Þjóðviljinn - 24.11.1988, Qupperneq 6
þlÓÐVILIINNM/r >pn sósíalisma, þjóðfrelsis og verkalýðshreyfingar
Þarf tappatogara?
í þessari viku hafa gerst tvenn stórtíðindi í efna-
hagsmálum þjóðarinnar.
Annarsvegar birtust útreikningar um lánskjaravísitölu fyrir
desember. Hinsvegar tilkynntu bankarnir umm lækkun á
vöxtum.
Hækkunin á lánskjaravísitölunni verður 0,09 prósent milli
mánaða, - nær ekki einu prómilli.
Prómillin virðast aftur vera mun fleiri og annars konar hjá
þeim sem ákveða vaxtastigið. Nú þegar verðbólgan er nán-
ast engin lækka vextir í bönkunum aðeins um eitt prósent að
meðaltali, og eru 15-18 prósent á almennum skuldabréfum.
Vextirnir á verðtryggðum skuldbindingum lækkuðu nánast
ekki neitt.
Raunvextir hafa sumsé sjaldan verið hærri en einmitt
núna, þótt það sé yfirlýst eitt af helstu markmiðum nýrrar
ríkisstjórnar að vextir skuli lækka, með góðu eða illu.
Hvað er að gerast?
Páll Pétursson bóndi á Höllustöðum og oddviti Framsókn-
armanna á þingi segir að í kerfinu sé haldið uppi virkri
stjórnarandstöðu. Þar þráist menn við, reyni að tefja aðgerð-
ir ríkisstjórnarinnar og draga úr þeim þannig að þær missi
marks. Þetta kallaði Páll frjálshyggjutappana í ríkiskerfinu á
nýlegu flokksþingi.
Þetta er örugglega rétt hjá Páli. Meðal embættismanna
ríkisins og inní bankakerfinu eru fjöldamargir „tappar" sem
ekki hafa hugsað sér að gefast upp á stuttbuxnastefnunni í
peningamálum þótt hún sé á góðum vegi með að koma
þjóðarbúinu í gjaldþrot. Þetta virðist einkar áberandi í Seðla-
bankanum, ríkisstofnun við Arnarhól í Reykjavík.
Már Guðmundsson ráðgjafi fjármálaráðherra segir um
þessi mál í Degi að tregða í bankakerfinu við að lækka vexti
kunni einnig að stafa af því að í íslenska bankakerfinu ríki
fákeppni og ekki samkeppni. Markaðsumhverfi bankanna
séu einfaldlega ekki þannig að kerfið geti gengið sjálft eins-
og í fallegum skólabókardæmum. Hver banki hugsi fyrst og
fremst um eigin markaðshlutdeild og enginn vilji hafa frum-
kvæði að vaxtalækkun af ótta við að kúnninn flykkist í þann
næsta. Til verði að koma stýring að ofan ef kerfið eigi að
geta brugðist eðlilega við breyttum aðstæðum.
Þetta er líka hluti skýringarinnar.
Það er einnig rétt að minna á að „fákeppni" er næsta orð
við einokun í orðabók hagfræðinnar, - og á ýmsan hátt hefur
bankakerfið hér á sér þann svip. Við þekkjum öll flottræfils-
háttinn og óhófið í útþenslu bankanna, í húsbyggingum og
innréttingum, og án þess nokkuð gerist er það allra skoðun
að peningastofnanir á landinu séu alltof margar og alltof
óhagkvæmar.
Vel má vera að ástæðan fyrir hávöxtum og gífurlegum
vaxtamun inn- og útlána í bankakerfinu og annarstaðar á
fjármagnsmarkaði felist í offjárfestingum, flottræfilshætti,
óhagræði og almennum rekstrarvanda í þessum peninga-
fyrirtækjum. Það er hinsvegar vant að sjá af hverju þau eigi
að hafa þá einstæðu stöðu á fslandi að skammta sér sjálf
sínar eigin markaðsaðstæður í krafti samtryggingar og ein-
okunar, - að ekki sé minnst á það að ríkisfyrirtækin í þessum
hópi skuli ganga þvert á yfirlýsta stefnu æðstu stjórnenda
sinna.
En það skiptir ekki máli núna hver þessara skýringa kann
að vera réttust. Staðreyndin er að svokölluð vaxtalækkun
bankanna um síðustu helgi var eingöngu hlægileg, og að
núverandi stefna bankastjórnanna í vaxtamálunum er hreint
skemmdarverk í þeim björgunarleiðangri sem nú stendur
yfir með ríkisstjórnina í fararbroddi.
Már Guðmundsson segir í Degi að stýring að ofan geti
verið með ýmsum hætti, - handafl, leiðsögn, strokur.
Nýlegar yfirlýsingar forsætisráðherra, viðskiptaráðherra
og fjármálaráðherra benda til þess að aðferð leiðsagnarinn-
ar og strokunnar hafi ekki dugað enn.
