Þjóðviljinn - 20.03.1984, Blaðsíða 8

Þjóðviljinn - 20.03.1984, Blaðsíða 8
8 SÍÐA - ÞJÓÐVILJÍNN Þriðjudagur 20. mars 1984 Hótun um takmarkað kjamorkustríð er meginþáttur í fœlingar- stefnu risaveldanna Albert Jónsson stjórnmálafræðingur, höfundur bókarinnar „Kjarnorkuvopn og samskipti risaveldanna" Markmiðiö með þessari bók er að gera grein fyrir þeim grundvallarat- riðum, sem felast í gagnkvæmri kjarnorkuvopnafælingu risaveld- anna og þeim vígbúnaði sem henni er samfara, sagði Albert Jónsson stjórnmálafræðingur í samtali við Þjóðviljann, en hann er höfundur bókarinnar Kjarnorkuvopn og samskipti risaveldanna, sem er 4. bókin í ritaröð Öryggismálanefn- darumöryggismál. Það tók mig um tvö ár að vinna að þessu verki, sagði Albert, en samhliða vann hann að undirbún- ingi doktorsritgerðar um Þorska- stríðið við London School of Econ- omics, þar sem hann leggur stund á framhaldsnám í alþjóðastjórnmál- um. Ég leitaði víða fanga, og má segja að heimildir mínar fyrir þessu verki séu ferns konar: í fyrsta lagi eru það bækur og tímaritsgreinar sem fjalla um bæði pólitíska og hernaðarlega hlið þessa máls. I öðru lagi er það árbók Alþjóðlegu friðarrannsókarstofnunarinnar í Stokkhólmi (SIPRI) og fleiri hlið- stæð uppsláttarrit og handbækur um vopnakerfi og vígbúnað. í þriðja lagi er það bandaríska tíma- ritið Aviation Week and Space Technology, sem virðist njóta mjög góðra sambanda við stefnum- ótandi öfl í Bandaríkjunum. í fjórða lagi hef ég stuðst við opinber gögn frá Bandaríkjunum sem hafa að geyma mikið magn upplýsinga, t. d. þingáheyrnir frá þinginu í Washington og ársskýrslur varn- armálaráðuneytisins Pentagon. Telur þú að vígbúnaðarkapp- hlaupið og tæknilegar breytingar í gerð vopna hafi orsakað breytingar í samskiptum stórveldanna á síðari árum? Hér hafa ekki orðið á neinar stökkbreytingar en hins vegar má greina ákveðna þróun sem felur í sér að fælingin er í sívaxandi mæli byggð á hótunum um takmarkað kjarnorkustríð um leið og vopnin verða nákvæmari og markvissari. Hér er um mjög varasama þróun að ræða að mínu mati, því hug- myndir og tæknilegur viðbúnaður fyrir takmarkað kjarnorkustríð mun þannig breyta smám saman sambandinu á milli hinnar pólit- ísku ákvarðanatöku og hins hern- aðarlega þáttar. Hingað til hefur beiting kjarnorkuvopna verið talin jafngilda sjálfsmorði. Hugmyndin um takmarkað kjarnorkustríð felst hins vegar í því að sveigja notkun kjarnorkuvopna að pólitískum markmiðum. Fræðilega dregur þessi þróun úr stöðuleika gagnk- væmnar fælingar, og í hættuástandi gæti ákveðið samspil aðstæðna leitt til þess að valdhafar risaveldanna sæju sér ávinning í að verða fyrri til að hefja kjarnorkustríð. Eftir sem áður stæðu þeir frammi fyrir gífur- legri óvissu um möguleika á að ná pólitískum markmiðum með- kjarnorkuvopnum. En eins og ég rek dæmi um í bókinni, þá er sagan full af dæmum um að valdamenn hafa freistast til að horfa framhjá jafnvel augljósum áhættuþáttum við vissar aðstæður. Þessi tengsl á milli hins pólitíska og hernaðarlega þáttar gera