Morgunblaðið - 22.07.2001, Síða 3

Morgunblaðið - 22.07.2001, Síða 3
inum að orði „þeir gætu étið sínar eigin hægðir ef í hart færi“. Leggja til hliðar þegar vel aflast Iain byrjaði í raun til sjós 14 ára gamall þegar hann var í heimavist- arskóla í Stornoway. „Faðir minn sagði við mig að í staðinn fyrir að fá vasapeninga gæti ég eins reynt að afla þeirra sjálfur. Hann eftirlét mér lítinn bát og gamlar gildrur sem ég lappaði upp á og lagði með því að róa á höndum. Helgarfríin voru svo not- uð til að vitja. Ég minnist þess að í fyrstu var ég ekki heppinn með veð- ur, kuldatíð og lítil hreyfing á humr- inum, svo fyrstu tvær helgarnar var ekkert að hafa. Þriðju helgina var í einni gildrunni stærsti humar sem ég hafði á ævinni séð. Ég rak upp þvílíkt gleðiöskur að fólk í nágrenn- inu hélt að ég væri að drukkna. Reynslan af þessum veiðum varð mér holl síðar á lífsleiðinni og kenndi mér að leggja til hliðar þegar vel hafði aflast.“ Löng hefð fyrir humarveiðum Humarveiðarnar eru annar þáttur í afkomunni á Suðureyjum og eiga sér um hundrað ára sögu. Iain segir að fyrr á öldinni hafi menn komist yf- ir að hafa 10 gildrur með þeirri tækni sem þá var til staðar. En þá þurfti ekki fleiri, aflinn var kannski meira en einn humar í hverja gildru, sam- anborið við einn í hverjar 20 gildrur í dag. „Markaðsmálin voru samt erfiðari í þá daga. Eftir vandasama pökkun á humrinum, til að koma honum lifandi alla leið til London, fengu þeir kannski ekkert til baka nema orð- sendingu um að þeir hafi allir verið dauðir. Seinna kom í ljós að þeir voru ekki alveg heiðarlegir þarna niður frá. Þeir komu sér svo upp umboðs- manni og fengu heiðarlega borgað. Eftir seinna stríð var svo farið að sækja á stærri bátum með gildrur og var þá einn bátur með 20 gildrur sem þóttu mikil afköst. Þá var jafnvel kíkt í sumar gildrurnar oftar en einu sinni yfir daginn. Ég man eftir því þegar ég byrjaði til sjós snemma á níunda áratugnum, þá vitjuðum við stundum um gildr- urnar á bestu stöðunum á kvöldin aftur, en það heyrir algjörlega sög- unni til. Í dag er talað um tveggja, þriggja eða fjögurra daga legu eftir svæðum og tel ég að lágmarksfjöldi til afkomu núna séu 500 til 1.000 gildrur fyrir tveggja manna bát. Svo verður að spila mikið eftir veðrátt- unni, því humargildrunar eru lagðar mjög stutt frá landi. Þegar spáir illa verðum við að færa okkur á dýpra vatn og leggja fyrir krabba. Ef hann setur upp sjó þegar gildrurnar eru á grunnsævi er ekkert hægt að gera og veiðarfæratapið getur orðið stór- kostlegt. Ég hef verið nokkuð hepp- inn og aldrei tapað miklu í einu. Mik- il úrtök voru á sókninni yfir veturinn sökum veðurs hér áður fyrr, en fyrir svona tíu árum var farið að mark- aðssetja flauelskrabba sem veiðist inn í þröngum fjörðum og álum. Þar er oft hægt að athafna sig þó að sjór- inn sé slæmur fyrir utan.