Þjóðviljinn - 28.11.1986, Qupperneq 5

Þjóðviljinn - 28.11.1986, Qupperneq 5
VHDHORF Konur - til hvers? Olga Guðrún Arnadóttir skrifar Gegnum þvera og endilanga mannkynssöguna hafa konur nær einatt verið undirokaðar. Störf þeirra bæði heima og heiman hafa skipað lágan sess, hæfileikar þeirra til hvers kyns þjóðfélags- mótunar ekki þótt upp á marga fiska. Sjálfsvirðing kvenna hefur löngum verið í samræmi við þetta. Þær hafa beygt sig undir dóm karlmanna og þeirra mis- vitru forsjá. Það er ekki fyrr en á síðustu 16-17 árum að veruleg breyting hefur orðið á í þessum efnum hér á landi. Á þessum stutta tíma hafa konur náð að stórauka hlut- deild sína í þjóðfélagsumræðunni og efla sjálfsögð mannréttindi sín á ýmsum sviðum. En samt er það hláleg staðreynd, að aukin at- vinnuþátttaka kvenna hefur lagt á stóran hluta þeirra annars kon- ar viðjar en þær voru áður bundn- ar af. Konur sem áður gættu bús og barna í fullu starfi voru að sönnu einangraðar, fjárhagslega og félagslega ósjálfstæðar og per- sónulegum þörfum þeirra þröng- ur stakkur skorinn. Konurnar sem nú fylla m.a. verksmiðjurn- ar, frystihúsin, skólana, dag- heimilin, sjúkrahúsin, elliheimil- in og verslanirnar eru þó raunar litlu betur settar, og að ýmsu leyti verr. Þær slíta sér út fyrir smánar- launin sem karlmennirnir báðum megin samningaborðsins skammta þeim, og eru margar varla matvinnungar þrátt fyrir . .þær slíta sér útfyrir smánarlaunin sem karlmennirnir báðum megin samningaborðsins skammta þeim, og eru margar varla matvinnungar þráttfyrir óheyrilega langan vinnudag... “ óheyrilega langan vinnudag. Það gefur auga leið að konur sem þannig eru blóðmjólkaðar á vinnumarkaðinum eiga lítið af- gangs fyrir persónuleg áhugamál, þátttöku í félagsstarfi og andlega uppbyggingu. Þær hafa engin tök á að mennta sig. Þær eru ekki sjálfra sín ráðandi. Og að auki neyðast þær til að afsala sér upp- eldishiutverki sínu að verulegu leyti, börnin þeirra jafn réttlaus og þær sjálfar, og heimilin eru ekki lengur vettvangur annarra athafna en þeirra sem líkamlegar þarfir krefjast. Einstæðar mæður eru ört vax- andi þjóðfélagshópur. Þær hafa alltaf átt erfitt uppdráttar og þurft að bera byrðar sem margur karlmaðurinn hefði kiknað undan. En mín skoðun er sú að þessar konur þurfi í dag nánast að ganga fyrir kraftaverkum til að lifa af. Stór hluti þeirra eru lág- launamanneskjur sem ekki geta séð sér og börnum sínum far- borða nema með tvöföldu vinnu- álagi. Slík lífsskilyrði þúsunda kvenna og barna í velferðar- samfélagi nútímans eru auðvitað ekkert annað en glæpur. Siðleysi stjórnvalda og hinna svokölluðu „aðila vinnumarkaðarins“ sem reikna launastéttirnar út í þetta foraðsfen með talnastokkum sín- um er óverjandi. Megi sá dagur renna fyrr en síðar að þverpólit- ísku stéttasamráðin verði veitt náðarhöggið og launafólk taki ráðin í sínar eigin hendur. Samtök kvenna á vinnumarkað- inum kveikja von um að konur muni beita sér eftir nýjum leiðum til að ná fram rétti sínum og er það sannarlega ánægjuefni. Þegar ég heyri slagorðin „Kon- ur á þing“ kveikir það ákveðnar spumingar í huga mér. Mér finnst nefnilega felast hættuleg alhæfing í þessum orðum og full ástæða til að íhuga þau nánar. Hvers vegna viljum við konur á þing? Vegna þess að þær séu samnefnari fyrir ákveðnar hugsjónir og baráttum- ál? Vegna þess að þær séu betri en karlar? Öðruvísi en karlar? Eða bara vegna þess að þær eru konur? í mínum huga eru hvorki karl- ar né konur einnar ákveðinnar gerðar. Það eru til valdafíknir karlar (býsna margir, það er satt) og réttlátir og ranglátir, hrein- lyndir, gáfaðir, heimskir, jafn- réttissinnaðir, drottnunargj arnir, harðir og blíðir karlar. Það eru líka til hálaunakarlar og lág- launakarlar. Karlar sem ráða öllu allsstaðar og aðrir sem ráða hvergi neinu. Á sama hátt má gera ráð fyrir ólíkri gerð