Lesbók Morgunblaðsins - 04.07.1998, Blaðsíða 7

Lesbók Morgunblaðsins - 04.07.1998, Blaðsíða 7
Hlíðarenda til þess að þeir rífist um hver hafi samið Njálu þá á sér líka stað samlagning, sem ég kalla svo. Enda þótt að minnsta kosti sum okkar séu hætt að trúa því að Gunnar á Hlíðarenda hafi verið sú mikla hetja sem er lýst í Njálu þá fylgir sú túlkun okkur, hún er enn þá til og í einhverjum skilningi gild þótt við höfum hana ekki í forgrunni lengur.“ - Þegarþú segir að hver sannleikur leggist saman við þann sem var fyrir ertu þá að tala um að það eigi sér stað einhver hegelsk þró- un? Er þetta samlagning tesu og antitesu sem gefur okkur einhverja syntesu? Og nálgumst við þá ef til vill einhvern endanlegan sann- leika? „Ég hef nú alltaf verið fremur gagnrýninn á líffræðilegar kenningar um söguna, að sagan sé organískt fyrirbæri sem vaxi og þróist eins og Hegel virðist hafa talið. Að einhverju leyti er sú þróun sem ég er að tala um spurning um viðbætur eða reynslu. Ef ég ætti að draga upp samlíkingu sem má þó ekki taka of bókstaf- lega þá fmnur maður það hjá sjálfum sér að þótt maður sé vonandi að þroskast og læra eitthvað nýtt búa jafnframt innra með manni öll fyrri þroskastigin. Ég var minntur mjög rækilega á þetta skömmu eftir að Hetjan og höfundurinn kom út. í einum kaflanum er ég að tala um „þróun“ frá því að menn dreymir persónur Njálu í lok síðustu aldar til þess að menn dreymir hver sé höfundur Njálu fimm- tíu árum síðar. En fáeinum vikum eftir að bók- in kom út birti ágætur maður lesendabréf í Morgunblaðinu þar sem hann sagði frá því að sig hefði dreymt það af hverju Skarphéðinn batt skóþveng sinn, eins og frægt er úr Njálu, Skarphéðinn hafi í raun verið að binda þveng- inn undir skóinn til að geta rennt sér betur á ísnum. Þessi maður bað svo sagnfræðinga og fornleifafræðinga um að athuga hvort þetta gæti ekki verið rétt. Þetta staðfestir að jafnvel þótt eitthvað nýtt hafi gerst í rannsóknarsögu Njálu þá eru enn til íslendingar sem dreymir persónur Njálu og líta á hana sem sagnfræði." - Geturðu sagt okkur í stuttu máli hver sé summa þín af Njálu? „Rannsóknir mínar á Njálu hafa einum þræði sannfært mig um að það sé ekki jafn- mikill munur á hinum rituðu bókmenntum og munnlegri sagnahefð og menn hafa viljað trúa. Hið hefðbundna viðhorf er að menning bókar- innar, hins ritaða orðs, sé að flestu leyti and- stæð lifandi sagnamenningu íyrri alda en mér hefur sýnst að tiltekin verk í bókmenntum þjóðanna, hin stóru hefðarverk, megi skoða með sömu augum og sagnahefðina, þau eru í stöðugri endurmótun; þannig er Njála ekki einhver einn endanlegur texti heldur skrifleg hefð samsett úr ljóðum, fræðiritgerðum, þýð- ingum, gatnaheitum og fleiru. í mínum huga gerir þetta Njálu merkilegri en ef hún væri bara ein bók uppi í hillu. Sköpun Njálu hefur ekki enn verið lokið, hún er farvegur hugsana sem hafa verið hugsaðar um aldir og svo verð- ur vonandi enn um sinn. Ég held það megi líta á mörg verk heimsbókmenntanna með sama eða svipuðum hætti.