Lesbók Morgunblaðsins - 24.12.1976, Qupperneq 2

Lesbók Morgunblaðsins - 24.12.1976, Qupperneq 2
Dr. theol Jakob Jönsson Lúkas 2,14 Dæmi um íslenzkaþýðingu: Dýrð sé Guði í upphæðum og friður á jörðu og mönnunum gðður vilji. Guðbrandarbiblfa, útg. 1584. Dýrð sé Guði í upphæðum og friður á jörðu og velþóknun yfir mönnunum. Þýðing frá 19. öld. Dýrð sé Guði í upphæðum og friður á jörðu með þeim mönnum, sem hann hefir velþóknun á. Gildandi Biblíuþýðing. Dýrð sé f upphæðum Guði friður á jörðu, velþóknun mönnunum. Tillaga greinarhöfundar. Allir þekkja söng englanna á jólanótt. Upphafsorðin „Dýrð sé Guði í upphæðum" eru á latínu „Gloria in excelsis Deo,“ og af þeim er dregió nafnið gloria, sem er hið kirkjulega heiti á þessum lið messunnar. Þessar hendingar hafa svo að sjálfsögðu verið endurteknar í sálmasöngnum með ýmsum hætti. Þegar Lúkas guðspjallamað- ur tók saman efnið í guðspjallið, hefir hann sett fyrir framan það helgisögur, sem til hafa verið áður í munnlegri eða skriflegri hefð. Fæðingar- og bernskusögurnar urðu síðan efni í mjög fjölbreytt bernskuguð- spjöll, sem héldu áfram að þróast um all- langt skeið. Eitt slíkt guðspjall er fyrir löngu komið út í íslenzkri þýðingu séra Magnúsar Grímssonarn. Helgisagan er með öðrum orðum ein þeirra bókmenntagreina, sem guðspjallamennirnir höfðu úr að velja. Þó að bernskufrásögurnar myndist tiltölu- lega seint, hafa þær orðið hugstæðar kristn- um mönnum, og fæðingarsaga Lúkasar er uppistaðan í jólapredikun flestra kenni- manna. í þessari stuttu grein ræði ég eingöngu um englasönginn yfir Betlehemsvöllum á jólanótt. Að meginmáli til eigum vér þrjár þýðingar af honum á íslenzku. — Allt frá tíð Guðbrands biskups og fram á síðustu öld var hann hafður þannig: „Dýrð sé Guði í (upp)hæðum — og friður á jörðu — og mönnunum góður vilji.“. — Þegar ég og mínir jafnaldrar vorum aö nema Biblíusögur, lærðum vér hann þann- ig“: Dýrö sé Guði í upphæðum, friður á 1). Barndómssaga Jesú Krists ásamt stuttri frásögu um Jóakim og önnu og dóttur þeirra Maríu mey, — Cltg. Reykjavík 1854. Þýðandi síra Magnús Grímsson. jörðu, og velþóknun Guðs yfir mönnunum".: Það brá því ýmsum i brún, og þar á meðal j sjálfum mér, þegar vér lásum í Biblíunni, ■ samkvæmt gildandi texta: „Dýrð sé Guði í upphæðum, — og friður á jörðu með þeim mönnum, sem hann hefir velþóknun á“. Satt að segja hefir mér aldrei fallið þessi þýðing, þó að ég viðurkenni, að ekki sé auðvelt að þýða hinn fagra englasöng úr frummáli Nýja testamentisins, grískunni. Hér er um að ræða þýðingarvandamál, sem erfitt er að leysa, og hefir vafist fyrir Biblíuþýðendum. Eins og lesandinn ef til vill veitti athygli, voru tvær hinar eldri gerðir þýðingarinnar í þremur hliðstæðum liðum: Dýrð.. . frið- ur. .. velþóknun (eða góður vilji). — Nú- verandi þýðing er aftur móti tvíliðuð. Sé hin fornu handrit guðspjallsins borin sam- an, kemur í ljós, að miklu fleiri handrit hafa sálminn í þremur liðum, en hins vegar er talió, aö tvíliðaða formið sé hið uppruna- lega eða eldra, það sem vér höfum í síðustu Biblíuþýðingu. En svo lítur út sem menn hafi tiitöiulega fljótt tekið að breyta orða- lagi textans, í samræmi við hina þríliðuðu gerð. í því formi tíðkaðist hann í messu- söngnum, og hefir það ef til vill ráðið úrslitum. En hér kemur það í ljós, að eigi að þýða úr frumtexta, þarf þýðandinn oft að velja milli tvennskonar eða jafnvel margs- konar skilnings á efni textans. Og þá er við þann vanda að glíma, að í annarri gerðinni er orðið velþóknun í nefnifalli, en í hinni í eignarfalli. Það orð, sem vér nú þýðum með velþóknun, hefir þar að auki fleiri en eina merkingu. Elzta latneska þýóingin á englasöngnum er tvíliðuð, og er síðari hendingin þannig: „et in terra pax hominibus bonae voluntatis“. Orðrétt: „Og á jörðu friður mönnum hins góða vilja“. En hvernig ber þá að skilja