Dagur - 27.03.1993, Blaðsíða 18

Dagur - 27.03.1993, Blaðsíða 18
18 - DAGUR - Laugardagur 27. mars 1993 Sagnabrunnur Katrín gamla frá Sléttu I Katrín var nægjusöm og gerði ekki miklar kröfur til lífsins. Það eina sem hún brúkaði í óhófi var neftóbak og ef hún hafði það ekki varð hún viti sínu fjær. Æddi hún þá stundúm út í illfært veður til að sníkja tóbak. Níels Níelsson, vinnumaður á Brúnastöðum í Fljótum, drukknaði í Miklavatni og sá Katrín þann atburð fyrir eins og marga aðra. kki ósjaldan hefur mað- ur heyrt um fólk, eða lesið um í bókum, að það sé þeim eiginleikum _________búið, að geta sagt fyrir um óorðna atburði eða það sé gætt eins konar fjarhrifum, sem venjulegt fólk verður ekki vart við. Ein slík kona var til heimilis á Sléttu í Fljót- um skömmu eftir aldamótin Katrín að nafni Halldórsdóttir. Frásögn hennar skrásetti 18. október 1927 Björn Pétursson frá Sléttu í Fljótum í Skagafirði, en hann fluttist til Ameríku. Á uppvaxtarárum mínum á Sléttu í Fljótum var til heimilis hjá foreldrum mín- um kerling ein, Katrín að nafni, Halldórs- dóttir. Hún var í mörgu einkennileg í hátt- um og öðruvísi en fólk er flest. Ég var of ungur, þegar við vorum samvistum, til að veita athygli ýmsu einkennilegu í fari kerl- ingar. Þó sannfærðist ég um, að henni vitrað- ist fleira en flestum, sem ég hefi kynnst um ævina. Hún þóttist oft sjá dauðra manna svipi og fleira, sem flestum er falið sýn. Það kom oft fyrir, að hún að morgni sagði, hvaða gestir kæmu þann dag, og gekk það oft eftir. Katrín giftist aldrei, en var þó ekki meykerling. Hún eignaðist dóttur, þegar hún var á léttasta skeiði lífsins, en hún missti hana á barnsaldri. Hún var dýravinur mikill og gat ekki séð skepnu aflífaða. Einnig var hún mjög barngóð og sagði mér stundum mikið af ævintýra-, álfa- og útilegumannasögum, draugasögur vildi hún aldrei segja mér, því að slíkar sögur væru ekki fyrir börn. Neftóbak það eina sem hún brúkaði í óhófi Oft kom það fyrir, einkum í skammdeginu á vetrum, að hún snerti varla matinn, sem henni var skammtaður að deginum. Geymdi hún hann til næstu nætur og þá sat hún stundum hálfa nóttina og gæddi sér á dagsfóðrinu. Rausaði hún þá mikið við sjálfa sig og þuldi vers og bænir. Katrín var nægjusöm og gerði litlar kröfur til lífsins. Mun hún stundum ekki hafa setið við alls- nægtaborð í lífinu, eins og fleiri á þeim árum, sem eyddu ævinni í misjöfnum vist- um. Það eina, sem hún brúkaði í óhófi, var neftóbak, og ef hún hafði það ekki, varð hún viti sínu fjær. Æddi hún þá stundum út í illfært veður, ef hún vissi af heimili, þar sem hún hélt, að neftóbak væri fáan- legt. Hún kunni mikið af vísum og kvað oft, en þegar hún var tóbakslaus, kvað hún aldrei nema sömu vísuna. Mátti hafa það til marks, að þegar kerling fór að raula þá stöku, þá var pontan tóm. Höfundurinn er mér ókunnur, en vísan er svona: Margt er það, sem beygir brjóst. Brattan geng ég rauna stig. Kristur, sem á krossi dóst, kenndu nú í brjóst um mig. Eitt sinn er kerling var tóbakslaus, bjóst hún til ferðar fram í Fljót. Þekkti hún þar ýmsa, sem tóku í nefið, en bar þó best traust til tveggja karla, sem sjaldan urðu örbirgir af tóbaki. Þegar hún kom heim, spurði ég hana, hvort