Morgunblaðið - 12.04.2001, Blaðsíða 29
ERLENT
MORGUNBLAÐIÐ FIMMTUDAGUR 12. APRÍL 2001 29
VERÐ á hlutabréfum á mörkuðum í
Evrópu hækkaði lítillega í gær en
gengi evrunnar gagnvart Banda-
ríkjadollar tók dýfu, í kjölfar þess að
stjórn Seðlabanka Evrópu (ECB)
ákvað að lækka ekki vexti, þvert á
það sem margir fjárfestar höfðu
vænzt.
Á fjármálamörkuðum heims hafði
niðurstöðu hálfsmánaðarlegs stjórn-
arfundar ECB verið beðið með all-
mikilli eftirvæntingu. Gengi evrunn-
ar var 0,8889 dollarar skömmu fyrir
ákvörðun seðlabankans en lækkaði í
0,8813 dollara eftir að hún lá fyrir og
Wim Duisenberg, aðalbankastjóri
ECB, virtist eyða öllum vonum
manna um að vaxtalækkun kynni að
vera hugsanleg bráðlega.
Bankinn hefur haldið stýrivöxtum
óbreyttum frá því í október, 4,75%.
Er hann þar með eini þungavigtar-
seðlabankinn sem ekki hefur brugð-
izt við vaxandi samdráttareinkennum
hins alþjóðlega efnahagskerfis með
lækkun vaxtastigs.
Seðlabankar Bandaríkjanna, Jap-
ans og Bretlands hafa allir lækkað
vexti í því skyni að hjálpa til við að
hamla gegn niðursveiflunni sem á
síðustu mánuðum hefur orðið æ til-
finnanlegri í alþjóðahagkerfinu.
Meginhlutverk ECB að standa
vörð um stöðugt verðlag
Duisenberg sagði að þótt heims-
niðursveiflan mundi óhjákvæmilega
setja mark sitt á evru-svæðið, þá
væri „engin
ástæða til svart-
sýni hvað varðar
efnahagslegan
styrk“ evru-svæð-
isins, en því til-
heyra tólf af
fimmtán aðildar-
ríkjum Evrópu-
sambandsins
(ESB). Fullyrti
hann að hagvöxt-
ur á svæðinu yrði „traustur“. Minnti
Duisenberg á að meginhlutverk ECB
væri að líta fyrst og fremst til þess að
verðlag héldist stöðugt frekar en ýta
undir hagvöxt. Og þótt dregið hefði
úr verðbólguhvötum að undanförnu
létu þeir þó enn á sér kræla. Sagði
bankastjórinn að Seðlabanki Evrópu
gæti betur lagt sitt af mörkum til að
stuðla að hagvexti og gegn atvinnu-
leysi með því að halda sig við það
hlutverk sitt að standa vörð um stöð-
ugt verðlag. Það væri hlutverk
stjórnmálamanna að gera annað sem
til þarf, fyrst og fremst með því að
hrinda í framkvæmd endurbótum á
skipulagi vinnumarkaðarins og öðr-
um þáttum sem stuðla að heilbrigðu
og samkeppnishæfu atvinnulífi.
Ráðamenn í nokkrum evru-
ríkjanna hafa á síðustu vikum verið
ósparir á að hvetja ECB til að lækka
vexti, með þeim rökum að það myndi
veita atvinnulífinu nauðsynlegt svig-
rúm til að hrista af sér samdráttar-
hættuna.
ECB heldur vöxtum óbreyttum
Sveiflur á
mörkuðum
Frankfurt, Lundúnum. AFP, Reuters.
Wim
Duisenberg
EVRÓPUSAMBANDIÐ (ESB) og
Bandaríkin hafa náð samkomulagi
um lausn á hinni langvinnu „banana-
deilu“, sem staðið hefur yfir árum
saman. Mun samkomulagið meðal
annars leiða til þess að Bandaríkin
aflétti í sumar refsitollum sem þau
lögðu á valdar evrópskar afurðir í
þvingunarskyni vegna þess að reglur
þær, sem Evrópusambandið setti,
veittu banönum frá fyrrverandi ný-
lendum Evrópuríkja betri aðgang að
Evrópumarkaðnum en svokölluðum
„dollarabanönum“, sem risafyrir-
tæki í bandarískri meirihlutaeigu
eins og Dole og Chiquita sjá um söl-
una á.
Pascal Lamy, sem fer með við-
skiptamál í framkvæmdastjórn
ESB, sagði í gær að samningamenn
beggja hliða hefðu náð samkomulagi
í fyrrinótt sem hann gerði ráð fyrir
að yrði staðfest af ráðamönnum ESB
og Bandaríkjanna fljótlega.
Með staðfestingu samkomulags-
ins munu 1. júlí nk. falla burt banda-
rískir refsitollar á ýmsar vörur fram-
leiddar í ESB, sem nema sem svarar
um 17 milljörðum króna á ári. Á móti
mun ESB m.a. hætta við áform um
að taka upp svokallað „fyrstur kem-
ur, fyrstur fær“-kerfi fyrir úthlutun
innflutningsheimilda á banönum til
ESB.
Bananadeilan leyst
Brussel. Reuters.
FRAMKVÆMDASTJÓRN Evr-
ópusambandsins (ESB) lagði í gær
formlega til að í aðildarsamingum
við Mið- og Austur-Evrópuríkin
yrði samið um allt að sjö ára að-
lögunartíma á frjálsa flutninga
vinnuafls milli þessara ríkja og
annarra aðildarríkja ESB og
reyndar Evrópska efnahagssvæð-
isins alls, þar með talið Íslands.
Má bóka að þessi tillaga mælist
ekki vel fyrir í höfuðborgum Mið-
og Austur-Evrópuríkjanna sem nú
þrýsta á um að fá fulla aðild að
ESB sem fyrst. Af þeim tólf ríkj-
um sem nú eiga í viðræðum um
ESB-aðild eru tíu fyrrverandi
austantjaldslönd. Þau hafa öll lagt
áherzlu á að borgarar þeirra fái að
njóta „fjórfrelsisins“ svokallaða til
fulls um leið og þau fá inngöngu í
sambandið – þ.e. frjálsa flutninga
vöru, þjónustu, fjármagns og
vinnuafls. Nokkur núverandi ESB-
ríki – einkum og sér í lagi þau sem
næst liggja hinum tilvonandi nýju
aðildarríkjum, Þýzkaland og Aust-
urríki – hafa eindregið óskað eftir
því að tímabundnar hömlur verði
settar við frjálsum flutningum
vinnuafls frá þessum ríkjum eftir
að þau fá inngöngu í ESB, þar sem
að öðrum kosti er óttazt að mikill
straumur ódýrs vinnuafls streymi
inn á vinnumarkaðinn (í Þýzka-
landi og Austurríki) með óæskileg-
um afleiðingum.
Günther Verheugen, sem fer
með aðildarviðræðumál í fram-
kvæmdastjórn ESB, tilkynnti um
tillögurnar á blaðamannafundi í
Brussel í gær. Sagðist hann gera
sér grein fyrir því hve pólitískt
viðkvæmt málefnið væri en hann
vonaðist til að í tillögum fram-
kvæmdastjórnarinnar fælist mála-
miðlun sem allir aðilar gætu sætt
sig við.
Aðlögunartími á frjálsa
flutninga vinnuafls
Brussel. Reuters.