Þjóðviljinn - 24.07.1988, Blaðsíða 4

Þjóðviljinn - 24.07.1988, Blaðsíða 4
Heimsborgari, sálusorgari, verkalýðssinni Úr fórum Ágústar Vigfússonar Ágúst Vigfússon er höfundur frásöguþáttar af sr. Páli Sigurðs- syni á Bolungarvík, sem hér fer á eftir. Starfsævinni varði Agúst mestan part í kennslu, en hann hefur einnig fengist nokkuð við ritstörf eins og lesendum Þjóðvilj- ans er fullkunnugt. Eftir hann er bókin Dalamaður segir frá, en einnig hafa þættir eftir hann birst í blöðum, og ófáa hefur hann flutt í útvarp. Ágúst er einn af þeim ein- dregnu jafnaöarmönnum sem fylgdu Héðni yfir í Sósíalistaflokk- inn á sínum tíma, og var lengi í forystusveit Verkalýðsfélagsins í Bolungarvík ásamt Jóni Tímóte- ussyni. HS Ég hef einhverntímann sagt frá fyrstu kynnum mínum af Bolvík- ingum. Ég fluttist til Bolungar- víkur haustið 1934. Fyrstu menn- irnir sem ég kynntist voru sóknar- presturinn sr. Páll Sigurðsson og skólastjórinn Sveinn Halldórs- son. Báðir sérkennilegir og eftir- tektarverðir menn, hvor á sína vísu. Ég hygg að þeir hafi orðið ógleymanlegir flestum þeim, sem kynntust þeim að nokkru ráði. Ég minnist þess er ég leit sr. Pál í fyrsta sinn. Mér fannst eitthvað hörkulegt og kuldalegt við mann- inn. Mér fannst eins og hann horfa í gegnum mig. Eins og hann væri að gegnumlýsa mig. Augna- ráðið var svo hvasst. Ósjálfrátt kom fram í huga minn: Varaðu þig á honum. Hann er einn af þeim stoltu mönnum, sem finnst þeir höfði hærri en allur almenn- ingur. Hann er einn af þeim sem vill öllu ráða, en þó umfram allt að menn beri virðingu fyrir sér. Manni fannst maður svo undur smár í návist hans, a.m.k. þeir sem ekki voru því veraldarvan- ari. Hann kunni þá list að halda mönnum frá sér. Ekki veit ég hvort þetta var gert af ásettu ráði, eða gerðin var svona. Sr. Páll gekk alltaf afar vel til fara. Mátti raunar segja að hann sást aldrei nema sallafínn. Stakk það mjög í stúf við allan almenn- ing í þorpinu. Fátæklinga þeirra tíma. Hann skar sig úr með það eins og fleira. Sr. Páll var myndarlegur mað- ur og bar sig vel. Svipurinn ein- beittur og allur var maðurinn hinn vörpulegasti, hvar sem á hann var litið. Limaburður og göngulag var fastmótað. Það var eitthvað heimsborgaralegt við manninn, enda kannski ekki neitt undarlegt. Hann hafði verið tíu ár í Ameríku. Prestur íslensku safnaðanna þar. Hann var afar virðulegur í pre- dikunarstól og fórust öll prest- verk vel úr hendi. Það var siður hans að vera jafnan mættur til kirkju svona tveim til þrem mín- útum áður en athöfnin skyldi byrja. Hann stoppaði andartak fyrir framan kirkjuhurðina, tók upp úrið, því á mínútunni skyldi ganga inn. Hann tónaði vel, og hafði góða söngrödd. Mátti segja að hann var mjög virðulegur. Ræðumað- ur var hann allgóður. Hann var allfyrirferðarmikill í ræðustól og sló nokkuð um sig. Pað var ekki sjaldgæft að hann slæi um í pred- ikunarstólinn máli sínu til stuðn- ings. Að messu lokinni gekk hann fyrstur fram að dyrum og allir tóku í hönd hans um leið og þeir fóru út. Var þetta orðið að fastri venju. Ákveðinn jafnaðarmaður Hann þótti stundum nokkuð harður ræðumaður og sagði ó- spart til syndanna hver sem í hlut átti og hugsaði þá lítt um hvort ræðan mundi auka vinsældir hans. Sagt var að einu sinni hefði hann lagt út af þessari alkunnu stöku: Það er dauði og djöfuls nauð, er dyggðasnauðir fantar, safna auð með augum rauð, er aðra brauðið vantar. Mundi hverjum nú þykja slík ræða bera meir en lítið pólitískan keim. Þannig var líka