Þjóðviljinn - 10.09.1987, Blaðsíða 7

Þjóðviljinn - 10.09.1987, Blaðsíða 7
Hugvekja um götur Skipulagsmeistarar munda hór sín þing. Þórbergur kunni þá list að lesa gömul hús, en það er líka hægt að lesa götur. Þegar gengið er um erlendar stór- borgir, blasir gjarnan við manni æfagömul og flókin saga, ekki aðeins í byggingun- um sjálfum heldur líka í gatn- akerfinu: ef menn hafa augun opin á réttan hátt er hægt að sjá t einni sjónhendingu e.k. þverskurð gegnum ótalmargar aldir. Ekki er þörf á að fara alla leið suður til borgarinnar eilífu til þess: mætti taka Parísar- borg sem svolítið nærtækara dæmi. Þegar menn koma fyrst til Par- ísar eru allar líkur á að þeim dveljist um stund í breiðgötunum eða búlevördunum, sem mynda net um borgina og fá sinn sérs- taka svip af því að þeir eru breiðir og beinir eða þá bogadregnir á reglubundinn hátt, með jafna trjáröð á hvorri gangstétt. Húsin eru yfirleitt frá seinni hluta 19. aldar, oft með talsvert miklu skrauti og mynda beina röð. Þetta gatnakerfi ruddi Haus- mann barón upp úr miðri 19. öld, að frumkvæði Napóleons 3., og má skjóta því inn, að það voru ekki samgöngubætumar einar sem vöktu fyrir þeim kumpánum: þeim var nefnilega í fersku minni, hvernig Parísarmúgurinn hafði hlaðið götuvígi 1830 og 1848 og boðið yfirvöldunum byrginn, og vildu þeir koma í veg fyrir að slíkt gæti endurtekið sig með því að búa svo um að hægt væri í skynd- ingu að flytja herlið inn í miðja borgina. Lauk þá gullöld götu- vígja í París, eins og stúdentar fengu að kenna á 1968. En í þess- um breiðgötum má, ef menn eru næmir, finna andrúmsloft þess tímabils sem Frakkar kalla „blómaskeiðið“, þ.e.a.s. síðari hluta 19. aldar og byrjun þessar- ar: geta menn sest á einhverja kaffistéttina og virt fyrir sér flæð- andi mannlífið eins og enskir ferðamenn gerðu um aldamótin og báru hróður borgarinnar víða, síðan geta þeir borið breiðgöt- umar saman í huganum við þær. Sýnir sem impressíónistarnir bmgðu upp af þeim, horft á þær sem leiksvið hinnar miklu skáld- sögu Prousts og þar fram eftir götunum. En um leið og komið er út fyrir þessar breiðgötur og inn í ein- hverja hliðargötuna, er maður staddur í nokkuð öðmm heimi: þarna er net af götum, sem láta lítið yfir sér, þær eru þröngar og gjarnan undarlega á misvíxl. Petta er hið gamla gatnakerfi Parísar, frá tímanum fyrir fram- kvæmdir Hausmanns baróns og fyrir stjómarbyltinguna miklu. Húsin em mjög gjarnan frá 17. og 18. öld og byggð á löngu tímabili, en gömul kort sýna, að kjami þessa gatnakerfis hafði haldist lítt breyttur síðan á endurreisnar- tímnabilinu. Um þessar götur gengu Moliere, Voltaire og Di- derot, og löngu á undan þeim var skáldið Francois Villon þar á ferli með sínu glæpahyski. En þegar enn lengra er skyggnst aftur í tím- ann kemur í ljós, að hluti af þessu gatnakerfi er arfur frá miðöldum og ber vitni um elstu borgar- byggðina á þessum stað. Þótt íbúðarhús þess tíma séu löngu horfin, standa gömlu kirkjurnar enn og hægt er að þræða elsta leiðanetið milli þeirra. Bak við það sést j af nvel glytta í gatnakerfi rómversku borgarinnar Lútetíu, þótt hún hafi að miklu leyti farið í eyði í lok fornaldar og nokkuð skýr „rof“ séu milli hennar og Parísar miðalda og síðari alda. í þessum þverskurði tímanna, sem hægt er að fá með því að lesa gatnakerfi og byggingar borgar- innar, rekast aldirnar oft saman með brestum: á þeim stað á eyju úti í Signu, þar sem höll yfirvald- anna stóð þegar í fornöld, stend- ur nú dómhöll mikil