það að verkum að nauðsynlegt er að horfa á þróun vígbúnaðarkapphlaupsins frá pól- itískum sjónarhóli ekki síður en hernaðarlegum. Það þarf að horfa lengra en til vopnanna einna. Er ekki fóigin þversögn í hug- myndinni um gagnkvæma fælingu: að tryggja frið með því að hóta ófriði? Jú, auðvitað er þetta þversögn, sem felur í sér hættu. Veikleikinn í röksemdafærslu fælingarinnar felst meðal annars í því að menn þurfa að geta hótað á trúverðugan hátt. Þar með er komið sterk tilhneiging til þess að leita stöðugt nýrra og fullkomnari vopna. Hins vegar geta menn aldrei verið vissir um trúverðugleikann. Eina leiðin til þess að sannprófa hann er styrjöld. Eða grundvallarbreyting á pólitísk- um samskiptum risaveldanna. Rökfræði fælingarinnar er opin og enginn sér fyrir endann á henni. Sjálft vígbúnaðarkapphlaupið á m. a. rætur sínar í þessari hugsun - að tryggja frið með því að hóta ófriði. Er það rétt skilið að þú sért ekki trúaður á að skynsamlcgu viti verði komið á samskipti risaveldanna með samningum um takmörkun vopna og þá sérstaklega kjarnorku- vopna? Ég held að afvopnunarviðræður risaveldanna muni ekki bera ár- angur nema pólitísk samskipti þeirra breytist jafnframt. Við sjáum að viðræðurnar um SALT- samkomulagið stóðu í 10 ár. A meðan þær stóðu yfir var vígbún- aðarkapphlaupið á fullri ferð og menn eru almennt á því að samn- ingaviðræðurnar hafi beinlínis verkað örvandi á vopnakapph- laupið, þar sem menn reyndu að bæta samningsaðstöðu sína með nýjum og öflugri vopnum. Þá eru örlög SALT-II samningsins dæmi um það hvernig pólitísk staða vald- hafa inn á við getur skemmt fyrir árangri. Ég lít því ekki þannig á að það sér einhver trygging fyrir ár- angri þótt menn setjist niður við samningaborð og byrji að tala sam- an. Mín þjálfun í þessum fræðum kennir mér að meta líkur, reyna að horfa á hlutina eins og þeir eru en ekki eins og ég vildi hafa þá. Og ég sé ekki líkur á verulegum árangri á þessu sviði á næstu árum. Þó getur hið óvænta alltaf gerst. Er ekki hugsanlegt að slys eða skyndileg samskiptakreppa risa- veldanna geti knúið fram viðhorfs- breytingu í þessum cfnum, þannig að menn ranki við sér? Jú, það er hugsanlegt. Við sjáum það að Kúbudeilan 1962 leiddi endanlega til þess að fram kom vilji til þess að bæta samskipti risaveld- anna. Árið eftir var t. d. gerður samningur um bann við tilraunum með kjarnorkuvopn í andrúmsloft- ínu, sem markaði ákveðin tímamót í samskiptunum. Þannig geta mikl- ir hættutímar leitt til þess að menn taki við sér. Er um einhverjar afgerandi tækninýjungar að ræða í her- gagnaframleiðslunni sem hafa munu róttækar breytingar í för með sér á samskiptum risaveld- anna? Nei, það tel ég ekki. Þetta er hægfara þróun. Vopnin hafa smám saman orðið nákvæmari. Bæði stýrisflaugar, MX-eldflaugar og fullkomnustu landeldflaugar So- vétmanna geta hæft afmörkuð mikilvæg skotmörk með mikilli ná- kvæmni og eru því vopn sem flokk- ast fyrst og fremst undir viðbúnað fyrir takmarkað kjarnorkustríð. Trident II kafbátaeldflaugar Bandaríkjamanna