Morgunblaðið - 18.02.2001, Side 24
24 SUNNUDAGUR 18. FEBRÚAR 2001 MORGUNBLAÐIÐ
TÓNSKÁLDIÐ og tónlist-arkennarinn CharlesRoss kom til Reyðarfjarð-ar árið 1986 til að taka við
stöðu tónlistarkennara. Núna býr
hann, ásamt konu sinni Suncönu
Slamnig, á Eiðum. Þau kenna bæði
við Tónlistarskóla Austur-Héraðs á
Egilsstöðum. Auk kennslu og fram-
úrstefnutónsmíða, rannsakar Char-
les tónlist og hljóðfæri og tónlistar-
heimur hans, eða öllu heldur
hljóðheimur, er sérstæður og víð-
femur.
„Ég fæddist í Englandi árið 1965
en bjó á vesturströnd Skotlands
frá níu ára aldri og þangað til ég
var átján ára gamall,“ segir Char-
les. „Ég fór að spila á fiðlu þegar
ég var sjö ára og þegar ég var orð-
inn tólf sagði tónlistarkennarinn
minn að nú yrði ég að ákveða hvort
ég ætlaði að verða alvörutónlist-
armaður eða ekki. Það þýddi að ég
yrði að gefa allt annað upp á bát-
inn, m.a. íþróttir og löngun mína til
að búa til teiknimyndir. Ákvörð-
unin var erfið, en ég valdi tónlist-
ina. Eftir það varð lífið þannig að
ég spilaði t.d. í þremur sinfóníu-
hljómsveitum í hverri viku. Á
hverjum laugardegi fór ég til Glas-
gow og var frá klukkan níu til fjög-
ur stanslaust að læra tónlist. Lífið
var bara tónlist frá upphafi til
enda.
Ég var í Royal Scottish Academy
of Music í Glasgow þangað til ég
var átján ára. Á þessum tíma lærði
ég líka á píanó, sem var nauðsyn-
legt fyrir mig í sambandi við
hljómfræði. Fiðlan og píanóið voru
mér mjög föst í formi og til þess að
slaka á fór ég að spila á rafmagns-
gítar og gætti þess að læra ekki að
lesa nótur á hann. Það var bara
eftir að ég kom til Íslands og fór að
kenna á rafmagnsgítar að ég þurfti
að læra þær. Þetta rjál með gít-
arinn leiddi til þess að ég spilaði
töluvert með rokkshljómsveitinni
Blue Bells. Við vorum til dæmis
upphitunarhljómsveit fyrir Bic
Country og Waterboys sem þótti
ekki slakt í þá daga. Það sem ég
var að spila með hljómsveitinni var
ekki aðeins rokk og ról, því ég sótti
til dæmis fyrirmyndir í tónlist
King Crimson og Brian Eno. Ann-
ars var lífið mest kammermúsík,
sinfóníur, tónfræði og tónlistar-
saga. Klassískt uppeldi.“
Tónlistarleg íhugun
Charles fór átján ára gamall í
Dartington College of Art í Suð-
vestur Englandi. Skólinn þótti
mjög framúrstefnulegur og er það
ennþá, en í þá daga var mjög
skemmtilegt flæði þarna og list-
formin tengdust öll nútímamenn-
ingunni, að sögn Charles.
„Það var frábært fyrir mig að
komast í þetta andrúmsloft.
Þarna hafði ég dásamlegan
kennara sem hét Frank Denyer.
Hann var gott tónskáld og rann-
sakaði tónlistarhefðir þjóðflokka.
Hann fór m.a. til Kenýa og Japan
og tók þar upp tónlist. Það sem
hann samdi var svo á ákveðinn hátt
tengt þessu, en þó mjög persónu-
legt. Denyer var magnaður. Það
má lýsa verkum hans þannig, að í
stað þess að skrifa hefðbundna tón-
list, hafi hann búið til alveg
splunkunýja músíkuppsprettu fyrir
sjálfan sig, skrifað algerlega nýja
tónlist.“
Í Dartington hitti Charles annan
mann sem hafði gríðarleg áhrif á
hann. Sá hét Morton Feldman og
var Charles svo heppinn að vera
með honum í tvær vikur í tón-
skáldahópi í sameiginlegu verkefni.
Feldman lést því miður ári seinna.