litið á hana í þá daga. Páll var ákveðinn jafn- aðarmaður að lífsskoðun. Hann gekk strax í verkalýðsfélagið og studdi að stofnun þess. Mun það hafa verið fátítt með presta af hans kynslóð. Allflestir þorpsbú- ar voru honum andsnúnir í pó- litík, því þeir fylgdu flestir Sjálf- stæðisflokknum að málum. A þessum árum var mikill hiti í stjórnmálunum. Mun sr. Páll hafa orðið fyrir nokkurri andúð einmitt vegna þess hvar hann skipaði sér í hina pólitísku sveit. En hann var þéttur fyrir og lét slíkt ekki á sig fá. Sögu heyrði ég þessu viðvíkj- andi. Um sannleiksgildi hennar veit ég ekki nákvæmlega. Sel hana ekki dýrara en ég keypti hana. En saga þessi gekk manna á milli í Bolungarvík. Það var einhverntímann er pól- itískar öldur risu hátt í þorpinu, að nokkrir menn, andstæðingar prestsins, komu sér saman um að safna undirskriftum, þar sem skorað var á hann að segja af sér. Átti að lesa þetta plagg upp á safnaðarfundi. Var einhver áber- andi maður fenginn til þess starfa. Eitthvert veður hafði prestur af því hvað til stæði. Fór nú safnaðarfundurinn fram eins og til stóð og mun hafa verið mjög fjölmennur. En ekki létu undirskriftarmenn til sín heyra. Hefur þeim líklega ekki þótt á- rennilegt að kljást við klerk, er til kom. Þegar dagskrá fundarins var tæmd beið prestur nokkra stund. Spurði síðan hvort það væri ekki eitthvað fleira sem fundarmenn vildu koma á fram- færi, eða þeim lægi á hjarta. Þögn. Enginn kvaddi sér hljóðs. Þá spurði hann hvort það væri ekki eitthvað í fari sínu sem menn vildu gagnrýna. Engum væri ljós- ara en sér að margt og mikið mætti að sér finna. Enginn sagði orð. Þá mælti klerkur eitthvað á þessa leið: „Eg hef löngum fund- ið að ég var mikill gæfumaður að lenda hjá svona góðu og skiln- ingsríku fólki. Já, sérstaklega umbyrðalyndu.“ Þakkaði svo söfnuðinum fyrir með hjartnæmu orðalagi alla framkomu við sig fyrr og síðar. Undirskriftaskjalið sást ekki meir. Það er ekki ofsögum sagt að sr. Páll naut virðingar, en hitt væri ofsagt að hann hafi almennt verið elskaður, til þess var hann o'f fá- látur og blandaði of lítið geði við allan almenning. Fólki fannst hann stoltur. Kannski var hann. það. Ég veit það ekki. Það er erf- itt að reikna út skapgerð manna. Hann var ákaflega stífur og sett- legur í allri framkomu. Hann virt- ist og hafa mjög lítinn áhuga á hinum almennu störfum fólksins. Það var ekki hans fag. Hann hafði aldrei á ævi sinni unnið verkamannavinnu, eða difið hendi sinni í kalt vatn, sem kallað er. Þrátt fyrir að sr. Páll væri góður ræðumaður gat stundum hent hann að komast óheppilega að orði og var þá oft misskilinn. Hitt var ekkert efamál að hann var einn af þeim sem setti svip sinn á þorpið. Því olli virðuleiki hans og þjálfuð framkoma. En enginn kommi Eins og áður segir var sr. Páll all-pólitískur og fylgdi eindregið jafnaðarmönnum. Á kommum hafði hann hina mestu andúð. Nú bar svo við eitt haustið að Einar Olgeirsson boðaði til almenns fundar í Víkinni. Ég hitti Pál nokkru áður en fundurinn byrj- aði. „Það er rétt að koma á fund- inn og hlusta á páfann ykkar. Ég hef aldrei séð hann tala,“ sagði klerkur. Þótt Einar ætti ærið fáa fylgjendur var fjölmenni á fund- inum. Troðfullt hús. Einar hélt meir en klukkustundar ræðu og kom víða við. Daginn eftir hitti ég sr. Pál og spurði hann hvernig honum hefði líkað að hlusta á Einar. „Jú, hann er geysilega mælskur. Líklega er hann mælskasti íslendingurinn, sem nú er uppi. Kannski höfum við aldrei átt mælskari mann. En ræðan fannst mér ekki neitt sér- stök. Ekkert glæsilegt orðaval. Sem sagt ekki neitt sérstakt fram yfir það sem þessir venjulegu pól- itíkusar hafa, sem hafa gert þetta að ævistarfi sínu.