“ Höfundur Njálu eins og vírnet - í Hetjunni og höfundinum reynir þú að svara spurningunni hver sé höfundur Njálu og gerir þar hlut túlkandans mikinn á kostnað höfundarins. Þú heldur því fram að Einar Ólafur Sveinsson sé höfundur Njálu og átt þar við að hann sé höfundurinn að skilningi okkar á sögunni. Þetta er sérstök lausn á hinu mikla höfundarvandamáli sem fræðimenn og al- menningur hafa haft mikinn áhuga á undan- farna áratugi. „Ég vil byrja á að taka fram að mér þykir að þessi hugmynd um að merkingin búi í lesand- anum eða túlkandanum geti auðveldlega geng- ið út í öfgar. Að vísu þekkja það allir lesendur að það er hægt að lesa mjög margt inn í mjög mörg verk, persónuleg reynsla hvers og eins hefur til dæmis mikil áhrif á þá merkingu sem hver og einn leggur í texta. Ef maður hugar að bókmenntafræðum þessarar aldar þá hefur farið gríðarleg orka og timi í að túlka bók- menntirnar. Þýðingarkenningarnar sem ég hef verið að vinna með spretta upp sem visst andóf við þessu. Fyrrnefndur André Lefevere skrifaði til að mynda grein undir titlinum „Handan túlkunarinnar" þar sem hann segir að nóg sé búið að túlka bókmenntirnar til eða frá og tími sé kominn til að skoða í hvaða sam- hengi þær verða til, hvaða hagsmunir liggi þar að baki, hvaða lögmál stjórni því hvað hægt er að endui-rita og svo framvegis. Að hluta til get ég tekið undir það að viðhorfíð um sjálfdæmi merkingarinnar sé ekkert sérlega frjótt; þar erum við eiginlega komin á stig Mikka refs í Hálsaskógi þegar Lilli klifurmús sakar hann um að hafa ekkert vit á skáldskap. Mikki svar- ar því þá til að hann skilji það sem hann vilji skilja. Þetta er ekki sá grundvöllur sem ég kæri mig um að byggja mín fræði á. Á móti kemur að menn eins og Lefevere hafa gjarnan lokað augunum fyrir því að vissulega eru þeirra skrif líka byggð á túlkun texta, þeir eru kannski ekki að túlka viðhorf Hamlets til Klá- díusar fóðurbróður síns en þeir eru ef til vill að túlka viðhorf Shakespeares til konungsvalds- ins og í ljósi þeirra viðhorf austur-þýsks þýð- anda Shakespeares til kommúnistaflokksins. Sjálfur held ég að gildi bókmenntatúlkanna felist í því hvað er trúverðugt og upplýsandi. Það sem er sérstakt við Njálu í þessu sam- hengi er að hún á sér ekki neinn tiltekinn höf- und sem merkingin býr hjá. Tilraunum manna til að finna þennan höfund mætti allt eins lýsa sem tilraunum til að finna tómt ker til að fylla af þeirri merkingu sem býr í sögunni, ekki öf- ugt. Ég sá fyrir nokkrum árum ljósmynd sem mér fannst einmitt vera myndin af höfundi Njálu. Þetta var ljósmynd frá Njálusetrinu á Hvolfsvelli. Á myndinni var gína, maður í forn- um búning sem greinilega átti að vera bók- menntamaður frá miðöldum. Og það skemmti- lega við þetta var að gínan var úr vírneti sem er kannski táknrænt fyrir höfund Njálu; hann er í rauninni ógreinilegar útlínur og einkennist af möskvunum sem við getum svo stoppað í. En jafnvel þó að við gætum nafngreint höfund Njálu þá væri hún samt sem áður afurð af sameiginlegri sköpun sem hefur átt sér stað í tiltekinn tíma áður en sagan er skrifuð niður í lok þrettándu aldar og hefur svo haldið áfram. Ég vil því draga þessi hugtök, höfundinn og túlkandann, saman í tilviki Njálu; ég held það geti verið gefandi og lærdómsríkt að tala um höfunda Njálu í fleirtölu sem hafa smátt og smátt skapað þá merkingu sem við leggjum nú í söguna. Ég held líka að þessi mikla áhersla á höf- undarhugtakið gefi okkur ranga sýn á veru- hætti bókmenntanna. Við skulum segja að við hefðum höfund Njálu hérna í sófanum hjá okkur. En ef við myndum svo taka alla þá sem