Alþýðublaðið - 13.05.1989, Blaðsíða 3

Alþýðublaðið - 13.05.1989, Blaðsíða 3
Laugardagur 13. maí 1989 3 Kroníka vikunnar Stundargleði í erfiðleikunum Hinn góði afli á vertíðinni sem nú er að ljúka boðar bæði góðar fréttir og slæmar. Góðu fréttirnar eru þær að eft- ir langa bið hefur hlaupið á snærið hjá sjávarplássunum á vertíðarsvæðunum og auknar tekjur koma sér vel fyrir fólk og atvinnulíf. Líklega er búið að afla 20-30 þúsund tonnum meira af þorski nú en á sama tíma í fyrra. Slæmu fréttirnar eru þær að draga þarf saman afla fyrir árið í heild sem nemur tæpum 40 þúsund tonnum af þorski og 12 þúsund tonnum af öðrum bolfiski. Þennan aflasamdrátt auk um- framaflans á vertíðinni þarf að taka út á þeim tima sem eftir er ársins. Sumir gera ráð fyrir að aflaheimildir verði auknar vegna þess að ríkisstjórnin þoli ekki að horfast i augu við afleiðing- arnar þegar skipurn hefur verið lagt og enginn afli kemur á land. En auknar aflaheimildir nú til þess að fleyta ríkis- stjórninni fram yfir áramótin gætu hins vegar reynst víxill sem fellur á næsta eða þarnæsta ári með enn minnkandi afla þá. Á skjön við áætlanir_______________ Við gerð efnahagsáætlana fyrir þetta ár var búist við samdrætti í þjóðarbú- skapnum sem fyrst og fremst stafar af minnkandi afla. Aflaverðmæti á föstu verði átti samkvæmt áætlunum og út- hlutuðum aflaheimildum að lækka um 5,6% og sjávarvöruframleiðsla um 4%. Slíkur samdráttur kallar á 600-700 færri ársverk í sjávarútvegi og kemur þannig niður á atvinnu. Þetta þarf ekki endi- lega að koma fram í auknu atvinnuleysi þar sem víða er unnt að stytta vinnutíma án þess að til atvinnumissis komi. Kaupmáttur í heild hlýtur einnig að lækka þegar atvinnulífið verður af þess- um tekjum. Minnkandi afli var því ein meginástæðan fyrir launastefnu ríkis- stjórnarinnar sem fól í sér lækkandi kaupmátt. Ástandið á fyrstu mánuðum ársins er því nokkuð á skjön við það sem búist var við. í ársbyrjun var reiknað með enn einni slakri vertíð og atvinnuleysi í ver- tíðarplássum jafnvel um hávertiðina. Um 3000 manns voru atvinnulaus í jan- úar, 2600 í febrúar og um 2500 i mars. í eðlilegu árferði er atvinnuleysið mun minna á þessum tíma. En hefði afla- samdrátturinn komið fram á vertíðinni mátti búast við því að atvinnuleysið gæti undið upp á sig og allt að 5000 manns hefðu þá verið atvinnulaus núna. Peningamál standa vel Tölur um þróun peningamála endur- spegla vel þetta ástand. Lán og endurlán bankakerfisins aukast stórum minna nú en í fyrra. Fyrstu þrjá mánuðina í fyrra jukust lán og endurlán um 9228 millj- ónir króna samanborið við 2552 millj- ónir króna nú. Aukning sparnaðar var 5781 milljón króna á fyrstu þremur mánuðunum miðað við 3913 milljónir í fyrra. Staða bankakerfisins í heild gagnvart útlöndum batnaði um tæpar 5000 milljónir króna á fyrstu þremur mánuðunum. Þetta er óvenjulega góð staða í bankakerfinu og á sér þrjár meginskýr- ingar. Mikil erlend lán hafa verið tekin af opinberum aðilum. Nægir þar að nefna 5000 milljóna króna lán sem Rik- issjóður tók til þess að greiða niður yfir- drátt sinn i Seðlabankanum og lántökur Atvinnutryggingasjóðs. Önnur skýringin er sú að varla er til það fyrirtæki í landinu sem ekki stend- ur í meiri háttar átaki til hagræðingar og sparnaðar. Ekki er lagt i nema brýn- ustu fjárfestingar, reynt er að greiða niður skuldir og kostnaður er skorinn niður, þ.m.t. launakostnaður með minni yfirvinnu, minni yfirborgunum og jafnvel uppsögnum þegar annað þrýtur. Þriðja skýringin á bættri stöðu bankakerfisins og peningamálanna liggur svo