Þjóðviljinn - 22.12.1988, Blaðsíða 16

Þjóðviljinn - 22.12.1988, Blaðsíða 16
MINNING Gunnar Ossurarson Fæddur 1. júlí 1912 - Dáinn 16. desember 1988 Góður drengur er að velli hnig- in, Gunnar Össurarson frá Kolls- vík í Rauðasandshreppi sem fæddur var 1. júlí 1912. Útför hans verður gerð á morgun Þor- láksmessu kl. 10.30 frá Fossvogs- kirkju. Á æskuslóðum Gunnars í Út- víkum norðan Látrabjargs nær tign náttúrunnar, töframáttur hafs og lands, sterkum tökum á mannshuganum. Hamraveggur bjargsins kvikur af lífi á eina hlið en á aðra úthafið sjálft í ógn sinni og dul á dimmum vetrarnóttum og um sumardaga bjarta. Hvergi er grasið grænna en á bjargbrún- inni og uppi á Hnífum þar sem við Gunnar sátum eitt sinn og horfð- um lengi til hafs. Máske eru það hrjóstrin á heiðavegum þessa út- skaga, sem gera grasið grænna í minningunni. Gróðurmoldin er frjó í Kollsvík en samt voru bjarg- ið og hafið þeir tveir lífheimar sem fólkið byggði á tilveru sína. Sú lífsbarátta var ekki heiglum hent. Á uppvaxtarárum Gunnars stóð byggðin enn með blóma í öllum Rauðasandshreppi og sjór sóttur af kappi á árabátum frá Kollsvíkurveri þar sem fjöldi skipshafna lá við á vorin. Löngu seinna festi Gunnar á blað ágæta teikningu af verinu. Þar má glögglega sjá skipan verbúða og fiskireita umhverfis Búðalækinn. Þennan uppdrátt Gunnars er að finna í tíunda árgangi Árbókar Barðastrandarsýslu. Gunnar Össurarson ólst upp í Kollsvík hjá foreldrum sínum, næstyngstur tólf barna þeirra og komust flest upp. Faðir Gunnars var Össur bóndi Guðbjartsson en móðir Anna Jónsdóttir. Að þeim báðum stóð mikill frændgarður, sem lengi hafði unað lífinu í skjóli Látrabjargs. Um Össur er sagt að hann hafi verið „fárra líki að þoli og kjarki við vinnu, jafnt á sjó og landi“. Fimmtán ára gamall fluttist Gunnar með foreidrum sínum norður á firði, árið 1927, en þau settust þá á höfuðbólið Mýrar í Dýrafirði. Nokkrum árum síðar barst Gunnar Össurarson til Reykjavíkur, mitt í heimskrepp- unni miklu, og ílentist þar. Gunn-. ar var sérstæður maður og fáum líkur. Engu að síður um margt dæmigerður fulltrúi fyrir það unga fólk sem mitt í þrengingum kreppunnar, atvinnuleysi og sárri fátækt, lét berast á vængjum framtíðarvona um réttlátt þjóðfélag og jafna skiptingu heimsins gæða. Þessi vonbjarta trú og sú köllun sem henni fylgdi setti mark sitt á marga af kynslóð Gunnars. Undir rauðum fánum byltingarinnar vildu þau standa og falla, lifa og deyja, eða eins og segir í Fánasöng þessara ára: Pegar daprast oss gangan við ellinnar ár, þegar opnast hin síðustu skjól, signdu blóðrauði fáni vor héluðu hár undir hœkkandi öreigasól. Lát á blóðrauðum grunni þá bera við ský okkar blikandi hamar og sigð. Fylltu vetrarins heim þínum voraldargný til að vekja um gjörvalla byggð. Láttu alls staðar gjalla þinn uppreisnarsöng frá unnum að háfjallabrún og við heitum að jylkja okkurfast um þá stöng þar sem fáni vor blaktir við hún. Samheldnin