hafa unnið við að gefa hana út, skrifa um hana, þýða hana, semja upp úr henni barnabækur, sögulegar skáldsögur og leikrit og teikna myndskreytingar í útgáfurnar og mála myndir af sögupersónum hennar, þá værum við komin með ansi stóran hóp hérna í sófann, við þyrft- um fleiri sófa. Þetta eru ekki bara einhverjir hreinræktaðir túlkendur, heldur höfundar af ýmsu tagi sem hafa lagt tíma sinn, hugmyndir og þrár í þessa merkingarsköpun Njálu sem heldur áfram. Það er eitthvað í þessum texta sem kveikir í öllu þessu fólki að halda áfram að skrifa og skapa, yrkja í eyðurnar. Það er síðan spennandi að reyna að komast að því hvað þetta eitthvað er, hver er hvatinn sem heldur öllu þessu stai'fi gangandi." Fræðilegt sjálfstæði skortir - Það má segja að Hetjan og höfúndurinn sé nýstárleg nálgun við íslendinga sögurnar, að minnsta kosti hafa hefðbundnir íslensku- og norrænufræðingar ekki gert mikið af því að nálgast sögurnar frá þessari hlið. Hvaða skoð- un hefurðu á því sem er að gerast í fornsagna- rannsóknum hér á landi og annarsstaðar? Undanfarin ár hafa menn einmitt verið að nýta sér hin póststrúktúralísku viðhorf í rann- sóknum á sögunum en hefðin er samt ansi sterk, ný viðhorf fá tilað mynda ekki mikið rúm í umfjöllun um íslendinga sögurnar í nýrri bókmenntasögu Máls og menningar þótt vissulega séu þau nefnd. Finnst þér fræðileg umræða um sögurnar vera frjó? Skynjarðu mikil átök á milli hefðar og nýsköpunar í þess- um rannsóknum? Skynjarðu kannski sjálfan þigíandstöðu við hefðina? „Ég ætti kannski fyrst að taka fram að ég er ekki miðaldafræðingur og miðaldir ekki við- fangsefni mitt. Ég tel að mitt rannsóknarsvið hefjist þar sem miðaldafræðunum sleppir. Ég lít á mínar rannsóknir sem viðbót við hinar hefðbundnu rannsóknir. Svo má heldur ekki gleyma því að menn hafa unnið merkilegt rannsóknarstarf á viðtökum fornbókmennta áður, ég er enginn brautryðjandi þar. Nefna má fræðimenn eins og Lars Lönnroth frá Sví- þjóð, Andrew Wawn frá Bretlandi og hóp ís- lenskra fræðimanna undir forystu Sverris Tómassonar sem hafa verið að skoða örlög ís- lenskra fornbókmennta á síðari öldum. Braut- ryðjendaverk í slíkum viðtökurannsóknum á Njálu vai- bók Matthíasar Johannessen, Njála í íslenzkum skáldskap, sem kom út 1958 og hefur reynst mér mjög drjúgur heimilda- grunnur. Annars held ég, eins og ég sagði áðan, ekki endilega rétt að flokka fræðimenn eftir við- fangsefninu heldur frekar sjónarhorni þeirra á efnið. Þar held ég að víglínan hafi legið á milli þeirra sem hafa verið varkárir og stundum íhaldssamir og þeirra sem hafa viljað nota nýj- ar kenningar og aðferðir til að skoða íslenskar bókmenntir og bókmenntasögu. Að einhverju leyti hefur umræðan líka snúist um það að bókmenntafræðingar hafi ekki leyfi til að skrifa fyrir aðra bókmenntafræðinga, vera sérfræðilegir. Og reyndar reikna ég með að þetta sé krafa sem íslenskir sagnfræðingar hafa líka þurft að berjast við en málfræðingar hins vegar síður, það ætlast enginn til þess að það sem þeir skrifa í fagtímarit sín sé aðgengi- legt öllum. Þarna hefur verið töluverður nún- ingur. Vandinn hefur líka verið sá að þegar ný hugsun er kynnt þarf að þýða ný hugtök á ís- lensku og skilgreina þau og óneitanlega hefur gætt svolítillar tregðu gagnvart starfi sem unnið hefur verið á þeim