Þjóðviljinn - 11.01.1984, Blaðsíða 7
Miðvikudagur 11. janúar 1984 ÞJOÐVILJINN - SIÐA 7
Hann var settur lektor í almennri
bókmenntasögu viö Háskóla ís-
lands haustmisserið 1974 í fjarveru
Vésteins Ólasonar, en síðan haust-
ið 1976 hafði hann stundakennslu
við Heimspekideild Háskóla fs-
lands að aðalstarfi, bæði kennslu í
íslenskri og almennri bókmennta-
fræði.
í augum samtíðar sinnar var
Ólafur fyrst og fremst bókmennta-
og leiklistargagnrýnandi, svo mjög
að hann gekk einatt í munni kunn-
ingja og almennings undir nafninu
Ólafur gagnrýnandi eða Ólafur
„krítiker".
Ég hygg og á engan hallað þó að,
staðhæft sé að hann hafi verið áJ
hrifamesti gagnrýnandi okkar s.l.
tvo áratugi.
Hann hafði líka mikinn metnað
fyrir hönd gagnrýninnar sem veiga-
mikils þáttar í bókmenningu og
andlegu lífi þjóðar sinnar. Menn-
ingarleg og vitræn bókmenntaum-
ræða var í hans augum mikilvæg
forsenda þess að búa rithöfundum
lífvænan jarðveg að sá í og vaxa úr.
Þrátt fyrir allt hygg ég að honum
hafi tekist að hefja íslenska bók-
menntaumræðu og gagnrýni á
hærra stig en tíðkaðist fyrir hans
daga.
I smáu samfélagi eins og okkar,
þar sem fámennið gerir bönd kunn-
ingsskapar og klíkuhópa áþreifan-
legri en ella, er hlutskipti
gagnrýnandans ekki öfundsvert.
Til þess þarf bæði kjark og
heiðarleika, ef vel á að fara. Ég
vissi þess aldrei dæmi að Ólafur léti
stjórnast af öðru en eigin þekkingu
og smekk í gagnrýni sinni. Hann
var enginn veiðimaður vinsælda,
og oft hlaut hann að heyra kaldar
kveðjur höfunda og listamanna, er
töldu hann misskilja sig og mis-
túlka. Ef til vill tók hann þau við-
brögð stundum nær sér en hann lét
uppi.
Hugur hans og gáfur voru
gagnrýnin og sundurgreinandi
bæði af eðli og þjálfun. Hann á-
stundaði að láta skýra hugsun og
vitsmunalega afstöðu ráða dómum
sínum. Mér virtist hann stundum á
varðbergi gagnvart huglægri, til-
finningalegri afstöðu, og átti hann
þó sannarlega líka til hæfileikann
að hrífast. Svalt, skýrt mannvit var
honum mikil hugsjón. Það vildi
hann hafa að leiðarljósi í gagnrýni
sinni.
Einstakir leikdómar og bóka-
dómar Ólafs eru orðnir fleiri á
rúmum tveimur áratugum en
tölum taki, en auk þeirra skrifaði
hann ávallt við og við miklar yfir-
litsgreinar í þau blöð og tímarit sem
hann var við riðinn.
Ég minni aðeins á „Þætti um
skáldsögur I-V“ í Alþýðuiblaðinu
1967; „Leikrit og leikhús. Um ís-
lenska leikritagerð eftir 1950“ í
Skírni 1980; „Bækur og bókmenn-
ing I-X“ í Dagblaðinu 1981.
Þá samdi hann kaflann um ís-
lenskar nútímabókmenntir, „Is-
land 1935-1960“, í norrænu bók-
menntasöguna Nordens litteratur
efter 1860, sem kom út 1972 undir
ritstjórn Mogens Brpndsteds.
Eftir hann liggja þrjár frum-
samdar bækur: Æviminningar
Brynjólfs Jóhannessonar leikara,
Karlar eins og ég (1966); ritgerða-
safnið Líka líf (1979), sem var úrval
úr bókadómum hans, og Bækur og
lesendur (1982), sem birtist í rit-
röðinni Stúdia Islandica.
