Lesbók Morgunblaðsins - 24.12.1976, Blaðsíða 7

Lesbók Morgunblaðsins - 24.12.1976, Blaðsíða 7
Eftir Kristmann Guðmundsson Jólanótt — Ijósin voru slokknuð víðast hvar, og það var dimmt yfir bænum, skýjaður himinn, þoku- súld. Draugalegt brimhljóð heyrðist frá Gróttu, en logn var á strætum borgarínnar. Fólk var lagzt til hvíldar eftir hátið kvöldsins. Aðeins nætur- vörðurinn ungi reikaði um votarog eyðilegar göturnar. Ljóskerin lýstu dauflega, eins og þau væru einnig að sofna; það sýndist vera um þau rosabaugurí úðaþokunni. Malbikið var svartgljáandi, og strætin líktust myrkum gljúfrum. Næturverðinum unga fannst hann vera á ferli um heim, þar sem allt líf var löngu slokknað. Hann hafði reynt að hressa sig upp og hrista af sér fjötra þessarar þöglu og drungalegu næt- ur, þá vímu grafarkyrrðar og dauða, sem ríkti allt um kring, en það tókst ekki nema í svip. Auðnarró miðs- vetrarmyrkursins var í blóði hans og taugum. Og umhverfið allt var svo lifsnautt og húmað sem skugga- byggð á rústum löngu liðinnar ver- aldar. En innra með honum sjálfum ríkti raunakennd eftirvænting, blandinótta. Því að síðastliðnar tvær nætur höfðu undarlegir at- burðir gerzt. — Utanúr dimmu riki skammdegisgrímunnar hafði gestur vitjað bæjarins: þögul og dularfull kvenvera, sem virtist heyra myrkr- inu til. Næturvörðurinn ungi varað hugsa um þessa konu. — Hann varð hennar var einni stundu eftir niðnætti fyrri nóttina. Hún kom á móti honum útúr þokudimmunni við höfnina, og þá þegar stóð af henni einhver beygur, sem hann gat ekki gert sér grein fyrir. Hún gekk álút og horfði niður fyrir fætur sér, eins og hún væri að leita að einhverju, og hún sýndist reikul í spori. Honum datt i hug, að hún myndi vera annað hvort veik eða undiráhrifum víns. Þegar hún fór framhjá honum á gangstéttinni, sá hann, að fötin hennar voru vot; hún var yfirhafnar- laus, og rennvott hárið féll laust niður um herðarnar. Allt látbragð hennar lýsti umkomuleysi og djúpri hryggð. Það var því líkast, sem hún vissi ekki, hvað hún ætti af sér að gera. Hann ætlaði að stöðva hana og hafa tal af henni. En hann kom ekki upp nokkru orði; vilji hans var á einhvern hátt lamaður, og nokkra stund á eftir réð hann naumast gerðum sínum sjálfur. Næturvörðurinn ungi var hug- djarfur maður og laus við draum- hyggju. En einmitt þess vegna var hann illa undir það búinn að mæta óskýranlegum atburðum. Og nú kenndi hann stjarfandi ótta í fyrsta sinn á ævinni, en jafnframt sárs- aukablandinnar sælutilfinningar, eins og honum hefði birzt í svip eitthvað, er hann hefði lengi þráð. Hvert smávægi í útliti þessarar undarlegu konu festist honum i minni: Hún var grönn, í síðum, dökkum kjól, andlitið náfölt, hvítt, en unglegt og barnslegt, vanga- svipurinn eins og á fornri marmara- mynd; þýður, hreinn, en ósegjan- lega dapur. Hann sneri við og fylgdi henni sem í leiðslu. Hún gekk Pósthús- stræti. Það er ekki langt frá hafnar- bakkanum að dómkirkjunni, en honum fannst þau vera óratíma á leiðinni þangað. — Hún nam staðar við tröppurnar fyrir framan kirkju- dyrnar og stóð lengi hreyfingarlaus, eins og hún hefði gleymt sér. Hann staðnæmdist einnig og reyndi að hugsa ráð sitt. Það var skylda hans að ávarpa hana og bjóða henni liðsinni sitt, en honum var varnað máls, og hugsanir hans voru ein- kennilega sljóar og ósjálfstæðar, eins og hann væri hálfsofandi. Hann stóð því þarna hljóður og beið þess, er verða vildi. Kirkjan reis yfir þeim í þokuhúminu, myrk og dul. Hann gat ekki gert sér grein fyrir því, hve langur tími leið, kannske voru það aðeins fáar minútur? Allt í einu lyftust hendur hennar Iftið eitt, báðar i senn, og jafnframt steig hún eitt skref áfram, eins og hún ætlaði að ganga upp tröpp- urnar. Þetta endurtók sig nokkrum sinnum, en i hvert skipti sigu hend- urnar niðuraftur, og hún hörfaði til baka. Hreyfingar hennar voru hik- andi og vonleysislegar, svo sem vissi hún fyrirfram, að allar tilraunir yrðu árangurslausar. Að lokum gafst hún upp. Hún lyfti ásjónu sinni og virtist horfa um stund