Þjóðviljinn - 20.05.1987, Blaðsíða 5

Þjóðviljinn - 20.05.1987, Blaðsíða 5
 Hátt spenntur boginn í óperustíl Þjóðleikhúsið sýnir YERMA eftir Federico García Lorca Leikstjóri: Þórhildur Þorleifsdóttir Leikmynd: Sigurjón Jóhannsson Tónlist: Hjálmar H. Ragnarsson Þýðing: Karl Guðmundsson Mikilúöleg leikmynd blasir við á sviðinu. Fremst til vinstri þrír skáhallir pallar, mislangir, upp af þeim veggir og til hægri langur pallur út af sviðinu - stíf form og ósveigjanleg. í baksýn eru skörð- óttir og hrjóstrugir klettar á strönd sem minna á mynd eftir Dalí. Margt má lesa út úr þessari mynd, til dæmis andstæður stífra forma annars vegar og óhaminna forma hins vegar, sem tjá þær andstæður ósveigjanlegra boða siðmenningarinnar annars vegar og hamslausra hvata náttúrunnar hins vegar sem ásamt með öðru takast á í þessu verki. í þvotta- kvennaatriðinu streymir á eftir miðju sviði úr bylgjandi bláu efni og þá skapast sterk andstæða milli lifandi vatnsins og lífvana hrjóstursins í baksýn. Með þessu móti er leikmyndin mjög ríkur þáttur þessarar sýn- ingar og verður enn sterkari fyrir tilstuðlan magnaðrar, express- jónískrar ljósabeitingar, sem á köflum nálgast súrrealisma, og er ofsafengnum geðsveiflum per- sónanna lýst með skyndilegum og sterkum breytingum á ljósi og litum. Þessi leikmynd, og lýsing Páls Ragnarssonar, er frábært verk og ber þess glöggt vitni hversu öruggum tökum Sigurjón hefur náð á sjónlist leikhússins. Yerma er í eðli sínu harmljóð og minnir um margt á gríska harmleiki, m.a. í notkun kórsins, en stendur um leið traustum fót- um í veruleik spænsks sveita- fólks. Þórhildur Þorleifsdóttir hefur valið býsna róttæka leið til að túlka þessa harmsögu óbyrj- unnar og þetta eilífa drama lífs og dauða. Hún hefur reynt að skapa eins konar „Gesamtkunstwerk“ þar sem mynd, orð, hreyfing, dans, söngur og tónlist renna saman í eitt og allt styður hvað annað til að ná upphöfnum geð- hrifum. Petta er einskonar óperustíll og hann hæfir um margt afskaplega vel stíl og efni leiksins. Það eru sterkar og vold- ugar tilfinningar sem eru á ferð- inni í Yermu, eiginlega stærri en persónurnar sjálfar, þannig að þær verða naumast tjáðar til fulls með raunsæislegri leiklist. Tónlistin í þessari sýningu er því annað og meira en þeir hrif- hljómar sem venja er orðið að hafa til að undirstrika hugar- ástand. Hún er fullgildur þáttur sýningarinnar, notuð til að tjá þær tilfinningar sem fátækleg orð ná ekki yfir. Hér hefur Hjálmar Ragnarsson að mínu viti unnið stórvirki. Tónlist hans er einföld og háttbundin, gædd sterkri og seiðandi hrynjandi, hljómar eins og kröftugur æðasláttur lífsins í hópatriðunum. Hins vegar er hún sársaukafull og þrungin angist í söngvunum er Signý Sæmunds- dóttir flytur af þrótti, íþrótt og innlifun fyrir munn Yermu. Undirleikur er á ásláttarhljóðfæri einvörðungu og er samspil þeirra og raddanna kynngimagnað. Sá einn er ljóður á tónlistarflutningi að í hópatriðunum, einkum því fyrra, er afar erfitt að greina text- ann. Þetta er mjög alvarlegur ágalli þí að þessir textar eru þungamiðja verksins. Vil ég ráð- leggja fólki að lesa þessa texta vandlega fyrir sýningu (þeir eru í leikskránni) til þess að geta notið þessara atriða betur. Það er í hópatriðunum sem þessi sýning er sterkust, enda að- ferð hennar slík að þar renna öll tjáningarmeðulin saman eins og áður er nefnt. í fyrra atriðinu eru konurnar að þvo þvott sinn við ána og syngja um yndi lífsins og kviknunar þess, en erfiðleika óbyrjunnar. Þarna renna mynd, danshreyfingar, tónar og blakt- andi lökin meistaralega saman, en til