Þjóðviljinn - 20.12.1983, Blaðsíða 11

Þjóðviljinn - 20.12.1983, Blaðsíða 11
JÓLABLAÐ ÞJÓÐVILJANS 1983 ÞJÓÐVILJINN - SÍÐA 11 Nú búa þau Vigfús og Sigríður kona hans í Egilsstaðakauptúni og una vel hag sínum. Eiðum. Þar rakst ég á Þorstein kaupfélags- stjóra og innti hann nú eftir því hvort hann ætlaði ekki að greiða fyrir mig skólakostn- aðinn. Jú, hann féllst á að greiða fyrir mig fram að áramótum. Þetta varð til þess að ég ákvað að vera í skólanum veturinn út. Nú og það slampaðist einhvemveginn af. Sumarið eftir komst ég í vegavinnu og þá vissi ég nú eiginlega fyrst hvernig peningar litu út. Og þessi vinna gerði mér það mögu- legt að vera einnig næsta vetur í Eiðaskóla, veturinn 1934-1935. Kostamatur steinbítur Eins og ég gat um áðan þá seldi Páll Hermannsson nemendum á Eiðum fæði. Ég skal nú ekki segja hvort það var neitt óeðlilega dýrt. En okkur fannst það nú kannski stundum mega vera betra. Það kom stundum fyrir að Páll fékk steinbíts- bútung frá samþingsmanni sínum, Ingvari Pálmasyni á Ekru. Og hann var nú ekki alltaf ýkja góður. En þegar steinbíturinn frá Ingvari alþingismanni var á borðum þá sagði Páll gjarnan um leið og hann settist til borðs: „Já, mikill kostamatur er nú steinbítur- inn“. Nú gerðist það í þessum fæðismálum að við gengumst fyrir því, nokkrir strákar, að nemendur stofnuðu með sér matarfélag. Við réðum ráðskonu, keyptum fé og hross og svo hljóp matarfélagið af stokkunum en Páll hætti fæðissölunni og varð þetta með góðu samkomulagi á báða bóga. Búskapur og jarðakaup - Hvað tók svo við þegár náminu á Eiðum lauk? Fórstu að heiman eða hvarfstu að búskapnum? - Faðir minn dó 1934. Og það varð úr að við bræður héldum áfram búskapnum með mömmu. Eins og fyrr segir vorum við leiguliðar og jörðin aðeins leigð frá ári til árs. Við vildum gjarna fá jörðina keypta en það var nú meira en að segja það. Við viss- um að Vopnfirðingur nokkur hafði boðið í jörðina og næði hann kaupunum var út um veru okkar á Hallfreðarstöðum. Ég brá mér því til Reykjavíkur með Sigga Árnasyni í Heiðarseli, veturinn 1936, í því skyni að reyna að ná eignarhaldi á jörðinni. Sem ábúendur áttum við rétt á að ganga inn í boð Vopnfirðingsins og gerðum það. Við urð- um að borga jörðina út en fengum ríkis- skuldabréf og allt tókst þetta nú með hjálp góðra manna. Var jörðin á nafni mömmu til að byrja með. Þessi jarðakaup voru mjög góð og heppi- leg fyrir Elías bróður minn, sem var mikill búmaður, enda hefur hann búið á Hall- freðarstöðum síðan og nú eru synir hans tveir að taka við, miklir dugnaðar- og at- gerfismenn. En þetta var kannski ekki eins gott fyrir mig því ég var víst alltaf hálfgerður búskussi, meira gefinn fyrir annað en bú- skap. Það var náttúrlega eins og við mátti bú- ast, að lítið var um að umbætur væru gerðar á jörð, sem var í mjög ótryggri leiguábúð. Túnið var t.d. lítið og allt kargaþýft. Við skiptum túninu og ég heyjaði fyrir mínum skepnum. Móðir mín var hjá mér og yngri bróðir okkar, Valgeir. Upp úr 1940 fór svo að komast skriður á ræktunina bæði hjá okkur og öðrum bænd- um í Tungunni. Þá fékk búnaðarfélagið dráttarvélina, sem Siggi Árnason sagði þér frá og ekki var nú neitt óskabarn allra, svona til að byrja með. Hefði átt að verða smiður - Þú segist ekki hafa verið gefinn fyrir búskap þó að atvikin höguðu því svo, að þú stundaðir