Lesbók Morgunblaðsins - 04.12.1999, Blaðsíða 5

Lesbók Morgunblaðsins - 04.12.1999, Blaðsíða 5
SJALFSTÆTT FOLK OG LIST SKÁLDSÖGUNNAR „og það var allt út af einni urt" EFTIRTORFA H. TULINIUS Listin að setja saman felst einnig í því að koma merkingu til skila sem aldrei er orðuð beint. Þetta á einkum við um samband Bjarts og Ástu Sóllilju. Óræðar tilfinningar sem binda þessar tvær persónur saman gefa sögunni margfalda dýpt og gera hana að meiru en þjóðfélagsádeilu. Haltu þér fast um hálsinn á mér, blómið mitt,“ segir Bjartur við Ástu í stór- brotnum lokakafla á Sjálf- stæðu fólki eftir Halldór Laxness. Þegar þessi hrjúfí og harði maður læt- ur í ljós tilfinningar sínar gagnvart því sem er viðkvæmt og fagurt, er myndmál jurta og blóma sjaldan langt undan. Fyrri kona hans hét Rósa <)g Bjartur gefur dóttur hennar blómanafnið Ásta Sóllilja. Hún er „lífsblómið“ hans og þegar hann yrkir um tilfinningar sínar til hennar líkir hann sjálf- um sér við kaldan klett sem hírist einn á reg- infjöllum og þráir það eitt að „skjól hans hlúi urt“. Samband Bjarts og Ástu er eitt það merkilegasta og dularfyllsta í verkum Lax- ness, því hún er ekki dóttir hans heldur kúg- ara hans, en þeir plötuðu hana inn á hann í móðurkviði. Hvernig er unnt að skilja mar- græðar tilfinningar sem binda þessar pers- ónur saman? Ef til vill má öðlast skilning á þessum flókna vef, sé bókin skoðuð í ljósi þeirrar listgreinar sem hún tilheyrir: list skáldsögunnar. Samsetning, margröddun og írónía Austurríski rithöfundurinn Hermann Broch (1886-1951) taldi að eina réttlæting fyrir tilveru skáldsögu væri sú að hún upp- götvaði eitthvað nýtt um heiminn og tilveru okkar í honum. Með því var hann að benda á að list skáldsögunnar er eitthvað meira og merkilegra en listin að setja saman læsilega sögu: hún er form hugsunar, aðferð til að hugleiða mannlega tilveru og auka þekkingu okkar og skilning á henni. I bók sinni List skáldsögunnar (1986), tek- ur tékknesk-franski skáldsagnahöfundurinn Milan Kundera undir með Broch og bætir því við að það sem skáldsagan hafi umfram önn- ur form þekkingar er að hún ræður betur við að hugleiða flóknar og samsettar hliðar til- verunnar en margt annað.1 Ef til vill vegna þess að skáldsagan byggist, í enn meira mæli en aðrar bókmenntagreinar, á listinni að setja saman, spinna úr mörgum þráðum og þemum heilsteyptan merkingarvef. Kundera segir það merkilegt að það sem Evrópa hefur fært heimsmenningunni, þ.e. list skáldsög- unnar og sinfóníska tónlist, sé hvortveggja byggt á því að tiltölulega einföld grunnstef (frásagnarbrot eða laglínur) eru mögnuð upp, látin kallast á við önnur, hljóma saman við þau, svo úr því verður heild sem er meira en summa hluta hennar. List skáldsögunnar er samkvæmt þessu listin að setja saman og hefur hún verið að þróast allar götur síðan að minnsta kosti frá því á tólftu öld, þegar franska sagnaskáldið Chrétien de Troyes samdi söguljóð um ridd- ara. í formálum þeirra lýsti hann vinnulagi sínu: Ur efnivið sem honum er fenginn („mat- iere“) dregur hann fram merkingu (,,sen“) með því að setja það saman á listilegan hátt („une molt bele conjointure"). Strax á 12. öld byggist háþróuð frásagnarlist á því að setja saman söguþætti með þeim hætti að úr því verður í senn til fegurð og merking. Það get- ur naumast verið tilviljun að á sama tíma og svipuðum slóðum í Evrópu eru tónlistarmenn að gera tilraunir með að láta tvær eða fleiri aðskildar laglínur