gat orðið sterk í slíkum hópi og öllu talið fórnandi fyrir málstaðinn. Reyndar mun ekki hafa munað nema litlu að Gunnar frá Kollsvík héldi á Spán- arvígstöðvarnar til að berjast við fasismann með vopn í hendi. Ekki sjálfum sér til frægðar held- ur til þess að sýna trú sína í verk- unum. Óbreyttur hermaður vildi hann vera og máske hefði Kolls- víkingnum ekki látið illa að falla þar með góðum félögum, heill og sannur ungur maður. Skoðað með gleraugum nútím- ans kann mörgum að virðast sem Gunnar og félagar hans frá kreppuárunum hafi verið hálf- gerðir einfeldningar á valdi draumóra. Slíkur dómur á sér litla stoð. Tíminn mótar hverja kynslóð í sinni mynd, eilífur tími, sem þó er jafnan nýr. Sumir tímar eru fátækir að veraldarauð en vonbjartir, á öðrum hrósar Mam- mon sigri í hverju húsi og verður þá mörgum dimmt fyrir augum. Glíma manna við lögmál tím- ans tekst misjafnlega, hjá Gunn- ari vel meðan hann hélt óskertum kröftum. Hann var á æskuskeiði róttækur byltingarsinni og hélt jafnan vissri tryggð við þær hug- sjónir sem hann þá mótaðist af. En hann varð víðsýnn og leitaði ætíð þekkingar, umburðarlyndur við alla menn og átti sérstæða kímnigáfu, sem naut sín vel í fá- mennum kunningjahópi. Skóla- ganga Gunnars var ekki löng, nám í héraðsskóla og skömmu fyrir stríð námsdvöl við menntastofnun tengda verka- lýðshreyfingunni í Svíþjóð. Námi í húsasmíði lauk hann reyndar einnig og starfaði lengst af sem trésmiður og byggingameistari. En óháð skólagöngu var smiður þessi býsna vel heima á mörgum sviðum, víðlesinn og fjölfróður, hafði ýmis tungumál á valdi sínu, a.m.k. ensku ogþýsku auk Norð- urlandamála. Vel má skilja það sem hér er ritað svo að Gunnar hafi í æsku verið pólitískur heittrúarmaður. Síðar mátti hann kallast bæði gætinn og hófsamur í þeim efnum og minnti þá stundum á Einar gamla í Kollsvík, forföður sinn, sem uppi var um aldamótin 1800 og Gunnar Gunnarsson nefnir jafnan monsjör í bók sinni Svart- fugli. Einar var á sinni tíð kallað- ur fríþenkjari þar í Útvíkum og það var víst einmitt Gunnar, niðji hans, sem fyrstur sagði mér sög- una um monsjör Einar og bókina góðu, er var hans viskubrunnur. Almúgamenn áttu á dögum Ein- ars fæstir kost á öðru lestrarefni en því guðsorði sem yfirvöld rétt- trúnaðarins skömmtuðu. Mon- sjör Einar hafði hins vegar kom- ist yfir dularfulla bók, sem sveitungar hans kölluðu Fornótt. Með þennan brunn að bakhjarli leyfði hann sér að draga í efa ýmsa trúarlærdóma biblíunnar og séra Jóns Ormssonar í Sauðlauksdal. Villuritið, sem bóndinn í Kollsvík hafði í fórum sínum og kallað var Fornótt, mun reyndar hafa verið danskt og bor- ið nafnið Jesus og Fornuften, það er Jesús og skynsemin. Sagt er að Einar í Kollsvík hafi við lestur bókarinnar tekið að efast um himnaríkis dýrð og jafnvel haldið því fram að smiðurinn Jósef hafi verið réttur faðir sveinsins unga, er að sögn guðsorðabóka var lagður í lágan stall um þetta leyti