hann um árabil. Hvað hefurðu viljað leggja fyrir þig ef allt hefði nú farið að óskum? - Ég hefði átt að leggja fyrir mig smíðar. Ég var mjög hneigður fyrir þær. Eg byggði húsin á Hallfreðarstöðum og lagði í þau miðstöð því þá var Siggi Árna farinn suður. Hann fór hér um allar jarðir og lagði mið- stöðvar og ég tók svo eiginlega við því af honum. Auðvitað var ég enginn fagmaður í þessari grein enda tók ég aldrei nema verkamannakaup og alltaf dagvinnutaxta hvað lengi, sem unnið var, en lét áhöldin borga fæðið, Stundum tók ég ekkert fyrir þessa vinnu, leit þá bara á hana sem greiða við kunningja. Svo dó Halldóra móðir okkar í mars 1962. Við Valgeir hugðumst hokra áfram við búskapinn og ætluðum að skiptast á um að vera heima yfir sumarið. í júní fór hann niður á Seyðisfjörð í síldarvinnu. En það átti ekki fyrir honum að liggja að koma lifandi úr þeirri för. Hann datt skyndilega niður þar sem hann var við vinnu sína og dó litlu síðar. Eiríkur fósturbróðir minn var fyrir sunnan en þegar hann frétti hvernig komið var hér heima kom hann austur og var hjá mér um sumarið. En annars fannst mér sjálfgefið að hætta búskapnum, úr því sem orðið var. Flutt í Egilsstaðakauptún - Og hvað tók þá við? - Tii áð byrja með var nú hugmyndin að flytja suður. Ég gat fengið vinnu þar hjá kunningja mínum. En um þetta leyti var kauptúnið á Egilsstöðum óðum að byggj- ast. Ég átti kost á að fá þar ágæta lóð og það réði úrslitum. Við fórum ekki lengra en hingað í kauptúnið, því varð konan mín fegin. Hana langaði ekki suður og mig raun- ar ekki heldur. Hingað fluttum við svo í júlí 1963. - Hvað fórstu svo að starfa hér í Egils- staðakauptúni? - Mjólkurbússtjórinn, Svavar Stefáns- son, bauð mér að koma til sfn. Það þótti mér vænt um því það gaf mér kost á því að rækj a sambandið við bændur, en þeir höfðu nú einkum verið mínir félagar fram að þessu. Svavar er mesti prýðis maður og mér féll mjög vel að vinna undir hans stjórn. Veturinn 1971-1972, nánar tiltekið á ný- ársnótt, veiktist ég skyndilega, læknir var sóttur. Hann gaf mér sprautu, áhrif hennar entust í klt. og þá fékk ég aðra. Síðan var ég sendur suður með sjúkraflugvél. Það sem að mér gekk, reyndust vera æðaþrengsli og við þau hef ég átt að stríða síðan. Þegar ég svo kom heim fór ég aftur að vinna í Mjólkursamlaginu. Ég var engan veginn samur og áður en Svavar sagði mér að vinna bara þau störf, sem ég treysti mér til að vinna. En það var alltaf miklu meira en nóg að gera og mér fannst að úr því ég væri að vinna þarna á annað borð þá yrði ég bara að ganga í það, sem gera þurfti hverju sinni. - Og hvernig fór það? - Ég þoldi það auðvitað ekki og endirinn varð sá, að ég hætti eftir mánuð. Mér fannst ómögulegt að vera þarna og taka kaup fyrir þá vinnu, sem ég gat ekki með góðu móti unnið. - Og settistu þá alveg í helgan stein? - Nei, það fannst mér nú ekki koma til mála að svo stöddu. Ég fékk vinnu hjá Skógerðinni á meðan hún starfaði og svo hjá Kaupfélaginu. Næst vann ég hjá Prjónastofunni Dyngju. Vann þar við pökkun og frágangi á framleiðsluvörum hennar. Þarna vann ég svo þangað til mér var vísað á dyr vegna einhvers ósamkomu- lags við verkstjórann, sem ég veit þó ekki almennilega í hverju var fólgið. Mér var „Svokomséra Gunnar Benedikts- son á bændanám- skeið á Eiðum. Ýms- um semvoruá námskeiðinu þótti