Lesbók Morgunblaðsins - 10.07.1999, Blaðsíða 11

Lesbók Morgunblaðsins - 10.07.1999, Blaðsíða 11
FIMM (ÓSKYLDAR) ATHUGASEMDIR UM ÍSLENSKAR BÓKMENNTIR EFTIR HANNES HÓLMSTEIN GISSURARSON SNORRI Arinbjarnar: Gunnar á Hlíðarenda. Eigandi: Árnastofnun. 1. Hvers vegna sneri Gunnar aftur? Einn frægasti kafli Njálu er um það, þegar hestur Gunnars á Hlíð- arenda drepur niður fæti. Hetjan er þá á leið til skips eftir að hafa verið dæmd í útlegð, hún lítur upp og segir: „Fögur er hlíðin svo að mér hefir hún aldrei jafnfögur sýnst, bleikir akrar en slegin tún, og mun eg ríða heim aftur og fara hvergi." Hinn hefðbundni skilnmgur þessara orða, sem fram kemur í alkunnu kvæði Jónasar Hallgrímssonar og raunar líka í inngangi Einars Olafs Sveinssonar að Njáluútgáfu hans, er, að Gunnar hafi látið stjórnast af ættjarðarást, hann hafi blátt áfram ekki getað slitið sig frá Islandi. Hef- ur þetta verið tilefni margra fag- urra orða. En þetta hlýtur að vera misskiln- ingur. Ættjarðarástin kom ekki í veg fyrir, að íslendingar fornaldar (þar á meðal Gunnar sjálfur) dveldu erlendis árum saman og leituðu sér þar frama. Raunar er ættjarðarást síðari tíma hugtak (alveg eins og vitundin um náttúrufegurð): Þótt Islendingar fomaldar vissu vel af sér sem Islendingum, voru þeir ekki þjóðræknir í skilningi nútíma- manna. Hvers vegna sneri þá Gunn- ar aftur, þótt hann ryfi með því sátt og stofnaði lífi sínu í hættu og hefði margsinnis verið varaður við því? Hver er hin sálfræðilega rétta skýring á hegðun hans? Hún er augljós, þegar Njála er vandlega les- in. Gunnar óttaðist, að í fjarveru hans myndi Hallgerður, kona hans, leggjast með öðrum mönnum. Þetta gat hann ekki þolað, og á þetta var hann minntur, þegar hesturinn drap niður fæti og hann leit upp til bæjarins á Hlíð- arenda. Þar var Hallgerður. Sagan geymir vísbendingu um þetta. I 41. kafla segir frá frænda Gunnars, Sigmundi Lambasyni, sem hafi verið kurteis maður og vænn, mikill og sterkur. „Hallgerður var vel til Sigmundar," segir í sögunni, „og þar kom að þar gerðist svo mikill ákafi að hún bar fé á hann og þjón- aði honum eigi verr en bónda sínum.“ Njálu- höfundur er hér að gefa í skyn, að Hallgerður hafi verið manni sínum ótrú með frænda hans. Þetta hlaut Gunnar að gruna, og þegar hann leit aftur upp að bænum að Hlíðarenda, var hann minntur á þetta, svo að hann sneri aftur. 2. Dagur dómsins Islenskir bókmenntaspekingar hafa sumir séð tengsl í milli Aðventu Gunnars Gunnars- sonar og Gamla mannsins og hafsins eftir Er- nest Hemingway og líka í milli Gróðurs jarðar eftir Knút Hamsun og Sjálfstæðs fólks Hall- dórs Laxness. Eg hef athugað þetta lítillega og verð að játa, að ég kem ekki auga á bein eða sterk tengsl. En hér langar mig til að benda á önnur tengsl, sem mér virðast næsta augljós. Einn kunnasti kaflinn í Bréfi til Láru eftir Þórberg Þórðarson er „Dagur dómsins". Veit ég ekki betur en hann sé enn lesinn til prófs í íslensku í framhaldsskólum landsins. Eftir útkomu bókarinnar gekk Sigurður Nor- dal prófessor um og hældi Þórbergi á hvert reipi fyrir kaflann. Hann væri, eins og Þór- bergur sagði í bréfi til Vilmundar landlæknis Jónssonar, „það