frá 18. öld, en inn í hana voru felldir hlutar af konungahöll miðalda með glæsi- legum riddarasölum og smærri vistarverum í gotneskum stíl, - og í einni þeirra var María Antoin- etta í haldi í byltingunni miklu meðan hún beið aftöku. í enn stærri stíl rekast götur frá mis- munandi tímum gjarnan harka- lega á. Þegar gengið ér um götur Reykjavíkur, má líka sjá bygg- ingar, götur og jafnvel heilu gatn- akerfin rekast á með brestum. En það er alls ekki nein gömul saga í venjulegum skilningi þess orðs sem veldur því, þó svo að höfuð- borgin sé orðin tveggja alda gömul og eigi þegar að baki nokkuð langa sögu. Þegar götur og mannvirki ganga á skakk og skjön, þannig að allri skynsemi er ofboðið, er það ekki vegna breytinga sem hafa raunverulega orðið, í borginni og borgarlífinu, heldur kemur annað til: það sem rekst á eru hin ýmsu aðalskipu- lög, sem orðið hafa til á teikni- borðinu og verið boðuð með pomp og prakt, en síðan aldrei verið framkvæmd nema að örlitlu leyti, því áður en það gat orðið hafði annað aðalskipulag verið samþykkt með lúðrablæstri. Það var heldur til lítils að halda í fyrra skipulagið vegna þess að því hafði aldrei verið fylgt nema að litlu leyti: samþykktar höfðu ver- ið alls kyns „undanþágur“ og menn fengið að reisa byggingar sem brutu í bága við skipulagið, einfaldlega af því að Fjórbjörn þekkti Þríbjörn sem þekkti Tví- björn sem var skyldur Einbirni sem togaði í rófuna. Og sú rófa gekk. Mörgum finnst það sennilega undarlegt, ef þeir hugsa um það, að húsin við Snorrabraut skuli ekki standa reglulega, heldur „opnist" gatan á vissan hátt til suðurs, þannig að í suð-vestur frá henni gengur Þorfinnsgata og standa hús við hana, en engin hús milli hennar og Snorrabrautar. En þetta stafar af því,að sam- kvæmt einu gömlu skipulagi átti mikil gata, „Hringbraut", að liggja í sveig utan um bæinn eins og hann var þá, og eru núverandi Hringbraut, Þorfinnsgata og Snorrabraut hluti af henni, enda hét Snorrabraut Hringbraut fram undir 1950. En um leið og búið var að festa þessar útlínur þessar- ar hálfkringlaga brautar og byggja það mikið af húsum að þeim útlínum varð ekki breytt, var þetta skipulag úrelt, og var þá austasti hluti „Hringbrautarinn- ar“ framlengdur til suðurs þannig að hann varð beinn og síðar skírður upp og kallaður Snorra- braut, 'en Þorfinnsgata og skipu- lagið í kringum hana stóðu eftir eins ot úrelt líffæri. Núverandi Hringbraut stóð einnig eftir með nafn sem var ekki í neinu samæmi við götuna sjálfa eins og hún var orðin: nær væri að kalla hana t.d. „Löngulínu“. Nú kynnu ýmsir að mótmæla og segja að þessi skipulags- breyting við Snorrabraut sé kraft- birting ákveðinnar sögu og ekki ómerkilegrar: hafi hverfin innan upphaflegu „Hringbrautarinnar" verið „gamli miðbærinn“, en hverfin fyrir utan hana fyrsta byggðin sem reis beinlínis í kjölf- ar þess flótta úr sveitunum til höfuðborgarinnar sem hófst rétt fyrir heimsstyrjöldina. Þannig megi líta á þessa skipulagsbreyt- ingu sem merki um veigamikil þáttaskil í sögu borgarinnar, þá stund þegar „ofvöxtur" hennar hófst, og sé slík breyting ekki síður söguleg en það þegar ein drottning er gerð höfðinu styttri. Þetta er svo sem alveg rétt út af fyrir sig, og má bæta því við, að á þessum tíma var gamli miðbær- inn enn óskemmdur að mestu með sínum glæstu timburhúsum, fyrstu hverfin fyrir utan Hring- brautina gömlu voru stílhrein og vel skipulögð, og sjálft merki skipulagsbreytingarinnar, auða svæðið við Þorfinnsgötu og