sr. Gunnar varasamur gesturog slæmurog vildu meina honum að tala þar“. sagt upp með þriggja mánaða fyrirvara en ég notfærði mér það ekki. Úr því að ég var óvelkominn þarna þá fannst mér best að fara strax. Og nú er ég farinn af vinnumark- aðnum, orðinn 68 ára gamall. Tek lífinu með ró - Áttu þá við að þú sért alveg hættur * amstrinu? - Já, ég er hættur því. En það er ekki þar með sagt að ég sitji aðgerðalaus dagi'nn út og daginn inn, þótt ég taki þessu nú öllu rólega. Ég brá mér til Reykjavíkur í því skyni að fullnuma mig í bókbandi, ekki þó til þess að lifa af því heldur gríp ég í það svona öðru hvoru. Og það kemur sér vel, bæði fyrir sjálfan mig og aðra. Þetta er ósköp rólegt líf, við erum hér bara tvö nú orðið. En það líta nú svo sem ýmsir góðir og gamlir kunningjar inn til okkar. Við eignuðumst aldrei neitt barnið. Það er nú einhvernveginn svona með þessa ætt að annað hvort eru börnin mörg eða ekkert. En við tókum okkur kjördóttur, Herborgu Gyðu. Faðir hennar og ég erum systkina- synir. Hún er fædd á Hallgeirsstöðum í Jökulsárhlíð og kom til okkar viku gömul. Hún hefur reynst okkur alveg framúrskar- andi vel. Hefur menntast bæði hér heima og í Danmörku. - Er hún búsett hér í nánd við ykkur? - Já, hún er búsett hér í kauptúninu. Mað- ur hennar heitir Sigurjón Bjarnason, Vestfirðingur að ætt og virðast eiga vel sam- an Vestfirðingar og Austfirðingar, ég get tekið undir skoðun Þórarins á Vífilsstöðum á því eins og fleiru. - Hvernig kunnið þið hjónin við ykkur hér í Egilsstaðakauptúni? - Við unum okkur hér ágætlega og hrós- um happi yfir því, að ekki varð af suður- ferð. Og þótt ég væri nú ekki mikill búmað- ur þá verð ég líklega alltaf sveitamaður. Og fari ég eitthvað út úr þorpinu, t.d. um helg- ar, þá liggur leiðin oftast nær annað hvort út í Tungu eða þá þangað, sem hægt er að sjá yfir sveitina, t.d. hérna upp á heiðarend- ann. Svona eru nú ítök sveitarinnar rík f manni. Aldrei í sóknarnefnd en þótti vænt um prestinn - Jæja, Vigfús, kannski við röltum nú of- urlítið til baka og hverfum aftur að veru þinni í Tungunni. Lenturðu ekki í einhverj- um félagsmálastörfum þar þó að þú værir nú nokkuð rauðlitaður? - O-jæja, jú, ekki fór ég nú alveg varhluta af þeim. Ég starfaði nokkuð í hreppsnefnd eftir að Siggi Árna fór suður og þvældist raunar inn í ýmsar nefndir og stjórnir en aldrei var ég þó í sóknarnefnd. Var í stjórn búnaðarfélagsins og skólanefnd með Þór- arni á Vífilsstöðum. - Aldrei í sóknarnefnd, segirðu, fór samt ekki vel á með ykkur séra Sigurjóni á Kirkjubæ? - Jú, mjög vel. Séra Sigurjón, frú Anna og börn þeirra öll, voru ákaflega góðir og skemmtilegir nágrannar. Og við á Hall- freðarstöðum vorum ekki ein um að þykja vænt um þau hjón. Öll sveitin virti þau og dáði. Og. ég efast mjög um að nokkrum presti öðrum hefði tekist að halda þeirri reisn og virðingu í sveitinni sem séra Sigur- jóni. Hann var maður ákaflega vel gerður um flesta hluti. Eiríkur og sr. Gunnar tendruðu glóðina - Hvað varð þess einkum valdandi að þú gerðist sósíalisti, Vigfús? - Það er nú það. Ég hef áður í þessu spjalli minnst á Eirík Stefánsson, fósturbróðir minn. Hann var frá Laugavöllum á Jökul- dal, langt inni á Brúaröræfum. Hann var nokkra daga niðri á Norðfirði og kynntist þar jafnaðarstefnunni og rökum hennar, einkum fyrir tilstilli Jónasar