Morgunblaðið - 29.07.2001, Side 8
8 B SUNNUDAGUR 29. JÚLÍ 2001 MORGUNBLAÐIÐ
Skipakoman.
Sit ég úti á yzta sandi,
er að rökkva og deprast sýn.
Komin eru ýms að landi
ósjófær, en hin í strandi,
morgunskipin mín.
Samt á ég úti æskuvilja
enn á reki milli bylja.
Stephan G. Stephansson 1915.
UM þá Íslendinga sem fyrir röskri öld freist-
uðu gæfunnar í Vesturheimi hefur löngum leikið
svolítið harmsögulegur hugblær. Öðru máli
gegnir um síðari tíma vesturfara, enda hafa
flestir þeirra haft töluvert aðrar forsendur fyrir
sínum búferlaflutningum.
Einn slíkra, séra Ingþór Indriðason Ísfeld,
tók þá ákvörðun ungur prestur að fara til Kan-
ada ásamt fjölskyldu sinni. Hann kom hingað
síðar til nokkurra ára dvalar en ákvað svo að
eyða starfsævinni í Vesturheimi. Hann hefur
verið hér um tíma í heimsókn ásamt konu sinni,
Guðmundu Gunni Guðmundsdóttur, fyrrum rit-
stjóra Lögbergs-Heimskringlu. Ég hitti hann að
máli í íbúð Biskupsstofu við Hjarðarhaga til
þess að forvitnast um hvernig lífið og tilveran
hefði gengið fyrir sig vestur þar og hvað hann
væri nú að gera.
Ingþór fæddist og ólst upp á Akureyri en fjöl-
skyldan flutti til Reykjavíkur þegar hann var
sextán ára gamall og hann fór til náms við
Menntaskólann í Reykjavík.
„Faðir minn, Indriði Ísfeld, var iðnverkamað-
ur bæði á Akureyri og í Reykjavík, hann var
hneigður fyrir tónlist og söng í kirkjukórum,
móðir mín, Bjarnheiður Ingþórsdóttir, var
hjúkrunarkona, ein af þeim fyrstu sem útskrif-
uðust hér á Íslandi, en vann ekki utan heimilis
að þeirra tíma sið og vorum við þó aðeins tveir
bræðurnir,“ segir hann. Á Akureyri fór Ingþór
snemma að taka þátt í starfi KFUM og hélt því
áfram eftir að til höfuðborgarinnar kom. Hann á
og rætur í Fljótsdalshéraði. „Ég átti góðan vin á
Akureyri sem fór þangað í sveit, það var fundinn
þar staður fyrir mig líka,“ segir Ingþór. „Eftir
að ég kom suður fór ég að taka þátt í starfi
Kristilegra skólasamtaka auk þess að starfa í
KFUM.
Varð snemma trúhneigður
Ég var frekar trúhneigt barn og ákvað sextán
ára að verða prestur. Móðir mín hvatti mig til
náms, hún hefði sjálf viljað læra meira, átti enda
létt með nám og var mikil tungumálamanneskja.
Hún var kvenréttindakona og sagði við mig: „Þú
varst heppinn, Ingþór, að fæðast drengur.“
Ég var alvörugefinn á unglingsárum – var
eiginlega eldri þá en ég er núna, sem er ágæt
þróun,“ segir Ingþór og brosir. „Ég man að í
æsku vildi ég ekki ganga í kringum jólatré,
fannst það barnalegt, ég varð snemma skyn-
semistrúarmaður og það markaði ákvarðanir
mínar. Þrettán ára fékk ég Nýja testamentið að
gjöf og las mikið í því þegar ég var 12 til 16 ára.
Það sem Jesús Kristur kenndi er það besta sem
ég hingað til hef séð – ég held að ég taki mér það
til fyrirmyndar þangað til eitthvað betra kemur
til,“ hugsaði ég.
Auk kristindómsins hafði ég áhuga fyrir nátt-
úrufræði og varð stúdent úr stærðfræðideild.