í því riti var hann inni á sviði
bókmenntafélagsfræði, en þar
hafði hann gerst brautryðjandi í ís-
lenskum bókmenntarannsóknum
með hlutdeild að könnunum og rit-
un margra greina, t.a.m. „Bók-
menntir og samfélag eftir 1918“ í
Skírni 1978 og „Bækur á markaði.
Um upplag og sölu nokkurra al-
gengra bóka 1972-76“ í Skírni
1978.
í fræðilegum verkum sínum var
Ólafur hófsamur og varfærinn í á-
lyktunum og forðaðist að krefja
heimildir sínar um meiri svör en
þær gátu veitt. í því birtist dóm-
greind hans og skýr hugsun.
Er hann féll frá hafði hann í
smíðum enn eitt rit um félagslegan
þátt bókmenningar okkar. Skarðið
eftir hann á þeim vettvangi mun
standa ófyllt um sinn.
Ólafur fékkst allmikið við þýðing-
ar. Ég minni á margar vinsælar
sögur eftir Maj Sjöwall og Per Wa-
hlöö í þýðingum hans. Eftir Per
Olof Sundmann þýddi hann
Loftsiglinguna og Tvo daga, tvaer
nætur og eftir Henrik Tikkanen
Brennuveg 8.
Eftir rösklega aldarfjórðungs
kynni á ég Ólafi meira að þakka en
flestum öðrum mönnum: Ótal holl
ráð og marga uppörvun við þau
störf sem ég hef unnið - öðru fram-
ar þó flekklaust og opinskátt vinar-
þel.
Yfir minningar mínar um hann
ber birtu af ljósi vitsmuna hans, og
þekkti ég þó einnig andhverfuna í
fari hans, þegar náttmyrkur angistar
fyllti hug hans á stökúm stundum
og ljósið hvarf í djúp örvæntingar.
Vel man ég þau ár þegar absúrd-
leikhúsið frelsaði okkur undan nat-
úralismanum og eitt af vígorðunum
var: - Lífið er draumur. Ætli við
höfum síterað annað skáld oftar á
þeim dögum en Stein Steinarr?
Ég efast um að til sé máttugri
setning í heimsbókmenntunum en
þau orð, sem lögð eru Guði
Drottni í munn, er hann hóf sköp-
un heimsins: - Verði ljós!
Víst er það geigvænleg þversögn
að eygja ljós sköpunar í myrkri tor-
tímingar. Þó væri mér það huggun
ef Ólafur hefði á síðustu svartri
nótt lífs síns öðlast sýn þess
draums, er Steinn kvað um. Þess-
vegna skulu ljóðlínur hans verða
hinsta kveðja mín til Ólafs, um leið
og við Vigdís sendum Sigrúnu,
börnunum hans þremur, Solveigu
systur hans og öðrum vanda-
mönnum einlægustu samúðar-
kveðjur:
Svo dreymdi okkur drauminn
um Ijósið
eina nótt, þegar myrkrið
var þyngra og svartara
en nokkurt sinn áður.
Það var eitthvað,
sem streymdi og rann
með sœlutitrandi sársauka
gegn um sál okkar.
Og augu okkar störðu
sturluð og undrandi
á fölleitan glampa,
sem flökti um sviðið
í óra fjarlægð.
Og einn okkar spurði
í feiminni ákefð:
Hvað er það?
Og annar svaraði
fagnandi rómi:
Ljósið, Ijósið!
Sveinn Skorri Höskuldsson.
Á árunum upp úr 1960 urðu kyn-
slóðaskipti meðal þeirra manna
sem fjölluðu um bókmenntir og
leiklist í íslenskum dagblöðum.