í góðri vertíð og minnkandi birgðum. Þetta eykur tímabundið fjár- streymið inn í landið og bætir stöðu fyr- irtækjanna og bankanna á meðan. Þegar kvótinn er búinn Með óbreyttum aflaheimildum þarf að draga verulega saman þorskveiðar á síðari hluta ársins miðað við undanfar- in ár. Jafnvel verður þorskveiðin 60-70 þúsund tonnum minni yfir þennan tima en í fyrra. Þetta hefur víðtækar afleið- ingar fyrir efnahagslífið. Þegar skip fara ekki á sjó, kemur ekki afli á land og þá er heldur ekki vinna í fiskvinnslustöðvum. Svo einfalt er það. 60-70 þúsund tonn af þorski upp úr sjó skapa líklega um 800 ársverk í atvinnu á sjó og landi, eða um 1600 ársverk á hálfu ári. Nú liggur fyrir að hægt er að minnka vinnu í sjávarútvegi um 1600 ársverk á síðari hluta ársins með margvíslegum hætti, t.d. með minni vinnu skólafólks, lokun í sumarfríum og minni yfirvinnu áður en til uppsagna og atvinnuleysis dregur. Hins vegar er ljóst að til einhverra uppsagna hlýtur að draga og hætt er við á síðustu þremur mánuðum ársins verði 1500-2000 störf ekki unnin í sjávarút- vegi landsmanna. Staða peningamála hlýtur líka að breytast. Þessa stundina eru forráða- menn bankamála í bjartsýnu deildinni. En þegar fjárstreymið inn í sjávarútveg- inn fer að dragast saman, skuldbreyt- ingahrinan í gegnum Atvinnutrygg- ingasjóð er liðin og áhrifin af minnk- andi veltu koma fram í aukinni fjárþörf ríkissjóðs kemur annað hljóð í strokk- inn. Þá versnar staða bankakerfisins vegna þess að fyrirtækin þurfa aukið lánsfé og rikissjóður sömuleiðis. Þá kemur á ný þrýstingur á hækkun raun- vaxta og sú lækkun sem boðuð hefur verið gæti verið lengra undan en haldið hefur verið. Þetta er ekki síst'vegna þess að bankarnir hafa verið reknir með tapi nú á fyrstu mánuðum ársins og forráða- menn þeirra verða að reka þá með hagn- aði. Gengisfelling einu sinni enn Mikil pressa hlýtur að vera á gengis- fellingar þegar líða tekur á árið, þótt gengisfelling hjálpi sjávarútveginum minna eftir að framleiðslan hefur að stórum hluta verið seld á útsölugengi á fyrri hluta ársins. Horfur eru á því að verðbólga verði á bilinu 20%-22% á árinu m.v. hækkun framfærsluvísitölu. Sú spá byggir á þeim launabreytingum sem samið hefur verið um á vinnumarkaðnum og 10% verðhækkun á erlendum gjaldmiðlum frá maíbyrjun til árgfnóta. Gengisbreyt- ing af þeim toga væri í stíl við sjefnu ríkisstjórnarinnar hingað til. Sú gengisbreyting leiðir hins vegar ekki til þess að sjávarútvegur komist út úr taprekstri. Til þess þarf gengi krón- unnar að lækka meira. Oft veltir maður því fyrir sér af hverju þarf endalaust að fella gengið. En hér gildir sama lögmál og hjá hverju heimili eða fyrirtæki. Fjárhagsvandi stækkar eftir því sem dregið er að takast á við hann. Þegar dregið er að lækka gengið og tekin erlend lán til þess að fleyta sjávar- útveginum áfram þarf stærri gengisfell- ingar til þess að unnt sé að greiða lánin til baka. Þannig hefði dugað að fella gengið um 10%-15% í fyrr haust til þess að leysa málin, 15%-20% hefðu dugað um áramótin en nú þarf 20%-25% gengisbreytingar til áramóta til þess að ná utan um vandann. Nákvæmlega samskonar aðstæður ríkja fyrir heimili sem lifir á lánum. Því dýpra sem heimilið sekkur þess erfiðara er að komast út úr vítahringnum. Er þjóðnýting hogræðing? Mikið er rætt um nauðsyn á hagræð- ingu í sjávarútvegi. Athyglisvert er að yfirleitt gengur sú umræða ekki út á það að sjávarútvegsfyrirtæki eigi að njóta hagræðingarinnar með því að fá tæki- færi til þess að hagnast og byggja sig upp. Þvert á móti er hugsunin fyrst