Þjóðviljinn - 27.04.1990, Síða 23
Jón Engilberts: Blik af lífi frá
1947.
Myndlistarsyrpa
Búnaðarbankinn 60 ára -
afmælissýning á Kjarvalsstöðum
Sigurður Örlygsson
á Kjarvalsstöðum
Kjartan Ólafsson í Gallerí Nýborg
Listamarkaöur
Búnaðarbankans
Það liggur furðuleg þversögn í
þessari afmælissýningu Búnaðar-
bankans að Kjarvalsstöðum: hún
sýnir okkur að bankinn hefur á 60
ára ferli sínum safnað drjúgum
sjóði af íslenskri myndlist, og þó
mun aðeins hluti af öilu safninu
vera á sýningu þessari. Hins veg-
ar ber öll sýningin þess vott, að
aðstandendur hennar virðast lítið
skynbragð bera á í hverju gildi
þessa listasjóðs er fólgið, hvað
hafi hugsanlega varanlegt menn-
ingarsögulegt gildi og hvernig því
verði komið til skila. Sýningin er
eins og flóamarkaður þar sem
öllu ægir saman án þess að gerð sé
veruleg tilraun til þess að greina á
milli hismis og kjarna eða gera
hlutina aðgengilega og skiljan-
lega fyrir það sem þeir eru.
Að setja saman og koma upp
sýningu á myndlist er í sjálfu sér
bæði miðlun og tjáning sem
skiptir ekki minna máli en t.d.
framsetning efnis í dagblaði eða á
bók. Hér hafa hins vegar allar
reglur slíkrar framsetningar verið
brotnar, svo að til vanvirðu er
fyrir listina og Búnaðarbankann í
senn.
Það ber ekki að vanmeta þegar
fyrirtæki sýna skilning á því að
efnahagsleg starfsemi fær ekki
þrifist og blómgast í menning-
arsnauðu umhverfi. Framtak eins
og þessi sýning væri líka lofsvert
ef að því væri staðið með þeim
hætti sem vert væri. Vissulega er
það upplifun að sjá ýmsar perlur
íslenskrar myndlistar, sem Bún-
aðarbankinn hefur borið gæfu til
að eignast í gegnum árin, en sú
upplifun verður blandin þegar
þessum perlum er komið fyrir
með þeim hætti, að ekki er gerð-
ur greinarmunur á þeim og
hreinum hégóma, eins og port-
rettmyndunum, sem bankastjór-
arnir hafa látið mála af sjálfum
sér til þess að svala hégómagirnd
sinni eða valdagleði.
í stuttu máli eru allt of margar
myndir á þessari sýningu og
gæðamunur verkanna of mikill.
Með helmingi færri myndum
hefði sýningin strax orðið betri.
Þá er öllu blandað saman með
þeim hætti að hvorki er farið eftir
tímaröð, aldri eða stfl og verkum
einstakra listamanna jafnvel
dreift vítt og breitt um sýninguna.
Engin skrá er yfir sýndar myndir,
og hvergi er getið um ártal mynd-
anna eða hvenær þær voru
keyptar í safn bankans. Allt er
þetta til vitnis um lítinn faglegan
metnað gagnvart þeim ríkulega
efnivið sem listasafn bankans
hefur upp á að bjóða. Það má að
vísu til sanns vegar færa, að húsa-
kynni Kjarvalsstaða séu þess eðl-
is að þau geri skilmerkilega fram-
setningu á jafn fjölbreytilegu
safni erfiða, en þá átti að tak-
marka val verka við þann húsa-
kost sem var fyrir hendi.
Þrátt fyrir þessa vankanta var
það upplifun að sjá meistaraverk
Jóns Engilberts, Blik af lífi, í
öðru umhverfi en afgreiðslusaln-
um í Austurstræti. Þótt myndin
þjóni vel sínum tilgangi í því um-
hverfi, þá geldur hún þess þar að
að henni er þrengt. Ef við ímynd-
um okkur að forsvarsmenn Bún-
aðarbankans árið 1947 hefðu
ekki sýnt þá framsýni að panta
þessa mynd af Jóni Engilberts
væri íslensk listasaga og íslensk
menning trúlega fátækari en hún
er í dag. Fátt sannar betur en
þessi mynd, hvaða þýðingu at-
vinnufyrirtæki geta haft fyrir
menningarlíf þjóðarinnar.
Það var einnig forvitnilegt að
sjá stórvirki Svavars Guðna-
sonar, „Blikar við sólarlag“ við
þessar aðstæður. En myndin nýt-
ur sín þó ekki eins og hún gæti.
Ekki bara vegna þeirrar upp-
hengingar, sem áður var getið,
heldur fyrst og fremst vegna ram-
mans úr dökkum harðviði sem er
eins og partur af innréttingatí-
skunni í bönkunum á 6. og 7. ár-
atugnum. Slíkar innréttingar eiga
ekki heima utan um þetta verk,
sem er eins og tilfinningasprengja
og á að hafa hlutlausa umgjörð til
þess að njóta sín.
Það var líka óvænt ánægja að
sjá tvær myndir eftir Svavar frá
1947-48, sem hann kallaði „Föns-
un“. Þær eru meðal merkustu
verkanna á þessari sýningu og til-
heyra mflustólpunum í íslenskri
listasögu.