“ Iain fór snemma til sjós með föður sínum, en fljótlega fór hann að vera með báta fyrir aðra. Svo kom að því að hann tók yfir bát fjölskyldunnar, sem gerður var út á troll og gildrur. „Skelfiskurinn var alltaf að verða ríkari þáttur í útgerðinni þannig að ég ákvað að betrumbæta aðstöðuna fyrir aflann og setti í hann tank fyrir lifandi skelfisk. Við þurftum að fórna möguleikunum til að stunda troll- veiðar við breytingarnar svo til að eiga möguleika á að fá bolfisk áfram þá útbjó ég hann fyrir netaveiðar. Við veiðum líka í net stærsta og verðmesta humarinn, sem er rauð- brúnn og getur orðið eitt og hálft til tvö fet á lengd. Í framhaldi af því vildi ég reyna að gera meira úr neta- veiðinni og keypti stærri bát, 18 metra stálbát og stundaði eingöngu netaveiðar. Við urðum að sækja lengra og stunduðum veiðar allt frá Írlandi til Hjaltlandseyja. En aflinn minnkaði alltaf ár frá ári og ég tel að ég hafi verið tíu árum of seinn að stækka við mig. Ég seldi þann bát svo til Íslands. Hann heitir núna Ey- rún og er gerður út frá Þorlákshöfn. Þar sem ekki lá annað fyrir en að minnka við sig niður í tveggja manna far, þá varð ég að velja einn úr áhöfn- inni til að vera áfram. Það var erfitt enn ég valdi Charlie því hann var bú- inn að vera á bátum föður míns frá því áður en ég tók yfir og svo er hann skrambi góður kokkur.“ Íslendingum leist ekki á breytingarnar „Reyndar þegar ég afhenti gamla bátinn þá sigldum við honum upp til Íslands ásamt nýjum eigendum. Þar fengum við mjög góðar móttökur, vorum keyrðir um og sáum einstaka náttúru. Þar sem ég hafði séð Cleo- patra-bátinn auglýstan í Fishing News fórum við í Bátasmiðjuna Trefjar hf í Hafnarfirði og litum á framleiðsluna. Við sáum strax að með smábreytingum gæti bátur frá þeim hentað vel til gildruveiðanna. Það var margt sem mælti með ís- lenska bátnum frekar en breskri framleiðslu. Verðið var nánast það sama, en miklu betri frágangur á ís- lenska bátnum. Mjög vistlegur að innan sem er mikilvægt fyrir þann dýra búnað sem notaður er til sigl- inga og fiskleitar, svo hugðumst við stundum liggja úti yfir nætur þannig að við vildum hafa notalegar íbúðir. Við fórum til Íslands aftur tveimur mánuðum eftir að við sigldum gamla bátnum, til að hanna nýja bátinn. Hugmyndirnar sem við vorum með fóru ekki vel í íslenska sjómenn. Við létum færa stýrishúsið framar til að fá meira dekkpláss fyrir gildrurnar, tókum skarð inn í stýrishúsið stjórn- borðsmegin svo setja mætti dragar- ann enn framar til að báturinn drag- ist betur og skjóti sér ekki þvert. Lúgukarmurinn sem verður að vera samkvæmt íslenskum reglum var fyrir okkur svo við létum hanna lest- arlúguna í flatt dekkið, þannig að vinnuplássið er feikna mikið. Þegar við vildum láta setja netaspilið bak- borðsmegin til að geta verið með hvor tveggja veiðarfærin undir í einu voru einhverjir sjómenn sem sögðu að það væri ekki hægt að vinna þeim megin frá. Sjómenn eru alltaf tregir að gefa eftir gamlar venjur. Þess vegna held ég að sé hollt að fara um og skoða hvað aðrir eru að gera. Möguleikinn á netaveiðinni er mjög mikilvægur og leggjum við tólf tommu möskva fyrir stóra humar- inn. Svo eru háfur og skata líka eitt af því sem enn veiðist hérna. Ég var að uppgötva nýjan markað fyrir skötuna á Íslandi og virðist mér nokkuð auðvelt að meðhöndla vör- una fyrir afhendingu. Það virðist nefnilega ekki vera nauðsynlegt að hún sé fersk þegar hún skilar sér. Það eina sem ég hef áhyggjur af, er þegar ég fer að reyna að telja reglu- gerðaprelátum ESB trú um að þetta séu matvæli.