimari þegar hann hóf störf hér við skólann og mat hann því meir sem kynni okkar urðu lengri. Vinnudagur- inn var tvöfaldur eða jafnvel þrefaldur á við það sem almennt gerðist. Hann átti sæti í fjölmörg- um nefndum og ráðum svo sem æskulýðsráði, áfengisvarna- nefnd, félagsmálaráði, umhverf- isnefnd og um tíma í skólanefnd svo eitthvað sé nefnt. Lengi var hann æðstitemplar Stúkunnar Brynju nr. 99, í stjórn Borgar- bíós, virkur félagi í starfsemi KEA, sat í félagsráði Tónlistar- skóla Akureyrar og einn af stofn- endum Kiwanisklúbbs Akureyr- ar. Hann tók einnig virkan þátt í stjórnmálum og var um skeið varafulltrúi Framsóknarflokksins í bæjarstjórn Akureyrar. Hann var ákaflega jákvæður og lifandi einstaklingur sem lét sér málefni dagsins varða og til hans var kallað um störf úr öllum áttum. Hann var ekki fyrr búinn að loka hljóðfærinu í skólanum en hann var farinn á fundi, hljómsveitaræfingar eða í hljóm- leikaferðir vítt og breitt um land- ið eða jafnvel til annarra landa. Ætti hann smugu þurfti hann oft- ast að leika á hljóðfæri hér og þar eða fara í útvarpið, en þar var hann um langan tíma með hljóm- listarþætti. Ingimar stóð þó ekki einn. Hann átti úrvalskonu, Ástu Sig- urðardóttur og með henni fjögur börn sem nú eru uppkomin. Þau heita; Guðný Björk, Inga Dagný, Ingimar og Ásdís Eyrún Eydal. Heimilið var honum hornsteinn lífsins og auðfundið var að skoðanir konu hans skiptu hann mjög miklu máli. „Margar leiðir liggja um heim. Einn er endir á öllum þeim. “ Sumir lifa skemur en aðrir, en afreka þó meira en margur á langri ævi. Ingimar Eydal var einn þeirra. Hann markaði áber- andi spor í samtíðina. Spor, sem öll lágu að því marki að hjálpa, bæta og göfga. Hans munu marg- ir minnast um ókomin ár. Ég flyt eiginkonu hans, börn- um og öðrum ættingjum innilegar samúðarkveðjur. Indriði Úlfsson. Kveðjuord frá stúkusystkinum Sjá framtíðarvonirnar vekja’ okkar dug, á varðbergi trúir að standa! Og brosandi geislarnir benda okkar hug til bjartari hugsjónalanda. ( Guðm. Guðmundsson) Með Ingimar Eydal kveður stúkan Brynja nr. 99 á Akureyri einn sinn fremsta liðsmann og leiðtoga um áraraðir. Ingimar Eydal gekk ungur að árum til liðs við bindindishreyf- inguna og var öflugur talsmaður hennar uns yfir lauk. Hann gekk í barnastúkuna Samúð nr. 102 þegar hann var níu ára gamall og starfaði þar fram á unglingsár. Árið 1959 gekk hann aftur til liðs við Góðtemplararegluna og þá í stúkuna ísafold nr. 1 en færði sig í stúkuna Brynju nr. 99 árið 1968. Ingimar hafði öll stig Góð- templarareglunnar og starfaði að baráttumálum templara innan Reglunnar og utan. Hann átti um langt árabil sæti í Áfengisvarnar- nefnd Akureyrar og mörg hin síðari ár var hann formaður nefndarinnar. Ingimar Eydal hafði þann heil- brigða lífsstíl að hafna áfengi og tóbaki, öðrum til eftirbreytni. Hann var óþreytandi að benda fólki á þessa leið og í fjölmiðla- viðtölum síðari ára koma hann gjarnan inn á þessi hugðarefni sín með margvíslegum hætti, eins og honum einum var lagið. Ein góð setning, sögð með hans stíl, gat gert meira en heill fyrirlestur um málefnið. Það segir sig sjálft að tónlist- armaðurinn Ingimar stýrði söng og lék undir á stúkufundum en auk þess gegndi hann um langt árabil æðstu embættum. Hann var Umdæmistemplar og þing- templar í Þingstúku Eyjafjarðar og æðstitemplar stúkunnar Brynju nr. 99 um áratuga skeið. En það var ekki síst fyrir fram- gang hans sem bindindismanns utan reglunnar sem Ingimar vakti athygli. Árið 1990 heiðraði Stór- stúka íslands nokkra aðila á Stór- stúkuþingi fyrir margvíslegan stuðning við bindindismál. Ingi- mar Eydal var í þeim hópi og var vel að þeim heiðri kominn. í aldarfjórðung hefur stúkan Brynja notið starfskrafta