Lesbók Morgunblaðsins - 12.04.1997, Blaðsíða 17

Lesbók Morgunblaðsins - 12.04.1997, Blaðsíða 17
RÚTAN leið mjúklega af stað. Hún hallaði sér aftur og lokaði augunum. Eftir nokkra klukkutíma yrði hún komin á heimaslóðir eftir fimmtán ára fjarveru. Hún hugleiddi hversu dásamlegt það yrði að endur- upplifa æskuna og fylla lung- un af sveitalofti. Kindur, hestar og flaðrandi hundar. Allt þetta í íslensku sveitinni og hvergi annars staðar. Maður, dýr og náttúra samofin. Heyskapurinn, fjöllin og ftjálsa lífið. Aðeins á íslandinu ástkæra, sem hún hafði ekki heimsótt öll þessi ár sem hún hafði búið í New York. Hún virti fyrir sér útsýnið á leið- inni norður. Sveitabæirnir liðu hjá einn af öðrum. „Frímerkjaraðir" sagði pabbi hennar, þegar hann var að ergja sig á búskapnum. „Hér hokra allir bændur á jörðum á stærð við frímerki." Fyrir hann var búskapurinn alla tíð kvöl og pína. Það var mamma hennar sem vildi búa. Óánægja föður hennar magnað- ist ár frá ári þangað til foreldrar hennar skildu og fluttu bæði burtu. Þá var hún um tvítugt, með stúdentspróf og dreif sig til New York að iæra myndlist. Rútan renndi í hlaðið hjá Kaupfélagshús- inu. Það hafði greinlega gengið vel hjá Kaup- félaginu. Það var komin risastór bygging þar sem áður stóð lítið og lágreist hús, sem var miðdepill lífsins á sínum tíma. Á planinu við hliðina stóð lítill og yfirgefinn söluskáli sem hafði ekki staðist samkeppnina við risann. Gömul vinkona hennar og skólasystir tók á móti henni og það urðu fagnaðarfundir. Vin- konan hafði breyst mikið. Hún sýndist eldri en hún var. Skyldi lífið í sveitinni hafa þessi áhrif? Bíll með tveimur órólegum börnum beið þeirra skammt frá. Málningatrönurnar komust með naumindum í skottið og þær óku af stað. Vinkonan bjó á býli sem var ekki Iangt frá Bakka, æskuheimili hennar. Þær hlupu stund- um hvor til annarrar og léku sér saman. Eft- ir því sem þær urðu eldri gáfust færri stund- ir við leik og skyldurnar tóku við. Það þurfti að mjólka, gefa hænunum, vaka yfír kindun- um og það þurfti að heyja. Það var nánast aldrei stund til þess að dunda sér eða lesa. Hún hafði aldrei viðurkennt fyrir neinum hversu fegin hún var þegar hún þurfti að fara í heimavistarskóla yfir vetrartímann. Þá losn- aði hún við gegningarnar, gat einbett sér að bókum og sinnt áhuga sínum á myndlist. Hún fékk gestaherbergið og gat horft það- an yfir til Bakka. Það var búið að byggja nýtt íbúðarhús á hólnum fyrir ofan gamla húsið. „Alveg fáránlegur staður“ sagði vin- konan, „það var svo erfitt að leiða vatnið þangað." Henni fannst þetta aftur á móti fallegur staður fyrir íbúðarhús. Útsýnið var betra en frá gamla húsinu. Hún ákvað að fara yfir að Bakka daginn eftir. Þær vinkonurnar höfðu um margt að skrafa. Eiginmaðurinn var í fiskvinnu í pláss- inu og keyrði á milli. Hann kom því ekki heim fyrr en um kvöldmatarleytið. Þau voru með lítinn búskap, nokkrar kindur og hesta „ánægjunnar vegna“. „Það er svo lítið upp úr búskap að hafa“, „kerfið er að éta okkur upp til agna.“ „Þó að við vildum hafa fleiri kindur fáum við það ekki, þannig að við höf- um þetta svona.