“ Ægir tekið sinn toll Nábýli íbúa Suðureyja við Ægi hefur kostað miklar fórnir í gegnum tíðina, sérstaklega fyrr á öldinni þegar bátarnir voru opnir og minni. Þá voru engar veðurspár og sjómenn urðu að treysta á að spá í veðurloftin. Þegar lægðir fóru milli Íslands og Skotlands gat komið upp sú staða að leitað var vars vestur af eyjunum fyrir suðaustanáttinni sem fór á und- an. Ef var mikill hraði á veðurkerf- um gat vestan- og norvestanáttin sem á eftir kom sett þá upp í kletta og ekki fékkst við neitt ráðið. Iain segir að þorp norðarlega á eyjunum hafi orðið að þola mikinn missi sem bar að með þessum hætti. „Þegar vestan og norðvestanáttin koma fylgir því gjarnan mikill sjór. Brakið úr bátunum fannst upp í hundrað feta hæð í klettunum. Þorpsbúar náðu sér aldrei fyllilega eftir þetta. Þeir hættu að stunda sjó og fóru í besta falli með búfénað í nálægar eyjar. Í dag þurfum við enn að þola fórnir þrátt fyrir öflug skip og tæknivæðingu. Ég missti bróður minn í sjóslysi þar sem báturinn sem hann var á hvarf örfáar mílur norð- vestur af eyjunum. Það var ágætis veður, en enginn veit hvað gerðist í raun. Ekkert neyðarkall heyrðist, svo hvað sem gerðist þá hefur það gerst hratt. Sjósóknin er svo ekki það eina sem hefur valdið því að sorgin hefur knú- ið dyra hér. Í báðum heimsstyrjöld- unum börðust menn héðan og marg- ir féllu. Í fyrri heimsstyrjöldinni týndi fjöldi eyjaskeggja lífi í skot- gröfunum og voru mörg heimili í sár- um. Þegar sú styrjöld var yfirstaðin og von á hermönnunum heim ríkti mikil gleði. Þetta var á gamlárskvöld og undirbúin mikil hátið á nýársdag til að fagna þeim heimtum úr helju. Skipið sem flutti þá steytti á skeri skammt frá landi og örfáir af tvö hundruð hermönnum komust lífs af. Það var kaldhæðnislegt að lifa af hörmungar stríðsins og drukkna svo með ljóstýrurnar frá eigin heimili í augsýn. Fólk syrgði mörg ár á eftir og klæddist svörtu.“ 100 kíló í 80 gildrum Þegar á miðin var komið var tekið til við að draga gildrurnar. Á þessu tengsli voru 80 gildrur, með tólf faðma á millibili. Brúnkrabbi var það sem lagt hafði verið fyrir og hröð handtök voru höfð við að tæma búrin og setja nýja beitu í beitupokana. Smáir krabbar fengu frelsið aftur en gamlir og hrúðurkarlagrónir voru teknir úr umferð. Charlie sagði að þeir væru ekki söluvara og þeir tímguðust ekki lengur svo engin ástæða væri til að sleppa þeim aftur. Þegar 80 gildrur voru komnar um borð var ljóst hve dekkplássið er mikilvægt við þessar veiðar. Um 100 kíló voru í og örfáir humrar höfðu slæðst með og voru kærkominn fengur. Tengslið var svo látið fara á sama stað. Því næst var farið á hum- arslóðina og vitjað um gildrur sem voru tvær við hvert ból og lagðar á harða bletti nær landi. Ekkert var í þeim sem var markaðshæft. Örfáir smærri humrar sem fengu frelsið aftur með ósk um heilsusamlegt líf- erni og góðan vaxtarhraða. Iain sagði að nú færi krabbaveiðin