“ „Fannst þér þá ekkert til um manninn?“ spurði ég. „Hver er skýringin á því að hann hefur svo mikla lýðhylli, sem raun ber vitni? Því það er staðreynd að hann hefur mikil áhrif. “ Sr. Páll svaraði á þesa leið: „Þrátt fyrir að ég væri ekki neitt sérlega hrifinn af ræðu Einars, þá var ég samt hrifinn af framkomu hans. Ég hef víða farið og hlustað á heimsfræga ræðusnillinga. Ég verð að segja það að hann er einn mesti snillingur á sviðinu sem ég hef séð. Allar hreyfingar hans og látbragð er svo meistaralegt að kalla má hreint listaverk. Það er þessi fádæma snjalla framkoma sem fyrst og fremst hefur aflað honum þeirrar lýðhylli, sem hann hefur. Hitinn, krafturinn, ein- lægnin og trúboðskrafturinn. Þessi sannfæringarkraftur. Allt þetta fullvissar fólkið um að hon- um sé alvara. Það megi treysta honum. Hann er trúboði af guðs náð. Svona mann þyrfti kirkjan að eignast. Ef við ættum meira af þessum trúboðshita væri kannski ekki eins þunnskipað í kirkjunum hjá okkur og oft er. Ja, hann Ein- ar er fyrst og fremst trúboði. Ég held að hann geti fengið fólk til að trúa hverju sem er.“ Sr. Páll var að ýmsu leyti frjáls- lyndur í trúmálum, þó hann pre- Séra Páll Sigurðsson: bara ef kirkjan ætti mann eins og Einar Olgeirsson ... dikaði oft hart og segði óspart til syndanna. Han var enginn and- stæðingur spíretista. Hann sagði einu sinni við mig: „Ég er sannfærður um framhaldslíf. En hvernig það er vitum við auðvitað ekki. Við þekkjum svo sáralítið af leyndardómum tilverunnar. En ég get ekki séð annað en þetta líf sé ósköp tilgangslaust, ef ekk- ert líf er framundan að þessum hérvistardögum liðnum. Kanns- ké verða vísindin einhvern tíman þess megnug að leysa gátuna miklu." Dreymt fyrir daglátum Sr. Páll var alltrúaður á ýmsa dulræna fyrirburði og dreymdi stundum fyrir daglátum, sem kallað er. Einstöku sinnum sagði hann mér frá ýmsu dulrænu, sem fyrir hann hafði borið. Ég tilfæri hér tvö atriði: Þegar hann var í Bolungarvík í fyrra skiptið kynntist hann manni, Jóni Magnússyni að nafni. Milli þeirra varð góður kunningsskapur jafnvel vinátta. Ræddu þeir oft um dulræn efni og um það hvort annað Iíf væri til. Ákváðu þeir að sá þeirra sem færi á undan skyldi láta hinn vita af sér, ef slíkt væri mögulegt og leyfilegt, eins og prestur orðaði það. Svo var það einn morgun er prestur er nývaknaður, þá stadd- ur vestur á Kyrrahafsströnd að vinur hans birtist honum. Stóð fyrir framan rúmið hans og horfði á hann með angurblíðum svip: Þessi sýn varaði aðeins augna- blik. Eins og mynd, sem brugðið er upp á tjald. Presti þótti þetta einkennilegt og skrifaði hjá sér daginn sem þetta skeði. Nokkru seinna fékk hann bréf að heiman, þar sem honum var tilkynnt að vinur hans væri látinn. Hann hafði drukknað daginn áður en hann birtist honum. Páll sagði mér einnig frá öðru atviki, þar sem hann taldi að æðri forsjón eða dulinn kraftur hefði gripið í taumana. Það var á fyrstu árum hans Bolungarvík. Þá mun það stundum hafa komið fyrir að hann neytti víns og gætti sín þá ekki alltaf sem skyldi, þó að fjöl- mörg hin síðari ár sæist aldrei vín á honum. Nú var það einu sinni að hann lenti á fylliríi ásamt tveim kunningjum sínum. Munu þeir hafa drukkið alla nóttina og verið orðnir mjög ölvaðir. Um morgunin fóru þeir út og niður á bryggju, hélt hann að þá