Snorrabrautar, eins og braghvfld í ljóðlínu. En þessi skipulagsbreyting var því miður fyrsta stigið í heldur undarlegri þróun, og eftir hana fóru hjólin að snúast hraðar og hraðar, en það voru ekki hjól sögunnar heldur hjól skipulags- hönnuðanna og undanþáguveit- inganna. Mætti vafalaust rekja þá sögu í löngu máli, en hér er að- eins hægt að drepa á fáein dæmi sem stinga augað. Sagan gæti t.d. hafist á því, þegar búið var að „hanna“ eystri hluta Miklu- brautar og byggja hús við Löngu- hlíð og skipulagsmeistarar fundu það skyndilega út af hyggjuviti sínu að gatan væri of mjó: var hún þá breikkuð við Klambratún (eins og það hét þá), þannig að hinn afkáralegasti flöskustútur myndaðist þar sem Miklabraut sker Lönguhlíð. Sagan gæti einn- ig hafist á því þegar klókir spekúl- antar fengu leyfi til að byggja „tveggja hæða hús“, þar sem kjallari og ris voru í rauninni sjálfstæðar hæðir, á lóðum sem aðeins höfðu verið ætlaðar fyrir venjuleg tveggja hæða hús, þann- ig að heil hverfi mynduðust af einhverjum fáránlegum „tum- byggingum": það var eiginlega eins og húsameistararnir hefðu setið að sumbli í San Gimigniano, hinni miklu turnaborg í Toscana, en þó aldrei getað hafið andann til hæða. Á þennan hátt væri hægt að halda sögunni áfram, og rekja hvernig gömul og óbætanleg hús hafa verið rifin í gamla miðbæn- um og önnur byggð í þeirra stað alveg út í loftið og skipulagslaust, - því að það var allt of mikið af skipulagi, undanþágum frá skipulagi og skipulagsleysi, ef þá ekki bara undanþágum frá skipu- lagsleysi, og eitt rak sig á annars horn - meðan nýjum hverfum var holað niður tvist og bast. Það væri verkefni fyrir margar heimspekilegar sunnudags- göngur að sjá hvernig sum nýleg hús standa upp á kant í öruggri fjarlægð frá gamalli götu og rjúfa húsalínuna meðan önnur gera það ekki, - vegna þess að einu sinni voru áætlanir um að breikka götuna eða breyta henni og svo var fallið frá þeim áætlunum. Líka er hægt að skoða hvemig t.d. Bændahöllinni var holað nið- ur, mitt í það sem átti að verða háskólahverfi, þannig að há- skólinn sjálfur drukknaði nánast undir þessum glerherlegheitum dreifbýlisins. Loks væri hægt að líta á ýmsar furðulegar tengingar gatna og hraðbrautir inni í borg- ini sem ganga þvers og kruss, uppi og niðri og þar í miðju, þangað til komið er að nýjustu uppfinningunni, hálfgöngugöt- um, sem em bæði með bflum og án bfla, og strætisvagnar ganga kannske eftir og þó ekki, svo ekki sé minnst á áætlanir um að leggja hraðbrautir inn í gömlu hverfin með hálfgöngugötunum og þröngu götunum, helst úti í Tjöminni. Þótt til séu blettir, sem einhver hulin verndarhönd hefur varið fyrir mönnum með rífandi hug- sjónir þannig að þar er ennþá hægt að lesa gamla sögu og nýja, er gönguferð um bæinn líkust ferð í gegnum mglingsleg heila- fylgsni skipulagsmeistaranna, þar sem öllu ægir saman, hverju í mótsögn við annað. Manni detta ósjálfrátt í hug fleyg orð þess skálds sem kunni þá list að lesa gömul hús: „Nonsense, kaos, bhratar, monsjör". e.m.j. Flmmtudagur 10. septembar 1987 ÞJÓÐVILJINN - SÍÐA 7

x

Þjóðviljinn

Beinir tenglar

Ef þú vilt tengja á þennan titil, vinsamlegast notaðu þessa tengla:

Tengja á þennan titil: Þjóðviljinn
https://timarit.is/publication/257

Tengja á þetta tölublað:

Tengja á þessa síðu:

Tengja á þessa grein:

Vinsamlegast ekki tengja beint á myndir eða PDF skjöl á Tímarit.is þar sem slíkar slóðir geta breyst án fyrirvara. Notið slóðirnar hér fyrir ofan til að tengja á vefinn.