Þjóðviljinn - 02.12.1982, Blaðsíða 6

Þjóðviljinn - 02.12.1982, Blaðsíða 6
6 SÍÐA — ÞJÖÐVILJINN Fimmtudagur 2. desember 1982 í ætt við andlega rúst Hjartað býr enn í helli sínum Höf. Guðbergur Bergsson Útg. Mál og menning. Furðusöguna Hjartað býr enn í helli sínum tileinkar Guðbergur Bergsson sjálfum sér og er það nokkuð vel við hæfi. Þetta er furðusaga og þar er furðulegur maður settur inn í furðulegar að- stæður sem þó eru hversdaglegar. Fráskilinn karlmaður hundeltir eiginkonu sína fyrrverandi með til- heyrandi lögregluafskiptum og veseni. Lesandi hlýtur að geta sér þess til að furðan í sögunni eigi að vera sú tæknibrella sem sýnir les- anda hversu hlálegir og í raun furðulegir slíkir hversdagsatburðir geta verið. Við upphaf sögunnar hefur sál- fræðingurinn, sem er aðalpersóna hennar, gefist upp á sambýlinu við félagsfræðinginn konu sína. Síðan það gerðist hefur hann hrakist á milli forstofuherbergja í íbúðum fráskildra kvenna. Þær leigja allar út slík forstofuherbergi handa frá- skildum körlum sem áður voru eiginmenn einhverra annarra kvenna. Því fleiri heimili sem þessi maður eignast, þeim mun heimilis- lausari verður hann; því lengra sem líður frá skilnaði þeirra hjóna, þeim mun háðari konu sinni virðist hann verða. Það mætti hugsanlega ímynda sér að við hvert forstofu- herbergi verði honum ofurlítið ljósara en áður hve óralangt hann er frá því að standa undir sjálfum sér. Guðbergur Bergsson skrifar af- skaplega heillandi texta. Það þarf að minnsta kosti heilan dag að jafna sig og hætta að sjá allt með sömu augum og Guðbergur þegar maður hefur lesið bók eftir hann. Ég held satt að segja að ein helsta skýringin á þessu sé óvenju mark- viss notkun á myndlíkingum eins og raunar má sjá í dæmunum sem notuð eru í þessu bókmenntaspjalli en auðvitað kemur margt til. Sagan hefst á því að sálfræðing- urinn flytur inn í eitt af þessum um- ræddu forstofuherbergjum. Þegar húsgögnin hans, snjáð og brotin eftir flutninga undanfarinna vikna, eru komin í þennan venjulega haug á miðju gólfinu þá sest þessi maður á stól úti í horni og tuldrar fyrir munni sér: O, ósköp er þetta drasl manns ömurlegt þegar það liggur svona formlaust í haug á gólfinu og maður er nýfluttur. Petta eru ekki húsgögn heldur einhver sérstök tegund af drasli og í œtt við andlega rúst, tákn fyrir mann sjálfan og hugarástand. Petta er hugarástand mitt, hlut- kennt í haug á gólfinu. Það má eiginlega segja að þarna sé sleginn sá tónn sem síðan fylgir þessum manni út bókina. Hann er stöðugt á röltinu að reyna að ná fundum fyrrverandi konu sinnar, en það tekst honum auðvitað ekki frekar en annað. í hans augum er þessi kona eitthvað allt annað en hún er í sínum eigin, og þeim er líklega ekki skapað nema skilja, Guðbergur Bergsson rétt eins og Tristan og ísönd forðum. Það má ljóst vera af lestri bókar- innar að höfundurinn vill draga dár að þessum manni og vafasamt að hægt sé að tala um íróníska að- ferð vjð gerð þessarar bókar eins og útgefendur gera á bókarkápu. Til þess að sköpun einhverrar pers- ónu geti kallast írónísk þá verður að vera í henni írónísk vídd þannig að lesandanum gefist raunverulega kostur a að skilja megindrætti pers- ónunnar á tvo vegu. Það er hins vegar vandlega gengið frá því að þessi maður sé asni og tilfinningalíf hans hlálegt og nægir kannski að benda á að þetta er sálfræðingur sem ræður ekki við einfalda pers- ónulega klípu hjá sjálfum sér. Þeg- ar því er svo bætt við hve fáránlega kvensnift hann eltir út alla bókina þá þarf varla frekari vitna við í því efni. Nú er það kannski gott og bless- að að gera þennan mann að sál- fræðingi sem ekki getur leyst sínar eigin geðflækjur, en skelfing finnst mér að ég hafi heyrt þetta oft áður. Þetta minnir á alla bölvuðu komm- ana sem kaupa sér íbúð þó þeir boði blankheit eða bókmennta- gagnrýnendurna sem kunna ekki að skrifa bækur eða prestana sem þykjast vera heilagir, en ríða