Næstu ár voru tími breytinga og
nýjunga í íslenskri skáldsgana- og
leikritagerð, og á því leikur ekki
vafi að hin nýja kynslóð
gagnrýnenda átti drjúgan þátt í að
greiða fyrir viðtökum þeirra nýj-
unga sem voru á ferðinni. í þessum
litla hóp hafði Ólafur Jónsson
skýran og persónulegan svip, enda
kom hvergi greinilegar fram en ein-
mitt í skrifum hans á þessum árum
að ný gagnrýni hafði rutt sér leið
inn á síður íslenskra dagblaða.
Mikilvægasta nýjung þessarar
gagnrýni hygg ég hafi verið vitund
um það að form er ekki bara bún-
ingur ákveðins efnis eða persónu-
legs boðskapar heldur hluti boð-
skaparins, merkingarbært' í sjálfu
sér. Hjá Ólafi var þetta öldungis
samstiga áherslu á bókmenntirnar
sjálfra þeirra vegna og þeirrar
lífsreynslu sem þær veita án tillits
til þess pólitíska eða siðferðislega
boðskapar sem þær kunna að
flytia.
Á tveggja áratuga ferli sem
gagnrýnandi skrifaði Ólafur
hartnær ótölulegan fjölda greina
um bókmenntir, leiklist og önnur
menningarmál í íslensk dagblöð.
Ég ætla ekki að reyna að gera neina
úttekt á því efni hér. Hann var víð-
sýnn og skarpskyggn, en vitaskuld
gat honum líka missýnst. Aðals-
merki gagnrýni hans voru heilindi
hennar: hann reyndi aldrei að gera
neinum til hæfis, sagði það sem
honum fannst og studdi rökum
sóttum til þess efniviðar sem um
var fjallað.
Ólafur hafði þá sérstöðu meðal
íslenskra gagnrýnenda að hann
gerði sér far um að skrifa alltaf
öðru hverju yfirlitsgreinar þar sem
hann dró saman meginstrauma á-
kveðinna ára eða bókmennta-
greina. Þessar greinar hans verða
varanlegar heimildir íslenskri bók-
menntasögu ásamt mörgum tíma-
ritsgreinum þar sem hann gerði
einstökum verkum og höfundum
rækilegri skil en dagblaðagagnrýni
gaf svigrúm til.
Það má telja óhjákvæmilegan
fylgifisk vandaðrar og kröfuharðr-
ar gagnrýni að gagnrýnandinn ger-
ist málsvari smekks og viðhorfa
sem eru á ýmsan hátt frábrugðin
þeim sjónarmiðum sem ríkja hjá
miklum fjölda lesenda. Þetta getur
orðið óheillavænlegt ef það veldur
dilkadrætti í fínan og ófínan bók -
Jestur. Ólafi Jónssyni var þetta
mjög vel ljóst. Ástríðufullur bók-
menntaáhugi hans beindist ekki
eingöngu að því sem honum fannst
best og líklegast til langlífis, heldur
einnig að lífi bókmenntanna meðal
almennings í landinu, lestraráhuga
og lestrarvenjum. Hann lagði sí-
vaxandi stund á að sinna því sem
hann nefndi skemmtibókmenntir
og notaði vísvitandi þetta heiti sem
með engu móti getur talist niðr-
andi. Áhugi hans á þeim efnum
kom fram bæði í blaða- og tímarits-
greinum, svo og í því að hann sótt-
ist eftir að fá greinar um slík efni í
Skírni. Mikilvægt framlag á þessu
sviði er bókin Bækur og lesendur.
Um lestrarvenjur, sem kom út í rit-
röðinni íslensk fræði 1982. Fleira
hafði hann á prjónunum um svipuð
efni og lagði við þau sérstaka rækt í
kennslu sinni við Háskóla íslands.
Á síðari árum var annað aðal-
starf Ólafs stundakennsla við há-
skólann. Þar var hann góður og
áhugasamur samstarfsmaður.
Ólafur ritstýrði Skírni í sextán ár
og lagði kapp á að tryggja reglulega
útkomu þessa gamla rits og móta
því stefnu sem fræðilegu riti með
megináherslu á bókmenntafræði.
