Ársrit Ræktunarfélags Norðurlands - 01.01.1943, Blaðsíða 46
48
hrærir. Nýbýli, sem að mestu leyti byggðust á grænmetis-
rækt við jarðhita, kæmust af með lítið land hvert og gætu
því mörg rúmast á tiltölulega litlu svæði.. Því miður hefur
reynsla undanfarinna ára sýnt, að þótt vermihús okkar fái
hitann fyrir lítið eða ekki neitt, þá er fjarri því að þau geti
keppt við erlend vermihús, sem þó verða að nota kol til
hitunar. Jafnvel svo auðræktaða vermihúsajurt sem tomata,
hafa vermihús okkar selt á tvöföldu og jafnvel margföldu
verði við það, sem annarsstaðar tíðkast.
Ræktun á korni og fræi er ennþá lítið útbreidd, en á vafa-
laust mikla framtíð, í vissum bygðalögum, í sambandi við
annan búrekstur. Virðist ekkert því til fyrirstöðu, að við
getum, er fram líða stundir, framleitt allt það fóðurkorn,
er við þörfnumst, og eitthvað af korni til matar. Ennfrem-
ur nokkurn hluta þess grasfræs er okkur vanhagar um. Eg
hefi lengi verið þeirrar skoðunar, að ræktun jurta til fræ-
þroska, mundi auðveldast í sendnum og fremur léttum jarð-
vegi, að öðru jöfnu. Tilraunir þær, sem síðustu árin hafa
verið gerðar á söndunum á Rangárvöllum, virðast ætla að
sanna þetta. Má vel vera, að mjög auðvelt og ódýrt reynist
að reisa nýbýli, sem bygðu tilveru sína fyrst og fremst á rækt-
un korns, fræs og kartaflna á sumum örfokasvæðunum á
Suðurlandi. Blaðinu yrði þá snúið við, landið, sem búsetan
lagði í auðn, yrði endurgrætt með nýju landnámi. Gæti þetta
orðið skemmtilegasti þátturinn í sandgræðslusögu landsins.
Ræktun sem þessi kemur vitanlega aðeins til greina í
láglendissveitum sunnanlands, þar sem meðalhiti sumarsins
er sæmilegur og frosthættan lítil, en þetta gildir um allan
neðri hluta Árness- og Rangárvallasýslu og mörg svæði í
báðum Skaftafellssýslum. Þótt sandjarðvegurinn sé ófrjór,
þá kemur það ekki mjög að sök við ræktun þeirra jurta, sem
eiga að þroska fræ, því mikil frjósemi seinkar fræþroska.
Reynslan af þeim tilraunum, sem gerðar hafa verið, sýna
líka, að korn og fræ þroskast alt að 2 vikum fljótar á söndum
Rangárvalla, en austur í Fljótshlíð. Sandjarðvegurinn er