mótvægis sitja mágkonur Yermu svartklæddar og lífvana neðar við ána. Hér vantar ekki annað en að magnaður texti Lorca skili sér í söngnum til þess að atriðið sé nánast fullkomið. Svipað má raunar segja um seinna hópatriðið þar sem áhrifin eru reyndar enn sterkari, m.a. vegna þess að meira skilst af text- anum. Það hefst með helgigöngu svartklæddra kvenna sem biðja um að þeim megi hlotnast að verða barnshafandi. Síðan tekur við æðisgengin dýrlingahátíð, fí- esta, með dansi og söng sem snýst í kringum tvær verur á háum stultum, kvenveru í brúðarlíni og karlveru með horn eitt mikið í hendi sem reðurtákn. Því að þetta er auðvitað frjósemishátíð. Þetta atriði þótti mér alger hát- indur sýningarinnar og raunar með því áhrifamesta af þessu tagi sem ég hef orðið fyrir. Það er ljóst að þegar boginn er spenntur eins hátt og hann er í óperustíl þessarar sýningar dugir enginn natúralískur hversdags- leikstíll. Hann þarf að vera ýktur og upphafinn. Samt má hann ekki glata jarðsambandi sínu við það óbrotna og safaríka fólk sem hér er lýst. Þetta er nokkuð vand- rataður vegur og það er hér sem manni finnst nokkurs óöryggis gæta af hendi leikstjóra. Sumum tókst þetta að vísu vel, til dæmis var sú gamla guðlausa makalaust mögnuð og upphafin í jarðneskri stærð sinni í túlkun Guðrúnar Stephensen. Og Kristbjörg Kjeld beitti frábærri framsagnartækni sinni meistaralega í sínu hlut- verki. En það var einmitt fram- sögnin sem mest virtist há Tinnu Gunnlaugsdóttur í kröfuhörðu titilhlutverkinu. Hún lék alltof mikið á uppspenntum einhæfum nótum sem urðu ákaflega þreytandi. Hún notaði í sífellu hljómfall sem hækkaði hvellt í setningarlok og vantaði alla breidd og fjölbreytni tilfinninga í raddbeitinguna. Leikur hennar varð stífur og skorti sannfærandi geislun tilfinninga. Svipað má raunar segja um Arnar Jónsson, sem að vísu leikur stífa persónu, en vantaði alltént þónokkuð á að hann hefði þá sterku nærveru sem hann ræður yfir. Pálmi Gestsson var rösklegur og opinn í túlkun sinni á Viktor og Guðný Ragnarsdóttir kom þekkilega fyrir í hlutverki Maríu. Aðra er tæpast ástæða til að nafngreina í þessari geysifjöl- mennu sýningu, en geta verður þeirra stultusnillinga Jóhanns Sigurðarsonar og Jóns S. Gunn- arssonar sem léku listir sínar af prýði (og hugprýði) og sungu af krafti. Þvottakonur voru lifandi og þróttmiklar í hreyfingum og íslenski dansflokkurinn og fleiri dönsuðu af snilld á dýrlingahátíð. Þetta er metnaðarfull og áræðin sýning sem að miklu leyti hefur heppnast ótrúlega vel. Hún sýnir hvers íslenskt leikhúsfólk er megnugt þegar það gerir ítrustu kröfur til sjálfs sín og er sannar- lega spor framávið í leiklist okk- ar. Við sjáum eftir Þórhildi inn f- þingsali. Það er gamalkunnugt að erfitt er að þýða Lorca. Stíll hans er mjög sérkennilegur, í senn ein- faldur og upphafinn, alþýðlegur og skáldlegur. Karl Guðmunds- son, einn af okkar snjöllustu þýð- endum, segir sjálfur að hann hafi lagt sig mest eftir hljómfallinu. Það er vissulega í góðum takti við allan stíl sýningarinnar. Textinn lætur vel í eyrum, mergjaðar og taktfastar setningar. Sverrir Hólmarsson Miðvikudagur 20. maí 1987 ÞJÓÐVILJINN - SÍÐA 5

x

Þjóðviljinn

Beinir tenglar

Ef þú vilt tengja á þennan titil, vinsamlegast notaðu þessa tengla:

Tengja á þennan titil: Þjóðviljinn
https://timarit.is/publication/257

Tengja á þetta tölublað:

Tengja á þessa síðu:

Tengja á þessa grein:

Vinsamlegast ekki tengja beint á myndir eða PDF skjöl á Tímarit.is þar sem slíkar slóðir geta breyst án fyrirvara. Notið slóðirnar hér fyrir ofan til að tengja á vefinn.