Morgunblaðið - 18.02.2001, Blaðsíða 20

Morgunblaðið - 18.02.2001, Blaðsíða 20
LISTIR 20 SUNNUDAGUR 18. FEBRÚAR 2001 MORGUNBLAÐIÐ A LLT frá landnámi Íslands fyrir rúmum ellefu hundruð árum hefur sjálfsmynd fólks í þessu landi verið nátengd fornri arfleifð – arfleifð Ís- lendingasagnanna. Sá tími var sveipaður dýrðarljóma landkönnunar, sjálfstæðis og hetjuskapar. Í kjölfarið fylgdi myrkur miðalda, sem sumir vilja halda fram að hafi varað allt þar til þjóð- inni var snögglega svipt inn í nútímann við inn- rás breska hersins í seinni heimsstyrjöldinni. En stríðið færði Íslendingum ekki einungis nútímann. Það hafði sjálfstæði í för með sér, skerpti þjóðarvitundina og skapaði þörf meðal landsmanna til að einbeita sér að þeim þáttum í sögu þjóðarinnar sem ekki voru samofnir er- lendum yfirráðum. Og þar bar Íslendingasög- urnar hæst, sögur sem höfðu lifað með þjóðinni í aldanna rás og höfðu það tilfinningalega vægi sem þurfti til að bæta upp allt það sem myndar menn- ingu flestra þjóða, en Ís- lendingar höfðu farið var- hluta af; myndlist, tónlist, byggingarlist og ímynd landsins gagnvart umheiminum. Hér á landi skorti því sem næst alla hefð á flestum þessum sviðum enda hafði þjóðin jú um alda- raðir haft lítið umleikis og að mestu framfleytt sér á frumstæðum landbúnaði og fiskveiðum. Þegar ég var að alast upp á sjöunda áratugn- um, hafði efnishyggjan náð tökum á þjóðarsál- inni, því eitt af því sem hermenn hennar há- tignar og síðar Bandaríkjanna báru með sér var draumur um betra líf – ameríski draum- urinn sem þjóðin kynntist á silfruðum tjöldum kvikmyndahúsanna. Eftir aldalanga fátækt voru veraldleg gæði helsta keppikefli hins venjulega manns og Reykjavík þandist út í flæmi svefnhverfa, oft af meira kappi en forsjá. Sjálfsmynd Íslendinga breyttist þó ekki að ráði í kjölfarið, því samfara augljósum andstæðum þess nýja og gamla og stórflutningum úr sveit í borg, myndbirtist fortíðarþráin í togstreitu þar sem gömul gildi voru góð en ný gildi verri. Ís- lendingar í nýstofnuðu lýðveldi voru nefnilega fljótir að gleyma harðræði fortíðarinnar og héldu því sem fastast í sitt gamla sjálf; hina fornu arfleifð, dyggðir hennar og hetjuljóma. Áherslurnar í ímyndarmótuninni tóku ekki að breytast að ráði fyrr en á síðustu árum, enda enn haldið fast í víkingaarfleifðina. Það var því afar athyglisvert að fylgjast með þeirri mótun á ímynd lands og þjóðar sem tengdist landkynningarmálum á síðasta ári er haldið var upp á það að þúsund ár voru liðin frá kristnitöku og sömuleiðis að þúsund ár voru frá því að íslenskir víkingar fundu Vínland, eða Ameríku, í könnunarleiðöngrum sínum í vestur um haf – eins og vart hefur farið framhjá nokkru mannsbarni. Opinberlega er Ísland nú kynnt þjóðum heims sem land þar sem stór- hugur og framsýni eru þeir þættir sem taldir eru marka þjóðarsálina, en ekki harðræði, fá- tækt og stöðnun sem var þó það sem helst þrengdi að mannsandanum hér frá því að land- námsöld lauk þó stoltir og nýríkir Íslendingar nútímans eigi erfitt með að horfast í augu við það. Það sem þó hélt lífinu í þjóðinni í gegn-um langvarandi erfiðleikatímabil for-tíðarinnar, þegar hungur, einangrun,óblíð veðrátta og tíðar nátt- úruhamfarir vógu að veikum lífsneista byggð- arinnar, var kannski fyrst og fremst ákveðin einstaklingshyggja sem rekja má til anda vík- ingatímabilsins. Menn trúðu á mátt sinn og megin í stóískri baráttu við ytri öfl sem ekki voru umflúin. Í þeirri baráttu fólst hetjuskap- urinn helst í andlegum styrk og óbugandi stolti yfir fornri frelsishugsjón þeirra landnáms- manna sem flúðu ofríki í Noregi til að vera eig- in herrar á þessu harðbýla landi. Í gegnum ald- irnar litu Íslendingar