vax- andi á kostnað humarveiðinnar. Í glímu við krabbaklær Á heimstíminu reyndi ég að hjálpa Charlie að gera krabbann skaðlaus- an. Hann sýndi mér hvernig skorið er á vöðvann sem togar saman klærnar til að gripið verði máttlaust. Ef þetta er ekki gert þá berjast þeir og skemma hver annan í geymslu- búrunum. Það er mjög mikilvægt að krabbinn líti vel út þegar hann kem- ur á diskinn hjá neytandanum. Ég var nú hálfklaufalegur við þetta eða lafhræddur öllu heldur. Ég slapp samt með alla fingur heila. Að- spurður kveðst Charlie komast nokkuð vel af í þessu plássi. „Þessi stærð af bát skilar ágætis launum og er besta vinnuaðstaða sem ég hef komist í kynni við á ferlinum. Ég fæ tuttugu prósent eftir að kostur og olía hafa verið tekin af. Þetta er víð- ast hvar svipað þó ekki séu til neinir fastir samningar. Við höfum ekkert stéttarfélag hérna, en það virðist ekki vera vandamál. Ef einhver er ekki ánægður með sinn hlut þá fer hann bara eitthvað annað og það er skaði útgerðarmannsins. Ég er bú- inn að vera hjá Iain lengi og var hjá föður hans áður og það hefur ekki verið deilt um hlut. Þetta snýst um að ef útgerðamaður vill halda góðri áhöfn þá verður hann að gera vel við hana. Verkföll sjáum við ekki hér. Við gátum varla trúað því sem við fréttum frá Íslandi. Allir í verkfalli og mér skildist að enginn vildi það í raun. Hérna hefur enginn efni á að standa í svoleiðis löguðu,“ segir Charlie. „Sjáumst á Íslandsmiðum“ Þegar í land var komið var farið með aflann til móts við flutningabíl- inn sem var enn að safna í sig. Daginn eftir yfirgaf ég svo Hebr- ides-eyjar sem eiga ýmislegt sam- eiginlegt með mörgum byggðarlög- um á Íslandi, svo sem vingjarnlegt viðmót og gestrisni íbúanna. Iain og Charlie renndu með mig á völlinn og voru kveðjur þeirra félaga á léttari nótunum. Charlie læddi því að mér að ef ég frétti af kvótasterkri konu á lausu á Íslandi, þá mætti ég láta hann vita. Ian sagði einfaldlega, „Við sjáumst á Íslandsmiðum þegar þið eruð gengin í Evrópusambandið.“ Undir þetta tók svo gaukurinn í fjarska og skeytti engu um hvað tím- anum leið. Systkinin Dominic Ferguson og Betty Morrison undirbúa heimili sín fyrir hugs- anlegan kuldavetur. Mótekjan er erfið vinna en skilar sér í notalegum yl þegar kólna tekur. Iain Macaulay bætir mó á eldinn sem nærist vel. Litirnir í pilsinu eru tákn fyrir Macaulay-ættina. Þetta virki hefur staðið frá því fyrir Kristburð og því verið notað ýmist sem skjól fyrir veðri og vindum eða þá til varnar. Á rósturtímum ættarveldanna vann Macaulay-ættin þetta virki með því að svæla óvinina út og vega þá alla. snorri@onetel.net.uk MORGUNBLAÐIÐ SUNNUDAGUR 22. JÚLÍ 2001 B 3

x

Morgunblaðið

Beinleiðis leinki

Hvis du vil linke til denne avis/magasin, skal du bruge disse links:

Link til denne avis/magasin: Morgunblaðið
https://timarit.is/publication/58

Link til dette eksemplar:

Link til denne side:

Link til denne artikel:

Venligst ikke link direkte til billeder eller PDfs på Timarit.is, da sådanne webadresser kan ændres uden advarsel. Brug venligst de angivne webadresser for at linke til sitet.