Þjóðviljinn - 28.07.1987, Blaðsíða 4
LEIÐARI
Vísindin og vinnslan
Hagur íslands stendur og fellur meö fisk-
veiðum og fiskvinnslu. Svo hefur það verið um
aldir, - svo mun það verða um aldir.
Góðu heilli búum við ekki einungis að gjöf-
ulustu fiskimiðum veraldar, - við eigum einnig
því láni að fagna að eiga framsýna og ötula
vísindamenn sem hafa beislað hugvit og
reynslu í þágu veiða og vinnslu.
Við höfum til skamms tíma verið einna fremst
þjóða hvað áhrærirtækni í fiskvinnslu. Á seinni
árum hafa þó samkeppnisþjóðirnar dregið
verulega á okkur. Nú er svo komið að við þurf-
um nokkuð að herða rannsóknaróðurinn, ætl-
um við ekki að tapa af forskoti sem við höfum
samkvæmt hefð í fiskvinnslunni.
Þar kemur til kasta vísindamanna. Á tækniöld
geta þeir hannað og smíðað vinnslurásir sem
nálgast það að vera sjálfvirkar með þeim afleið-
ingum að framleiðni verður miklu, miklu meiri en
núna. Þeir geta sömuleiðis fundið leiðir til að
breyta nýtingu afurða þannig að andvirði þeirra
stóraukist. Þess eru líka ófá dæmi að fyrir hug-
kvæmni vísindamanna hafi tekist að vinna
geysileg verðmæti úr afla sem ella nýttist ekkert
eða illa.
í Þjóðviljanum í dag er þessu lýst harla vel í
viðtali við dr. Grím Valdimarsson, forstjóra
Rannsóknastofnunar fiskiðnaðarins. Stofnun-
in, sem rekur sögu sína allt aftur til ársins 1934,
starfrækir nú 4 útibú í helstu verstöðvum lands-
ins, og hefur í þjónustu sinni um 50 manns.
Flestir starfsmannanna eru með háskóla-
menntun.
Verkefni stofnunarinnar eru dæmigerð fyrir
þau miklu not sem undirstöðugreinar á borð við
fiskvinnsluna geta haft af rannsóknum vísinda-
manna. Þannig greinir dr. Grímur frá aðferðum
sem eru í þróun innan stofnunarinnar, sem
beinlínis munu gera kleift að nýta fiskafla sem
hingað til hefur verið fleygt.
Dæmi um það eru 2000 tonn af tindabikkju,
sem ekki hafa verið nýtt sökum þess að illkleift
hefur verið að roðfletta bikkjuna í vélum. Með
aðferðum líftækninnar hafa nú starfsmenn
stofnunarinnarfundið ráðtil þess, og innan tíðar
munu afurðir 2000 tindabikkjutonna væntan-
lega bætast við þau verðmæti sem íslendingar
afla úr hafi.
Svipaðar aðferðir eru í þróun til að afhreistra
fisk, losa himnur af lifur og vinna innyfli og úr-
gang úr fiski í nýtanlegt form. Tvífrysting, að-
ferðir til að minnka los í holdi fiskjar, og fjölmarg-
ar aðrar arðbærar nýjungar eru sömuleiðis í
þróun hjá Rannsóknastofnun fiskiðnaðarins.
Einfalt dæmi skýrir ef til vill betur en langt mál
hina hagnýtu þýðingu rannsókna stofnunarinn-
ar. Að frumkvæði hennar var þróuð vél sem
getur flokkað fisk eftir ferskleika á svipaðan hátt
og matsmenn gera nú. Vélin hefur þegar verið
reynd og gefið mjög góða raun. Þannig verður
innan tíðar unnt að flokka með sjálfvirkum hætti
heilan togarafarm á skömmum tíma, og bók-
staflega gefa hverjum einstökum fiski einkunn
eftir ferskleika og gæðum.