því fyrst og fremst til þeirra sagnahetja sem höfðu frelsi og dreng- skap að leiðarljósi, til þeirra sem voru vitrir í samskiptum sínum við aðra menn og nógu stoltir til að deyja fyrir sannfæringu sína frek- ar en að renna af hólmi. Í samræmi við það voru vinirnir Gunnar og Njáll mestu hetjur Íslendingasagnanna þegar ég var í barnaskóla. Börnin klökknuðu þegar þau lásu um það er Gunnar hættir við að flýja land undan óvinum sínum af því að hlíðin var svo fögur. Frekar vildi hann mæta dauða sín- um með sæmd á Íslandi en búa annars staðar. Minna var lagt upp úr lestri á Vínlandssög- unum, þeim sögum er segja af landafundum Ís- lendinga í vestri, búsetu á Grænlandi og fundi Leifs Eiríkssonar á Ameríku. Nærri lét að okkur börnunum fyndist þessir forfeður okkar hafa svikið land og þjóð með því að leggjast í víking og maður var því augnabliki fegnastur í sögunni er Eiríkur sneri heim eftir nokkurra ára ferðalög í Vesturheimi. Haft er fyrir satt að Oscar Wilde hafi hrósað Íslendingum fyrir að hafa fundið Ameríku en verið nógu gáfaðir til að snúa hið snarasta heim aftur. Og þannig hugsuðu flestir Íslendingar þar til fyrir stuttu. Sú kynningarherferð sem íslenska ríkiðlagði í til að auglýsa Leif Eiríkssonsem son Íslands og þann er fann Am-eríku á undan Kristófer Kólumbusi ber nokkurn keim af þessum breytta hugs- anagangi á Íslandi. Áhrif hinna fornu íslensku dyggða, hófsemi og æðruleysi, eru farin að víkja fyrir nútímalegri víkingaímynd sem á kannski meira skylt við það hvernig við kjósum að aðrir líti á okkur nú, en það hvernig víking- arnir raunverulega voru forðum. Íslendingar eru farnir að hugsa meira í takti við umheim- inn og orðnir meðvitaðri um ímynd sína út á við sem framsækinnar og hetjulegrar þjóðar sem átti sinn þátt í að móta heimsmyndina. Jafnvel þó hún hafi um aldaraðir gleymt að segja um- heiminum frá því nema á bók sem líkast til varðveittist fyrir tilviljun eina. Þeim er þannig orðið umhugaðra um hvað öðrum gæti þótt merkilegt í sögu þjóðar sem lengi hélt hún hefði lítið annað en fossa, eldfjöll og goshveri til að stæra sig af gagnvart umheiminum. Það að hafa fundið Ameríku áður en Ameríkanar vissu af henni sjálfir er í sjálfu sér ákaflega merkilegt í heimi markaðshyggju nútímans – sérstaklega þar sem Ameríka hefur áunnið sér virðingu meðal þjóða heims sem land tækifær- anna. Tækifæra sem Íslendingar kunnu ekki að nýta sér fyrr en nú. Hinn 17. júní, á sjálfum þjóðhátíðardeginum, lagði víkingaskip úr höfn í Reykjavík með mik- illi viðhöfn, til að sigla í kjölfar hinna fornu vík- inga, fyrst til Grænlands og síðan til Ameríku. Skipið hafði viðkomu á nokkrum stöðum og sigldi að lokum inn í höfn New York-borgar þar sem Hilary Clinton sveikst því miður um taka á móti því. Það er til marks um hina nýju markaðssetningu á þjóðarvitund Íslandinga og þarf ekki að koma nokkrum á óvart, að opinber nefnd valdi skipinu heitið Íslendingur og má ferðin því teljast táknræn fyrir sjálfsmynd þjóðarinnar eins og hún er í dag. En ef til vill má líta á það sem vísbendingu um að við höfum ekki alveg glatað beintengingu okkar við land- ið sjálft og hinar fornu vættir sem áður skiptu sköpum í lífsbaráttu einstaklingsins, að nokkr- um mínútum áður en Íslendingur lét úr höfn, að viðstöddu miklu fjölmenni, reið yfir landið mesti jarðskjálfti í hundrað ár. Hvort vættir landsins létu hér á sér kræla í mótmælaskyni yfir þessari nýju markaðssetningu landsins eða af velþóknun yfir uppátækinu skal látið ósagt. Kristnitakan, annar stórviðburður úrforneskjunni sem Íslendingarminntust á síðasta ári olli þó sýnumeira uppnámi en sigling víkingaskipsins til Ameríku. Enda bar kristnitöku á Íslandi að með nokkuð