Það er auðvelt að telja upp
fleiri perlur úr þessu safni: Kjar-
valsmyndirnar þrjár, sjálfsmynd
Jóns Stefánssonar, Karl Kvaran,
Snorra Arinbjarnar o.fl, en um
þær allar má segja: þær áttu betra
skilið en að lenda í þessu kraðaki
sem vísar til engrar áttar.
Málverkið sem
leikmynd
í Vestursal Kjarvalsstaða sýnir
Sigurður Örlygsson flennistórar
myndir sem eru í beinu framhaldi
síðustu sýninga í FÍM-salnum og
að Kjarvalsstöðum. í verkum
þessum er myndflöturinn gjarnan
gerður að bakgrunni fyrir þrívíð-
ar myndir sem Sigurður festir
utan á málverkið. Myndefnið
túlkar enn hið sama: grátbroslega
viðleitni mannsins til þess að
z,
O \ fcl
i , ■ á
ÓLAFUR GÍSLASON
hemja óreiðuna í veröldinni með
skynsemi sinni og véltækni. Sig-
urði tekst hér betur en oft áður að
samræma myndflötinn sem bak-
grunn og hin þrívíðu eiement í
myndunum, þannig að þegar best
lætur þá finnst manni þessar hug-
myndir vera heillandi efni í
brúðuleikhús: hvers vegna tekur
Sigurður ekki skrefið til fulls og
skapar þrívítt rými með leiktjöld-
um og hreyfanlegum myndum
sem gætu sagt okkur þessa sögu á
áhrifameiri hátt? Persónurnar
sem Sigurður hefur búið til í þess-
um myndum eiga eitthvað sam-
eiginlegt með Buster Keaton í
tragíkómískri viðleitni sinni og
andrúmsloftið sem í þeim býr
býður einfaldlega upp á að
leikurinn fari á hreyfingu og leggi
rýmið undir sig til fulls!
Frummynd
og gríma
Kjartan Ólafsson sýnir litlar
myndir málaðar með þekjulit í
Gallerí Nýhöfn í Hafnarstræti um
þessar mundir. Þessi sýning er
allrar athygli verð og sýnir nýja
hlið á þessum listamanni, sem
hélt eftirminnilega sýningu á
stórum málverkum að Kjarvals-
stöðum fyrir rúmu ári. Skyldleiki
þessara tveggja sýninga felst í
myndefninu: steinrunnar grímur,
manneskjur og dýr eru málaðar
fastmótuðum dráttum og verða
eins konar frummyndir hliðstæð-
ar þeim sem finna má í goðsögum
og fela í sér einhvern þann
sammannlega eiginleika sem
veitir hinu einstaka formi al-
mennt gildi. Munurinn er hins
vegar sá að á meðan málverkin
voru nánast mónúmental í stærð
sinni og sannfæringarkrafti, þá
eru þekjulitsmyndirnar eins og
nákomnar vangaveltur með
ljóðrænum undirtóni.
Kjartan hefur sjálfur sagt í við-
tali hér í blaðinu, að myndheimur
hans sé sprottinn af áhuga á
fornri goðafræði og klassískri list.
Myndir hans eru þó ekki goða-
fræði í þeim skilningi að persónur
þær og dýr sem hann málar séu
staðgenglar yfirnáttúrulegra afla
er skapi mönnum örlög og ráði
gangi náttúrunnar. En sá karakt-
er sem hann leggur í andlit sín og
verur hefur skírskotun til hins al-
menna og sammannlega frum-
karakters á sama hátt og goð-
sagan og gerir tilkall til að hafa
almennt gildi. En eins og gríman
hefur tvírætt eðli sem fals og bú-
staður anda, þá má einnig lesa
þetta tvíræða eðli grímunnar út
úr goðsagnaverum Kjartans: sú
viðleitni listarinnar að birta hið
almenna í einstöku formi er ó-
framkvæmanleg nema með hjálp
blekkingarinnar. Á bak við grím-
una býr nagandi óttinn við hinn
sundurvirka heim samtímans sem
ekki verður haminn í einni form-
rænni niðurstöðu.
Listin á það sameiginlegt með
hugmyndafræðinni í samfélagi
nútímans að nærast á blekkingu
en vera engu að síður ómissandi.
Sem leiðarljós.
FUNDIR MEÐ FJÁRMÁLARÁÐHERRA UM LANDIÐ
ÁRANGURINN
FRAMTIÐíN
EFNAHAGS8AHNN 0G NÝ VIÐHORF
í ÍSLENSKUM PJÓÐMALUM
Ólafur Ragnar Grímsson fjármálaráöherra heldur
fund um árangurinn sem náöst hefur í
efnahagsmálum og um ný viðhorf í íslenskum
þjóðmálum. Fjallað verður um framtíðarhorfur í
fjármálum, atvinnulífi og lífskjörum. Fyrirspurnum
svarað um nútíð og framtíð.
SAUÐÁRKRÓKUR DALVÍK
AKUREYRI
ÓLAFSVÍK
LAUGARDAGINN 28. APRÍLKL. 14:00 SUNNUDAGINN 29. APRÍL KL. 14:00 SUNNUDAGINN 29. APRÍLkl. 20:30 MÁNUDAGINN 30. APRÍLKL. 20:30
ISAFNAÐARHEIMILINU ÍVÍKURRÖST IALÞÝÐUHÚSINU IFÉLAGSHEIMILINU
Allir velkomnir
FJARMALARAÐUNEYTIÐ