og stöðu kvenna. Það eru ekki allar konur reiðubúnar að berjast fyrir mál- stað láglaunakvenna þó þær komist í aðstöðu til þess inni á Alþingi. Ef til vill geta konur sameinast í fáeinum afmörkuð- um hagsmunamálum kvenna á þeim vettvangi, en reyndin er sú að kona sem situr á Álþingi sem fulltrúi íhaldsafla og atvinnurek- enda tekur fyrst og síðast afstöðu með þeirri stétt, ekki með öðrum konum. Það er mér persónulega ekkert kappsmál að slíkum kon- um fjölgi á Alþingi. Það kemur á sama stað niður hvort það er karl eða kona sem tekur vondar á- kvarðanir og ver slæman mál- stað. Á hinn bóginn hef ég þá trú að róttækar konur sem líta á kvennabaráttu sem stéttabaráttu og berjast fyrir rétti allra þeirra sem minna mega sín í þjóðfé- iaginu, hvort heldur eru konur, karlar eða börn, - að slíkar konur eigi erindi allsstaðar. Olga Guðrún Árnadóttir er rithöf- undur. Hún er einn frambjóðenda í forvali Alþýðubandalagsins fyrir alþingiskosningar. Af raunum frambjóðenda Einum frambjóðenda í forvali ABR er mér veittur sá sérstaki heiður að fá á mig einskonar mót- framboð. Málflutningur Jóhann- esar Gunnarssonar í minn garð hefur verið með þeim sérstaka blæ sem mótframboð ein hafa: persónulegur og ómálefnalegur. Nú myndi ég ekki hafa farið að ergja mig yfir þessu, nema vegna þess að í nýbirtri athugasemd hans reynir hann að rökstyðja mótframboð sitt með einhverri óljósri vísan til verkfalls B.S.R.B. haustið 1984 og framkomu minn- ar þar. Ég hlýt að hressa uppá minni mitt og Jóhannesar til að reyna að finna skoðunum hans einhverjar haldbærar stoðir. Eins og menn muna voru mjög deildar meiningar innan verka- lýðshreyfingarinnar haustið 1984 um heppilegasta leið til varan- legra kjarabóta. Innan B.S.R.B. var meirih- lutinn hlynntur kröfugerð sem fól í sér háar kauphækkunar- prósentur ásamt vísitölubindingu í einni eða annarri mynd. Sam- tökin voru reiðubúin til að beita verkfallsvopninu til að knýja á um kröfugerðina. Verkamanna- samband íslands og reyndar mjög margir forystumenn innan ASÍvoru þó þeirrar skoðunar að þessi leið væri ekki greiðfær og leiddi trauðla til kjarabóta. Við reyndum að leita leiða sem fólu í sér festingu kaupmáttar með því að binda hendur ríkisvaldsins á ýmsum efnahagslegum sviðum og töldum þá leið geta leitt okkur að skárri og varanlegri niður- stöðu. Við vorum þeirrar skoð- unar að verðbólgan væri einhver mesti bölvaldur lífskjaranna og hana yrði að kveða niður svo hægt væri að bæta lífskjörin. Ég hygg að við höfum ekki enn gert okkur fyllilega grein fyrir þeim hrikalegu skemmdarverkum sem verðbólgan hefur valdið á ís- lensku efnahagslífi og þar með grafið undan lífskjörum í bráð og lengd. Þær miklu „strúktúrskekkjur“ sem við horfum framaní þessa dagana, s.s. í fiskvinnslu, land- búnaði og orkubúskap má að meira eða minna leyti rekja til ákvarðana sem byggðu á verð- bólgugildismati. Þar sem B.S.R.B. var í verk- falli hlaut þungi atburðarásarinn- ar að hvíla á þeim og því varð þeirra leið ofaná að lokum og ASÍ samdi á þeirra nótum. Sé Jóhannes að draga fram þennan skoðanamun annars veg- ar milli VMSÍ og B.S.R.B., þá er það rétt að mín skoðun var ljós frá upphafi og ég sagði frá henni á fundum sem og gerðu ýmsir aðrir úr röðum VMSI og ASÍ. Varla getur skoðanamunur af þessu tagi kallað fram svo furðu- lega athugasemd hjá Jóhannesi allra síst ef litið er til baka og reynslan skoðuð. Skoðanaá- greiningur er eðlilegasti hlutur í heimi ekki hvað síst um jafn mikilvæg mál sem þessi og undar- legt, að maður sem stefnir til á- hrifa í stjómmálum, telji það öðr- um til persónulegs vansa, hafi sá verið annarrar skoðunar en hann. Ég hygg þó að eitthvað annað sé hér á bakvið því Jó- hannes talar um „framkomu" mína í verkfallinu og þá verð ég að viðurkenna að kunna engin svör þar við. Ég skipti mér ekki nokkurn skapaðan hlut af