Það vill svo til að ég átti grein í
fyrsta og síðasta árgangi sem hann
ritstýrði og nokkrar þar á milli og
kynntist því vel hve mikið kapps-
mál honum var að efnið og allur
frágangur þess væri sem vandað-
ast. Einu sinn þýddi ég fyrir hann
ritgerð og er ljúft að viðurkenna að
ritstjórinn átti mikinn hlut í endan-
legri gerð þess texta.
Ég skal ekki rekja frekar störf
Ólafs, enda vænti ég að aðrir geri
það rækilegar, en mig langar að
víkja að manninum sjálfum.
Ólafur hafði sérkennilegan svip og
sérkennilega rödd. Hann var þekkt
persóna í íslensku menningarlífi og
tók auk gagnrýni sinnar margvís-
legan þátt í þeim umræðum og
þrætum sem einatt verða um ís-
lensk menningarmál. Ég veit ekki
til að hann hafi nokkurn tíma verið
í pólitískum flokki, enda mjög and-
vígur allri hóphyggju og tillitssemi
sem slíkri þátttöku getur fylgt.
Skynsemi sinni einni vildi hann
lúta. Margir töldu Ólaf neikvæðan
í skrifum sínum og það var vinsæll
brandari hjá leikurum að segja að
honum leiddist í leikhúsi. Hvort
tveggja var fjarri sanni. Ólafur
hafði einlægan og jákvæðan áhuga
á vexti og viðgangi íslensks menn-
ingarlífs og ódrepandi áhuga á
leikhúsi. En hann var alltaf
vitsmunalegur og forðaðist tilfinn-
ingasemi í málflutningi sínum og
sveigði ekki undan í rökræðu þegar
hann hafði mótað sér afstöðu.
Þetta gat valdið því að mönnum
þætti hann þurr og einstrengings-
legur. Slíka gagnrýni bar hann
karlmannlega, enda reyndi hann
sem fyrr segir ekki að afla sér auð-
keyptra vinsælda. Hélt fram
skoðun sinni hvort sem óþekktir
eða virtir rithöfundar áttu í hlut,
ókunnugir menn eða vinir og kunn-
ingjar. En undir þessu vitsmuna-
lega og stundum etv. kuldalega
yfirborði var afar tilfinninganæmur
maður og einkar hlýlegur og þægi-
legur í öllum persónulegum sam-
skiptum. Vera kann td. að nem-
endum hans hafi stundum þótt erf-
itt að snúa honum á sitt mál í rök-
ræðu um bókmenntir en hitt veit ég
að þeir hafa fundið að hann var
þeim ætíð persónulega velviljaður
og raunar mildur dómari, þegar til
þess kom.
íslenskt menningarlíf varð fá-
tæklegra við skyndilegt fráfall
Ólafs Jónssonar. Ég votta aðstand-
endum hans dýpstu samúð.
Vésteinn Ólason
Ólafur Jónsson er ekki lengur á
meðal vor. Það eru hörð tíðindi,
óblíð örlög. En eftir lifir minningin
um ógleymanlegan mann og vin,
stórbrotna persónu sem setti svip á
samtíð sína og umhverfi.
Ólafur Jónsson fæddist 15. júlí
1936 í Reykjavík og var því ekki
nema 47 ára gamall þegar hann lést
2. janúar s.l. Hann var sonur hjón-
anna Ásgerðar Guðmundsdóttur
frá Lundum í Stafholtstungum og
Jóns skrifstofustjóra Guðmunds-
sonar prests í Gufudal Guðmunds-
sonar. Ólafur lauk stúdentsprófi
1956, stundaði háskólanám í
Stokkhólmi 1957-62 og starfaði síð- ■
an sem blaðamaður og ritstjóri í
Reykjavík til æviloka, auk þess
sem hann var um skeið kennari við
Háskóla íslands. Hann var tví-
kvæntur og lætur eftir sig þrjú
börn.