munu hafa sömu hæfni, og samkvæmt síðustu fréttum munu Sovétmenn vera langt komnir með smíði stýriflauga sem eru sambærilegar við þær bandarísku. Á sama tíma hefur þróunin í fjarskipta- og sjórnkerfum verið ákaflega ör, en „takmarkað“ kjarnorkustríð krefst mjög fullkominna fjarskipta. Sá galli er þó á þessum fjarskiptakerf- um, að þau eru mjög viðkvæm fyrir truflunum og eyðileggingu, og möguleikinn á eyðileggingu þeirra eykur m. a. á freistinguna að vera fyrri til að beita takmarkaðri kjarn- orkuárás. Þannig geta tækniný- jungarnar aukið á óstöðugleikann í heild. Þar við bætist að nú eru í heimin- um viðkvæm svæði þar sem til stór- veldaátaka getur komið hvenær sem er , Persaflóinn, Líbanon og fleiri svæði, einkum í þriðja heiminum. Þegar hættuástand skapast getur komið fram tilhney- ging til þess að losa um þau höft sem eru á heraflanum til þess að auka á viðbragðshæfnina. Við það verður stjórnkerfið viðkvæmara fyrir öllum bilunum og hættan á slysi af mistökum eykst. Þá má í þessu sambandi geta þess að fjar- skipti við kafbáta hafa alltaf verið vandkvæðum háð, og eftir þvf sem meiri áhersla er lögð á að kafbáta- vopn geti gegnt hlutverki í tak- mörkuðu kjarnorkustríði, þeim mun meiri ástæða er til þess að ótt- ast um fjarskiptin við þá. Þú segir í bók þinni að bæði al- mannavarnir og eldflaugavarnir valdi óstöðugleika í samskiptum risaveldanna. Hvers vegna? Raunverulegar almannavarnir eru að mínu mati ekki raunhæfur valkostur, en væri hann fyrir hendi þá veldur hann óstöðugleika að því marki að hann dregur úr trúverð- ugleika hótunarinnar um ger- eyðingu - því endanlega er það þjóðfélag og íbúar risaveldanna sem eru gíslarnir í kerfi hinnar gagnvirku fælingar. Á sama hátt draga eldflauga- varnirnar úr trúverðugleik hótun- arinnar, séu þær tæknilega mögu- legar. Bandaríkjamenn leggja nú töluverða áherslu á rannsóknir á möguleika eldflaugavarna úti í geimnum. Að þessum rannsóknum loknum verða teknar ákvarðanir um frekara áframhald. En það verður að segjast að slíkum eldf- laugavörnum fylgja gífurleg tækni- leg vandamál og jafnvel þótt þau yrðu leyst mundi kostnaðurinn við að koma upp slíkum vörnum verða margfaldur á við það sem kosta myndi að gera þær óvirkar með annars konar vopnum eða fleiri eldflaugum en slíkur búnaður gæti annað. Telur þú að munur sé á afstöðu valdhafa í Bandaríkjunum og So- vétríkjunum til kjarnorkuvopn- anna og hinnar gagnkvæmu fælingar? segir Albert Jónsson stjórnmála- frœðingur Nei, það held ég ekkií grundvall- aratriðum. Kjarnorkusprengjan breytir ekki um eðli eftir því hver heldur á henni. Sovétmenn hafa elt Bandaríkin í tæknilegri þróun vopnanna, þótt nokkur áherslu- munur hafi verið á samsetningu heraflans. Þannig hafa Sovétma- enn mun fleiri landeldflaugar á meðan Bandaríkin hafa lagt meiri áherslu á kafbátaeldflaugar og vopn í flugvélum. Úr báðum her- búðum höfum við heyrt yfirlýsing- ar um hugsanlega beitingu kjarn- orkuvopna í pólitískum tilgangi með „takmarkaða" kjarnorkust- yrjöld í huga og úr báðum herbúð- um