og fremst sú að færa núllpunktinn til þannig að ódýrara sé að halda áfram að mjólka þennan atvinnuveg. Menn gleyma því að vanmáttug og skuldsett fyrirtæki geta lítið hagrætt. Fyrirtæki verða að fá að græða og eiga einhverja peninga sjálf til þess að ná verulegum árangri í hagræðingu og rekstri. Sú hagræðing sem nú er í gangi með auknu Iánsfé og þjóðnýtingu ým- issa fyrirtækja á eftir að verða skraut- leg. Halda menn að auðveldara verði að hagræða eftir að stjórn og eignarhald fyrirtækjanna og þar með ábyrgð á þeim hefur færst til pólitískra fulltrúa. Oft er rætt um að gengisfelling leysi ekki vandann heldur búi til nýja verð- bólguöldu. Nú liggur það fyrir að hlut- verk gengisfellingar er að hækka verð á erlendum gjaldmiðlum meðan innlend- urn kostnaði, þ.m.t. launakostnaði er haldið niðri. Ef ekki er hægt að halda innlendu kostnaðarliðunum niðri og þá fyrst og fremst laununum er gengisfell- ingin aðeins skammvinn lausn. Það sem ræður hins vegar fyrst og frcmst því hvort launakostnaður hækk- ar eða lækkar er hvort næst að tak- marka eftirspurn eftir vinnuafli í kjöl- far gengisfellingarinnar. Þar skiptir mestu máli að ráða við innstreymi af er- lendu Iánsfé inn í hagkerfið. I því hafa stjórnvöld alla tið brugðist. Stjórn- málamenn hafa ekki verið tilbúnir til þess að skera allar erlendar lántökur ríkisins, ríkisfyrirtækja, ríkisstofnana, ríkisbanka og ríkissjóða niður við trog og láta þær alfarið til einkaaðila og fyr- irtækja á eigin ábyrgð. Ef erlendar lán- tökur væru án ríkisábyrgðar giltu allt önnur sjónarmið við töku þeirra en nú. Þá væri helst von til þess að gengisfell- ing virkaði en væri ekki eyðilögð með þenslu á vinnumarkaði og launaskriði. Þolum við timburmennina? Við mikinn vanda er að glíma í efna- hagslífi landsmanna. Því miður hafa stjórnvöld ekki haft kjark til þess að takast á við hann og draga saman um- frameyðslu þjóðarinnar þannig að hægt væri að hefja nýja sókn í atvinnu- lífinu og bæta lífskjörin með aukinni verðmætasköpun þess. Þvert á móti er haldið áfram sömu grundvallarstefnunni. Reynt er að velta vandanum á undan sér með sífelldri umframeyðslu, frekari skuldsetningu atvinnulifsins og nú síðast er farið inn á braut þjóðnýtingar þegar ekki er unnt að lána fyrirtækjum meira fé. Á fyrstu mánuðum þessa árs höfum við lifað óraunverulegt ástand vegna þess að aflinn sem við ætluðum að treina okkur yfir árið hefur verið tekinn svo snemma á land. Við munum því vakna óþyrmilega af værum blundi þegar sumarfríunum er lokið. En verður þá ekki sleginn jólavíxlill með því að auka kvótann og leyfa meiri veiðar, þrátt fyrir að sá víxill falli á næsta eða þarnæsta ári? Getum við nokkuð breytt um lífsstíl og verður nokkurn tíma pólitískur grundvöllur fyrir því að sjávarútvegur á íslandi fái eðlileg rekstrarskilyrði? Höfundur króníku Alþýðu- blaðsins þessa vikuna er Vil- hjálmur Egilsson fram- k vœmdastjóri Verslu n arráðs Islands. „Ef erlendar lántökur væru án rikisábyrgðar giltu allt önnur sjónarmið við töku þeirra en nú. Þá væri helst von til þess að gengisfelling virkaði en væri ekki eyðilögð með þenslu á vinnumarkaði og launaskriði."

x

Alþýðublaðið

Beinir tenglar

Ef þú vilt tengja á þennan titil, vinsamlegast notaðu þessa tengla:

Tengja á þennan titil: Alþýðublaðið
https://timarit.is/publication/2

Tengja á þetta tölublað:

Tengja á þessa síðu:

Tengja á þessa grein:

Vinsamlegast ekki tengja beint á myndir eða PDF skjöl á Tímarit.is þar sem slíkar slóðir geta breyst án fyrirvara. Notið slóðirnar hér fyrir ofan til að tengja á vefinn.