verk- falli B.S.R.B. utan það að fara tvisvar niður að höfn til að draga þar úr væringum milli Dags- brúnarmanna ogB.S.R.B. fólks. Af verkfallinu hafði ég að öðm leyti engin afskipti, enda ekki í mínum verkahring að ráðskast þar með eitt eða neitt. Nóg er nú samt á minni könnu. Mér er því hulin ráðgáta hvað vakir fyrir manninum. Tæplega getur hann verið að gera því skóna að Dagsb- rún hefði átt að fara i verkfall með B.S.R.B. vitandi það, að grundvallar munur var á mati Dagsbrúnar ogB.S.R.B. ákjara- stöðu launafólks. Dagsbrún hefði þá farið í verkfall gegn eigin sannfæringu og eflaust gegn vilja meirihluta Dagsbrúnarmanna. Þó svo að Jóhannesi hafi mis- líkað þessi afstaða Dagsbrúnar, sem honum er að sjálfsögðu heimilt, er mér ómögulegt að hlaða því á mínar herðar. Hann getur skammast út í Dagsbrún og ásakað félagið um svik við ein- hvern ákveðinn málstað en mikið lengra getur hann tæpast gengið. En þetta svarar engan veginn þessari dularfullu ásökun um ó- sæmilega framkomu mína. Þeirri ásökun verð ég því að vísa alfarið heim til föðurhúsanna með til- hlýðilegum þökkum. Framtíð þeirra víðfeðmu al- þýðuhreyfinga sem kenndar eru við verkalýð og samvinnu er undir því komin að mismunandi skoðanir fái að þrífast án þess að úr verði persónuleg deilumál og innbyrðis átök. Alþýðubandalag- ið getur tekið hér að sér pólitískt forystuhlutverk og leitt þessar mikilvægu hreyfingar til nýrrar sóknar. Án iifandi starfs og stöðugs endurmats á markmiðum og Jeiðum geta þær úrkynjast og orðið að lífvana stofnunum. Verði hreyfing að stofnun hættir hún að vera hreyfiafl breytinga og mótunarkraftur hugmynda. Fátt er okkur mikilvægara nú þegar félagsleg hugsun á undir högg að sækja, en ferskar hug- myndir og ný viðhorf. Við megum ekki vera hræddir við nýjungar frekar en við megum óttast að ganga í skrokk á fortíð- inni og draga þar af lærdóma. En svo það sé hægt verður að forðast persónulegan átroðning manna á milli og enn síður að gera þeim upp skoðanir og framferði. Ef við þurfum að deila þá gerum það málefnalega og af hreinskilni. Annar framgangsmáti leiðir til illinda og áframhaldandi deilna. Flokkurinn er ekkert annað en þeir einstaklingar sem mynda hann og þær skoðanir sem hann berst fyrir. Við keppum að því í næstu kosningum að verða að því fjöldaafli, sem áhrif getur haft á þjóðfélagsþróunina. Beitum öll huga, hönd og hjarta til að svo geti orðið. Þröstur Ólafsson MINNING Aðalbjöm Kristbjamarson, Þess gerist ekki þörf að skrifa minningargrein um Aðalbjörn Kristbjarnarson, flugmann, til þess að telja fram kosti hans. Maðurinn mælti með sér sjálfur með framkomu sinni. Aðalbjörn lét skapið ekki hlaupa með sig í gönur, þó oftar en ekki væri full ástæða til þess. Það fór ekki mikið fyrir honum. Áreitni við aðra kunni hann ekki. flugmaður Við vorum kvæntir systrum. Hann var svaramaður þegar séra Garðar Svavarsson gifti mig í Laugarneskirkju. Aðalbjörn var flugmaður hjá Loftleiðum um árabil, m.a. í vöruflutningum til Grænlands árið 1958, þegar við dvöldum á heimili hans um tíma, en hann byggði sér hús að Sigluvogi 15. Synir okkar, Þorsteinn og Jó- hann, voru skírðir á hátíðlegri stund eftir jólamessu í Langholts- kirkju árið 1959 af séra Árelíusi Níelssyni. Það er góður drengur genginn þar sem Addi var. Ég votta að- standendum hans mína innileg- ustu samúð. Halldór Þorsteinn Briem Föstudagur 28. nóvember 1986 ÞJÓÐVILJINN - SÍÐA 5

x

Þjóðviljinn

Direct Links

Hvis du vil linke til denne avis/magasin, skal du bruge disse links:

Link til denne avis/magasin: Þjóðviljinn
https://timarit.is/publication/257

Link til dette eksemplar:

Link til denne side:

Link til denne artikel:

Venligst ikke link direkte til billeder eller PDfs på Timarit.is, da sådanne webadresser kan ændres uden advarsel. Brug venligst de angivne webadresser for at linke til sitet.