svo í laumi, bölvaðir dónarnir. Þennan gamalkunna flokk hneykslunar- hellna fyllir sálfræðingur Guðbergs og raunar félagsfræðingurinn kona hans líka. Mér finnst þetta satt að segja ósköp metnaðarsnautt. Þó kann vel að vera að þetta fíti íhalds- púkana sem hafa stöðugar á- hyggjur útaf fólkinu sem mennt- ast og heldur svo að það sé eitt- hvað bara af því að það hefur náð sér í einhverja þekkingu. Mér finnst með öðrum orðum ádeila Guðbergs og háð á þennan mann missa gildi sitt í því hve algjör bjáni maðurinn er, - í fari hans rík- ir furðan ein. Ef rithöfundur ætlar að deila á samborgara sína með beittu háði þá dugir skammt að hæðast að því sem allir geta sam- einast um að sé afkáralegt, en eng- inn tekur til sín. Það verða lítil tíð- indi úr því. Kristján Jóh. Jónsson skrifar um bókmenntir Kvenlýsingar Aumingja sáfræðingurinn var giftur rauðsokk áður en hann lenti á flakki milli forstofuherbergja. Áður en vikið er að henni er kann- ski rétt að minnast á aðrar kvenlýs- ingar í þessari bók. Sé gripið til stíls Guðbergs Bergssonar má kannski lýsa þeim þannig að stundum þegar höfundurinn vill vera hvað gáskaf- yllstur þá er það samt ekki svala- lind gáskans sem hann býður manni að drekka af. Það sem til manns rennur er mengað af hatri og ótta. Ég get ekki alveg gert mér grein fyrir því hvort þetta er þjóð- legt og minnir á hrælækina sem ís- lenskir bændur hafa löngum sötrað vatnið úr og talið tært, eða hvort hér er eingöngu á ferðinni þetta blessaða tvíeðli alls sem er. Hvað sem því líður þá vill einhvern veg- inn þannig til að obbinn af þeim konum sem Guðbergur Bergsson lýsir í þessari bók, eru miðaldra, taugabrjálaðar, feitar, árásar- gjarnar, heimskar og ljótar. Nú hef ég í sjálfu sér ekkert á móti því að Guðbergur Bergsson lýsi konum svona. Ef honum finnst þetta, ef þetta er siðferðilega rétt útfrá sjón- armiði þess sem skrifar, eins og einhvers staðar segir í bókinni, þá er mun heiðarlegra að segja frá því á bók heldur en velja sér eina konu til að níðast á og gera svona eins og Guðbergur lýsir. Þeir eru raunar ófáir þeir garpar þessarar þjóðar sem á sínum tíma fóru að búa með sprækri og lífmikilli stelpu, en standa nú frammi fyrir skrímsli af því tagi sem Guðbergur lýsir, og hvernig skyldi nú standa á því? Ef einhver skyldi efast um það sem ég hef verið að segja þá er rétt að láta nokkrar tilvitnanir fljóta með: Konan var ótrúlega rangeygð með Ijóst litað hársem var rautt í rótina og stóð í ógurlegum strók upp af hnakkanum líkast bólstr- uðu sœtisbaki. Augun í höfðinu voru blágrœn og útstœð, áþekk stœkkunargleri á litlu vasaljós- i,...Núna var hún auðsœilega mjúk afvíni og einhverjir hnykl- ar þöktu líkama hennar undir þunnri peysu. „Þetta er hrokk- inn fituskrokkur, “ hugsaði maðurinn.... (20-21) ... .því húðin á andliti konunnar hafði einhverntíma verið mjall- hvít og frauðkennd eins og krembollan sem hún hámaði í sig milli þess sem hún talaði, en nú var húðin orðin grá af reykingum, og manninn sár- langaði til að renna lófa eftir hnyklóttu börðunum á líkama hennar.(22) ....meðan hin konan sveimaði lík suðandi svarblárri flugu í stofunni handan við vegginn. Maðurinn sáfyrir sér fiskiflugu með mannshaus og mikið laust hár á sífelldu njósnarflugi um ganginn. Þegar hún flaug inn í herbergið hans og settist með skínandi vœngi á fjölskyldu- myndina til að skíta á glerið, þá sá hún þau liggjandi á haugnum og flugan fór að hlœja og sletti lafandi rananum. Hún flaug upp og hnitaði hringa og hristi hárið og konuhöfuðið og hló, og það gljáði á svarta skrokkinn sem Ijómaði stundum í öllum regnbogans litum ef Ijós skein á hana. I lokin dritaði flugan ekki á myndina heldur á manninn, og flaug burt með hlakkandi suði og slengdi til sogrananum á höfðinu. Konan hrinti manninum frá sér og sparkaði ótt og títt ýmist í hann eða út í loftið og fór ham- förum á rúmpallinum. Hún stökk í tryllingi fram á gólf