geníalasta pródúkt, sem hann [hefði] séð. Hann [væri] sannkallað Kol- umbusaregg“. En það virðist hafa farið fram hjá þessum heiðursmönnum öllum, að þessi kafli er bersýnilega stæling á lausamálsljóði eftir Óskar Wilde, sem heitir „House of Judgement". Munurinn er aðallega sá, að Þórbergur lýkur kafla sínum með áskorun um byltingu í ríki útvaldra, sem frægt er, en Ósk- ar Wilde ekki. 3. Ljóðaþýðingar eftir Magnús Ásgeirsson Árið 1975 gaf Kristján Karlsson út fyrir Helgafell ritsafn Magnúsar Ásgeirssonar Ijóðaþýðanda. Þar eru aftast í síðara bindi nokkur ljóð, sem Kristjáni tókst ekki að finna hinn erlenda höfund að. Eitt ljóðið er svo í þýðingu Magnúsar: Aflandráðum vex ekki vegsemd Hve verður það sannað? Er landráðin hafa heppnast, þá heita þau annað. Mér sýnist ekki betur en þetta sé eftir Sir John Harington, enskan hirðmann, sem uppi var frá 1561 til 1612. Á ensku hljóðar það svo: Treason doth never prosper, what’s the reason? For if it prosper, none dare call it treason. Tvö önnur ófeðruð smáljóð í þýðingasafni Magnúsar eru, að því er mér virðist, eftir danska ljóðskáldið Piet Hein, sem fæddist ár- ið 1905. Annað er svo: Óeigingirni er með sanni yndisleg dyggð hjá öðrum manni. Þetta ljóð er raunar til í þýðingu Helga Hálfdanarsonar: Ósérhlífni í öllum vanda er besta óskin öðrum til handa. Hitt smáljóðið, sem er líka eftir Piet Hein, þýddu þeir Magnús Ásgeirsson og Tómas Guðmundsson í sameiningu, er þeir voru rit- stjórar Helgafells. Það hljóðar svo: í hálfkæringi um hugskot mín er hláleg þekking oft á sveimi: að lífið sé tvö lokuð skrín, sem lykla hvort að öðru geymi. Þetta ljóð hefur Helgi Hálfdanarson líka þýtt: Með hálfu glotti er hugsun mín í hríng um þennan grun á sveimi að lífið sé tvö lokuð skrín, sem lykla hvort að öðru geymi. 4. Stephan G. Stephansson og Tennyson lávarður Til eru fræg vísuorð eftir Stephan G. Stephansson: Hálfsannleikur oftast er óhrekjandi lygi. Skáldið á við það, að draga má upp villandi mynd af veruleikanum með því að skammta mönnum upplýsingar, segja sannleikann hálf- an, ekki allan, og segja hvergi beinlínis ósatt; staðreyndum er þá hagrætt, en þeim hvergi afneitað. Afleiðingin verður auðvitað lygi, en hún er óhrekjandi, því að hvergi er neinu log- ið! Eitt sinn var ég að blaða í ljóðum hins ágæta enska skálds Tennysons lávarðar. Þá rakst ég á vísuorð, sem ég hafði ekki tekið áð- ur eftir. Þau eru í Ömmukvæði, „The Grand- mother", og hljóða svo: That a lie which is all a lie may be met and fought with outríght, But a lie which is part a truth is a harder matter to fíght. Hér er svipuð hugsun orðuð og í ljóði Stephans G. Kvæði Tennysons birtist fyrst árið 1859, en skáldið lést árið 1892, svo að vel getur verið, að Stephan G. hafi séð þetta kvæði þess og ort síðan ljóð sitt undir áhrifum frá því, jafnvel óafvitandi. Vitanlega kann líka að vera, að sama hugsun hafi fæðst hjá þess- um tveimur skáldum, enda er það ljóta og leiða fyrii-bæri, sem þeir lýsa, gamalt og nýtt. 5. Tveir höfundar - sama mynd Skáldum tekst betur en dauðlegum mönn- um að sýna óhlutbundna hugsun á hlutbund- inn hátt, gera slíka hugsun skiljanlega, sjáan- lega, með