Guðmunds- sonar. Þegar Eiríkur kom svo til baka var hann með heilan hestburð af „Jafnaðar- manninum“ og útbýtti honum á báðar hendur. Og „Jafnaðarmaðurinn" hreyfði við mörgum. Nú, svo kom sr. Gunnar Benediktsson á bændanámskeið á Eiðum. Ýmsum, sem voru á námskeiðinu, þótti sr. Gunnar vara- samur gestur og slæmur og vildu meina hon- um að tala þar. Því fékkst þó framgengt fyrir mestu náð og mun sr. Jakob Kristins- son, sem þá var skólastjóri á Eiðum, ein- stakur ágætismaður, hafa átt mestan þátt í því. Ræða sr. Gunnars kveikti í mörgum, einkum yngri mönnunum. Að þessari gerð bý ég enn og er ekkert minni sósíalisti nú en á yngri árum þó að auðvitað sé margt breytt. Engir hlutir standa í stað og eiga ekki né mega gera það. Hitt er svo annað mál, að það er ekki hægt að afsaka allt með breyttum aðstæðum. Sósíalistar eiga að breyta aðstæðunum en aðstæðurnar ekki þeim. Fyrsta verkalýðs- félag á Héraði - Þegar ég spjallaði við Sigurð frá Heiðar- seli þá minntist hann á að þið hefðuð stofn- að verkalýðsfélag þarna í sveitunum. - Já, það var nú þannig, að Kaupfélag . Héraðsbúa á Reyðarfirði rak sláturhús á Fossvöllum. Þá gerðist það, að mönnum úr þremur hreppum, Jökuldal, Jökulsárhlíð og Hróarstungu, datt í hug að stofna verka- mannafélag. Sjálfsagt höfum við, þessir „rauðliðar", átt megin þátt í því uppátæki. Boðað var til fundar á Fossvöllum og þar mættu þeir Jóhannes Stefánsson og Bjarni Þórðarson frá Neskaupstað, skýrðu tilgang verkalýðsfélaga og ræddu um hlutverk þessa félags. Ýmsir aðrir tóku til máls og voru flestir á því að stofna félagið. Og það var gert. Mig minnir að þetta hafi verið 19. apríl 1945 og þetta var fyrsta verkalýðsfé- lagið á Héraði. En blessað kaupfélagið kom nú til skjal- anna. Það var ekkert sérstaklega hrifið af því, að sveitamenn væru að braska í því að stofna verkalýðsfélag. Auðvitað var ekki hægt að banna það. En forráðamenn kaupfélagsins fóru aðra leið. Sláturhúsið var í Hlíðarhreppi. Þeir héldu því fram, að þessvegna ættu Hlíðhrepþingar forgangs- rétt til allrar vinnu við sláturhúsið og verka- lýðsfélagið breytti engu þar um. Félagið leitaði eftir samningum við Kaupfélagið en það vildi enga samninga og neitaði að viður- kenna félagið á öðrum grundvelli en þeim, að í þeim væru eingöngu Hlíðhreppingar. Jafnframt var til þess mælst, að Hlíðarmenn skrifuðu undir yfírlýsingu þess efnis, að þeir segðu sig úr félaginu. Það gerðu allir nema einn, sem sagðist ekki skrifa undir neitt nema tala fyrst við Sigga í Heiðarseli. Þannig fór nú um þessa fyrstu tilraun til stofnunar verkalýðsfélags á Héraði. Ein- inguna skorti þegar við sterkan mótstöðu- mann var að eiga, allir voru óvanir að starfa í svona félagsskap, bændur ekki nógu bar- áttufúsir og sjálfsagt margir skyldugir við kaupfélagið og kannski hefur það vegið þyngst. Samt sem áður var þetta merkileg tilraun og þó kannski, fyrst og fremst, lær- dómsrík. -mhg

x

Þjóðviljinn

Beinir tenglar

Ef þú vilt tengja á þennan titil, vinsamlegast notaðu þessa tengla:

Tengja á þennan titil: Þjóðviljinn
https://timarit.is/publication/257

Tengja á þetta tölublað:

Tengja á þessa síðu:

Tengja á þessa grein:

Vinsamlegast ekki tengja beint á myndir eða PDF skjöl á Tímarit.is þar sem slíkar slóðir geta breyst án fyrirvara. Notið slóðirnar hér fyrir ofan til að tengja á vefinn.