hlunkaðist um ráðvillt, og hold- ið hristist utan á henni þótt ann- ars líktist hún risastóru hvítu kerti með storknað vax á hliðunum... Dóra Dóra, félagsfræðingur og fyrr- verandi eiginkona sálfræðingsins, tekur eðlilega meira rúm í bókinni en annað kvenfólk. „Hárfínt“ háð höfundarins virðist mér vera á þá leið að konur sem hafa tekið upp einhverja baráttu fyrir sínum rétt- indamálum og halda því fram að þær séu fyrst og fremst konur, þær skilja ekki að þær eru í raun að þurrka hið kvenlega burt og frelsa hið karllega í persónuleika sínum. Þær skilja ekki tvíeðlið. Dóru þótti vera skynsamlegt af sér að spyrja og hún stikaði stór- um um gólfíganginum. Maður- inn fylgdi henni eftir með augunum og dáðist að hvað henni hafði teki. t _ 'lega að upprœta allt sem hægt vœri að kalla kvenlegt í fari sínu, og hann hugsaði: „Hún er orðin meira að segja eins og greindar- legurþrjótur í tali eðafáviti.“ (97- 98) Vitundarvakning slíkra skrípa er náttúrlega sprenghlægileg að mati höfundar og leggst sá aulaháttur þó lægst í dýrkun Dóru á ritverkinu ”K.ona þekktu kroppinn þinn,“ Ég æt fylgja hér með stutta lýsingu Guðbergs Bergssonar á því hvernig rauðsokkar líta út þegar þeir stíga í ræðustól og greina frá landlægri kúgun kvenna. Um leið fór logi að leika um kon- una; hún talaði af slíkum eld- móði að logatungur skutust úr munni hennar, ekki sem eitur- tungur úr skolti ófreskju í sögu og hvorki stóð neistaflug né eld- glœringar úr augum hennar, heldur lék bláleitur logi um lík- amann en þó einkum um varirn- ar og um höfuðið ofanvert, og þessi sami bláleiti logi lék um eyru allra kvenna á fundinum og fór mildilegum tungum um eyrnasnepilinn. (100-101) Mér finnst sami þverbresturinn í lýsingum Dóru og ég taldi áður í lýsingu sálfræðingsins. Þetta er vaf- alaust fyndið fyrir fólk sem hatar rauðsokka og óttast málflutning þeirra. Allt það fólk getur efalaust lesið þessar lýsingar sér til góðrar skemmtunar og staðfest með því heimsmynd sína. Mér finnst þetta hins vegar metnaðarlaust íhalds- raus þess manns sem ekki þekkir sitt viðfangsefni. Áður en þessum orðum lýkur er kannski rétt að nefna að aftan á bókarkápunni eru lesanda gefnar þær upplýsingar að: „Heimur sög- unnar er hugarheimur mannsins og frásíignarblærinn því víða óraun- verulegur og draumkenndur." Þétta held ég að geti ekki kallast ,fétt. Þessi lýsing gæti passað við eina bók sem ég man eftir í svipinn, en það er Fljótt fljótt sagði fuglinn eftir Thor Vilhjálmsson. Þar ríkir ein vitund yfir sögunni, er í senn hugarheimur sögumanns og sögu- persóna og kastar annarlegu ljósi á allt sem sagt er frá en hér gegnir öðru máli. Sálfræðingurinn er það sem stundum hefur verið kallað vitundarmiðja; við fylgjum honum eftir og sjáum oftast með hans augum, en höfundur undirstrikar einnig vandlega það í smæð hans sem hann sér ekki sjálfur og þar með verður hann ekki allsráðandi í hugarheimi sögunnar. Dæmi um þetta geta verið sálfræðingshlut- verkið sem áður var rætt og heim- sóknir mannsins til mömmu sinnar og Gunna graða. Síðan missir mað- urinn þráðinn í eigin sögu undir lokin, og virðist mér það rökrétt framhald af öðru skilningsleysi hans. Kápumyndin er einstaklega góð eins og við má búast þegar Sigrid Valtingojer er annars vegar. Kristján Jóh. Jónsson BUNAÐARBANKINN í MOSFELLSSVEIT flytur í húsnæði bankans að Þverholti 1, Varmá föstudaginn 3. desember Nýtt símanúmer 67000 Kaffiveitingar fyrir viðskiptavini allan opnunardaginn Verið velkomin BÚNAÐARBANKI ÍSLANDS

x

Þjóðviljinn

Beinir tenglar

Ef þú vilt tengja á þennan titil, vinsamlegast notaðu þessa tengla:

Tengja á þennan titil: Þjóðviljinn
https://timarit.is/publication/257

Tengja á þetta tölublað:

Tengja á þessa síðu:

Tengja á þessa grein:

Vinsamlegast ekki tengja beint á myndir eða PDF skjöl á Tímarit.is þar sem slíkar slóðir geta breyst án fyrirvara. Notið slóðirnar hér fyrir ofan til að tengja á vefinn.