því að draga upp mynd, sem allir kannast við. Gott dæmi um þetta er kvæði Steins Steinarrs, „Hamingjan og ég“. Þar lýs- ir skáldið því, hversu fjarlæg hamingjan sé honum, með því að láta hana tala með öðrum framburði en hann kann: Ég og hamingjan skildum aldrei hvort annað, og eflaust má kenna það vestfírskum framburði mínum, en hún var svo dramblát og menntuð og sunnlensk í sínum, og sveitadreng vestan af landi var hús hennar bannað. Þegar skáldið hefur loks tileinkað sér sunn- lenskan framburð, kemst hann að því, að fyr- irhöfn hans hefur öll orðið til einskis: Og loksins varð sunnlenskan eiginleg munni mínum, og málhreimur bemskunnar týndist í rökkur hins liðna. Ég hélt, að við slíkt myndi þel hennar glúpna og þiðna, en þá varhún orðin vestfírsk í framburði sínum. Hér langar mig til að benda á það, að bandarískur rithöfundur notar sömu mynd í einni skáldsögu sinni. Hann var Christopher Morley, sem uppi var frá 1890 til 1957 og samdi fjölda bóka um hin margvíslegustu efni. I skáldsögunni eða ævintýrinu Thunder on the Left, sem út kom árið 1925, segir hann (14. kafla): „Life is a foreign language; all men mispronounce it.“ Lífið er erlent tungu- mál; enginn kann að bera það rétt fram. Hall- dór Laxness sagði mér einu sinni, er við skröfuðum um skáldskap Steins, að hann hefði verið allra manna næmastur á hug- myndir. Hann hefði getað tekið hugmynd, sem hann hefði rekist á við að fletta bók eða heyrt um á kaffihúsi, og unnið meistaralega úr henni. Getur verið, að kveikjan að kvæði Steins sé í orðum Morleys? Höfundur er prófessor í stjórnmálafraeði í Háskóla íslands. SIGURVEIG JÓNSDÓHIR LEYNDAR- DÓMUR Hvaðan koma þau augu sem ástin gefur og sjá það sem öðrum dylst? Hvaðan kemur sá tónn sem hjartað nemur en hljóðnar við fyrsta brest? ÞÚ Þú komst eins og hvirfilvindur sem hrífur og kastar hátt á loft Þú fórst eins og seglskip sem siglt er til hafs og skilur ekkert eftir. UMSKIPTI Hún stendur við gluggann og horfír út yfír borgina ein í gær stóðu þau tvö við þennan sama glugga. Þá var borgin þeirra. Höfundurinn er fyrrverandi fréttastjóri Stöðvar 2 en hefur nú með höndum yfirstjóm yfir upplýsingamiðlun hjá Islandsbanka. ÞÓRA BJÖRK BENEDIKTSDÓTTIR VINUR í ÞRAUT Þegar húmaði og þrautin sló á lífshlaupi mínu, þá varst þú til staðar. Þú leiddir mig oggættirmín við klettótta strönd, ég vissi það ekld en vissi það þó. Sorgin tætti hjartað mitt oddarnir stungu augu mín voru haldin. Ég sá þig ekki, en þú sást mig. Faðmur þinn var opinn, en ég lokaði mínum. Það var ég sem fór. Þú fórst ekki. Þú ert vinur í þraut, gleði í sorg, þú þerrar hvert tár sem fellur. Höfundurinn er skáld í Reykjavík. r r LESBÓK MORGUNBLAÐSINS ~ MENNING/LISTIR 10. JÚLÍ 1999 1 1-

x

Lesbók Morgunblaðsins

Beinir tenglar

Ef þú vilt tengja á þennan titil, vinsamlegast notaðu þessa tengla:

Tengja á þennan titil: Lesbók Morgunblaðsins
https://timarit.is/publication/288

Tengja á þetta tölublað:

Tengja á þessa síðu:

Tengja á þessa grein:

Vinsamlegast ekki tengja beint á myndir eða PDF skjöl á Tímarit.is þar sem slíkar slóðir geta breyst án fyrirvara. Notið slóðirnar hér fyrir ofan til að tengja á vefinn.