Tæknin er þegar orðin svo ótrúleg, að það er
skammt til þess að sjálfvirkur vélbúnaður muni
að langmestu leyti sjá um flokkun og vinnslu
afurðanna. Sjálfvirk fiskvinnsla, þar sem
mannshöndin kemur ekki við sögu nema til
stjórnunar, er á næsta leiti. Við þurfum að búa í
haginn fyrir þá þróun, sem mun gjörbreyta
þessari mikilvægu atvinnugrein til hins betra.
Það verður best gert með því að gera vísinda-
stöðvum á borð við Rannsóknastofnun fiskiðn-
aðarins kleift að sinna rannsóknum af enn
meira kappi í framtíðinni.
-ÖS
KLIPPT OG SKORHÐ
Brák
Norræni sumarháskólinn, -
samstarfshópur háskólafólks og
fleiri á Norðurlöndum öllum um
fjölbreytileg verkefni - , heldur
sumarstefnu sína að þessu sinni á
Hvanneyri, og hefjast umræður
ýmsar og skemmtanir um versl-
unarmannahelgina.
í þessu tilefni er gefið út móts-
blað, og hefur því verið valið
nafnið Brák til að minna norræna
stefnugesti á að þeir funda í sögu-
frægu héraði Egils og Snorra.
í Brák er auðvitað fyrst og
fremst ýmislegt efni tengt funda-
höldunum sjálfum, en þar má
líka finna leiðbeiningar til gest-
anna um ísland, íslendinga og
umgengni við þá, og sumar ritað-
ar með glotti útí annað.
Þarfar
ráðleggingar
Ein þessara heitir „Þarfar
ráðleggingar ferðamönnum",
skrifuð á dönsku, og segir þar að
gera megi ráð fyrir að mótsgestir
fari um landið eftir Hvanneyrar-
fundinn til að njóta náttúru
landsins. Það sé varla fær ferð
nema eiga á hættu að rekast á
innfædda af og til, og eru norræn-
um frændum þessvegna gefin góð
ráð um þetta fólk. Ráðlegging-
arnar eru þrjár.
„Fyrsta ráðið er einfalt: Not-
aðu ekki eigið tungumál, og láttu
ekki í ljósi að þú sért Norður-
landamaður. íslensk þjóðarsál er
enn í uppnámi eftir Evróvisjón-
söngvakeppnina þarsem hið
ágæta framlag íslendinga fékk 0
stig - núll stig - frá Dönum, Sví-
um og Finnum, og þetta athæfi
hefur með öllu skyggt á þau
fjögur stig sem bárust frá Noregi.
Þeirri skoðun vex sífellt ás-
megin að íslendingar segi sig úr
Norðurlandaráði, og það eina
sem kemur í veg fyrir að þeir
gangi rakleiðis í Evrópubanda-
lagið er að Danir sitja þar fyrir á
fleti. Enn einu sinni var það stór-
skandínavíska bræðralagið sem
bar sigur úr býtum: Danir, Svíar
og Norðmenn gáfu hverjir öðrum
stig meðan hinar ytri byggðir
Norðurlanda máttu snapa gams.“
Enska með aust-
rænum hreimi
„Reynið frekar að hressa uppá
skólaþýskuna“ ráðleggur Brák
hinum norrænu frændum. „Þann-,
ig fáið þið betri þjónustu og‘
breiðari bros. Þýskir ferðamenn
hafa hingaðtil verið með allra
óvinsælustu gestum á íslandi
einsog víðar, en öldin er orðin
önnur. Nú er ekki lengur kvartað
yfir því hvað þeir stinga miklu í
vasann af kalda borðinu eða syk-
urskálunum heldur verður
mönnum tíðrætt um hið ágæta
menningarlega skynbragð Þjóð-
verja. íslenska lagið fékk nefni-
lega tíu stig frá Vestur-
Þýskalandi.