árs fyrir margt löngu í grennd við gistihúsið í Betlehem. Um para- dísarmissi og fríþenkjaratal Ein- ars gamla í Kollsvík verður ekki fjallað nánar hér en víðar er guð en í Görðum og ekki laust við að ýmsir trúmenn í stjórnmálum hafi síðar mátt þola svipaða reynslu og monsjör Einar, þó að formerkin væru dálítið önnur. Þegar slíkt hendir er gott að hafa úthafið fyrir fótum sér og bjargið að styðjast við. Fögur er hlíðin. Liðlega sextugur að aldri sneri Gunnar Össurarson aftur heim. Hann hafði þá dvalist hér syðra í um það bil fjörutíu ár. Nú vildi hann ganga á hólm við þau vél- ráðu eyðingaröfl, sem leitast við að þurrka út þúsund ára mannlíf í útvíkum og breiðum byggðum landsins. Hann barðist hetjulega. í fæðingarhreppi sínum, þar sem byggðin stóð orðið höllum fæti, hóf hann nýja uppbyggingu. Setti á fót verkstæði og byggði hús yfir fólk og fénað. Um skeið sýndist horfa vænlegar en áður og tvfl- laust mun það að með byggingum sínum hafi Gunnar forðað nokkr- um jörðum í bráð frá því að fara í eyði, hvað sem síðar verður. Hann taldi kjark í liðið og for- dæmi hans varð öðrum hvatning. Ég sem þetta rita man Gunnar Össurarson fyrst á framboðs- fundi í Vestur-ísafjarðarsýslu haustið 1942. Hann var vörpu- legur í ræðustól, sterkur og stór, en dálítið stirðmæltur. Andlitið ljómaði í góðlátlegu brosi þegar ftindarmenn vörpuðu köpuryrð- um að þessum bóndasyni, sem ýmsir viðstaddir töldu kominn í bland við tröllin. Þetta var í októ- ber og hann vissi að rauði herinn var að snúa heimstaflinu við í Stalingrad. Síðar lágu leiðir okk- ar Gunnars saman stöku sinnum og þó einkum eftir að hann flutt- ist vestur og ég átti þar erindi að rækja á hans heimaslóðum. Gott var þá að eiga jafnan gistingu vísa hjá honum og margvíslega skemmtan. Að fara með Gunnari á bæi í Rauðasandshreppi var ævintýri líkast. Ég minnist góðra stunda á Láganúpi í Kollsvík hjá Össuri frænda hans og fjöskyldu, heim- sóknar að Gröf á Rauðasandi þar sem gott var að sitja í eldhúsinu undir torfþaki hjá Ólöfu Dag- bjartsdóttur, 19. aldar konu, sem verið hafði í fámennri sellu Kommúnistaflokks íslands á Barðaströnd. Líklega verða stundir okkar í Kvígindisdal þó sérstæðastar í minningunni. Þar réði ríkjum Snæbjörn prúði Thoroddsen, fæddur árið 1891 og hafði verið sveitarhöfðingi á ann- an mannsaldur. Ætíð fagnaði þessi tryggi liðsmaður Sjálfstæð- isflokksins komu okkar Gunnars og tók fram fallegu koníaksstaup- in. Margt var þá spjallað í gömlu stofunni í Kvígindisdal og eitt sinn fór öldungurinn með okkur út í Kollsvíkurver þar sem faðir Gunnars hafði leyft Snæbirni ungum að fljóta með í róður. Það var unun að skynja þann kærleik, er ríkti milli þessara tveggja ólíku manna, sem þó áttu svo margt sameiginlegt. Og falleg var ræðan, sem Snæbjörn flutti ní- ræður í sjötugsafmæli Gunnars, sællar minningar. Nú eru þeir báðir farnir veg allrar veraldar. Við Gunnar Össurarson geng- um stundum um grýttar