Æviferilsskrá, rakin á þennan
stuttaralega hátt, segir ekki mikið
um Ólaf Jónsson. Hún segir ekkert
um fjölþætta hæfileika hans og
leiftrandi gáfur, ekkert um
mannkosti hans, ekkert um verk
hans og athafnir eða áhrif hans á
aðra. Og hún segir heldur ekkert
um bresti hans og veikleika. í raun-
inni segir hún minna en ekki neitt.
Ólafur Jónsson var bókmennta-
maður. Hann lifði og hrærðist í
bókmenntum allt sitt líf. Þegar ég
kynntist honum fyrst, fyrir réttum
30 árum, var hann orðinn óvenju-
lega fjöllesinn f innlendum og er-
lendum bókmenntum, bæði sam-
tímabókmenntum og bók-
menntum fyrri tíma. Hann skapaði
einnig bókmenntir sjálfur, orti ljóð
og skrifaði sögur, sem hann hlaut
viðurkenningu fyrir. Hann þótti
óvenju efnilegur á því sviði miðað
við aldur. Að loku stúdentsprófi
starfaði hann fyrst við blaða-
mennsku og tókst jafnframt á
hendur ritstjórn bókmennta- og
menningaríímarits, Dagskrá; sem
út kom um skeið. I háskóla voru
bókmenntir og bókmenntasaga að-
alnámsgreinar hans, og eftir
heimkomuna tók hann að skrifa
um bækur í blöð og tímarit. Ævi-
starf Ólafs var unnið í þágu bók-
menntanna.
Þegar Ólafur kom heim frá námi
fyrir röskum tuttugu árum voru
skrif íslenskra blaða um bækur
næsta tilviljunarkennd. Dagblöðin
höfðu yfirleitt ekki fastráðna menn
til að skrifa um bækur, heldur birtu
einkum þá ritdóma sem þeim bár-
ust, en þeir voru oft skrifaðir sem
vinargreiði við höfund eða útgef-
anda. Um skipulega úttekt á
bókum og bókaútgáfu var naumast
að ræða. Alþýðublaðið, sem þó óð
ekki í fjármunum þá frekar en
endranær, vildi breyta þessu árið
1963, þegar það fastréð Ólaf til.að
sjá um bókmennta- og leiklistar-
skrif blaðsins. Hann varð þá eini
blaðamaður landsins, sem fast-
ráðinn var til slíkra skrifa; öll
önnur blöð létu sér nægja lau-
samenn. Það má því með réttu
segja að Ólafur hafi verið fyrsti -
og lengst af eini - atvinnu-
gagnrýnandi landsins.
Ólafur hafði mikinn metnað
fyrir hönd gagnrýnenda. Honum
var það kappsmál að þeir sem skrif-
uðu að staðaldri um bækur í blöðin
hefðu með sér samband, litu á sig
sem stétt. Hann beitti sér fyrir því
að stofnað var til sameiginlegra
verðlauna blaðanna fyrir bók-
menntir, silfurhestsins, sem veitt
voru um skeið, en hurfu úr sögunni
í framhaldi þess að sambærilegum
verðlaunum fyrir leiklist, silfur-
lampanum, var komið fyrir kattar-
nef. En starfsmetnaður Ólafs var
þó ekki fyrst og fremst bundinn við
ytra borðið, heldur risti dýpra.
Hann taldi gagnrýnendur hafa
miklu hlutverki að gegna, og hann
vildi að verk væru metin eftir verð-
leikum sínum einvörðungu, ekki
eftir því hvað höfundurinn hét eða
hverrar ættar eða skoðunar hann
var. Mælikvarðinn var þjálfaður og
fágaður smekkur hans sjálfs,
grundvallaður á víðtækri þekkingu
og nánu samneyti við bækur um
langt árabil.
Mörgum þótti Ólafur dómharð-
ur og sumir kveinkuðu sér undan
skrifum hans. En niðurstöður hans
voru ávallt grundaðar og rökstudd-
ar. Umfram allt voru þær þó ávallt
heiðarlegar; þær byggðust á hans
eigin dómgreind og mati á bók-
menntalegum verðleikum, og í
baksviðinu var sú eftirsókn eftir
fullkomnun - ágæti - sem var svo
ríkur þáttur í eðli hans (og sennileg
skýring þess að hann hætti að birta
eigin skáldverk eftir að hann náði
fullorðinsaldri).