“ „Hann vinnur í plássinu og ég sé um búskapinn og krakkana." „Hveijir eru kerfið?“ spurði hún, „getið þið ekki breytt þessu kerfi?“ „Æ, maður nennir ekki að standa í því, þetta er bara svona.“ Vinkonan yppti öxlum. „Það hafa þetta flestir eins og við.“ „Græðið þið eitthvað á þessum kindum?" „Ja, það er nú ekki mikið, við slátrum og seljum framhjá." „Framhjá hverju?“ „Nú kerfinu." „Þið hljótið að viðhalda þessu kerfi á með- an þið gerið ekkert í málunum?" „Já, þetta er bara svona, það reynir hver að bjarga sér.“ „Þetta er allt að fara fjand- ans til hvort sem er.“ „Tölum um eitthvað annað, tölum um þig,“ sagði vinkonan, þreytt á málefnum bænda. Hún sagði henni frá lífshlaupi sínu síðustu fimmtán árin, náminu, starfinu á vinnustof- unni og sýningunum. Hún sagði henni frá heimþránni sem var búin að kvelja hana síð- astliðið ár. Þránni eftir að koma heim og heimsækja æskuheimilið sem var svo fallegt í draumum hennar, anda að sér hreina loftinu og virða fyrir sér ómengaða náttúru. Hún var hætt að geta unnið fyrir róti minninganna og varð að drífa sig til íslands. Hún varð að sannreyna hvort ísland togaði eins sterkt í hana og draumar hennar gáfu til kynna. Það var eins og hún væri föst í viðjum minning- anna. Allt var svo gott og stórkostlegt í minn- ingunni. Hún varð að komast að því hvers hún saknaði. Hún ákvað að pakka trönunum niður, heimsækja æskustöðvarnar og mála. Morgunninn rann upp bjartur og fagur. Sólin faldi sig öðru hvoru bak við skýin, en Mynd: Guðrún Svava Strandberg. IVIÐJUM MINNINGANNA SMÁSAGA EFTIR SÓLBORGU ÖLDU PÉTURSDÓTTUR Var það líf sem hún lifði áhugaverðara en það líf sem hún hefði getað átt hér? Tilheyrði hún ekki þessu landi? Þurfti hún að vera meö samviskubit ef henni leið betur í öðru landi? þess á milli sendi hún hlýja geisla sína til jarðar og hélt lífinu gangandi. Bóndinn á Bakka var að heyja. Hún gekk framhjá gamla húsinu, sem búið var að gera upp og notað sem gistihús. Svokölluð „bændagisting“ hafði rutt sér til rúms sem atvinnugrein, hafði vin- konan sagt henni. Hún fékk sting í hjartað. Þarna var gamli herbergisglugginn hennar. Hún ætti kannski að fá að gista þarna næstu nótt. Hún gekk framhjá fjósinu, sem núna var notað sem vélageymsla. Bak við fjósið var stillt upp gömlum vélum og tækjum sem voru orðin úrelt. Nýjasta tækni gerði þá næstnýjustu úrelta á örfáum árum og þá var keypt nýtt og hinu lagt. Hún gekk út túnið og tók ferska nýslegna töðuna í hönd sér og lyktaði. Þessi yndislegi ilmur vakti hjá henni ljúfsárar minningar. Það var alltaf mesta gleð- in í kringum heyskapinn þegar vel gekk. AUt þurfti að gerast svo hratt. Þurrkur var aldrei sjálfgefinn og heyið var rifið saman um leið og hægt var. Stundum rigndi dögum saman. Þá voru foreldrar hennar þungir á brún og dæstu gleðisnauð framan í hvort annað. Hún hafði oft á tilfinningunni að lífshamingja bænda byggðist á veðrinu. Bóndinn var að rúlla heyinu upp í rúllu- bagga. Hann og konan hans keyptu jörðina af foreldrum hennar. Þau voru kennarar og kenndu í grunnskólanum á veturna. Hún vissi ekki hvort kennslan eða