Mínir nánustu félagar á skólaárum voru flestir
úr hinu kristilega starfi. Strax að loknu stúd-
entsprófi fór ég í guðfræðideild og var þar í fjög-
ur ár.
Þar voru þá enn tvær meginstefnur eins og
allan fyrri hluta síðustu aldar. Annars vegar var
Kristilegt stúdentafélag og hins vegar Bræðra-
lag – ég skipaði mér í hóp hins fyrrnefnda. Þess-
ar fylkingar voru þó teknar að riðlast um þær
mundir.
Í guðfræðideildinni voru kennarar sem höfðu
mikil áhrif á mig, þá fyrst og fremst Sigurbjörn
Einarsson síðar biskup. Þórir Kr. Þórðarson fór
í leyfi í tvö ár og í hans stað kom Harald Sigmar
sem var prestur af íslenskum ættum úr Vest-
urheimi, hann hafði feikileg áhrif í hinni settlegu
guðfræðideild þar sem mikið djúp hafði verið
staðfest milli nemenda og kennara. Með Haraldi
Sigmar bárust frjálslegri viðhorf að þessu leyti.
Mér hefur lengi fundist að ekki megi slíta guð-
fræðinámi um of úr tengslum við hið lif-
andi starf kirkjunnar – það hefur verið til-
hneiging til að full mikil „akademisk“
áhersla sé í guðfræðideildinni. Harald
Sigmar flutti með sér vitundina um söfn-
uðinn og starf prestsins – það var eins og
ljúfur blær inn í guðfræðideildina.
Hjónaband og prestsstarf
Ég var orðinn fjölskyldumaður þegar
ég lauk guðfræðiprófi, ég gifti mig 1957,
22 ára gamall. Gunni konu minni kynntist
ég í kristilegu starfi. Hún er vestfirskrar
ættar og hafði lokið prófi úr Kvennaskól-
anum og stundaði skrifstofustörf. Við
eignuðumst fljótlega fyrsta barnið.
Bróðir Haralds Sigmar, Erik, kom
hingað um það leyti sem ég lauk guðfræðiprófi
til að taka þátt í biskupsvígslu. Honum hafði
verið falið að útvega prest fyrir vestur-íslenskan
söfnuð. Margir prestar höfðu farið til starfa í
Kanada, t.d. Ólafur Skúlason, Hjalti Guðmunds-
son og Jón Bjarman. Mér var boðið preststarf
vestra og fór út með það fyrir augum að vera þar
í a.m.k. þrjú ár. Við hjónin vildum bæði sjá heim-
inn og koma undir okkur fótunum, þetta var leið
til þess.
Séra Sigurbjörn Einarsson var kosinn biskup
vorið sem ég lauk guðfræðinámi. Hinn 21. júní
1959 var hann vígður biskup og daginn eftir
vígði hann hann mig fyrstan presta. Ég var vígð-
ur til Herðubreiðarsafnaðar í Langruth í Mani-
toba í Kanada. Nokkrum dögum síðar flugum
við Gunnur með barn okkar vestur um haf.
Í söfnuðinum í Langruth voru 144 fermdir og
þeir greiddu prestinum laun að hálfu en kirkjan
hinn hlutann. Ég fékk ódýrt húsnæði en erfitt
hefur mér reynst að bera saman kjör presta þá
hérlendis og þar ytra.
Núna virðist mér allt þrisvar sinnum dýrara
hér en í Winnipeg, þar sem við hjónin búum í
einbýlishúsi á tveimur hæðum með kjallara og
bílskúr. Slíkt hús kostar um 7 milljónir króna í
Winnipeg en hér kostar það um 20 milljónir
króna. Matur er miklu dýrari hér, bensín og
flest annað. Það sem maður fær borgað úti dug-
ar því skammt hér.
Eftir að hafa verið í Langruth vorum við hjón-
in í Manitoba um tíma og í Vancouver hjá ís-
lenskum söfnuðum. Eitt og hálft var ég aðstoð-
arprestur í Bandaríkjunum hjá Haraldi Sigmar.