Bókmenntaskrif Ólafs eru fram-
lag hans til íslenskrar menningar-
sögu, mikilvægur þáttur í sögu
blaðamennsku og raunar í bók-
menntasögunni líka. Um það fram-
lag munu fræðimenn án efa fjalla
síðar. Á þessari stundu er mér þó
annað ofar í huga: félagsskapur o'g
vinátta um þrjátíu ára skeið. Um
þau mál skal þó ekki fjölyrt að
sinni; til þess er söknuðurinn of
sár. strengurinn of nýlega brostinn.
Ég og fjölskylda mín vottum eft-
irlifandi ástvinum Ólafs Jónssonar
dýpstu samúð við fráfall hans.
Kristján Bcrsi Ólafsson.
Að glugga mínum hníga
hljóðar öldur úr fjarska:
köld stjarnljós
í kyrru náttmyrkri
- að glugga mínum: strönd minni.
Umvafinn lífi
ást, hamingju
gleður mig og seiðir mig
hið glitofna myrkur.
Einn vaki ég. Klukkurnar slá.
Þegar reiðarslag dynur yfir og
orð skortir er gott að geta leitað til
bókmennta, sem segja hið ósegjan-
lega og gefa form þeirri sammann-
legu reynslu sem í má finna nokkra
huggun. Og það geri ég nú þegar ég
kveð vin minn Ölaf Jónsson, svo
alltof snemma, svo alltof fyrirvara-
laust, og reyni að skilja örlög hans.
Á vissan hátt fjalla allar bók-
menntir um dauðann, og eru um
leið tilraun mannsins til að ná út
yfir sjálfan sig og þetta undarlega'
og óskiljanlega líf sem honum er
skammtað. Þær eru líka líf, og
kannski raunverulegra en það sem
við lifum, því að þær veita innsýn í
hugarheima sem eru okkur að öllu
jöfnu lokaðir og sýna samhengi
mannlegra örlaga þar sem takast á
fegurð og sorg, hlátur og kvöl.
Vinátta okkar Ólafs byggðist á
sameiginlegum áhuga okkar á bók-
menntum, og nú þegar hann er all-
ur sakna ég ekki aðeins vinar, held-
ur einnig viðmælanda. Við rædd-
um mikið saman um það sem við
vorum að vinna að, og einn ís-
lenskra bókmenntafræðinga tók
hann rannsóknir mínar á bók-
menntum eftir konur alvarlega.
Hefði hann ekki hvatt mig til þeirra
í upphafi er raunar óvíst að nokkuð
hefði úr þeim orðið. Þótt skoðanir
okkar væru oft skiptar og það kæmi
jafnvel fyrir að við deildum hart,
var það alltaf af heilindum og í
fyllsta trúnaði. En oftar kom það
fyrir að umræður væru gefandi,
skemmtilegar. Og margt var órætt,
svo alltof margt. Að missa slíkan
félaga og vin er þyngra en tárum
taki, og ég veit að ég mun alltaf
sakna hans.
Inn yfir strönd mína
óvissa nótt
óvissan dag
mun náttmyrkrið streyma
- ekki stöðvast eins og nú
á björtum glugga mínum
en bylgjast hingað inn.
Horfið frá Ijósum sínum
lokar það augum mínum.
Myrkrið og stjörnurnar kveðjast.
Sigrúnu og Völu litlu, Vilborgu,
Jonna og Halldóri, Sollu og öðrum
ástvinum sendi ég mínar innileg-
ustu samúðarkveðjur. Megi ljóð
Hannesar um ströndina sem snýr
að nóttinni verða þeim einhver
huggun í sárri sorg. Ólafi fylgja
hjartans kveðjur - og óskir mínar
hvar hann gengur.
Helga Kress.