Lesbók Morgunblaðsins - 03.04.1960, Blaðsíða 3

Lesbók Morgunblaðsins - 03.04.1960, Blaðsíða 3
LESBÓK MORGUNBLAÐSINS 183 Breiðafjörð, því að ekki verður það í framtíðinni talinn vegsauki fyrir þessa kynslóð, ef íslenzka hafern- inum yrði útrýmt á okkar árum, en vitað er nú um tæplega 40 erni í landinu og hafa þeir allir búsetu við Breiðafjörð og á Vestfjarða- kjálkanum. Leiðin liggur um hraunin, enda- laus hraun. Það mun ekki nema um 5% af öllum þessum skaga vera gróið graslendi. — Hraunin fram- undan eru: Hvaleyrarhraunið, Kappelluhraun, Almenningurinn og Afstapahraunið. Við ökum eftir sólgylltum veginum, sem apal- hraunið varpar skuggum og fígúr- um á. Þessi frostsins vegur hefur á sér eyðimerkurlit. Hann er gul- brúnn. En litir vetrarmorgunsins geta líka verið margbreytilegir. Þarna er hið opna haf, blátt með svolitlu hvítu öldusáldri og skjall- hvítu fannkögri með öllum fjörum. Á himninum eru hvít ský, en ofar taka við önnur, sem eru blágráleit og efst er ljós, tærblár himininn með fínum, hvítum skýjakembingi. Blátt og hvítt eru kaldir litir. Þeir eru íslenzkir litir, og þó er ísland ekki kalt. Upp frá sjónum liggur grátt landið með brúnum ýringum. í grámöttluðu moshrauninu eru þó á stöku stað grænar skvompur. Þar kúra sig fjalldrapi og lyng. Rauð gjallnáman yljar upp febrúarfreðið landslag. í Hvassahrauni sjáum við þrjár stokkendur á lóni, og senn komum við í Kúagerði. Þá er hálfnuð leið frá Reykjavík til Keflavíkur. Við stöldrum við og skoðum fjöll og fagurt útsýni. Það er mistur á Fagraskógarfjalli, og Snæfellsnes- fjöllin eru alveg hulin móðu og þokubakka. — „Þegar Jökullinn hreinsar sig í norðanátt, er örugg austanátt í vændum“, segir Baldur. — Þeir vita sitthvað um veðrið í Vesturbænum — og hann heldur áfram: „í norðanátt gengur ætíð upp þokubakki á vesturfjöllin, og skýabakki myndast að baki Skarðs- heiðar, sem hverfur svo, þegar norðanáttin gengur niður. Það get- ur verið von á stólparoki svo lengi sem skýjabólstri er að baki Skarðs- heiðar, þótt lítill sé“. — Það er mikið fuglalíf þarna á víkinni. Það eru auðvitað mávar og endur, margs konar endur, stokkendur og afarfalleg gulönd. Það er aldeilis skriður á henni, þar sem hún brunar áfram hnarreist með sinn stásslega topp. Svo eru þarna fiskiendur (toppendur) og mosendur (rauðhöfðarnir). Þá eru þeir heldur ekki dónalegir, þar sem glampar á rauðan höfuðbúnaðinn í sólskininu. Nokkuð langt úti á tanganum situr smyrill. Baldur tekur kíkinn og fer að skyggnast um eftir fálka. Hér með ströndinni rekst maður nefnilega oft á fálka. En þá er ekki að sjá í dag, og hefur að sögn eitthvað minna verið þarna um þá í vetur. Þær segja það skytturnar, að það geri snjó- leysið. Fálkinn hefur sennilega nóg af mófugli uppi í landinu. Þeir leita minna til sjávarins, þegar tíðarfarið er svona milt. Sjávarfuglinn hefur satt margan svanginn fyrr og síðar. Á þessum slóðum voru þeir að rangla þrjú útilegumannagrey fyrir röskum tvöhundruð og fimmtíu árum. Þeir einu, sem sögur fara af á Reykjanes skaga. Þeir bjuggu í helli hjá Sels- völlum við Hverinn eina. Leituðu til sjávarins hér niður á Vatns- leysuströndina. Menn og fuglar hafa löngum leitað bjargar við sjó- inn. Að vísu stálu þeir í leiðinni einhverju frammi í Flekkuvíkinni. Saga þeirra varð víst annars aldrei löng og afrekin ekki stór, en þóttu

x

Lesbók Morgunblaðsins

Beinir tenglar

Ef þú vilt tengja á þennan titil, vinsamlegast notaðu þessa tengla:

Tengja á þennan titil: Lesbók Morgunblaðsins
https://timarit.is/publication/288

Tengja á þetta tölublað:

Tengja á þessa síðu:

Tengja á þessa grein:

Vinsamlegast ekki tengja beint á myndir eða PDF skjöl á Tímarit.is þar sem slíkar slóðir geta breyst án fyrirvara. Notið slóðirnar hér fyrir ofan til að tengja á vefinn.