Ef þýskan ykkar nær ekki máli
skuluð þið láta ykkur nægja ensk-
una, - en þá er sú hætta á ferðum
að hreimurinn svipti hulunni af
uppruna ykkar. Reynið að halda
því fram að þið séuð Hol-
lendingar eða Belgar (íslenska
lagið fékk stig frá hvorum-
tveggju). Finnarnir geta svo
auðveldlega staðhæft að hreimur
þeirra sé í rauninni rússneskur,
sem fellur innfæddum einkar vel í
geð eftir að Gorbatsjof kom, sá
og sigraði á leiðtogafundinum."
Ekki velkomnir
„Ef þið viljið endilega láta
auðmýkja ykkur“ segir Brák við
norræna gesti sína, „getið þið sos-
um reynt að halda fast við eigið
tungumál. Hérumbil típrósent
þjóðarinnar bæði skilur skandín-
avísku og talar, - miklu fieiri ef
þið talið bæði hægt og greinilega,
og næstum allir ef þeir hafa feng-
ið sér nægilega neðan í því. En
nokkurnveginn alstaðar geta
menn bjargað sér á hinni sam-
eiginlegu norrænu tungu, - ensk-
unni.“
Önnur ráðlegging Brákar
hljóðar svo: „Látið ykkur ekki
detta í hug að þið séuð velkomin.
Þessi grunnsetning í sjálfsímynd
allra ferðamanna er enn sjálf-
sagðari á íslandi en annarstaðar
þarsem samkeppnin þvingar
ferðaþjónustufólk til að sýna yfir-
borðslega kurteisi.
Þegar þið komið um langan
veg, aðframkomin af hungri, að
matarstað við þjóðveginn er ekki
að vænta kurteislegrar þjónustu,
heldur eru þurrir og viðbrenndir
hamborgarar framreiddir með
hroka og þjósti sem gefur til
kynna að það séu hundrað kfló-
metrar í næstu búllu, og ykkur sé
guðvelkomið að keyra þangað, -
þar sé þjónustan hvorteðer ekk-
ert betri. Sé það ykkur einhver
huggun: innlendir ferðamenn fá
sömu meðferð, nema vörubfl-
stjórar sem koma við á hverjum
degi.“
Hroki frá
fornu fari
„Hroka innfæddra gagnvart út- ■
lendingum má skýra með tilvísun
til íslendingasagna" heldur Brák
áfram. „í sögunum gera hetjurn-
ar alltaf ferð sína utan og er tekið
á móti þeim veglega af konung-
um og jörlum um alla norðvest-
anverða Evrópu og raunar allt
suður til Miðjarðarhafs. Hetjan
kemst til virðinga við hirðina og
stendur sig kappa best í orrust-
um, verður eftirlætisskáld kon-
ungs og eftirlætiselskhugi drott-
ningar. Að lokum sígur þó á hann
þegjandalegt þunglyndi, vegna
þess að úti á íslandi bíður fögur
mær í festum. Bæði konungur og
drottning reyna með góðu og illu
að fá hetjuna til að setjast að, en
allt kemur fyrir ekki, og kóngur
gefur íslandshetju nýjan knörr og
fyllir hann gjöfum.
Þessar sögur hafa verið lesnar á
íslandi öldum saman og til þeirra
er enn sótt leiðsögn um viðmót
gagnvart útlendingum“ segir í
Brák. „Þeir einir eru áhugaverðir
sem samlíkjast fornum konung-
um, og þá umgangast íslendingar
sem jafningja. Ferðamaður úr
Norræna sumarháskólanum með
bakpoka sinn og háskólalegt
tötraútlit má þessvegna vera
ánægður með það eitt ef nokkur
lifandi maður nennir yfirhöfuð að
yrða á hann.“
Fávísir glannar
Þriðja ráðið - vegna þess að á
íslandi er þrír heilög tala, að
minnsta kosti í rituðu máli - er að
þegar ferðamaðurinn hættir sér
út í villta náttúruna á hann að
leyna því fyrir innfæddum að
hann líti á sig sem hinn hugdjarfa
landkönnuð. „Leynið því að þið
takist öll á loft við tilhugsunina
um elfarnar djúpu sem þið farið
yfir, um jöklana skæðu sem klifn-
ir verða, eyðisvæðin sem leggja
skal að velli. í augum innfæddra
eruð þið ekki landkönnuðir,
heldur vandamál, fávísir glannar.
