Lesbók Morgunblaðsins - 01.05.1999, Blaðsíða 7

Lesbók Morgunblaðsins - 01.05.1999, Blaðsíða 7
í að reyna að troða af manni skóinn. Stundum fínnst mér eins og menn hafi ekki annað að gera á þessu ágæta landi. En þó undarlegt sé, þá tek ég sjaldnast eftir því. Ég veit að Stef hefur gert mig óvinsælan, en það verður að hafa það. Stef er nauðsynlegt. Það er mikil framfór. En kannski maður ætti að hafa einhvern aukagemsa til að taka á móti skömmunum." A veggnum gegnt mér í vinnustofu Jóns Leifs hékk stórt og fallegt teppi. Efst í hægra horni þess stóð nafn konu og ártal. Ég spurði tónskáldið, hver sú kona væri. Hann svaraði um hæl: „Það er konan mín, þriðja konan.“ „Þriðja? Heyrir það til?“ Hann svaraði: „Spyrðu d’Albert, óperutónskáld. Hann átti eina konu og eitt barn, meðan hann var að semja hverja óperu. Þegar hann var búinn með óperurnar, giftist hann nýrri konu og byrjaði þá auðvitað á nýrri óperu. Svona gekk þetta í mörg ár. Þegar hann ætlaði að gifta sig í áttunda skiptið, dó hann. Hann fór til Riga að fá skilnað, en kom ekki aftur. Kollegarnir sögðu honum að vara sig á þeirri níundu, - hún er með kór, sögðu þeir! En þetta kemur ekki mínum konum við. Hvað ert þú annars gamall? Ætli þú sért ekki 28 ára? Þegar þú ert orðinn þrítugur, verður skorið úr því hvort þú verður að manni eða ekki. Þegar fólk er þrítugt, missir það illusjónirnar, og þá beygja flestir af. Það sagði Jóhann Jónsson skáld. Svo reynir líka á, þegar menn missa fóður sinn, þá „Tómas hefur sagt mér, að menn verði ekki fullorðnir fyrr en þeir missa móður sína. En hvenær dó faðir þinn, Jón?“ „Þegar ég var þrítugur.“ „Hvað sagðirðu þá við sjálfan þig?“ „Ég sagði fátt. Ég var staddur suður í Baden-Baden. En þá fór ég að geta lesið Goethe. Þá las ég samtölin við Eckermann og Dichtung und Wahrheit. Þá fór ég að átta mig á tilverunni. Og Goethe hefur síðan hjálpað mér að þola raunirnar, fallast á ófullkomleika lífsins. Samt hef ég aldrei hrifizt af skáldskap hans. Þegar leikhúsið í Weimar brann, var hann leikhússtjóri og ráðherra. Hann var með stór plön um endurreisn leikhússins. En enginn vildi fara að hans ráðum. Hann tók því vel. Hann vissi, að lífið er ófullkomið og mennirnir eru ekki upp á marga fiska. Shakespeare var meira skáld. Hann er sjálfsagt mesta séníið í bókmenntunum, og það vissi Goethe. Goethe hafði minnimáttarkennd gagnvart Shakespeare. En við skulum ekki tala um það frekar, því við erum komnir út í bókmenntir, og ég vil helzt ekki tala um þær. Ég hef einhvern tíma sagt og móðgað marga: „Þar sem bókmenntunum sleppir, byrjar listin." Ég stend enn við þessi orð. Takmark bókmenntanna er að lýsa veruleikanum, myndlistin reynir að lyfta veruleikanum í æðra veldi, en tónlistin er guð almáttugur. Hún er komin út fyrir veruleikann. Ég hef að vísu gaman af að horfa á fallegar myndir og lesa góðar bækur, og það hefur sparað mér mikla lífsreynslu. En það ér ekki nóg. Bókmenntirnar eru lýsing á sorginni og gleðinni, en músíkin er sorgin og gleðin sjálf. Þetta sagði einhver spekingur einhvern tíma og ég er honum alveg sammála. Músík er lífsorka. Ég hef notað hana í verkum mínum. Þess vegna eru þau hranaleg og brútal stundum. Kannski það sé til að vega upp á móti viðkvæmninni, ég veit það ekki.“ „Ertu sentimental?" „Eram við það ekki öll? En ég er að komast í jafnvægi, held ég, með aldrinum. Ég tek vonbrigðin ekki eins nærri mér og áður og geri mér ekki heldur eins miklar vonir.“ „Þú segist vera viðkvæmur. En heldurðu að þú sért hégómlegur?" „Ég veit ekki, hvað þú átt við, hégómlegur? Ég vil helzt aldrei hlusta á mín eigin verk nema einu sinni, áttu kannski við það?“ „Ég veit það ekki, þetta datt út úr mér. En þú minntist á minnimáttarkenndina áðan. Getur hún ekki hjálpað listinni?