Presturinn er að vissu leyti háðari söfnuðinum
þar en hér en hins vegar fær hann líka meiri
stuðning. Hið óháða fyrirkomulag sem ríkir þar
innan lúthersku kirkjunnar hefur sína kosti og
galla. Ef fólki líkar ekki við prestinn fer það í
annan söfnuð og þá fara fjármálin niður á við.
Þetta er mjög ólíkt því sem gerist hér. Lúth-
erska kirkjan er hins vegar mjög lítil heild í
Kanada, eða alls um 300 þúsund manns.
Allir finna til
Eftir sex ára dvöl vestra fórum við heim til Ís-
lands og ég varð prestur í Ólafsfirði. Þar vorum
við í þrjú ár, frá 1965 til 1968.
Þótt aðstæður væru aðrar þar en í Kanada
var fólkið harla líkt „inni við beinið“ – allir finna
til, en viðbrögðin eru stundum ólík. Það var
margt Úkraínufólk í söfnuði sem ég þjónaði í
Kanada. Það fólk sýndi fremur tilfinningar sínar
en Íslendingarnir, ekki síst yngra fólkið. Þetta
sá ég vel þegar ég var prestur í Gimli í fimm ár.
Ég man t.d. eftir jarðarför ungs manns frá Úkr-
aínu. Það þurfti beinlínis að halda móður hans
svo að hún steypti sér ekki ofan í gröfina en hin
íslenska eiginkona stóð hljóð og róleg.“
En skyldu Vestur-Íslendingar vera svipaðir í
hátt og við sem hér á Íslandi höfum alið aldur
okkar?
„Okkur hjónum fannst stundum fólkið ytra
einstaklega íslenskt í sér. En það hugsar samt
talsvert öðruvísi en Íslendingar nútímans. Kan-
adamenn eru hæglátir „The Quiet Canadian“.
Yfirleitt eru menn sem lengi hafa búið þar í landi
miklu rólegri en fólk hér. Mér finnst Íslendingar
allir ofvirkir. Íslenska þjóðin er lítil þjóð sem er
að reyna að vera stór, það hefur bæði góðar og
slæmar hliðar.
Stundum vara ég Íslendinga við sem koma til
Kanada. Þeir kunna að hitta þar fólk sem þeim
þykir ekki búa vel og berast lítið á, en það er lítið
að marka það, fólkið getur verið stórefnað eigi
að síður. Kanadamenn bera ekki efnahag sinn
utan á sér.
Eitt af því erfiða við útgáfu blaðs eins og Lög-
bergs-Heimskringlu er að verið er að skrifa fyr-
ir fólk sem orðið er kanadískt eða bandarískt,
það er afkomendur fólks sem flutti flest út á ár-
unum 1875 til 1914. Þegar þetta fólk hugsar um
Ísland hugsar það aftur, það er forvitið um
gamla tímann. Þeir Íslendingar sem hafa flutt út
á síðari árum kæra sig kollótta um fortíðina, þeir
eru á fullri ferð inn í framtíðina. Þetta eru ger-
samlega ólíkir hópar. Þegar kemur að samstarfi
milli „nýju“ Vestur-Íslendinganna og „gömlu“,
þá gengur það oft illa.
Áhrif Breta hafa verið mikil í Kanada, þeir
eru varfærnir, þetta er ólíkt Íslendingum nú-
tímans.
Hinar fallegu íslensku stúlkur sem komu til
Kanada í byrjun síðustu aldar giftust margar
hverjar Bretum og það sagði til sín. Núna eru
amerísk áhrif hins vegar miklu meiri en þau
bresku. Kanadamenn héldu raunar lengi vel
mjög sterkt í sínar rætur, öfugt við Bandaríkja-
menn, stefna yfirvalda var ólík í löndunum hvað
þetta snerti, þess vegna tók það miklu lengri
tíma að Kanadamenn samlöguðust.