heiðar í grennd við Látrabjarg. Áttum þó margt eftir þegar heilsa hans brást fyrir fimm árum eða svo. Til móts við óvættina á Látraheiði mun ég nú ganga einn með fjöru- lallakvæði Gunnars í andans nesti og taka því sem að höndum ber. í Brúðgumaskarði skal hans brátt verða minnst þar sem fornir fjall- vegir mætast. Kjartan Ólafsson Nýjar bækur — Nýjar bækur — Nýjar bækur — Nýjar bækur — Nýjar bækur Perast, Ijóð eftir Sveinbjörn Út er komin ljóðabókin Perast eftir Sveinbjörn Þorkelsson. í henni eru 33 Ijóð og eru sam- kvæmt baksíðutexta ort útfrá Perast, bæ hinna dauðu skip- stjóra við Kotorfjörð í Svart- fjallalandi í Júgóslavíu. Bókin „er ekki landabréfabók. Og þó, á annan veg. Úr Vetrarríkinu, um sumarnótt, liggur ljóðlínan til Júgóslavíu og áfram, hikandi, til Tyrklands.“ Perast er fjórða ljóðabók Sveinbjörns, og er hún prýdd myndum eftir Systu. Síðustu Ijóð í fyrstu bók Út er komin bókin „Síðustu ljóð“ eftir Hrafn Jökulsson og er það fyrsta bók höfundar sem kunnur er fyrir störf að blaða- mennsku, bókritun, útgáfu og ijóðakynningu. I bókinni, sem útgáfan Flugur gefur út, eru sex- tán ljóð, flest áður óbirt. Ljóðin eru með ýmsum hætti, sum orð- sendingar til annarra skálda (+Medúsa, Nótt í Reykholti, Öpið bréf til fsaks Harðarsonar), en önnur eru „vandlega afmark- aður heimur gerður / úr táknum vatnsglasi og dálítilli golu“ þar- sem fyrir getur komið að draugur stendur alltíeinu „hauslaus í dyra- / gættinni ögn mæðulegur segir / þú gleymdir að slökkva bílljósin“. Hestar og mannlíf Jódynur, hestar og mannlíf í Austur-Skaftafellssýslu, heitir bók sem Bókaforlag Odds Björnssonar gefur út. Guðmund- ur Birkir Þorkelsson bjó til prent- unar. í þessari bók, sem er fyrra bindi af ritverkinu Jódynur, er efnið að mestu leyti frá fyrri hluta 20. aldar. Egill Jónsson á Selja- CX'OMLMAR IIIKklK IH)RKUSM)N Hestnr og iiinnntíf t Aiistur-Slinftnfellssijslu I völlum skrifar um ræktun hrossa á þeim tímum, ættir þeirra og erfðir og um Hrossaræktarfélag Hornfirðinga. Þorsteinn Jó- hannsson á Svínafelli skrifar um hrossakyn í Öræfum og Anders Hansen um samofin örlög Hornafjarðarhrossa og Gunnars Bjarnasonar. Ferðalög yfir ár og vötn, í byggð og óbyggð, brúarsmíði og flutningar skipbrotsmanna til Reykjavíkur á hestum var hluti af daglegu lífi þar í héraði. Frá þessu segja 13 höfundar í þessu fyrra bindi Jódyns og varpar frá- sögn þeirra ljósi á þær miklu mannraunir sem þessi ferðalög höfðu oft í för með sér. 16 SÍÐA - ÞJÓÐVILJINN Flmmtudagur 22. desember 1988

x

Þjóðviljinn

Beinir tenglar

Ef þú vilt tengja á þennan titil, vinsamlegast notaðu þessa tengla:

Tengja á þennan titil: Þjóðviljinn
https://timarit.is/publication/257

Tengja á þetta tölublað:

Tengja á þessa síðu:

Tengja á þessa grein:

Vinsamlegast ekki tengja beint á myndir eða PDF skjöl á Tímarit.is þar sem slíkar slóðir geta breyst án fyrirvara. Notið slóðirnar hér fyrir ofan til að tengja á vefinn.