„Feldman skrifaði sín verk þann-
ig, að hann byrjaði á einhverjum
tilteknum punkti, spann sig ofur-
hægt áfram í hverju viðfangsefni
innan tónverksins, skipti svo yfir í
eitthvað allt annað og breytti þann-
ig sífellt um sögu, yfirbragð og
tíma innan sjálfs verksins. Verkin
hans voru mjög hæg, allt upp í sex
klukkustunda löng. Annaðhvort gat
maður hlustað á þau sem bak-
grunnsmúsík, eða hlustað grannt
og fundið að hann var að segja alls-
konar sögur, kannski fimmtán mín-
útna langa hverja um sig, en allar
tengdust þær einhvers staðar í tón-
verkinu. Þetta er nokkurs konar
tónlistarleg íhugun, þar sem hver
punktur verksins fær rými og tíma
í úrvinnslu. Með þessu móti fær
maður tækifæri til að meðtaka tón-
listina án þess að misbjóða skynj-
uninni með ofhlæði. Ég er hrifinn
af þessu.“
Naumhyggja
á norðurslóðum
„Úr háskólanum fór ég beina leið
til Reyðarfjarðar, það var árið
1986. Það var auglýst eftir tónlist-
arkennara þangað. Ástæðan fyrir
því að ég kom til Íslands yfir höfuð
tengist því, að á námsárunum fór
ég einhverju sinni með Scottish
National Youth Orchestra til Fær-
eyja, Bergen, Ósló og Kaupmanna-
hafnar. Á þeim tíma var þetta
stærsta hljómsveit sem hafði spilað
í Færeyjum og hún þótti mjög góð.
Í þessari ferð komst ég að því að
mér fannst eitthvað sérstakt við
Norðurlöndin. Allt galtómt. Tóm
stærð. Þú gast séð eitt tré, einn
stein, einn mann, umhverfið allt
mínímalt. Þetta hentar mér mjög
vel.
Ég hef meðal annars búið á
Reyðarfirði, á Eiðum og raunar um
tíma í Hallormsstað, en það virkaði
ekki fyrir okkur Suncönu. Okkur
þótti alveg ómögulegt að vera
innikróuð af skógi, það var of
þröngt um okkur. Ég varð ósköp
ánægður þegar ég gat flutt aftur út
í Eiða þar sem sviðið er vítt.
Ég hef ekki tengst íslenskri tón-
list náið. Ég er fyrst og fremst
hljóðfæramaður í hugsunarhætti
og fór þess vegna eitthvað að rann-
saka langspilið og íslensku fiðluna
en samsamaði mig lítið við það. Ég
held að tónlistarmenning á Íslandi
sé fyrst og fremst söngmenning,
líkt og rímnakveðskapur Svein-
björns Beinteinssonar. Þessi þjóð-
legu sögulög finnst víðar, í Tyrk-
landi og Bosníu, svo dæmi sé
tekið.“
Tónaringulreið
spegluð úr náttúrunni
Fyrir utan kennsluna er Charles
að vinna rannsóknarverkefni við
gamla háskólann hans í Darting-
ton.
„Rannsóknin snýr að tónlistar-
hefð fólks sem er mjög náið nátt-
úrunni og hlustar mikið á hljóð
hennar. Hljóðin eru í óeiginlegri
merkingu yfirfærð eða spegluð í
helgisiðatónlist sem tengist yfir-
skilvitlegum fyrirbærum og önd-
um. Hún byggir á óreglubundnum
hljóðum náttúrunnar, einhvers
konar tilviljanakenndri tónaringul-
reið, sem er þó með sínum innri
reglum. Innri tíminn er annar og
við hlustun er ófyrirsjáanlegt hvað
kemur næst, sem er gjörólíkt okk-
ar klassísku tónlist þar sem innri
reglan er yfirleitt þekkt. Þarna er
gegnumgangandi óreiða í hljóm-
fallinu.
Ég hef fundið svona náttúrutón-
list hjá Inúítum á Baffinseyju, á
Papúa Nýju-Gíneu og ættbálkum í
Amazon og Afríku og tek þannig
dæmi frá mismunandi stöðum sem
tengjast ekkert innbyrðis. Ég hef
rannsakað hljóðfærin sem þessir
ættbálkar nota til að eiga sam-
skipti við anda sína. Inúítarnir nota
svo dæmi sé tekið fiðlu, sem er ná-
kvæmlega eins og íslenska fiðlan,
en það bendir auðvitað til sameig-
inlegs uppruna hljóðfæranna.“
Andatrú og tónlistarhefð
„Ég velti einnig fyrir mér hvern-
ig karlar og konur hafa notað ólík
hljóðfæri og túlkun í tónlist. Kon-
urnar hafa yfirleitt notað söng og
þær dansað saman í sínum helgi-
siðum. Karlar nota grímur fyrir
andlit sín, líkt og þeir aftengi sjálfa
sig frá gjörningnum og taki á sig
gervi andans sem er tilbeðinn.