Ég kynntist mörgum sem töluðu íslensku,
jafnvel í þriðja lið frá landnemunum. Sumir töl-
uðu svo vel að hefði ég ekki vitað betur hefði ég
haldið þá nýkomna frá Íslandi. Stundum koma
þó fyrir í máli þeirra útlend orð yfir ný hugtök –
það kemur upp um þá.
Íslendingar fóru í alls kyns vinnu þegar þeir
komu út. Þeir sem kunnu eitthvað í ensku voru
gerðir að verkstjórum yfir hinum sem ekkert
kunnu og stúlkurnar fóru í vist. Þeir urðu svo
bændur og reyndu fljótt að efla með sér mennt-
un. Íslendingar urðu þekktir fyrir að leita mjög
eftir menntun. Minna fór fyrir þeim í viðskipta-
lífinu, það er þó að breytast. Svo fóru menn að
dreifast, ekki síst varð sú þróun áberandi í
heimsstyrjöldunum, einkum þeirri síðari sem
leysti ákaflega mikið upp í þjóðfélaginu og
breytti því.
Eftir dvölina í Ólafsfirði var ég kosinn prestur
í Hveragerði og var þar í tvö ár. Eftir þá dvöl ár-
ið 1979 tókum við hjónin ákvörðun um að flytjast
alfarin út til Kanada. Konan mín var ekki síður
þessu fylgjandi. Við áttum þá fjögur börn og
þetta var erfið ákvörðun. Ég hafði þá hugmynd
að prestur ætti að vinna preststörf en ekki vera
kennari, ekki síst þegar presturinn hefur tvo
kaupstaði, tvö elliheimili og þrjár sveitakirkjur
að þjóna. Það var mér óvinnandi verk að sinna
því eins og ég hugsaði mér að prestur ynni sitt
starf. Það reyndist heldur ekki efnahagslega
mögulegt fyrir okkur að lifa á mínum launum
sem prestur á Íslandi. Það voru gallar á húsinu
sem við bjuggum í og það var ekki hægt að fá
gert við það. Bílakostnað fengum við ekki borg-
aðan. Ég var búinn með bílastyrkinn fyrir árið í
febrúar og eftir það varð ég að borga þann
kostnað sjálfur – og varð svo að borga skatt af
því sem ég lagði sjálfur til. Þetta gekk ekki upp.
Ég sá í bókasafni í gömlu eintaki af tímaritinu
Bjarma grein eftir séra Jón Bjarnason sem var
prestur á Seyðisfirði árin 1880 til 1884 þar sem
hann var að lýsa ýmsum vandamálum tengdum
preststörfum á Íslandi. Vandamálin voru þau
sömu og ég var að glíma við árið 1968. Ég sagði
við konuna mína: „Ég hef bara ekki tíma til að
bíða eftir að þessi vandamál leysist.“ Það var
einnig þungt á metunum í ákvörðuninni að okk-
ur líkaði báðum mjög vel í Kanada. Svo við fór-
um út alfarin.
Mér til mikillar ánægju get ég sagt að nú þeg-
ar ég hef dvalið hér í nokkra mánuði sé ég að hér
hefur mjög mikið breyst til bóta í sambandi við
preststarfið og innan kirkjunnar yfirleitt. Marg-
ir hæfir menn starfa hér innan kirkjunnar, bæði
karlar og konur. Fólkið vinnur vel saman og
góður andi er á milli þess. Sem betur fer fór allt
betur en ég bjóst við.
Hlutskipti innflytjandans
Það er erfitt hlutskipt að vera innflytjandi.
Manni þykir vænt um sitt gamla land og vill
vera heima, en börnin og barnabörnin eru úti og
þar á maður heima. Börnin mín og barnabörnin
eru fyrst og fremst kanadísk. Tvö barna minna
tala íslensku hin tvö tala hana lítið. Þau hafa þó
öll mikla meðvitund um að vera íslensk.