Og ef fákeppnishetjurnar og frjálshyggjutapparnir átta sig
ekki á allra næstu dögum á hinum pólitíska veruleika í
landinu hlýtur að renna upp tími handaflsins, tími hnefans og
vandarins.
Þarf kannski að gefa ríkisstjórninni tappatogara?
-m
KLIPPT OG SKORIÐ
Persónudýrkun
í fréttum
Fjölmiðlar á þessu landi eru í æ
ríkari mæli haldnir einskonar
persónudýrkun.
Hér er blátt áfram átt við það,
að þeir taka æ minna eftir því sem
sagt er, en þeim mun meira eftir
því hver segir það og við hvaða
aðstæður.
Gott dæmi voru flokksþing Al-
þýðuflokks og Framsóknarflokks
fyrir skemmstu. Ef til vill tóku
einhverjir eftir því af fréttaflutn-
ingi, að ungkratar voru eitthvað
að agnúast út í Jón Baldvin fyrir
hans undarlega endurskoðunar-
stefnu í utanríkismálum eða öðru
því um líku. En þeir munu næsta
fáir. Aftur á móti vita allir að for-
menn flokkanna fóru í gagn-
kvæmar heimsóknir og það varð
sú frétt sem allar aðrar fréttir
gleypti. Það skipti ekki höfuð-
máli hvað þeir sögðu, Steingrím-
ur hjá krötum og Jón Baldvin hjá
Framsókn (báðir töluðu víst um
það að þeir ættu sameiginlegan
pólitískan afa í Jónasi frá Hriflu).
Það var staðsetningin sem skipti
máli. Hún var óvenjuleg, spenn-
andi og pínulítið hneykslanleg.
Þeir voru eins og Halli og Laddi á
kirkjuþingi - eða þannig.
Forsetamál
og málefni
Svipað má segja um áherslur
fjölmiðla í fréttaflutningi af því
Alþýðusambandsþingi sem nú
stendur yfir. Hver langhundur-
inn, glefsan eða skotið eftir ann-
að snýst um eitt og hið sama:
hverjir verða forsetar og varafor-
setar. Ætlar Ásmundur fram?
Getur Ásmundur unnið með
þessari konu eða hinni? Hver
styður ekki hvern til að reyna að
fá einhvern til að gefa kost á sér
eða ekki kost á sér? Og þar fram
eftir götum utan enda.
Forseti ASÍ, Ásmundur Stef-
ánsson, er einn þeirra fáu sem
reyna að slá á þennan fjölmiðla-
dans kringum einstaklinga. Hann
hefur með ýmsum hætti reynt að
snúa athyglinni að þeim stóru
málum sem á verklýðshreyfingu
brenna við núverandi aðstæður. í
viðtali í Mbl. í gær var hann m.a.
að tala um eina af alvarlegum af-
leiðingum þess að Iaun eru skert
með lagaboðum. Hann segir:
„Það er auðvitað fullkomlega
ljóst að þær skerðingar sem hafa
gengið yfir hafa fyrst og fremst
bitnað á þeim hópum sem eru á
lægri töxtunum á meðan hinir
sem eru í betri aðstöðu til að
semja hver fyrir sig, oftast þá þeir
sem eru betur launaðir, hafa í
meira mæli getað bætt sér upp
þessar skerðingar. Þarna er
kannski fólgin stærsta ástæðan
fyrir því hve illa hefur farið varð-
andi launahlutföllin um nokkuð
langt árabil. Það er auðvitað líka
ljóst, að til að breyta launahlut-
föllunum þarf að vera góð sam-
staða um það, ekki bara í verka-
slýðshreyfingunni heldur líka í
þjóðfélaginu öllu. Það er
fullkomlega ljóst að verulega hef-
ur skort á að sú samstaða sé fyrir
hendi. Það er auðvitað eitt af
meginverkefnum verkalýðs-
hreyfingarinnar á hverjum tíma
að halda uppi áróðrinum fyrir
launajöfnuði, fyrir réttlátari
tekjuskiptingu.“
Gegn straumi
Allt er þetta satt og rétt hjá
Ásmundi og þetta er vísa sem er
reyndar of sjaldan kveðin. Það
eru engin stærri mál til fyrir verk-
lýðshreyfingu en samstöðumálin,
og engin eru erfiðari. Launa-
stiginn hefur tilhneigingu til að
gerast brattari - reyndar bæði
þegar samningsréttur er skertur
og þegar hann er í fullu gildi.