þessi orð? Beinast liggur við, að þarna sé átt við hinn góða vilja mannsins, góðan ásetning, En þessi þýðing rekst á málvenju og túlkun ýmissa fornra höfunda. Gríska orðið evdokia getur þýtt samsinn- ingu, velþóknun, góðvild, bæði hjá Guði og mönnum. En annars staðar, þar sem orðið kemur fyrir í skyldum ritum, er ekki átt við góðan ásetning eða vilja í ákveðinni merk- ingu, heldur hlýjar tilfinningar, góðvild, hlýhug. í öðru lagi kemur orðið yfirleitt fyrir, t.d. í einni frumheimild Lúkasar og í Postulasögu hans sem velþóknun Guðs, náðarafstaða hans gagnvart mannkyninu í heild. Sumir elztu ritskýrendur, svo sem Ireneus, hafa í huga velgerðir hjálpræðis- ins af Guðs hálfu gagnvart mönnunum. Loks er orðið friður ekki aðeins friður í þeirri merkingu, að hlé sé á ófriði og illind- um manna með vondan vilja, heldur er friður sama sem „sjalóm" áliebresku, sæla, heill. Það er ekki friður, sem mennirnir standa að, heldur sá friður, sem leiðir af guðlegri elsku til mannanna. Sé þessum skilningi fylgt, verður efni sálmsins á þessa leið: I upphæðum himinsins er Guðs dýrð, birta, lofgjörð, — en til þessa svarar á jörðinni sá friður, er veitist því mannkyni, sem Guð elskar.“ Sé á annað borð fallist á þessa skýringu, er þýðingin á þessa leið“: Dýrð sé í upphæð- um Guði og friður á jörðu (með) mönnum velþóknunarinnar". En hverjir eru þá menn velþóknunarinnar? Gyðingar hefðu sagt, að það væri hin útvalda þjóð Guðs, Lúkas hefir sennilega haft í huga kristna menn, sem skyldu taka við hlutverki hinnar útvöldu þjóðar. En samt þarf ekki annað en vitna til Lúkasar sjálfs og annarra höfunda Nýja testamentisins til að sjá, að þegar í upphafi er það ríkjandi hugsun, að Kristur fæðist ekki aðeins vegna elsku Guðs til Gyðinga eða kristinna manna, heldur mannkynsins i heild. Ef vér því notum þá þýðingu jólaguðspjallsins, sem nú gildir, verður ekki sagt, að hún sé allsendis röng, en vegna íslenzkrar málvenju leiðir hún fremur hugann að því, að velþóknun Guðs sé takmörkuð við einhvern hóp manna. Lesandinn fær þá hugmynd, að það sé einhver viss hópur einstaklinga, sem Guð sé sérstaklega ánægður með. En orðið vel- þóknun i þessu sambandi felur ekkert slíkt í sér. Hún merkir ekki, að Guð sé ánægður með mennina, heldur að Guð elski mann- kynið. Þess vegna kemst hið þríliðaða form, sem hafði unnið kirkjulega hefð, betur að kjarna málsins. Þar stenzt þetta þrennt á“: „Dýrð í upphæðum Guði — friður á jörðu — mönnum velþóknun". Þessi þýðing með sama eða svipuðu orðalagi styðst í rauninni við meiri hluta Biblíuhandrita, enda þótt hitt formið sé talið eldra. Það er því mín skoðun, að þetta form ætti að taka upp aftur i íslenzku Biblíuna,2 en hafa bitt formið neðan máls til samanburðar. Með því móti hverfur sá broddur, sem særir tilfinningu vora, er vér lesum guðspjallið í núverandi mynd við jólamessuna, enda er enginn vafi á því, að andi Krists og hugsun frumkirkjunnar stefnir þarna í eina og sömu átt. Það er elska Guðs til alls mann- kynsins, sem veldur því, að dýrð himins og friður jarðar rennur saman í eitt í hinni fögru helgisögn um englasönginn, sem Lúkas bjargaði fráþví að týnast. 2) Eg mun einhverntíma hafa látið í ljósi það álit að fylgja bæri hinum latneska texta englasöngsins. Ég hefi horfið frá þeirri skoðun, því að latneski textinn er útlegging í sjálfu sér, og gefur ekki nægilega skýringu á griska textanum. ©

x

Lesbók Morgunblaðsins

Direct Links

Hvis du vil linke til denne avis/magasin, skal du bruge disse links:

Link til denne avis/magasin: Lesbók Morgunblaðsins
https://timarit.is/publication/288

Link til dette eksemplar:

Link til denne side:

Link til denne artikel:

Venligst ikke link direkte til billeder eller PDfs på Timarit.is, da sådanne webadresser kan ændres uden advarsel. Brug venligst de angivne webadresser for at linke til sitet.