upp i svartan geiminn. En hann sá, að augu hennar voru hálf- lokuð, hárið féll frá háu og björtu enninu, og andlitið var hvitt eins og nár. Það fór skjálfti um grannan líkama hennar, svo laut hún aftur höfði, sem beygði hún sig undir einhverja þunga, óumflýjanlega örlagabyrði. Síðan gekk hún hægt til baka sömu leið niður Pósthússtræti, og hann fylgdi henni eftir. Þau nálguð- ust höfnina. Hann var ákveðinn I þvi að stöðva hana, hafa tal af henni og fylgja henni þangað, sem hún átti heima. En það varð ekkert af því. Hann gat ályktað, en ekki fram- kvæmt — Hún smáhægði á sér, þegar þau komu fram á hafnarbakk- ann — og svo vaknaði hann skyndilega uppaf þessu leiðslumóki við það, að hún var horfin. í einu vettfangi var hann frammi á bakkanum; hann hafði ekki heyrt neitt skvamp, og sjórinn var spegil- sléttur, er hann lýsti niðurfyrir með vasaljóskerinu sínu. Þar hreyfðist ekki gára, svo að ekki gat átt sér stað, að hún hefði fleygt sér í sjóinn. Hún hlaut að hafa sloppið frá hon- um á einhvern annan hátt — þótt hann raunar vissi, að það var úti- lokað, þvi að hann hafði starað á hana, alveg þangaðtil hún hvarf fyrir augum hans. Hann stóð ráðþrota um stund. — Ég verð að fara upp á lögreglustöð og segja frá þessu, hugsaði hann. Það þarf að leita að stúlkunni. En hann hafðist ekkert að. Deyfðar- drunginn seig yfir hann að nýju. H : nn var að hugsa um þessa kyn- legu kvenveru alla nóttina. Honum fannst hún enn vera einhvers staðar nálægt sér i myrkrinu. Engum sagði hann það, sem fyrir hann hafði borið. Næstu nótt var hann á sömu slóðum, og þegar hún kom, var sem þungri byrði létti af honum. Hann fylgdi henni eftir sömu leið og áður; allt hið sama endúrtók sig. Og þegar hún hvarf honum á hafnarbakkanum í þetta sinn, vissi hann að ekki þýddi að leita hennar. Nú var þriðja nóttin — jólanótt I dag var frelsarinn fæddur, og borgin hafði haldið upp á afmæli hans að vanda. Nú var aftur orðið dimmt og hljótt. Hún kom dálitið seinna en fyrri næturnar, og það var bersýnilega af henni dregið; hún var reikul i spori. — Hjarta næturvarðarins unga var heitt af samúð og meðaumkun, en vilji hans var lamaður sem fyrr, og hann gat aðeins fylgt henni eftir, þögull og afskiptalaus. Þau stað- næmdust við kirkjutröppurnar eins og áður. í fjarska heyrðist brimgnýr- inn, og svartur himinn grúfði yfir hinni þöglu skuggaborg. Þau voru ein í yfirgefnum heimi, og fyrir framan þau voru þessar votu, dökku tröppur upp að lokaðri kirkjuhurð. En meðan næturvörðurinn ungi stóð þarna og horfði á hið fagra, beygða höfuð konunnar ókunnu. var sem ný skynjun vaknaði i huga hans. Hann sá stirðnaða örvæntingu hennar og vonleysið í svipnum, og þau voru þarna ein — ein eins og mannsins sál, er þráir i fjötrum efnisins eitthvert sokkið dýrðarland, sem Guð hefur látið hana gleyma. Þau voru systkin á dularvegum hinnar myrku nætur og frammi fyrir þessari lokuðu hurð. Hann gekk feti nærog lyfti höndum sínum í sama bili var sem dimman viki frá. Hún lyfti höfði og rétti úr herðunum, eins og byrði hefði verið numin af þeim. Svo steig hún hikandi eitt skref áfram — og einn eitt, upp tröpp- urnar. Hann fylgdi henni eftir, gaf henni þrótt af vilja sínum og samúð; i huga hans var engin önnur kennd en óskin dýra um lausn og gleði henni til handa. Hann gleymdi sjálf- um sér, gleymdi öllu öðru en þessu eina. Veikburða og titrandi hélt hún áfram siðustu sporin; — en nú bar hún höfuðið hátt, hárið féll frá enn- inu bjarta. Svo lyfti hún báðum höndum og snart krossinn á kirkju- hurðinni. Nóttin var ekki lengur riki myrk- Framhald á bls. 21 0

x

Lesbók Morgunblaðsins

Beinir tenglar

Ef þú vilt tengja á þennan titil, vinsamlegast notaðu þessa tengla:

Tengja á þennan titil: Lesbók Morgunblaðsins
https://timarit.is/publication/288

Tengja á þetta tölublað:

Tengja á þessa síðu:

Tengja á þessa grein:

Vinsamlegast ekki tengja beint á myndir eða PDF skjöl á Tímarit.is þar sem slíkar slóðir geta breyst án fyrirvara. Notið slóðirnar hér fyrir ofan til að tengja á vefinn.