Á hverju ári láta nokkrir ferða-
menn lífið í miðri landkönnun
sinni á íslenskum öræfum“ segir í
Brák, - og minnir á erfiði björg-
unarsveita við að hjálpa misvitr-
um túrhestum. „íslensk náttúra
er nefnilega ekki bara fögur, hún
getur líka verið stórhættuleg",
sem íslendingar viti af biturri
reynslu aldanna. „Þegar þið segið
með sælubrosi frá fyrirhuguðum
ævintýraferðum um öræfin er rétt
að taka eftir áhyggjusvip inn-
fæddra og þungum brúnum, -
hyggið vel að varnaðarorðum
þeirra, og munið að þeir draga
frekar úr hættunum en hitt.“
Þeir Brákarmenn fara bæði
gamanveg og alvöru í ráðlegg-
ingum sínum, - en eftir allt sam-
an kann norrænn sumarháskóla-
maður að spretta betur nestaður
úr sporum en sá hinn venjulegi
glansbæklingatúrhestur. Hann
hefur að minnsta kosti verið sett-
ur rækilega „pá plass“. -m
þJOÐVILIINN
Málgagn sósíalisma, þjóöfrelsis
og verkalýðshreyfingar
Útgefandi: Útgáfufólag Þjóðviljans.
Rltstjórar: Árni Bergmann, Þráinn Bertelsson, össur
Skarphéðinsson.
Fróttastjóri: Lúðvík Geirsson.
Blaðamenn: Garðar Guðjónsson, Guðmundur Rúnar Heiðarsson,
Hrafn Jökulsson, HjörleifurSveinbjörnsson, IngunnÁsdísardóttir,
Kristín Ólafsdóttir, KristóferSvavarsson, Logi Bergmann Eiðsson
(íþróttir), Magnús H. Gíslason, MörðurÁrnason, ÓlafurGíslason,
Ragnar Karlsson, Sigurður Á. Friðþjófsson, Stefán Ásgrímsson, Vil-
borg Davíðsdóttir, Yngvi Kjartansson (Akureyri).
Handrita- og prófarkaleatur: Elías Mar, Hildur Finnsdóttir.
Ljó8myndarar: Einar Ólason, Sigurður Mar Halldórsson.
Útllt8teiknarar: Sævar Guðbjörnsson, Garðar Sigvaldason.
Framkvæmdastjórl: Guðrún Guðmundsdóttir.
Skrifstofustjórl: Jóhannes Harðarson.
Skrlfstofa: Guðrún Guðvarðardóttir, Kristín Pótursdóttir.
Auglýsingastjóri: Siaríður Hanna Sigurbjörnsdóttir.
Auglýsingar: Unnur Ágústsdóttir, Olga Clausen, Guðmunda Krist-
insdóttir.
Símvarsla: Hanna Ólafsdóttir, Sigríður Kristjánsdóttir.
Bílstjóri: Jóna Sigurdórsdóttir.
Útbreiðslu-og afgreiðslustjóri: HörðurOddfríðarson.
Afgreiðsla: Bára Sigurðardóttir, Hrefna Magnúsdóttir.
Innheimtumenn: Brynjólfur Vilhjálmsson.OlafurBjörnsson.
Utkeyrsla, afgreiðsla, ritstjórn:
Síðumúla 6, Reykjavík, sími 681333.
Auglý8ingar: Síðumúla 6, símar 681331 og 681310.
Umbrot og setning: Prentsmiðja Þjóðviljans hf.
Prentun: Blaðaprent hf.
Verð í lausasölu: 55 kr.
Helgarblöð:60kr.
Askriftarverð á mánuði: 550 kr.
4 SÍÐA - ÞJÓÐVILJINN Þri&judagur 28. júlí 1987