Lesbók Morgunblaðsins - 10.06.1976, Blaðsíða 5

Lesbók Morgunblaðsins - 10.06.1976, Blaðsíða 5
kom til hugar aö öngla saman fyrir nokkrum kindum og setjast þar að. En af því varð þó ekki. Aftur á móti eru skilyrði til sjó- sóknar fremur erfið, víkin er fyrir opnu hafi og óhægt um lend- ingu. En faðir minn byggði sér viðlegukofa í Fremri-Hólminum en það er lítil klettaeyja austan undir Hornbjargi. Þar hafðist hann við nótt og nótt, þegar hann var á færa- og fuglaveiðum, til þess að þurfa ekki að berja alla leið heim á hverju kvöldi. Hvenær ferð þú svo frá Barðs- vfk? Ég fer þaðan um það bil viku gamall. Ég fæddist þ. 10. janúar 1906 en móðir mín dó þann 12. sama mánaðar. Börnunum var þá komið í fóstur en faðir minn flutt- ist nokkru síðar til Bolungarvíkur og settist þar að. Vegna skyld- leika við verðandi fósturforeldra mína, var mér komið í fóstur að Horni þar sem ég ólst upp til átján ára aldurs. Byggð í Barðsvík lagðist niður. Ég hef þó einu sinni komið þar siðan, þá Líklega tiu ára. Ég man eftir umhverfinu en meira ekki. í Hornvíkina komu oft góðir gestir Allar þínar bernskuminningar eru þá tengdar Horni? Já, og frá þeim tíma er ýmislegt ennþá að skýrast fyrir mér og nýtt að koma í ljós. Á minum fyrstu árum skynjaði ég heiminn ekki stærri en Hornvikina og það sem þar bar fyrir augu: Hina tvo bæina: Höfn, sem var hins vegar í víkurbotninum og Rekavík beint á móti okkur; framundan var svo hafbreiðan eins langt og augað dró. En einmitt þá leið kom um- heimurinn til okkar á Horni. Fiskiskipin flykktust þarna á mið- in og oft komu góðir gestir. Ég man sérstaklega eftir há- karlaskipunum frá Akureyri, sem oft leituðu inn á víkina seinni hluta vetrar og fram á vor. Það væri synd að segja að þar hafi vantað þjóðlegheitin, þegar komið var um borð. Þá var manni gefið kaffi, sætt kaffi og kex og allir vasar fylltir, þegar farið var í land. Það var ekki svo litil hátíð. Aðrar skipakomur fylgdu föstum reglum. Fyrstir komu Ey- firðingar og Siglfirðingar upp úr sumarmálum. Mikill vinskapur myndaðist milli þeirra og Horn- víkinga. Meira að segja var það eitt vorið þegar þeir hættu veið- um, en það var venjulega i byrjun túnasláttar, að ein heimasætan í Hornvikinni fór með þeim norður og kom ekki aftur í sitt byggðar- lag. Hún Ilentist við Eyjafjörð. Þegar leið á vorið, fóru ísfirð- ingar að koma en hjá þeim var þá stórubáta-útgerðin eða útilegu- tímabilið að ganga I garð. Þeir fiskuðu úti af Horni; þar og úti af Kögrinu var mikil fiskisæld. Þeir leituðu oftar hafnar hjá okkur á helgum og i vondum veðrum og lágu þá inni á vik og komu oft i land. Þá var heldur ekki siður að eyða olíunni með því að sigla til heimahafnar ef skipið var ekki fullhlaðið. Þá voru það Fjarðarmennirnir vestan af fjörðunum, frá Bildudal og Patreksfirði. Þetta voru allt heimagangar þarna. Seinnipart sumars, eða þegar komið var fram í ágúst, komu Sunnlendingar á skútunum. Þeir höfðu með sér reknet, og iskassa fyrir beituna. Þeir komu i land til að fá snjó í ískassana en venju- lega mátti fá snjó I kaldavermslu- bökkunum í norðausturhorni vík- urinnar, að minnsta kosti fram- yfir mitt sumar. Voru ekki útlendir fiskimenn á þessum slóðum? Jú, við urðum vör við þá líka. Auk Norðmanna, sem höfðu bækistöð og mikil umsvif á Vest- fjörðum á þessum tima, komu þarna Færeyingar en þeir urðu aldrei eins handgengnir okkur eins og Austfirðingum. Áður fyrr voru hollenskar og franskar fiski- skútur á þessum miðum, en það var eins með Fransmennina; við þá tókst ekki sami vinskapur og varð á Austfjörðum. Fráfærur — fisk- veiðar — bjargsig Þessi skipaumferð hefur rofið mestu einangrunina hjá vkkur? Það er mikill misskilningur að við höfum verið einangruð