Ingi- mars. Og þótt hann væri oft önn- um kafinn vantaði hann sára- sjaldan á fundi. Hann mætti hress og kátur ásamt Ástu konu sinni sem stóð við hlið hans í stúku- starfinu eins og svo víða annars staðar. Við stúkusystkinin þökkum Ingimari mikið og heilladrjúgt starf liðinna ára. Ingimar hefur leikið sitt síðasta lag í stúkunni en hugsjón hans mun lifa og minningin um framgöngu hans í þágu bindindismálsins mun hvetja okkur til frekari starfa. Reglusystkin flytja eiginkonu, börnum og öðrum ættingjum og vinum innilegar samúðarkveðjur. Allir heilir, uns vér sjáumst næst! Fyrir hönd stúkusystkina, Matthías og Mjöll. Af eilífðarljósi bjarma ber sem brautina þungu greiðir. Vort líf, sem svo stutt og stopult er, það stefnir á æðri leiðir. Og upphiminn fegri en auga sér, mót öllum oss faðminn breiðir. (Einar Benediktsson.) Hljóðum skrefum fetaði andláts- fregnin í hópinn okkar félaganna í Kiwanisklúbbnum Kaldbak. Hann Ingimar er látinn. Sunnudaginn þann 10. janúar var þessi einlægi vinur og Kiwan- isbróðir kallaður héðan á 57. aldursári eftir harða baráttu við illvígan sjúkdóm. Síðast var hann með okkur á jólafundi, þar sem hann stjórnaði söng að venju og síðan laust fyrir áramótin, þá stjórnaði hann jóla- skemmtun barna okkar af sinni alkunnu ljúfmennsku og vonin fyllti hugi okkar, því að hugprýð- in var slík að ekki varð séð, að svo skammt yrði kveðjustundar. Þótt harpa hans hljóðni hér, þá lifa ómar hennar í hugum okkar um ókomin ár. Það var mikið lán, þegar Kiw- anishreyfingin barst norður til Akureyrar, að hitta fyrir jafn atorkusaman félagsmálamann og Ingimar. Hann heillaðist af markmiðum hennar og þá eink- um hinni Gullnu reglu: „Allt sem þér viljið að aðrir menn gjöri yður, það skulið þér og þeim gjöra.“ (Matt. 7.12) í anda þessara orða starfaði hann ötull að markmiðinu og ávann sér hvarvetna virðingu, þar sem hann kom fram fyrir okkar hönd. Ingimar var forseti Kaldbaks 1987-1988, auk þess sem hann gegndi fjölmörgum trúnaðar- störfum innan klúbbsins af festu og virðuleik, hann var stofnfélagi Kaldbaks 1968. í forsetatíð sinni hafði Ingimar forgöngu um þátttöku okkar í samstarfi við Geðverndarfélag Akureyrar um að reisa sjúkum athvarf við Álfabyggð, en jafnan var hann boðinn og búinn að rétta þeim hjálpandi hönd, sem af einhverjum ástæðum voru minni máttar. í umræðum tók hann svari þeirra sem hallað var á, ákveðinn og rökfastur og ef dofnaði yfir samverustundunum var hann fljótur að grípa til kímninnar og létt frásögn hans hreif alla viðstadda, hann var ein- stakur. Menn fóru þá jafnan með bros á vör, þegar Ingimar leysti málefnaflækjurnar. Dugnaði Ingimars var við- brugðið, sjaldan bar hann við tímaskorti ef til hans var leitað, þótt hann væri jafnan störfum hlaðinn, hann leysti verkin hvort heldur var að aka öldnum til kirkju, taka þátt í söfnunum, koma á laggir söngkvartett innan klúbbsins okkar, en svo margt annað mætti nefna, sem við nú geymum í minningunni og í gögnum klúbbsins. Kærum vini og félaga er hér þökkuð samfylgdin, hann var góður drengur í orðsins fyllstu merkingu. Geymi þig góður Guð. Við sendum Ástu og fjölskyldu okkar dýpstu samúðarkveðjur um leið og við heiðrum minningu vinar, sem var okkur svo kær. Kiwanisklúbburinn Kaldbakur. Fleiri minningargrein- ar um Ingimar Eydal munu birtast í blaðinu á morgun.

x

Dagur

Beinir tenglar

Ef þú vilt tengja á þennan titil, vinsamlegast notaðu þessa tengla:

Tengja á þennan titil: Dagur
https://timarit.is/publication/256

Tengja á þetta tölublað:

Tengja á þessa síðu:

Tengja á þessa grein:

Vinsamlegast ekki tengja beint á myndir eða PDF skjöl á Tímarit.is þar sem slíkar slóðir geta breyst án fyrirvara. Notið slóðirnar hér fyrir ofan til að tengja á vefinn.