muni klukkan verið farin að ganga ell- efu. Það fyrsta sem hann mundi eftir er að hann rankaði við sér var að stutt var hendi á öxl hans og spurt í alvarlegum tón: „Sr. Páll, veistu hvaða starf bíður þín eftir hádegið?" Eins og gegnum móðu sá hann að það var Pétur Oddsson, helsti framámaður þorpsins, sem ávarpaði hann. Pétur fylgdi honum nú heim. En jarðarför átti að fara fram kl. eitt. Sr. Páll sagðist hafa verið í ein- hverri dáðleysisvímu, og í raun og veru lítið skynjað hvað fram fór. Samt þvoði hann sér og hafði fataskipti. Hann var búinn að semja líkræðu og húskveðju sem þá var títt, en hvorugt þessara plagga fann hann - enda ófær til að hugsa skýrt. Án þess að hafa þessi gögn með sér lagði hann af stað til athafnarinnar. Fór at- höfnin fram á eðlilegan hátt og þótti takast lýtalaust. Ekki sagð- ist Páll muna eitt eða neitt af því sem þarna fór fram og sér hefði verið óskiljanlegt hvernig þetta hefði getað gerst, án þess að valda hneyksli. Hann trúði því statt og stöðugt að þarna hefði æðri máttur leitt og hjálpað. Sífelld ráðgáta Það er ekki ofsögum sagt af því að sr. Páll gat verið mistækur í ræðuflutningi. En stundum hélt hann beinlínis snilldarræður. Ég man sérstaklega eftir einni jarð- arfararræðu. Það var gömul kona frekar umkomulaus sem jarða átti. Hann byrjaði á þessa leið: „Hér hvílir nú hún Hallbera gamla. Hvað skyldi maður nú geta sagt um hana?“ Að mínum dómi var ræðan meistaraverk. Hann lagði út af þessum orðum: „Vertu trúr yfir litlu, þá muntu settur yfir meira.“ Þrátt fyrir að ég hafði allnáin kynni af sr. Páli í rúman áratug, fannst mér þó að ég gæti aldrei kynnst honum neitt náið. Það var eins og einhver brynja væri utaná honum. Ég hafði það einhvern veginn á tilfinningunni að hann hefði verið mikill einstæðingur. Nokkuð var það að sú hugmynd, eða tilfinning sem ég fékk um manninn við fyrstu sýn, breyttist furðu lítið þrátt fyrir margra ára reynslu. Hvernig bæri að skilja og meta manninn var mér sífellt ráðgáta. Mér fannst stundum hann minna mig á blágrýtishraundrang, kald- an harðan og einstrengingslegan. Stundum er ég leiði hugann að manninum kemur fram í huga minn vísupartur, sem reyndar er kveðinn um annan sérkennilegan mann: Þú ert eins og stakur steinn, sem stendur upp úr dalnum. Síðustu árin kenndi sr. Páll las- leika. Ákvað hann að fara til Am- eríku að leita sér lækninga. Úr þeirri för varð aldrei. Hann komst aðeins til Reykjavíkur, þar andaðist hann skyndilega. Hann var jarðaður í Bolungarvík að viðstöddu fjölmenni. Daginn sem hann var jarðaður, hitti ég gamlan Bolvíking. Hann sagði: „Jæja, nú er sr. Páll allur. Eigin- lega fannst mér hann aldrei vera einn af okkur. Þó finnst mér stað- urinn hafa sett niður við brottför hans. Það geta liðið áratugir þangað til við eignumst jafn svip- mikinn einstakling.“ Ég hygg að þessi gamli, greindi Bolvíkingur hafi hér talað fyrir munn flestra þorpsbúa. Þessa dula, svipmikla, innhverfa manns verður lengi minnst af þeim sem höfðu af hon- um nokkur kynni. Ágúst Vigfússon 4 SfÐA - ÞJÓÐVIUINN Sunnudagur 24. júlí 1988

x

Þjóðviljinn

Beinir tenglar

Ef þú vilt tengja á þennan titil, vinsamlegast notaðu þessa tengla:

Tengja á þennan titil: Þjóðviljinn
https://timarit.is/publication/257

Tengja á þetta tölublað:

Tengja á þessa síðu:

Tengja á þessa grein:

Vinsamlegast ekki tengja beint á myndir eða PDF skjöl á Tímarit.is þar sem slíkar slóðir geta breyst án fyrirvara. Notið slóðirnar hér fyrir ofan til að tengja á vefinn.