karlarnir hefðu get- að bætt úr tóbaksþörf hennar: „Ég held nú síður,“ svarar Katrín, „þeir áttu ekkert nema í pungunum, herra Jesús“. Karlar þessir, ásamt fleirum, geymdu neftóbak í eltum hrútspungum og fylltu ponturnar, þegar þær tæmdust. „Ofan af mér bölvaður“ Vormorgun einn, um miðjan sauðburð, lá ég vakandi í rúmi mínu, í sauðalegum hug- leiðingum. Ég var að hugsa um, hverjar af ánum myndu hafa borið um nóttina, og geta mér til um litinn á lömbunum. Jörð var alauð og veður hið blíðasta, var því hætt að hýsa fé. Beið ég með óþreyju eftir að smalinn klæddist og vitjaði fjárins, því ég ætlaði með honum. Katrín svaf í rúmi beint á móti mér og hraut mikið þennan morgun. Allt í einu rís hún snögglega upp og segir höstum rómi: „Ofan af mér bölv- aður.“ Steypir hún þá yfir sig pilsi og snar- ast fram úr rúminu, með svuntubleðil í höndunum, sem hún hóf á loft og veifaði fram fyrir sig, eins og hún ræki eitthvað á undan sér. Heyri ég, að hún segir: „Út skaltu á undan mér, ófétið þitt, þó ég sé orðin gömul.“ Ekki sé ég neitt, nema Katrínu með svuntuna á lofti. Þótti mér nóg um aðferð- irnar og hélt helst, að kerling væri að verða vitlaus. Hélt hún svo rausandi fram göng og út á hlað. Eftir litla stund kemur hún inn, og var þá flest af fólkinu vaknað og farið að klæðast. Var þá kerling spurð, hvað raskað hefði ró hennar, og því hún hefði svo snögglega brugðið blundi. „Ég vaknaði við það,“ svaraði Katrín, „að kálfur stökk upp í rúmið til mtn og lagðist ofan á mig. Ég þekkti tudda og var lítið gefið um slíka yfirsæng. Grunar mig, að ekki líði á löngu, þangað til einhver kemur, sem Þorgeirsboli fylgir.“ Laust fyr- ir hádegi þennan dag kom kvenmaður, sem Sólveig hét Magnúsdóttir, Þorgeirs- sonar, Þorgeirssonar þess, er átti að hafa vakið upp bola, sem við hann er kenndur. Hún var lasin og bað að lofa sér að leggja sig fyrir. Var það fúslega veitt, og henni vísað í rúm Katrínar. Hvíldist hún þar fram eftir degi og hresstist svo, að hún gat haldið áfram ferð sinni. „Það var feigðarfegurð á manninum“ Það var sunnudag einn snemma vetrar, að messað var að Stóra-Holti í Fljótum. Veð- ur var stillt og bjart og gangfæri hið besta. Sóttu því margir kirkju þennan sunnudag. Katrín fór til kirkju, ásamt fleirum af heimilinu. Einn af kirkjugestunum var Níels nokkur Níelsson, er var vinnumaður á Brúnastöðum í Fljótum. Hann vár vand- aður og vel látinn, en þótti ekki fríður maður. Þegar heim var komið frá kirkj- unni, fer Katrín að tala um, hvað hann Níels á Brúnastöðum hafi verið einkenni- lega fallegur í dag. Spyr hún þá, sem til kirkju fóru, hvort þeir hafi ekki tekið eftir þessari óvanalegu fegurð á manninum? Nei, enginn hafði tekið eftir neinni yfir- litsbreytingu á Níelsi, nema Katrín. Segir þá kerling: „Það sannast á ykkur, að sjá- andi sjáið þið ekki. Ég get fullvissað ykkur um, að það var feigðarfegurð á manninum í dag, og skyldi mig ekki undra, þó hann lifði ekki þessa viku á enda.