“ „Ég veit það ekki. Ég veit ekki, hvort ég hef haft minnimáttarkennd. Þegar ég var ungur, vildi ég verða dírigent og píanisti eins og Liszt, já ég hafði stór plön og sat oft og lengi og hugsaði um, hvernig ég ætti að sigra heiminn. En að semja tónlist - nei, það var ekki þorandi. Það var of stórkostlegt. Það krafðist svo mikils heiðarleika. Það krafðist þess, að maður lifði upp reynslu mannkynsins á nýjan hátt. Það krafðist alls. En mig langaði samt að reyna. Því ekki? Svo átti ég í sálarstríði ► ARMAÐUR ÍSLENSKRAR TÓNLISTAR JÓN kornungur ásamt Páli ísólfssyni tónskáldi og orgelleikara. Myndin er líklega tekin í Þýskalandi árið 1916 eða þar um kring. EFTIR JÓN ÁSGEIRSSON FRÁ ungum aldri hafa íslenskar forn- sögur verið mér kærar og enn í dag hef ég með engu móti getað losnað undan álagafjötram þeirra. Þegar fs- lendingar vora að meðtaka heimsmenning- una, sem gerðist í tveimur atrennum heimsstyrjalda, þótti allt þjóðlegt bera vott um sveitamennsku og sérstaklega eftir þá síðari, vera jafnvel af hinu illa, einkennast af þjóðernishroka. Fyrir mér voru þetta aðeins sögur, stórar í sér, viðburðaríkar og mannlíf þeirra margslungið, litað heift og blíðu, ást og hatri en umfram allt, meitilmerktar óvið- jafnanlegri sagnasnilld. Jón Leifs tónskáld var í raun ármaður þess, er ég vildi lifa fyrir, og því ákvað ég að heimsækja hann og fékk með mér til þeirrar ferðar félaga mína, Þoi-varð Helgason og Guðmund Steinsson. Þetta var 1945 og heimurinn í sárum eftir grimmúðuga styrj- öld og Jón nýkominn heim. Hann hafði orðið fyrir því að vera hnepptur í gæsluvarðhald af hálfu erlends setuliðs, þar sem hann sat undir ásökunum um óæskilegar skoðanir og jafnvel samvinnu við stríðandi óvinaþjóð, og var um þetta leyti nýsloppinn úr þessari prísund. Jón bauð okkur strákunum til stofu og tjáði okkur, að við værum fyrstir heima- manna til að heimsækja hann eftir heim- komuna. Það sem ég man best frá þessum fundi var alúðleiki heimsmannsins og að ekki var að heyra af hans vörum eitt einasta gremjuorð varðandi nýliðna atburði. Honum varð hins vegar tíðrætt um að íslenskir lista- menn ættu að stofna með sér samtök. Jón hafði einstaklega djúpa talrödd, sem bjó yfir sérkennilegri mýkt og hlýju en gat hins veg- ar, eins og ég upplifði síðar, sérstaklega á fundum í Tónskáldafélagi íslands, orðið ólýsanlega hörð og miskunnarlaus í hljóman. Það er ekld sjálfgefið, að skólalærdómur vísi nokkrum leiðina til listsköpunar, og jafn- vel rétt eins mögulegt, að lærdómur komi í veg fyrir, að listskapandi finni sér vettvang, því leikni og kunnátta er oftar stýrandi en frelsandi. Heimspekilegar kenningar geta einnig verið vörður til afvega og sama má segja um kröfur samfélagsins. Jón var vel lesinn og þó sérlega vel að sér í íslenskum fombókmenntum og hélt alla ævi fast við þá ætlan sína, að sækja sér list- rænan þrótt í fornsögurnar og hann trúði á mikilleik þeirra og var stoltur og jafnvel hrokafullur í ósveigjanlegri afstöðu sinni. Þetta setti hann svolítið afsíðis í hópi starfs- félaga og þá ekki síður gagnvart almenningi, svo sem oft vill verða um menn, er nokkurt ónæði stafar af í friðsæld sinnuleysisins. Þegar Jón stendur andspænis því að velja sér leið hafði hann notið hefðbundinnar kennslu mestu kunnáttumanna í Leipzig. Jón valdi að hafna öllum gildum hljómfræð- innar, kontrapunktískum vinnuaðferðum, sem hann hafði lært við tónlistarháskólann, og þeirri hljóðfæraleikni, er var mjög mót- andi um meðferð alls tónefnis. Þessi afstaða hans olli því, að margir lærðir menn töldu verk hans gjörð af kunnáttuleysi og gátu ekki skilið, að um var að ræða ákvörðun, er tók mið af þeirri ætlan, að tónklæða hinn horngrýtta norræna kveðskap og fjalla um allt að því ómennskar hetjur fornaldarinnar. Hann vildi ekki fægja þetta efni og slípa í anda rómantískrar fagurfræði, heldur að það eignaðist sinn eigin stíl. í raun hafði hann ekki annað til að byggja á en nokkur þjóðlög