Þjóðviljinn - 31.03.1988, Blaðsíða 4
LEIÐARI
Á páskum
Saga daganna hefur í okkar samfélagi oröiö sú, aö jól eru
miklu frekari til athygli en páskar. Þetta þýöir vafalaust m.a. aö
menn muna það síður en skyldi, aö viö páska tengist einmitt
kjarni hins kristna boðskapar: guödómurinn er ekki fjarlægur,
Kristur geröist einn af oss, hann tekur á sig mennska þjáningu
sem er um leið fyrirheit um sigur yfir myrkri og dauða. Hvernig
sem menn annars hafa svarað í huga sér spurningum um
undrið, hiö yfirnáttúrlega í páskasögunni, þá hefur þaö fyrr og
síðar haft mikil áhrif á mannfólkið að á páskum verður sá, sem
guðs sonur er nefndur, einn þeirra sem leggur líf í sölurnar fyrir
þann sannleika sem hann veit æðstan. Og að sá sannleiki
gerði strangar kröfur til manna um að þeir frestuðu því ekki til
annars heims að ganga fram í réttlæti, að þeir reyndu að skapa
nýjan heim, nýtt sambýli manna nú og hér og óttuðust hvergi
nvað valdhafar hefðu um það að segja.
Eins og menn vita hefur það svo mjög farið eftir öldum og
menningarsvæðum og stöðu kirkjunnar í veraldlegu valdakerfi
með hvaða þrótti þessi tenging trúar og vonar um betra mannlíf
hefur hljómað. Hér á sæmilega efnuðum Vesturlöndum hefur
mörgum vafalaust einatt farið eins og kollega einum þýskum,
blaðamanni, sem spyr sjálfan sig að því í grein, hvenær hann
hafi síðast í kirkju komið. Hann minnist þess hvernig bernsku-
ákafi hans í trúmálum koðnaði niður í flatneskjulegum endur-'
tekningum prédikara, sem svifu átakalítið í skýjum andleg-
heita, langt ofan við ömurleika og þverstæður og rangindi
daglegs lífs. Það er eins og hver sjái sjálfan sig.
En við vitum líka, að þessi firringarkennd, þessi aðskilnaður
kristni og veruleika hefur sett ofan á seinni árum. Sú þróun
tengist því ekki síst, að víða í löndum þar sem mannréttindi eru
freklegast brotin, hafa nógu margir kirkjunnar menn reynst
eiga það jarðsamband og þá hugprýði sem þarf til að fylgja eftir
hinum félagslega boðskap kristninnar, réttlætiskröfunni. Við
vitum fjölmörg dæmi um það frá Suður-Ameríku, Suður-Afríku
og víðar, að kirkjan verður ekki aðeins athvarf þeirra og skjól
sem ofsóknum sæta heldur og hugmyndasjóður og skipuleggj-
ari aðgerða í þágu þeirra sem eiga undir þung högg grimmra
yfirvalda að sækja.
Þessi þróun hefur eflt áhrif og virðingu kristninnar og sett
ofan í við þá sem hræðast það að kirkjan setji ofan við að
komast í snertingu við hin „lágu“ pólitísku viðfangsefni samtím-
ans. Hún hefur um leið vakið upp nýjar spurningar um erindi
kirkjunnar í þjóðfélagi af okkar tagi: Þar verður seint skortur á
ranglæti, vitanlega, en ranglætið er hvergi nærri jafn grimmt,
sýnilegt, hriminhrópandi og í þeim heimshlutum sem áðan voru
nefndir. Neyð okkar ríka samfélags kemur fram í öðru formi.
Hún tengist við sjálfumglaða einstaklingshyggju, sem er kann-
ski ekki sérlega grimm (a.m.k. ekki meðan allt leikur í lyndi), en
eins og vísar frá sér mannlegri samhjálp og samstöðu. Sér-
góða einstaklingshyggju sem upphefur græðgina sem ár-
eiðanlegasta framfaraaflið, gerir freka neysluhyggju að hinni
einu viðmiðun og heldur stíft að þeim sem upp vaxa sinnuleysi
um þá hluti sem varða okkur sameiginlega. Þessi andlega
neyð, sem svo má heita, kallar á önnur viðbrögð en neyð þriðja
heimsins - en um leið er rétt að minna á, að margt er sameigin-
legt baráttu gegn ótvíræðu ranglæti og baráttu fyrir mannlegri
samstöðu. Það þarf í báðum dæmum að finna sem greiðastar
leiðir á milli háleitra hugsjóna og fyrirheita og hins hversdags-
lega veruleika, og þeir sem vinna að þeirri brúarsmíð þurfa að
vera við því búnir að mæta andófi og fjandskap þeirra sem ríkja
yfir og hagnast á ríkjandi ástandi.
Gleðilega páska.
ÁB
þJÓÐVILJINN
Málgagn sósíalisma, þjóðfrelsis
og verkalýðshreyfingar
Útgefandl: Útgáfufélag Þjóðviljans.
Rlt8tjórar:Árni Bergmann, MörðurÁrnason, óttarProppé.
Fróttastjóri: Lúðvík Geirsson.
Blaðamenn: Guðmundur Rúnar Heiðarsson, Hjörleifur
Sveinbjörnsson, KristóferSvavarsson, Magnfríður Júlíusdóttir,
Magnús H. Gíslason, Lilja Gunnarsdóttir, Ólafur Gíslason, Ragnar
Karlsson, Sigurður Á. Friðþjófsson, Stefán Stefánsson (íþr.), Sævar
Guðbjörnsson, T ómas Tómasson, Þorfinnur ómarsson (íþr.).
Handrita- og prófarkalestur: Elías Mar, Hildur Finnsdóttir.
Ljósmyndarar: EinarÓlason, SiguröurMarHalldórsson.
Útlitstelknarar: GarðarSigvaldason, Margrót Magnúsdóttir.
Framkvæmdastjóri: Hallur Páll Jónsson.
Skrifstofustjóri: Jóhannes Harðarson.
Skrifstofa: Guðrún Guðvarðardóttir, Kristín Pétursdóttir.
Auglýsingastjóri: Sigríður Hanna Sigurbjörnsdóttir.
Auglýsingar: Guðmunda Kristinsdóttir, Olga Clausen, Unnur
Ágústsdóttir.
Símavarsla: Hanna Ólafsdóttir, Sigríður Kristjánsdóttir.
Bilstjórl: Jóna Sigurdórsdóttir.
Utbreiðslu- og afgreiðslustjóri: Björn Ingi Rafnsson.
Afgreiðsla: Halla Pálsdóttir, HrefnaMagnúsdóttir.
Innheimtumenn: Brynjólfur Vilhjálmsson, ólafurBjörnsson.
Utkeyrsia, afgreiðsla, ritstjórn:
Síðumúla 6, Reykjavík, sími 681333.
Auglýslngar: Síðumúla 6, símar 681331 og 681310.
Umbrot og setning: Prentsmiðja Þjóðviljans hf.
Prentun: Blaðaprent hf.
Verð í lausasölu: 60 kr.
Helgarblöð: 70 kr.
Áskriftarverð á mánuði: 700 kr.
4 SÍÐÁ - ÞJÓÐVILJINN Fimmtudagur 31. mars 1988