óvenju- legum hætti. Heiðnum mönnum á Íslandi var fullkunnugt um þann ófrið sem ríkt hafði í ná- grannalöndunum vegna tilkomu kristninnar, þar sem þeirra eigin siðferðislögmál höfðu orð- ið að lúta í lægra haldi fyrir því sem margir vildu álíta pólitískan yfirgang kristinna leið- toga. Á hinu lýðræðislega Alþingi kusu Íslend- ingar því einn mann til að taka ákvörðun um framtíð þjóðarinnar á þessu sviði, heiðinn goða sem talinn var mikill stjórnvitringur. Komst hann að þeirri niðurstöðu að líklega yrði ekki spyrnt við útbreiðslu kristni á Íslandi frekar en annars staðar og að vænlegra væri að ganga til samninga um kristnitöku af fúsum og frjálsum vilja heldur en að stofna til ófriðar og óaldar í landinu. Það var því fyrir stjórnkænsku heið- inna manna að friður ríkti og kristni vann sér um síðir fylgi meðal þjóðarinnar þó lengi hafi eimt eftir af fornum siðum og menn hafi blótað á laun. Þó heiðnir menn séu ekki margir á Ís- landi í dag, brugðust þeir því reiðir við þegar í ljós kom að við skipulagningu hátíðarhaldanna vegna kristnitökunnar á hinum forna þingstað Alþingis á Þingvöllum var ekki gert ráð fyrir þátttöku þeirra með þeim hætti sem þeim þótti sæma. Mótmæli heiðinna manna fenguhljómgrunn meðal margra semþótti þessi stefna afhjúpa tví-skinnung og hentistefnu í við- horfum ráðamanna þjóðarinnar sem gera sér mat út siðfræði og anda víkingatímabilsins gagnvart umheiminum, en gangast ekki við honum á Þingvöllum þar sem heiðnir menn lögðu fyrstir hornstein að því lýðræði sem flestar þjóðir vilja hafa að leiðarljósi í dag. Ef til vill ber þetta þó allt að sama brunni og tími til kominn að Íslendingar átti sig á því að fortíðin ein og sér, hvort sem hún er sveipuð dýrðarljóma eða ekki, getur ekki fært okkur sjálfsmynd við hæfi í heimi nútímans. Vera má að allar tilraunir okkar til að hagræða fortíð- inni eigi rætur sínar að rekja til nagandi ör- yggisleysis í nútíðinni þar sem loks gefst frelsi til að velja. Eða eins og nútímahetjan okkar Björk sagði eitt sinn á engilsaxnesku; „I thought I could organize freedom, – how Scandinavian of me“ (ég hélt ég gæti virkjað frelsið, – en skandinavískt af mér)... AF LISTUM Eftir Fríðu Björk Ingvarsdóttur Sjálfsmyndin, frelsið og nútíminn Morgunblaðið/Einar Falur Fortíðin og nútíminn mætast. Með nafngiftinni Íslendingur er víkingaskipið táknrænt fyrir sjálfsmynd Íslendinga gagnvart umheiminum. Ef til vill er kominn tími til að horfa meira til nútímans í mótun sjálfsvitundar þjóðarinnar.
Blaðsíða 1
Blaðsíða 2
Blaðsíða 3
Blaðsíða 4
Blaðsíða 5
Blaðsíða 6
Blaðsíða 7
Blaðsíða 8
Blaðsíða 9
Blaðsíða 10
Blaðsíða 11
Blaðsíða 12
Blaðsíða 13
Blaðsíða 14
Blaðsíða 15
Blaðsíða 16
Blaðsíða 17
Blaðsíða 18
Blaðsíða 19
Blaðsíða 20
Blaðsíða 21
Blaðsíða 22
Blaðsíða 23
Blaðsíða 24
Blaðsíða 25
Blaðsíða 26
Blaðsíða 27
Blaðsíða 28
Blaðsíða 29
Blaðsíða 30
Blaðsíða 31
Blaðsíða 32
Blaðsíða 33
Blaðsíða 34
Blaðsíða 35
Blaðsíða 36
Blaðsíða 37
Blaðsíða 38
Blaðsíða 39
Blaðsíða 40
Blaðsíða 41
Blaðsíða 42
Blaðsíða 43
Blaðsíða 44
Blaðsíða 45
Blaðsíða 46
Blaðsíða 47
Blaðsíða 48
Blaðsíða 49
Blaðsíða 50
Blaðsíða 51
Blaðsíða 52
Blaðsíða 53
Blaðsíða 54
Blaðsíða 55
Blaðsíða 56
Blaðsíða 57
Blaðsíða 58
Blaðsíða 59
Blaðsíða 60
Blaðsíða 61
Blaðsíða 62
Blaðsíða 63
Blaðsíða 64

x

Morgunblaðið

Beinir tenglar

Ef þú vilt tengja á þennan titil, vinsamlegast notaðu þessa tengla:

Tengja á þennan titil: Morgunblaðið
https://timarit.is/publication/58

Tengja á þetta tölublað:

Tengja á þessa síðu:

Tengja á þessa grein:

Vinsamlegast ekki tengja beint á myndir eða PDF skjöl á Tímarit.is þar sem slíkar slóðir geta breyst án fyrirvara. Notið slóðirnar hér fyrir ofan til að tengja á vefinn.