“ Þetta var tekið, sem hvert annað kerlingarhjal og því lítill gaumur gefinn. En ég man, að mér þótti orðið „feigðarfegurð" einkenni- legt orð, enda man ég ekki eftir að hafa heyrt það af annarra vörum. Næsta morg- un drukknaði Níels ofan um ís í Mikla- vatni í Fljótum. „Mér vitrast stundum það, sem öðrum er hulið“ Á þessum árum og lengi þar á eftir voru á vetrum stundaðar hákarlaveiðar frá Fljót- um og víðar af Norðurlandi. í þær veiði- farir voru brúkuð stór, opin skip, sem köll- uð voru vetrarskip. Ekkert skýli var þá á skipum þessum og engin hitunartæki. Höfðu menn oft kalda og harða útivist í þeim svaðilförum og langar og dimmar nætur. Björn Þorleifsson, sem lengi bjó í Stóra-Holti í Fljótum, átti skip og hélt því út sjálfur. Einn af hásetum hans var Jóhann Magn- ússon, þá til heimilis á Sléttu. Hann var giftur Sigríði Jónsdóttur, föðursystur minni, og bjuggu á þriðjungi jarðarinnar, á móti foreldrum mínum. Hafði Sigríður tekið þann part að erfðum eftir föður sinn látinn. Þá var það á góu veturinn 1878, að skip öll úr Fljótum lögðu út í legu í stilltu veðri, en veðrabrigði eru oft snögg á ís- landi á vetrum, og eins var í þetta sinn, því tæpu dægri eftir að skipin fóru, skall á ofsa vestanrok. Urðu margir kvíðafullir um, hvernig skipunum myndi reiða af í slíku veðri. Fljótaskipin öll hleyptu á Siglufjörð, nema Holts-skipið, til þess spurðist ekk- ert, eins langt og fréttir Sárust. Var því tal- ið víst, að það hefði farist. Rokið varaði í viku, með mismunandi veðurhæð. Að þeim tíma liðnum missti Hræsvelgur vængjaþrótt, svo að dúnalogn varð allra átta. Það var eins og náttúran væri að hvíla sig eftir undangengnar hamfarir, því ekki blakti hár á höfði. Undi ég lítt inni þann dag, því hljótt var yfir heimilinu. Þótti mér frjálsara að renna mér á skíðum en sitja við að þylja kver og biblíusögur undir ströngum kennsluaga, þó að ekki væri skólinn annað en heimilið. Síðla dags kemur Katrín til mín og segir við mig: „Jóhann er á lífi og við góða líðan, en ekki mun hann eiga mörg ár að baki, og líklega ekki marga mánuði.“ Ég mun hafa veitt þessari spásögn litla athygli, en spurði þó kerlingu, hvernig hún gæti vitað það, sem ekki væri fram komið, hvort hana dreymdi fyrir óorðnum atburðum. „Mér vitrast stundum það, sem öðrum er hulið," segir kerling. Ánnað svar fékk ég ekki. Næstu nótt kom Jóhann heim. Þeir höfðu hleypt til Flateyjar á Skjálfandaflóa og voru þar við góða líðan, þar til veður lægði, og þeim gaf heim. I seinustu vetrarviku þetta sama ár mannaði Jóhann sexæring og fór vestur á Skaga til rekaviðarkaupa. Hann hafði áður verið búsettur vestra, bæði á Illugastöðum í Ytri-Laxárdal og einnig á Hrafnagili og átti marga kunningja á þeim slóðum. I þeirri ferð veiktist hann af lungnabólgu og dó eftir vikulegu á Ytri-Mallanda á Skaga. Rættist þannig spá Katrínar. Engum, sem þekkti Katrínu, og þótt hún þætti einkennileg í háttum og á marg- an hátt öðruvísi en fólk er flest, datt í hug að rengja þessa fyrirboða - og fjarhrifagáf- ur svo áberandi voru þær í fari hennar.

x

Dagur

Beinir tenglar

Ef þú vilt tengja á þennan titil, vinsamlegast notaðu þessa tengla:

Tengja á þennan titil: Dagur
https://timarit.is/publication/256

Tengja á þetta tölublað:

Tengja á þessa síðu:

Tengja á þessa grein:

Vinsamlegast ekki tengja beint á myndir eða PDF skjöl á Tímarit.is þar sem slíkar slóðir geta breyst án fyrirvara. Notið slóðirnar hér fyrir ofan til að tengja á vefinn.