höfum við jafnframt heyrt gagnstæðar yfirlýsingar. Stefna beggja virðist einkennast í vaxandi mæli af hernaðarlegum undirbún- ingi sem miðar að því að hafa möguleika á að heyja takmarkað kjarnorkustríð. Þetta er gert til þess að draga úr óvissu, styrkja trú- verðugleika og stöðugleika og reyna að sveigja notkun kjarnork- uvopna í átt til einhverra pólitískra markmiða ef átök brytust út engu að stður. Er um afgerandi mun að ræða á tæknilegri hernaðargetu risaveld- anna eða er hætta á að slíkur mun- ur skapist? Munurinn er að mínu mati ekki afgerandi. Báðir aðilar hafa gnæð kjarnorkuvopna og einungis um fimmti hluti af þeim jafngildum megatonna sem eru í strategíska (langdræga) heraflanum mundi duga til að gjöreyða þjóðfélögum beggja risaveldanna. Á heildina litið ríkir að segja má tölulegur jöfnuður á milli þeirra. Hins vegar hefur bandaríski herinn ætíð haft tæknilegt forskot og yfirburði, en þeir eru ekki afgerandi lengur. Hvað varðar gagnkafbátahernað eru yfirburðir Bandaríkjanna þó miklir. Þar er einnig um aðstöðu- mun að ræða. Sovétmenn skortir til dæmis aðstöðu til þess að koma við kafbátaeftirliti á meðan Bandarík- in njóta slíkra aðstöðu t. d. hér á landi, og njóta aðstoðar banda- manna í Noregi, Japan og víðar. Kafbátar Vesturveldanna eru mjög hljóðlátir og fullkomnir að öðru leyti. Bresk hernaðaryfirvöld hafa lýst því yfir að sovétmönnum hafi aldrei tekistð að fylgja breskum kafbáti eftir, þrátt fyrir ítrekaðar tilraunir. Var það ekki vandkvæðum bundið að fjalla um þessi mál á ís- lensku, þar sem lítil eða engin hefð er fyrir umræðu um hernaðar- tækni á íslensku máli? Jú, þar komu upp ýmis vanda- mál varðandi þýðingu á erlendum hugtökum og tækniorðum. Við þetta naut ég aðstoðar Guðna Kol- beinssonar íslenskufræðings, og kom hann með ýmsar góðar hug- myndir. Til dæmis er orðið fæling nýyrði í íslensku máli í þeirri merk- ingu sem það er notað hér: að tryggja stöðugleika með ógnun. Geta lesendur bókar þinnar vænst þess að geta lagt hlutlægt mat á hápólitískar spurningar um kjarn- orkuvígvæðinguna og stöðu Islands í valdatafli risaveldanna út frá le- stri hennar? Ég veit ekki hvort hún mun breyta skoðunum þeirra sem þegar hafa mótað afstöðu. Hún ætti þó að hafa almennt upplýsingagildi auk þess sem hún er hugsuð sem veg- arnesti fyrir fólk til þess að mynda sér skoðanir um þessi mál. Bókin ætti að geta skapað traustari grund- völl undir almenna umræðu um þessi mál, en mér finnst að stund- um hafi orðið brestur þar á. Flestir mynda sér einhverja skoðun á þessum málum, og óneitanlega varða þau okkur íslendinga jafnt og aðrar þjóðir. ólg.

x

Þjóðviljinn

Beinir tenglar

Ef þú vilt tengja á þennan titil, vinsamlegast notaðu þessa tengla:

Tengja á þennan titil: Þjóðviljinn
https://timarit.is/publication/257

Tengja á þetta tölublað:

Tengja á þessa síðu:

Tengja á þessa grein:

Vinsamlegast ekki tengja beint á myndir eða PDF skjöl á Tímarit.is þar sem slíkar slóðir geta breyst án fyrirvara. Notið slóðirnar hér fyrir ofan til að tengja á vefinn.