Hljóðfæri karla virka líka dálítið
eins og grímur, eru fyrir andlitinu.
Falsettan í söng karla er af sama
meiði, þar er búið að yfirfæra túlk-
unina frá manninum sem syngur
og til einhvers annars. Karlarnir
virðast fremja helgisiði sína utan
við þorpin, einhvers staðar þar sem
konur og börn sjá ekki til þeirra,
en heyra óminn frá tónlistinni.
Þessu er hins vegar þveröfugt farið
með helgisiði kvennanna sem eiga
sér yfirleitt stað fyrir opnum tjöld-
um.“
Tónlist sem er
skrifuð út frá óreiðu
Charles byrjaði ungur að semja
eigin tónlist. Hér á landi hefur hún
verið flutt opinberlega í Reykjavík
og á Seyðisfirði.
„Tónlistarsköpun mín er að sjálf-
sögðu að einhverju leyti tengd
gömlu meisturunum, ásamt þeirri
menningu sem ég lifi og hrærist í,
en samt vil ég meina að ég sé að
búa til alveg nýja tónlist sem hefur
sínar eigin reglur.
Ég skrifa mína tónlist út frá
óreiðu – kaos. Hún er óstöðug í eðli
sínu, rekst stundum á við sjálfa sig,
gerir tilraunir með sjálfa sig, þen-
ur sig út og dregur sig saman á til-
viljanakenndan hátt. Takturinn er
óreiða og margfaldur innan um sig
og hann rennur stundum saman.
Tónlistin mín er eins og frumskóg-
urinn, full af ólíkum hljóðum sem
hrærast saman á ófyrirséðan máta,
án nokkurrar sjáanlegrar reglu
annarrar en að andardráttur lífsins
knýr hana áfram.
Svona er okkar tímabil í tónlist-
inni núna. Ég held að sköpunin hafi
aldrei verið jafnmismunandi eins
og nú, það ríkir algert frelsi og
enginn þarf að beygja sig undir ok
hefðanna frekar en hann sjálfur
vill.“
Þrjú verk á Myrkum
músíkdögum
„Á hátíðinni verða flutt þrjú verk
eftir mig. Það fyrsta heitir The
Snow Forest og er skrifað fyrir
fiðlu, pikkaló, píanó og horn. Annað
verkið er fyrir píanó og heitir
Wood: Wind og það þriðja er Wa-
ter Snake Puzzle, fyrir klarinett,
flautu, lágfiðlu og kontrabassa.
Konan mín, Suncana Slamnig,
stjúpsonur minn Páll Pálsson, Jón
Guðmundsson samkennari minn og
María Gaskell tónlistarmaður á
Seyðisfirði flytja verkin.
Í náinni framtíð mun ég einbeita
mér að rannsókninni og kennslu.
Ég kenni á fiðlu og rafmagnsgítar,
og einnig tónmennt og tónsmíðar.
Reyni sem mest að kenna nem-
endum mínum að hugsa sjálfstætt,
víkja aðeins af beinu brautinni í
músíkhugsun.
Ég ætla að vera áfram á Eiðum.
Mér finnst gott að vera hérna
vegna nærveru fólksins. Það er líka
meiri orka í fólki á svona litlum
stað, því samskiptin eru svo náin
og tíð. Orsök og afleiðing ganga í
stöðugan hring. Eins og lífið og
músíkin.“
Þrjú verk eftir Charles Ross,
tónlistarmann á Reyðarfirði, verða flutt
á Myrkum músíkdögum 19. febrúar
í Listasafni Sigurjóns í Reykjavík.
Steinunn Ásmundsdóttir spjallaði við
Charles þegar hann átti lausa stund
frá tónlistarkennslunni.
Morgunblaðið/Steinunn
Charles Ross, tónskáld, kennari og fræðimaður.
’ Tónlistin er óstöð-ug í eðli sínu, rekst
stundum á sjálfa sig,
gerir innbyrðis til-
raunir, þenst út og
dregur sig saman á
tilviljanakenndan
hátt. ‘
Orsök og
afleiðing
ganga í hring