vettvangi, menn hafa verið tregir til að taka þessi nýju hugtök í sátt. Sjálfur hef ég líklega staðið báðum megin við þessa víglínu. í öllum mínum rannsóknum hef ég verið áfram um að leita nýrra miðlunar- forma, það er kannski bara nýjungagirni en ég hef verið að leita að fjölbreyttari aðferðum til að koma fræðilegri umfjöllun um bókmenntir á framfæri við hinn almenna lesanda. Starf mitt á Útvarpinu hefur verið mjög dýrmætt í þessu samhengi. Þar gerði ég ýmsar formtil- raunir, til dæmis með leikgerð af Eddukvæð- unum þar sem fram fóru samræður manna sem voru að túlka kvæðin um leið og þau voru flutt eða leikin. Ég hef líka unnið með Búa Kristjánssyni og Bjaraa Hinrikssyni að teikni- myndasögum sem byggja á fornbókmenntun- um og fyrr á þessu ári vann ég ásamt Önnu Melsteð að útgáfu Passíusálmanna á netinu en sú útgáfa var samstarfsverkefni Ríkisútvarps- ins, Landsbókasafns og Ámastofnunar. Það sem vakir fyrir mér er að gera bókmenntirnar aðgengilegar á nýjan hátt. Mér finnst að fræðimenn megi stundum vera meðvitaðri um það við hverja þeir eru að tala í hvert skipti og af hvaða tilefni. Oft hefur maður hlýtt á fyrir- lestur og smámsaman komist að því að sá sem talar er ekki að flytja fyrirlestur heldur að lesa tímaritsgrein. En mér þykir það líka spennandi spurning a_ð hvaða leyti formið skapar merkinguna. Ég gerði tilraun með þetta í Hetjunni og höfundinum þar sem einn kaflinn er byggður upp eins og leikþáttur. Ég birfi þai- umræður frá Alþingi upp úr Alþingis- tíðindum og texta úr dómsskjölum Lögreglu- réttar Reykjavíkur og Hæstaréttar þar sem verið er að fjalla um útgáfu Halldórs Laxness á Hrafnkels sögu Freysgoða með nútímastaf- setningu. Textinn í þessum kafla er ekki eftir mig, nema sviðslýsingarnar. Hugmyndin var sú að leggja fram heimildirnar; þarna er efni sem, að mínu mati, hefur sjálfstætt gildi; hin sögulega umræða sem varðveitt er í þessum skjölum finnst mér að eigi að vera aðgengileg en þarna eru samþykkt lög frá Alþingi sem eru síðan dæmd ómerk í Hæstarétti - fyrir ut- an að þarna eru fornbókmenntirnar og Hall- dór Laxness í brennidepli. Það eru til ótal að- ferðir til þess að koma þessu efni á framfæri; ég hef skrifað um það hefðbundna grein á ensku en ákvað að láta slag standa og birta „leikgerðina" sem kafla í fræðibók þótt þarna væri svo til eingöngu um röð tilvitnana að ræða. Hægt væri að bregðast við þessu með því að segja að þarna vantaði alla úrvinnslu en svo er þó ekki, þarna fer fram heilmikil rit- stýring og með forminu er jafnframt verið að leggja visst mat á efnið, kannski það að þetta hafi verið hálfgerður farsi. Annars konar mót- bárur væru að þetta séu ekki fræði, þarna vanti það sem vanalega sést í fræðiritum. Reyndar mætti snúa út úr því og bénda á að samræður Platons væru í mjög svipuðu formi. En fyrst og fremst vildi ég víkka út hugmynd- ina um það hvað séu fræði og hvernig sé hægt að stunda þau. Og eina leiðin til að vita það er að prófa sig áfram. Á hinn bóginn hefur mér virst að sumt af því sem kallast ný, framsækin fræðileg um- fjöllun um bókmenntir einkenndist af vissu ósjálfstæði gagnvart þeim fræðimönnum og kenningum sem unnið er með. Ég held að í kennslu á háskólastigi þui-fi ekki aðeins að leggja áhérslu á að kynna nemendum nýjar hugmyndir og áhrifaríka fræðimenn heldur