Ég kom hingað núna vegna þess að ég hætti
störfum í septemberlok í fyrra og langaði til að
vera hér um tíma. Biskupinn, séra Karl Sig-
urbjörnsson, kom í opinbera ferð til Kanada í
september sl. og ég skipulagði dvöl hans ytra að
mestu. Þá samdist svo um að ég kæmi til dvalar
hingað um tíma. Ég hef flutt hér fræðsluerindi
og hjálpað til hér og þar innan kirkjunnar á
höfuðborgarsvæðinu.
Ég er á eftirlaunum í Kanada, þau endast
ágætlega þar en mun ver hér. Þótt ekki væri
nema vegna þess gætum við ekki búið hér til
langframa – nema þá að ég færi aftur að vinna.
Mér finnst fjarska gaman að koma hingað aft-
ur, hvergi í veröldinni hefur mér liðið betur en
t.d. í Hallgrímskirkju.
Hitt finnst mér undarlegt hvað fólk hér veit
lítið um Kanada, það er jafnvel eins og þetta
stóra og mannmarga land sé ekki til. Þar búa þó
30 milljónir manna og landið er jafn þéttbýlt og
Ísland. Menn tala bara um Ameríku en það er
tvennt ólíkt að búa í Kanada og Bandaríkjunum.
Bandaríkin eru ákaflega víðáttumikil og þar er
miklu meira af „nýjum“ Vestur-Íslendingum. Í
Kanada eru fjöldamargir „gamlir“ Vestur-Ís-
lendingar og þá er að finna í flestum starfs-
greinum nú. Í Winnipeg eru t.d. 35 menn skráðir
í símaskrá sem bera nafnið Ísfeld. Ég tók upp
þetta nafn þegar ég flutti vestur um haf, kona
mín og börn einnig. Þetta er nafn afa míns, hann
hét Ísfeld.
Ég fer heim til Kanada í júlí næstkomandi og
hlakka til, þar þekki ég umhverfið vel, ég hef
ekki aðeins verið prestur þar til fjölda ára held-
ur seldi ég í nokkur ár fasteignir. Ég gerði það
af illri nauðsyn meðan börnin voru á háskóla-
aldri. Við höfðum ekki efni á að senda þau til
dvalar í háskólabæi og preststörf voru mjög um-
setin í þeim bæjum. Ég fékk ekki preststarf í
neinum háskólabæ sem eitthvað kvað að, ég var
jú innflytjandi og líka Íslendingur. Ég hætti þá
preststörfum um tíma og tók að selja fasteignir
upp á prósentur til þess að geta komið börn-
unum í gegnum háskóla og komið betur undir
okkur fótunum fjárhagslega. Þegar ég hætti að
selja fasteignir og varð prestur aftur lækkaði
kaupið mitt um helming. Það gerði mér hins
vegar gott að breyta til, það skildu ekki allir og
sumum leist ekki á að presturinn skyldi vera
kominn í fasteignasölu. Þetta eru þó ekki eins
gerólík störf og menn gætu haldið. Prestar í
lútherskum söfnuðum í Kanada starfa í nánum
tengslum við sitt safnaðarfólk og í Kanada er
samband seljenda og kaupenda innan fasteigna-
sölunnar miklu nánara en hér. Í báðum þessum
störfum reynir því mikið á hin mannlegu sam-
skipti.
Hvað um trúna – skyldi séra Ingþór Ísfeld í
Winnipeg vera eins trúaður og Ingþór litli Ind-
riðason á Akureyri var?
„Miklu betur – og ég er heilli sem persóna en
ég var. Það á ég að þakka góðu fólki sem hefur
orðið mér samferða.“
Íslendingar eru ofvirkir
Morgunblaðið/Þorkell
Séra Ingþór Indriðason Ísfeld.
Gunnur og Ingþór Ísfeld.
Séra Ingþór Indriðason Ísfeld fór til
Kanada sem ungur prestur en sett-
ist svo þar að. Hann segir hér
Guðrúnu Guðlaugsdóttur frá
reynslu sinni af prestskap og fleiru
í Kanada og veltir fyrir sér hver
þróunin hefur orðið á ýmsum
sviðum bæði þar og hér á landi.