Það er engin klisja hjá forseta
ASÍ þegar hann segir að það þurfi
að „halda uppi áróðri fyrir rétt-
látari tekjuskiptingu". Þau mark-
aðslögmál sem hægriöfl vilja láta
leysa hvern vanda í þjóðfélaginu
eru feiknarlega sundurvirk, svo
sundurvirk að hið „eðlilega“
verður að hver hugsi um sig, að
félagshyggjan nái ekki út fyrir
„mitt félag“ og andskotinn hirði
þá öftustu. Þeir koma mér ekki
við - best að ríkið hirði þá (en
ríkið má heldur ekki hirða af mér
drjúga skatta til að sýna þeirri
umhirðu sóma). Sérhyggjan
verður regla, samstaðan eitthvað
„ónormalt“, eitthvað sem er ekki
í takt við gangvirkið í þjóðfé-
laginu. Það þarf tölvert bein í nefi
til að ganga gegn þeim flaumi, til
að taka samstöðukröfuna alvar-
lega, eins víst að híað verði óspart
á þá sem það gera og þeir taldir
hlægilegir menn: þykist þið ætla
að hafa vit fyrir okkur?
Heilagur
Jón Þorláksson
Enn um persónudýrkun. Hún
er ekki barasta í fréttaflutningi af
tíðindum dagsins. í sjónvarpi á
mánudagskvöld mátti sjá þátt
sem Hannes Hólmsteinn Giss-
urarson hefur gert um Jón Þor-
láksson. Og voru sannarlega ekki
maðkar í mysunni hjá þeim
manni sém þátturinn lýsti sem
föður veganna, föður hita-
veitunnar, föður Sjálfstæðis-
flokksins og guð má vita hvers.
Þetta var ekki þáttur um
stjórnmálaforingja, sem eðli
málsins samkvæmt er umdeildur,
heldur þáttur úr heilagra manna
sögum. Ekkert sem Jón Þorláks-
son hafði gert var minna en sjálf-
sagt og fullkomið og skilningur
hans á þjóðfélaginu var vitanlega
langt upp yfir það hafinn að vera
hægriskoðun, heldur var hún
sjálfur hinn vísindalegi sann-
leikur: Hann sá það sem öðrum
var hulið - að þjóðfélagið þurfti
ekki að vea skipulagt þótt það
væri skipulegt.
Stundum finnst manni að fjöl-
miðlafrelsið sem Hannes Hólm-
steinn og aðrir Sjálfstæðismenn
eru svo stoltir af sé einkum fólgið
í þessu: Það er frelsi íhaldsmanna
til að hrósa íhaldsmönnum. Á
ríkisins kostnað
ÁB
Þjóðviljinn
Síðumúla 6 • 108 Reykjavík
Sími 681333
Kvöldsími 681348
Útgefandi: Útgáfufólag Þjóöviljans.
RltstjórariÁrni Bergmann, MöröurÁrnason, OttarProppé.
Fróttastjóri: Lúövík Geirsson.
Blaöamenn: Dagur Þorleifsson, Guðmundur RúnarHeiðarsson,
Heimir Már Pétursson, Hjörleifur Sveinbjörnsson, Kristófer
Svavarsson, Magnús H. Gíslason, LiliaGunnarsdóttir, ólafur
Gíslason, Páll Hannesson, Sigurður Á. Friðþjófsson (Umsjónarm. Nýs
Helgarb.), Sævar Guðbjörnsson, Þorfinnurómarsson(íþr.).
Handrita- og prófarkalestur: Elías Mar, HildurFinnsdóttir.
Ljósmyndarar: Jim Smart, ÞorfinnurÓmarsson.
Útlitsteiknarar: Kristján Kristjánsson, KristbergurÓ.Pétursson
Framkvæmdastjóri: Hallur Páll Jónsson.
Skrifstof ustjóri: Jóhanna Leópoldsdóttir.
Skrlfstofa: Guðrún Geirsdóttir, Kristín Pétursdóttir.
Auglýsingastjóri: Olga Clausen.
Auglýsingar: Guðmunda Kristinsdóttir, Unnur
Ágústsdóttir, Sigurrós Kristinsdóttir.
Símavarsla: Sigríður Kristjánsdóttir, ÞorgerðurSigurðardóttir.
Bílstjóri: Jóna Sigurdórsdóttir.
Húsmóðir: Anna Benediktsdóttir
Útbreiðslu-ogafgreiðslustjóri: Björn Ingi Rafnsson.
Afgreiðsla: Halla Pálsdóttir, Hrefna Magnúsdóttir.
Innheimtumaður: Katrín Bárðardóttir.
Útkeyrsia, afgreiðsla, ritstjórn:
Síðumúla 6, Reykjavík, símar: 681333 & 681663.
Auglýsingar: Síðumúla 6, símar 681331 og 681310.
Umbrot og setning: Prentsmiðja Þjóðviljans hf.
Prentun: Blaðaprent hf.
Verð í lausasölu: 70 kr.
Nýtthelgarblað: 100kr.
Áskriftarverð á mánuði: 800 kr.
6 SÍÐA — ÞJÓÐVILJINN Fimmudagur 24. nóvember 1988