og svo sérkennilega hrynskipan ís- lenskra ljóða, fornra og nýrra, svo að sú leið, sem hann valdi, var algerlega hans eig- in hugsýn. Það hversu hann algjörlega gengur í ber- högg við bókstaflega öll lærdómsgildi í tón- list skapar honum hins vegar sérstöðu hvað varðar frumleg tök og þegar módernisminn, sem er jafngamall Jóni, hdfði smám saman umbylt öllu, ekki síst hér á landi, og komnar voru fram nýjar leiðir til listsköpunar, bæði er varðaði meðferð hljóðefnis og tónmynd- unartækni, var tími Jóns loksins kominn. Nú munu verk hans vera nær hljóðheimi dags- ins í dag en þau voru fyrir 40-70 árum og flutningur þeirra mun smám saman slípast í meðferð flytjenda, sem munu laga leiktækni sína að því sérkennilega tónferli, er einkenn- ir verk hans. Þá er ekki síður merkilegt, að sú hug- myndafræði Jóns, að sækja sér efni í fornar sagnir og kvæði, er nú komin í tísku og allir hafa gleymt slagorðinu „öll þjóðleg list er vond“. Að visu heitir það ekki nú til dags að vera þjóðlegur, heldur að standa vörð um menningararfinn. Það sem að miklu leyti hefur valdið þessari breytingu er sú stað- reynd, að alþjóðahyggja í listsköpun hefur leitt til þess, að nær enginn eða mjög lítill munur'er á t.d. japanskri, íslenskri, evr- ópskri og amerískri „nútímatónlist“, enda hafa skólarnir beinlínis skapað þessa tón- listarhefð, sem kalla mætti „akademik" dagsins í dag, eða „ný-akademik“. Jón Leifs hafnaði öllum lærdómsgildum aldamótanna á sviði tónlistar og sótti sér viðfangsefni í ævagamalt efni íslenskra fornsagna og kvæða og skapaði sér tjáning- arstíl, sem telja verður einstæðan. Honum tókst að vinna úr þessu efni, með sínum framstæðu og nýstárlegu aðferðum í tón- vinnslu, verk sem bera í sér hugsýnir stór- huga listamanns, þar sem skiptast á fínleg fegurð og tröllsleg átök, er eiga sér sam- svörun í íslenskri náttúru, íslensku veðri, ís- lensku fólki og íslenskri sögu. I raun vorum við íslendingar ekki nægi- lega undir það búnir að meðtaka Jón Leifs á sínum tíma og það var aðeins á valdi ör- fárra, að gera sér grein fyrir mikilvægi hans sem listamanns. Það er því sögulega rétt, að nú fyrst sé hægt að hefjast handa um flutn- ing verka hans og gefa þau út. Að því verki loknu verður hægt að gera sér fyllilega grein fyrir mikilvægi hans fyrir íslenska tónmenningu. Það getur verið erfitt að skilja eldhuga eins og Jón Leifs og sam- tímamat verður oftast rangt, þvi slíkt fólk tekur sér mikið pláss til ónæðis fyrir aðra. Þess vegna mun það fólk, er ekki þekkti Jón Leifs, aðeins meta hann af þeim verkum, er hann skildi eftir sig. Eitt af síðustu skiptunum, er við Jón átt- um samræður tveir einir, kom hann í heim- sókn til mín, en þá hafði flensa lagt mig í rúmið. Hann settist á rúmstokkinn hjá mér og umræðan var bæði um félagsmál Tón- skáldafélagsins og um tónlist almennt. Hann vildi fátt segja um eigin tónsmíðar en var því fomtnari um hvað ég hafði hugsað mér á næstu áram. Hann hafði nokkrar áhyggjur af framtíð tónlistar á íslandi, framgangi og vexti Sinfóníuhljómsveitar- innar, skipulagi tónlistarskólanna og áhuga- leysi íslenskra stjómvalda. Meðan hann sat þarna á rúmstokknum lagðist kvöldhúmið yfir og hljómdökk rödd hans samlagaðist smám saman dimmunni í herberginu og er hann kvaddi sá ég aðeins skuggamynd hans undan bjai-manum frá gangaljósinu. Nokkr- um mánuðum síðar lést hann. LESBÓK MORGUNBLAÐSINS ~ MENNING/LISTIR 1. MAÍ 1999 7

x

Lesbók Morgunblaðsins

Beinir tenglar

Ef þú vilt tengja á þennan titil, vinsamlegast notaðu þessa tengla:

Tengja á þennan titil: Lesbók Morgunblaðsins
https://timarit.is/publication/288

Tengja á þetta tölublað:

Tengja á þessa síðu:

Tengja á þessa grein:

Vinsamlegast ekki tengja beint á myndir eða PDF skjöl á Tímarit.is þar sem slíkar slóðir geta breyst án fyrirvara. Notið slóðirnar hér fyrir ofan til að tengja á vefinn.