búskapurinn var aukavinna. Eftir að hún hafði fengið leyfi til þess að ganga upp í heiðina hélt hún af stað. Hún var með trönurnar á bakinu, auk lítils bakpoka þar sem hún geymdi pensla, liti, striga og svolítið nesti. Hún ætlaði sér að vera fram á kvöld í leiðangrinum. Hún gekk upp hlíðina fyrir ofan bæinn. Það var um það bil tveggja klukkustunda gangur upp í heið- ina, þar sem hún ætlaði að koma sér fyrir. Hún gekk upp með bæjarlæknum og virti fyrir sér fossinn sem var svo stór í minning- unni. Hann var eins og lítill silfurþráður ofinn í græna náttúruna. Oft hafði hún legið í laut- inni fyrir neðan og látið sig dreyma um að komast í burtu. Dreymt líf sem hafði upp á eitthvað annað að bjóða en kúamykju og hrossatað. Hún var fegin að komast í burtu, eða það hélt hún þangað til heimþráin náði tökum á henni og hélt henni í andlegri spenni- treyju. Var það líf sem hún lifði áhugaverð- ara en það líf sem hún hefði getað átt hér? Tilheyrði hún ekki þessu landi? Þurfti hún að vera með samviskubit ef henni leið betur í öðru landi? ^ Nokkrar kindur fylgdust forvitnar með þessari ókunnu mannveru feta sig hægt upp í heiðina og sáu hvar hún ákvað að koma sér fyrir. Hún stillti upp trönunum og virti fyrir sér útsýnið. Síðan byijaði hún að mála af kappi. Smátt og smátt varð til smækkuð mynd af því sem augu hennar námu. Gamla húsið, eins og lítil þúfa í miðri mynd. Áin, eins og blár strengur sem liðaðist þvert yfir strigann. Sundurgrafnir mýrarflákar, túnið þakið hvítum rúlluböggum sem líktust helst risa hænueggjum. Hænsnakofinn að hruni kominn, hóllinn eins og einmana konubrjóst og gamla bíladraslið bak við hólinn. Þegar málverkið var tilbúið settist hún niður og virti fyrir sér það sem hún sá. í draumum hennar hafði ekki verið neitt ónýtt ryðgað drasl, eng- ir hvítir rúllubaggar og engin hús í niðurn- -** íðslu. Hana langaði til þess að þurrka þetta allt saman burt úr málverkinu svo eftir stæði ómenguð náttúran, laus við öll mannanna verk. Hún sá eftir því að hafa komið. Það er svo gott að ylja sér við góðar minningar og sakna. Það var samt eins og létt væri af henni þungu fargi, líkt og hún hefði kastað af sér álagaham. Henni mundi alltaf þykja vænt um þetta land og æskuslóðir sínar, en það var einskis að sakna. Framtíðin var henn- ar, hvar sem hún kaus að vera. Það var komið kvöld og kulið nísti merg og bein. Hún tók saman föggur sínar, tók málverkið og stillti því upp við stein. Hún gekk hægt niður hlíðina eins fijáls og hægt var að vera. Kindurnar færðu sig nær mál- verkinu og byijuðu að narta í það. Höfundurinn býr í Reykjavík. y LESBÓK MORGUNBLAÐSINS ~ MENNING/LISTIR 12. APRÍL 1997 17

x

Lesbók Morgunblaðsins

Beinir tenglar

Ef þú vilt tengja á þennan titil, vinsamlegast notaðu þessa tengla:

Tengja á þennan titil: Lesbók Morgunblaðsins
https://timarit.is/publication/288

Tengja á þetta tölublað:

Tengja á þessa síðu:

Tengja á þessa grein:

Vinsamlegast ekki tengja beint á myndir eða PDF skjöl á Tímarit.is þar sem slíkar slóðir geta breyst án fyrirvara. Notið slóðirnar hér fyrir ofan til að tengja á vefinn.