á Horni, að minnsta kosti minnist ég þess ekki. I mínu barnsminni var alltaf eitthvað athyglisvert að gerast, sem annaðhvort snerti okkur eða umheiminn. Oft voru það nýir og stórir hlutir á okkar mælikvarða. Til dæmis get ég nefnt einn af þeim viðburðum sem mér eru minnisstæðir frá þessum tima. Það var veturinn 1913. Þá kom faðir minn frá Bolungarvík norð- ur að Horni til þess að smíða upp gamlan sexæring, sem fóstri minn hafði keypt um haustið á 40 krónur. Eftir viðgerðina varð báturinn sem nýr og reri fóstri minn á honum, ásamt stjúpsonum sínum frá verstöðinni í Skáladal og hafði 85 krónur í hlut. En þegar hann kom aftur heim úr verinu um vorið, hafði hann með sér dálítinn hlut, sem ekki hafði þá sést fyrir norðan Kjaransvíkurskarð (fjallvegur milli Hesteyrarfjarðar og Kjaransvíkur). Þessi nýstárlegi og merkilegi hlutur var skilvinda. En fyrir hana greiddi fóstri minn 75 kr. og urðu þá ekki eftir nema 10 krónur af aflahlutnum. Þetta þótti mikill viðburður. Og um sumarið var svo fært frá, eins og venjulega. Sá siður var á Horni að vinnufólkið ætti kindur; vinnukonan átti eina, vinnu- maður tvær og auk þess átti ég eina kind. Einnig áttu hjónin, sem bjuggu niðri við sjóinn, nokkrar kindur. Fóstra mín tók nú bestu ána þeirra og hafði hana með kindum vinnufólksins og minni. Var mjólkinni haldið sér úr þessum ám. Eftir um það bil 10 vikur var smjörið vigtað sundur og komu þá 27 merkur eða tæp 7 kíló af smjöri í hlut eftir hverja á, en það var víðast hvar á landinu talið gott ef ærin skilaði 12 til 18 mörkum. Var þetta skilvindunni að þakka eða voru það landgæðin? Það hefur kannski verið hvort- tveggja. Smjörið hefur nýst betur þegar farið var að skilja mjólkina. Annars er þetta dæmi ekki minnst til marks um breytt gildis- mat á verðmætum og framleiðslu- háttumi. Annað hliðstætt dæmi get ég nefnt. Það var árið 1914, fyrsta árið sem Ásgeirsverslun keypti blautan fisk upp úr sjó, þ.e. flatt- an og þveginn. Þetta vor fann ég snærisspotta sem reyndist átta faðmar á lengd. Fóstri minn gaf mér átta öngla á þetta snæri og hnýtti við eina af sínum lóðum þegar hann lagði. Á þetta fékk ég svo fisk fyrir átta krónur þær tvær vikur, á meðan róið var fram að bjargsigum, en eftir þann árs- tima var róið með færi. Til að gera einhverja grein fyrir verðgildi þessarar upphæð- ar má geta þess, að ég fékk 15 aura fyrir kilóið af fiskinum en þá mun tímakaup i Reykjavik hafa verið 35 aurar. Ég man ekki hvernig á þessum snærisfundi stóð en þá datt engum í hug að ganga framhjá eða henda snæri. Hvernig var umhorfs í atvinnu- og framfærslumálum Horn- strendinga á þessum árum? A mínum uppvaxtarárum var nýi tíminn að ganga í garð. Þess fara að sjást merki þegar ég fer að muna eftir mér, með því að mótor- bátarnir halda innreið sina og tekið er að plægja kúfiskinn i beitu. Það var róið frá því strax á vorin og alveg fram að bjarg- sigum. Fiskurinn var lagður upp í Höfn í Hornvik en þar hafði Ás- geirsverslun útibú. Var ekki útræði frá Hornvík? Jú, það var róið þaðan. En aðal- verstöðvarnar voru þá Sæból, Látur og Skáladalur. Eftir að mótorbátar komu til sögunnar var meira um útræði frá Aðalvík. Þar hagaði betur til fyrir stærri skip. Sjávarafurðir hafa verið aðal- söluvaran? Já, fiskurinn og fiður var líka selt. Það var gott búsílag. Tókst þú þátt I bjargsigum? Ég var við snúninga á bjargi eins og aðrir. Það var mikið fjöl- menni við bjargsigin; fólk kom úr báðum hreppum til að fá að nýta fugl og egg. En maður varð að vera kominn vel yfir fermingu til að ráða fyrir festi. Að ráða fyrir festi? Það var kallað að sá réði fyrir festi, sem steig í bjargið. Stóðu bjargsig yfir iangan tíma hvert vor? Það var byrjað að siga i