Þjóðviljinn - 26.07.1987, Blaðsíða 2

Þjóðviljinn - 26.07.1987, Blaðsíða 2
FLOSI \iku skammtur af léttri öndun Um síöustu helgi fór ég - í Vikuskammtinum - nokkrum orðum um mikið áfall sem greindir menn urðu fyrir, þegar heimskunnar félagsvís- indamaður F. E. Fiedler sýndi fram á það með óyggjandi rökum, í merkum háskólafyrirlestri, að mikið óhagræði væri af því að vera greindur. Ég sagði eitthvað á þá leið að við þessi tíðindi hefði hlaupið mikið hland fyrir hjartað á íslensku intelígensíunni, sem það og gerði, eins og von var. Það er huggulegur andskoti fyrir greinda menn að vera allt í einu leiddir í allan sannleika um það hver vágestur greindin er í búknum á mannskepnunni, kannske bara einsog ónefnd- ur sjúkdómur sem bannar mönnum samneyti við annað fólk. Ef marka má símsvarann minn, þá eru greindir menn í miklu uppnámi útaf þessum skrifum mínum, en sem betur fer getur annar hópur manna „andað léttar“ einsog það er» kallað, en það eru þeir sem aldrei hafa verið plagaðir af þessum margumrædda og um- deilda eiginleika, greindinni. Og víst er að afglapar leika nú við hvern sinn fingur. Eitt af því fjölmarga, sem aukið getur mönnum gleði og lífshamingju, er að fá að anda léttar sem allra oftast á degi hverjum, en einsog allir vita anda menn léttar, þegar verr hefði get- að farið en á horfðist. Líklega hefur hvergi á byggðu bóli verið andað jafn mikið og oft létt og í Reykjavík á síðustu misserum, eða einsog kellingin orðaði það: - Æ oní sí hefur hurð skollið nærri hælum. Og nú er best að fara að koma sér að efninu. Stórir eldsvoðar í miðjum byggðakjörnum borg- arinnar þar sem verksmiðjur fullar af eitri, gasi og eldfimasta glundri sem mannsandinn hefur undir höndum hafa bókstaflega ekki drepið nokkra lifandi manneskju. Verksmiðjurnar hafa bara fuðrað upp um hábjartan dag og svo er guði fyrir að þakka og tryggingunum að enginn hefur orðið fyrir umtalsverðum skaða. Og allir hafa andað léttar. Nú er það svo, að fróðir menn telja að mesta mildi sé að mörghundruð metra radíus kringum umræddar verksmiðjur skuli ekki vera auðnin tóm í dag vegna stórsprenginga í efnageymum og er því víst við að bæta, að ef illa hefði farið hefðu þeir ekki kembt hærurnar sem í næsta nágrenni við eldsvoðana ætluðu að anda léttar. Þeir hefðu ósköp einfaldlega steindrepist af vondum eiturgufum. En sprengingar mældar megatonnum áttu sér ekki stað og eiturgufurnar leystust ekki úr læðingi, svo er guði fyrir að þakka, en ekki almannavörnum, brunavarnamálaeftirlitinu, mengunarvörnum, né skipulagsyfirvöldum. Og líklega láta skipulagsyfirvöld sér þetta að kenningu verða og halda áfram að planta verk- smiðjum og öðrum stórslysagildrum ofaní helstu þéttbýliskjarna borgarinnar. Og allir anda léttar. Nú bíða menn voða spenntir eftir því, hvað skeður þegar kviknar í málningarverksmiðjunni við Skúlagötu og bensínstöðinni sem búin er að standa við sömu götu og í hlaðvarpanum á stærstu timburverslun landsins í heilan mannsaldur, að ekki sé talað um ótal olíu- birgðastöðvar og gasfyllingarstaði, einsog til dæmis birgðastöðvar Olíufélagsins og Olíu- verslunarinnar í örfirisey, Laugarnesi og við Ell- iðavog. Þá er Reykjavíkurflugvöllur, eftir kúnstarinnar reglum, staðsettur í hjarta borgarinnar og þess vegna bíða menn í ofvæni eftir því að einhverj- um fatist flugtak eða lending og flugvél hlaðin farþegum steypist ofaní einhvern þéttbýlis- kjarna borgarinnar. Ekki má gleyma Gufunes- verksmiðjunni, en í kringum hana er óðum að myndast Ijúft og elskulegt mannlíf. í henni er talið að geymt sé sprengiefni sem að afli til er á við hálfa Hírósíma-atómsprengju og helst er að skilja á slysavarnamálaráðunaut- um þjóðarinnar að vel gæti farið svo, ef til tíð- inda drægi í Gufunesi að eiturgufur þaðan dræpu drjúgan slatta af því sem enn dró lífsand- ann eftir sprenginguna. Það má semsagt segja að þegar og ef eldur kemur upp í arðsemistákni íslensku þjóðarinn- ar, Gufunesverksmiðjunni, þá sé eins líklegt að í næsta nágrenni kembi fáir hærurnartil að anda léttar. Nú skilst mér að slökkviliðsstjórinn í Reykja- vík hafi ítrekað varað við því að mannabústaðir væru reistir í nágrenni verksmiðju. Og auðvitað er eina ráðið.til að allir geti andað léttacað flytja alla mannabyggð útúr Reykjavík svo að gúmmí- verksmiðjur, málningarverksmiðjur, bensín- birgðastöðvar, eitur- og sprengiefnaverksmiðj- ur geti brunnið og sprungið í loft upp í friði og án þess að fólk drepist unnvörpum allt í kring. Og þegar búið er að tæma miðbæinn má svo stækka flugvöllinn og gera hann að alþjóðleg- um flugvelli þar sem risaþotur og herflugvélar geta lent. Og svo þegar allt springur þar í loft upp, geta menn nú loksins farið í alvöru „að anda léttara“. 2 SÍÐA - ÞJÓÐVILJINN Sunnudagur 26. júlf 1987

x

Þjóðviljinn

Beinir tenglar

Ef þú vilt tengja á þennan titil, vinsamlegast notaðu þessa tengla:

Tengja á þennan titil: Þjóðviljinn
https://timarit.is/publication/257

Tengja á þetta tölublað:

Tengja á þessa síðu:

Tengja á þessa grein:

Vinsamlegast ekki tengja beint á myndir eða PDF skjöl á Tímarit.is þar sem slíkar slóðir geta breyst án fyrirvara. Notið slóðirnar hér fyrir ofan til að tengja á vefinn.