kallast á og hljóma saman. Margröddun í tónlist kemur fram á 12. öld og er undanfari sinfónískrar tónlistar á sama hátt og telja má sögur Chrétiens upphaf að evrópsku skáldsögunni. Raunar hefur margröddun verið talin eitt megineinkenni skáldsögunnar frá því að rússneski bókmenntafræðingurinn Mikhail Bakhtín benti á hana á fyrri hluta þessarar aldar. Margröddun er nátengd fyrrnefndri samsetningarlist, því í hverri skáldsögu hljóma margar raddir samtímis. Það geta verið raddir fulltrúa ákveðinna viðhorfa í samfélagi en einnig mismunandi sjónarhorn ólíkra persóna til sömu atburða eða að- stæðna. Jafnvel geta ólíkar raddir bærst með einni og sömu persónunni. Enn eitt sérkenni skáldsögunnar sem list- forms er að hún byggist einatt á ákveðinni af- stöðu til veruleikans sem freistandi er að kenna við íróníu. Írónía eða háð er vanda- samt hugtak en það má lýsa því með vísun til þess sem gerist í boðskiptum. Sendandinn sendir boð til viðtakandans, en þegar írónía er á ferðinni eru boðin tvíræð. Á yfirborðinu má lesa úr þeim eina merkingu en önnur verður ljós þeim sem þekkja nógu vel sam- hengið. Dæmi um einföld írónísk boð er þeg- ar sagt er „mikið er veðrið yndislegt", þegar úti geisar stórhríð. Tvíræð skilaboð sem þessi eru eitt helsta einkenni skáldsögunnar og koma m.a. fram í afstöðu höfundar til persónanna. Dæmi um þetta er Don Kíkóti þegar hann ræðst á vind- myllurnar. Höfundur veit að þetta eru vind- myllur og lesandinn líka, en þeir vita einnig að Don Kíkóti heldur að þetta séu tröll. Kímnin í þessari sögu er írónísk: höfundurinn blikkar til lesandans sem brosir í kampinn, en Kíkóti berst við myllurnar. Guðbergur Bergsson kallar íróníu „tamið háð“ og segir að „háð sem ristir djúpt hefur jafnan harm- leikinn að grunntóni, sorg mannsins og varn- arleysi hans gagnvart sjálfum sér og eðli sínu“.2 Irónísk afstaða þeirra hefur gert rithöf- undum kleift að sinna einu helsta viðfangs- efni skáldsögunnar sem form hugsunar, að gagnrýna ýmiss konar hugmyndir og rang- hugmyndir og sýna hvernig þær geta leitt persónur út í ógöngur. Don Kíkóti er besta dæmi um þetta því þar eru það bjánalegar hugmyndir hans fengnar úr riddarasögum sem leiða hann út í þá vitleysu að vilja vera riddari þegar riddarahugsjónin er löngu orð- in úrelt. Þessi eiginleiki skáldsögunnar hefur styrkst eftir því sem liðið hefur á þróunar- sögu hennar og hafa margar merkustu skáld- sögur verið eins konar rannsókn á ríkjandi hugmyndafræði samtíma síns. Frú Bóvarý eftir franska höfundinn Gustave Flaubert (1821-1880) er gott dæmi um slíkt því aðal- persóna bókarinnar gengur með grillur sem tengjast löngun kvenna af miðstéttum til að tilheyra yfirstéttunum, en sú löngun kemur helst fram í ástarsögum samtímans. Þessar ranghugmyndir kalla síðan óhamingju yfir hana sjálfa og hennar nánustu. Halldór Laxness. Portrett eftir Nínu Tryggvadóttur. Írónía í Sjólfstæðu fólki I Sjálfstæðu fólki má finna öll þrjú ein- kenni skáldsögunnar sem hér hafa verið nefnd: listina að setja saman, margröddun og íróníu. Lítill vandi væri að telja upp mörg dæmi um íróníu í sögunni. Mestu skiptir þó að hún fjallar um það hvernig ákveðin hug- myndafræði, hugsjón sjálfseignarbóndans, skapar Bjarti og fjölskyldu hans óhamingju. Sagan er í þeim skilningi rannsókn á hug- myndafræði og þjóðfélagsástandi sem henni tengist. I ljós kemur að hún er ekkert annað en réttlæting á þjóðfélagsskipan sem leyfir hinum efnameiri að hagnast á bágindum