Horn- bjarg þegar sex vikur voru af sumri og viku seinna var svo farið i Hælavikurbjarg. Fyrri sigatími stóð í viku; síðan var beðið i 17 daga. Þá var fuglinn búinn að verpa aftur og gaf seinna sigið betri egg því þau voru nýrri. Kaupstaðarferðir og jóla- hald á Horni Björgin hafa verið mikil forða- búr þótt torsótt væru; en var ekki erfitt um aðdrætti til heimilis og búskapar? Ekki man ég eftir að mikið orð væri á því gert. Litli-Ásgeir, sem var fyrsta gufuskipið sem Islend- ingar eignuðust, annaðist póst- og vöruflutninga fyrir ísafjarðar- sýslu. Ásgeirsverslun sá um rekstur skipsins. Verslunin hafði útibú í Höfn í Hornvík. Það var mikil hátíð þegar skipið kom með vörurnar á vorin. í Höfn var m.a. kramvörubúð. Þar mátti fá flest, sem hugurinn girntist í þá daga. En ef mikið þótti við liggja var farið i kaup- stað til ísafjarðar. Það má segja að ekki hafi verið í næsta hús að venda þegar farið var út fyrir Hornvíkina, en fólkið ólst upp við þessar vegalengdir og gerði ekki ráð fvrir öðru. Ég man eftir að rétt fyrir jólin árið 1914, fór Stígur stjúpsonur fóstra mins i kaupstaðarferð til ísafjarðar. Hann kom heim aftur daginn fyrir Þorláksmessu. Ekki þurfti hann að sækja matvöru heldur var það munaðarvara eins og það var kallað; þar á meðal voru kerti handa mér, sirs í svuntu eða kjól handa konunum o.fi. Eitt af því sem hann keypti sér voru föt úr skosku kambgarni en þau áttu að verða giftingarföt- in hans, sém þau líka urðu. Þau kostuðu 25 krónur. Pokinn með þessum varningi vigtaði 93 pund eða 46,5 kíló. Þetta hafði hann borið á bakinu yfir Hafnarskarð. Hafnarskarð? Hann kom með póstbátnum frá ísafirði til Hesteyrar og fékk sig fluttan á báti inn i botn á Veiði- leysufirði en með því styttist leiðin mikið. Þaðan var svo um fjögurra klst. gangur yfir Hafnar- skarð og fyrir víkina að Horni. Jólahald á Horni hefur sjálf- sagt verði með þjóðlegu og hefð- bundnu sniði? Já, og var allólíkt þvi sem nú þekkist. Þó átti ég jólatré, sem frændi minn hafði smíðað handa mér. Það var sívalur tréstautur og út úr honum voru átta angar. Laufið var klippt úr bréfi og fest á angana, þannig urðu greinarnar til. Á þeim sátu svo kertin auk þess sem niunda kertið var i toppnum. Jólin hjá okkur voru kannski dálítið frábrugðin því sem al- mennt gerðist í afskekktum sveitum. Það kom til af þvi að heimilin á bænum máttu teljast fjögur. Þegar orðið var vel heilagt, var heimilisfólki boðið milli-búanna og urðu að því mikil hátíðabrigði og fjölbreytni í jóla- haldinu. Hvert sóttuð þið kirkju? Það var aldrei farið til kirkju, nema þegar athafnir fóru fram, fermingar eða jarðarfarir. Norð- menn höfðu gefið kirkju til Hest- eyrar en við áttum kirkjusókn að Stað í Aðalvík; þar var prestsetur. Þangað var tíu klst. gangur og ekki farið nema mikið lægi á. Heldur skemmra var til Hesteyr- ar, ekki meira en um átta tíma gangur. Þið hafið orðið að láta húslestra nægj a? Já, á jólum voru lesin jólaguð- spjöllin og svo húslestrar. Eg held það hafi dugað okkur vel. Mér var snemma innrætt guðs- trú i mínum uppvexti. Ég minnist þess að fyrsta reynsla min I þeim efnum var þó ekki beinlinis já- kvæð. Ég var þá enn á barnsaldri og fékk leyfi til að skreppa til fólksins í kofanum niðri við sjó- Sjá nœstu 1 síðu /A Hornbjarg

x

Lesbók Morgunblaðsins

Beinir tenglar

Ef þú vilt tengja á þennan titil, vinsamlegast notaðu þessa tengla:

Tengja á þennan titil: Lesbók Morgunblaðsins
https://timarit.is/publication/288

Tengja á þetta tölublað:

Tengja á þessa síðu:

Tengja á þessa grein:

Vinsamlegast ekki tengja beint á myndir eða PDF skjöl á Tímarit.is þar sem slíkar slóðir geta breyst án fyrirvara. Notið slóðirnar hér fyrir ofan til að tengja á vefinn.