einnig að hvetja þá til að finna sína eigin rödd. Menn geta verið faglegir þótt þeir séu ekki alltaf að nota hugtök sem þarf að skýra með erlendum hugtökum neðanmáls og staðfesta með nafni einhvers fræðilegs kirkjuföður. Fræðimennska felst í ákveðnu greinandi sjón- arhomi og vandvirkni - og áhugaverð fræði- mennska felst alltaf í gagnrýnu sjálfstæði." Gömlu sögurnar gilda ekki lengur - Skynjarðu mikil átök á milli ólíkra við- horfa í íslenskum fræðaheimi. Nú hefur bloss- að upp mikil deila um póstmódernisma í fram- haldi af greinum Kristjáns Kristjánssonar í Lesbók Morgunblaðsins síðasta haust, það er eins og menn hafí allt í einu vaknað af löngum svefni og úr verður heiftarleg deila um þetta þrjátíu ára gamla fyrirbrigði. „Ég skynja að það er mikil gerjun í íslensk- um fræðaheimi og held að hún felist í tvennu. I fyrsta lagi eru fleiri og fleiri að koma úr framhaldsnámi í húmanískum fræðum, miklu fleiri en fá og munu fá störf við háskóla- kennslu sem er kannski það sem þetta fólk er forritað til að gera. Þetta er hópur sem hefur kynnt sér ýmsar nýlegar hugmyndir og, það sem mikilvægast er, tamið sér nýja afstöðu til sinna fræðigreina sem er að einhverju leyti óbundin hugmyndinni um hefðbundið kenn- arastarf i háskóla. Skýrasta dæmi þessa er sennilega nýútkomið greinasafn, Flögð og fögur skinn, þar sem samtíminn er í og með skoðaður með fræðilegum gleraugum, sam- tími sem er ekki bara íslenskur heldur alþjóð- legur, ekki bara hið ritaða orð eða hámenn- ingin heldur veruleikinn eins og hann birtist okkur í gömlum og nýjum amerískum kvik- myndum, auglýsingum, tískufótum, vaxta- rækt, klæðskiptum og teiknimyndahetjum, svo nokkur dæmi séu nefnd. Hitt sem maður hefur skynjað er að nú fer fram meðal fræðimanna heilmikil endurskoð- un á arfleifð fortíðarinnar, þær hugmyndir og sögur um ísland og íslendinga sem hafa verið teknar góðar og gildar eru endurskoðaðar og endurskrifaðar. Það er samt ekki alveg komið að því að fólk viti hvað eigi að leysa þær af hólmi. Þetta eru tengd atriði að því leyti að ísland er orðið svo mikill hluti af alþjóðlegu umhverfi að gömlu þjóðartáknin þurfa endurnýjunar við. Það var nokkuð ljóst til hvers ísland var fram til ársins 1918, tilvera þjóðarinnar byggðist á draumi um sjálfstæði hennar. Þeg- ar þeim áfanga var náð átti ísland að verða menningarlegt stóiveldi en nú um stundir er engin klár hugmynd um það til hvers ísland er, klárasta hugmyndin er kannski sú að ís- land sé til að skila hagnaði en hún ein og sér er ákaflega nöturleg. Eg bind hins vegar vonfr við að sú gerjun sem á sér nú stað eigi eftir að bera ávöxt í skýrari hugmyndum um hvað sameini, eða ætti að sameina, okkur sem byggjum þessa eyju hér norður í hafi.“ Myndskreyting við Brennunjálssögu: Gunnlaugur Scheving. LÉT Njáll segja sér þremur sinnum. LESBÓK MORGUNBLAÐSINS ~ MENNING/USTIR 4. JÚLÍ 1998 7

x

Lesbók Morgunblaðsins

Beinir tenglar

Ef þú vilt tengja á þennan titil, vinsamlegast notaðu þessa tengla:

Tengja á þennan titil: Lesbók Morgunblaðsins
https://timarit.is/publication/288

Tengja á þetta tölublað:

Tengja á þessa síðu:

Tengja á þessa grein:

Vinsamlegast ekki tengja beint á myndir eða PDF skjöl á Tímarit.is þar sem slíkar slóðir geta breyst án fyrirvara. Notið slóðirnar hér fyrir ofan til að tengja á vefinn.