hinna efnaminni. Sjálfstæðishugsjón Bjarts verður til þess að hann missir allt það sem honum er kærast, eiginkonur, syni, og ekki síst Ástu Sóllilju. Að því leyti er hann eins og Don Kíkóti eða Emma Bóvarý. Hulunni er svipt af sjálfstæðishugsjóninni með ýmsum hætti. I fyrsta lagi má lesa sög- una alla sem afhjúpun, því hún hefst á því að Bjartur öðlast sjálfstæði þegar hreppstjórinn selur honum jörðina Sumarhús, en endar þegar sá hinn sami tekur hana aftur, vegna þess að Bjartur hefur ekki staðið í skilum við bankann sem Ingólfur sonur hreppstjórans stjórnar. Bjartur er því aftur orðinn öreigi, eins og í upphafi, en hann hefur eytt bestu ár- um ævi sinnar í strit fyrir ekki neitt, eða öllu heldur fyrir ríka fólkið. Það læðist að les- andanum sá grunur að allt hafi verið leikið á forsendum þess og að Bjartur hafi ekki feng- ið að búa, nema vegna þess að það þurfti að gifta Rósu eftir að sonur hjónanna hafði barnað hana. Sjálfstæðishugsjónin er því ekki nema tálsýn ein, en í skjóli hennar skák- ar yfirstéttin - í þessu tilfelli stórbændur sem stýra samvinnuhreyfingunni - og not- færir sér öreigana. Þetta er niðurstaðan í Sjálfstæðu fólki og það þarf engan að undra þótt forystumenn í Framsóknarflokknum hafi brugðist ókvæða við bókinni. Með henni er Halldór að benda fátæku fólki á að eina leiðin fyrir það að kom- ast upp úr örbirgðinni sé að berjast gegn sameiginlegum óvini sínum. Að því leyti er hann að draga taum kommúnista, enda var hann samferðamaður þeirra á þeim árum sem hann var að skrifa söguna. Vafalaust er túlkun Halldórs á íslensku þjóðfélagsástandi á þessum tíma ekki hafin yfir alla gagnrýni, en hún er mjög sannfærandi. Margröddun Sannfæringarkrafturinn er ekki síst fólg- inn í því hvernig skáldið sviðsetur hinar ýmsu raddir í samfélaginu. Margröddunin kemur t.d. fram í samræðunum milli Bjarts og Rauðsmýrarfólksins. Þau eru fulltrúar ríkj- andi hugmynda en með háðskum athuga- semdum bendir hann á hvað þau hagnast í skjóli þeirra. Þó er ekki hægt að segja að Bjartur sjái í gegnum hugmyndafræði sjálfs- eignarbóndans. Gagnrýnin á hana kemur fyrst og fremst fram í sögunni sem heild. En margröddun þýðir ekki aðeins að íleiri en einni skoðun sé teflt fram í sögunni, held- ur að mörgum viðhorfum, skynjunum, sjón- arhornum, er fléttað saman til að úr verði skýrari og yfirgripsmeiri heildarmynd. Þann- ig er eftirtektarvert hvernig Halldór beitir þeirri tækni frásagnarlistarinnar að lýsa at- burðum út frá skynjun einnar persónu, en eitt helsta einkenni sögunnar er að höfundur leyfir sér að fara frá einni persónu til annarr- ar. Þannig er Bjarti stundum fylgt eftir, stundum Rósu, stundum Ástu Sóllilju, Nonna eða Gvendi. Þetta verður til þess að lesendur fá innsýn í það hvernig tilvera hins sjálfstæða kotbónda blasir við ýmsum persónum eftir því hver staða þeirra er. Heildarmyndin verður í senn margslungnari og skýrari en ella. Einn af kostunum við þessa aðferð er sá að LESBÓK MORGUNBLAÐSINS - MENNING/LISTIR 4. DESEMBER 1999 5

x

Lesbók Morgunblaðsins

Beinir tenglar

Ef þú vilt tengja á þennan titil, vinsamlegast notaðu þessa tengla:

Tengja á þennan titil: Lesbók Morgunblaðsins
https://timarit.is/publication/288

Tengja á þetta tölublað:

Tengja á þessa síðu:

Tengja á þessa grein:

Vinsamlegast ekki tengja beint á myndir eða PDF skjöl á Tímarit.is þar sem slíkar slóðir geta breyst án fyrirvara. Notið slóðirnar hér fyrir ofan til að tengja á vefinn.