Morgunblaðið - 19.09.2001, Qupperneq 22

Morgunblaðið - 19.09.2001, Qupperneq 22
LISTIR 22 MIÐVIKUDAGUR 19. SEPTEMBER 2001 MORGUNBLAÐIÐ Í SÍÐUSTU viku hóf nýr djass- klúbbur göngu sína. Ormslev nefnist hann í höfuðið á helsta djassleikara ís- lenskrar djasssögu; Gunnari Ormslev saxófónmeistara. Ætlun klúbbsins er að kynna tilraunadjass og framsækna djasstónlist og að því leyti er nafnið vel valið, því þótt framúrstefnutónlist hafi verið Gunnari framandi, utan hvað hann lék stundum á slagverk í Musica Nova, veitti hann nýjum straumum inn í íslenskan djass er hann fluttist hingað frá Danmörku. Sænski píanistinn Sten Sandell var fyrsti gestur Ormslevs og hélt tvenna tónleika. Þá fyrri í Norræna húsinu, þarsem hann þandi rödd og raftól, og þá seinni í Norræna húsinu þarsem hann lék á píanó og raulaði eilítið með. Tónleikarnir í Norræna húsinu hóf- ust á djassverkefni Curvers; spuni með plötuspilara. Í upphafi síendur- tekið stef einsog ófullburða riff og reglulegir smellir er minntu á risp- urnar á tíutommu Armstrong plöt- unni hans Tryggva Ólafssonar frá Town Hall tónleikunum sögufrægu. Þegar Tryggvi fékk tónleikana á nýrri tólftommu plötu fannst honum alltaf eitthvað vanta. Kunnugleg djassstef hljómuðu óhrein í þessum spuna skífuþeytisins, en nái þau til nýrra hlustenda er það hið besta mál. Hrafn Ásgeirsson og Davíð Þór Jónsson voru næstir á dagskrá og eft- ir að hafa grautað í strengjum í upp- hafi upphóf Davíð Þór rómantískan óð og um skeið hélt ég hann ætlaði að fara að músísera norska þjóðsönginn. Sem betur fór var sá ótti minn ástæðulaus og Hrafn gekk framfyrir skjöldu blásandi í tenórinn mjúklega. Þetta var allt ósköp sætt en í seinni hluta verksins rufu sakkatóstrófur sheppískan Websterismann en píanó- ið of evrópskt í impressjónisma sínum tilað keyra saxinn áfram. Samt var gaman að heyra drengina og vonandi eiga þeir eftir að spinna sem frjálsast saman sem lengst. Síðasta atriði kvöldsins var Met- rika Akustika píanistans Sten Sand- ells. Þetta er fautapíanisti og var svo sannarlega þess virði að berja eyrum. Hann spannar allan skalann í spuna sínum. Ýmsir nefna gjarnan Paul Bley og Morton Feldman, en fljótlega er tónaflæði hans braust fram í þykk- um hljómavefum fannst mér hann ekki síður skyldur Lennie Tristano. Sama óstöðvandi sköpunarástríðan þarsem ferskar hugmyndir skjóta upp kollinum í sífellu. Sandell fór um víðan völl í leik sínum. Frá Spáni yfir Balkanskagann í austurátt og alltí einu heima í Svíþjóð áðuren hann hóf að rymja og hélt í höllu dofrans. Cecil Taylor kom stundum uppí hugann er hlustað var á tónlist Sand- ells og ekki síður við að sjá hann. Hvernig hann lyfti höndum snöggt eða kippti að sér. En hver getur spunnið djasspíanó á frjálsan hátt undir áhrifum nútíma tónskáldatón- listar án þess að minna á Taylor? Svo söng Sandell einsog Garðar Hólm og lék undir taylorískt áðuren ljúfsár laglína af bestu poppætt hljómaði. Sandell mun sjá um tónlistina í Beðið eftir Godot, sem sýnt verður í Borgarleikhúsinu. Beckett og Sand- ell. Það hlýtur að vera kokteill sem bragð er að. Frjálst djassflæði DJASS N o r r æ n a h ú s i ð Curver, spuni með plötuspilara; Hrafn Ásgeirsson tenórsaxófón og Davíð Þór Jónsson píanó; Sten Sandell píanó og rödd. Miðvikudagskvöldið 12.9. 2001. ORMSLEV-KLÚBBURINN Vernharður Linnet MEÐ sverð gegnum varir er titill á úrvali ljóða Jóhanns Hjálmarssonar sem væntan- legt er frá JPV-útgáfu. Þröst- ur Helgason, umsjónarmaður Lesbókar Morgunblaðsins, hefur valið ljóðin og skrifar formála að úrvalinu. Jóhann Hjálmarsson var aðeins sautján ára þegar hann gaf út fyrstu ljóðabókina, Aungull í tímann, árið 1956, og nýjasta bókin, Hljóðleikar, kom út í fyrra. Alls hefur Jó- hann gefið út sextán ljóða- bækur og birtast ljóð úr þeim öllum í úrvalinu. Í kynningu um bókina segir að ljóðunum sé ætlað að sýna þróun og samfellu í skáldskap Jóhanns; „Hugmyndarót æskuljóðanna, súrrealísk og tilvistarleg ljóð sjöunda áratugarins, „opna ljóðið“ svokallaða á þeim átt- unda, og ljóðræn og knöpp ljóð níunda og tíunda áratug- arins, oft afar persónuleg og jafnvel myrk. Ljóðstíllinn er ávallt leitandi og stundum þverstæðukenndur. Skáldið glímir við að orða sínýjan tím- ann; nútímann og eftirtímann, og tímann sem „er líklega annars staðar“, eins og segir í ljóðinu „Tíminn“ sem birtist í einni bestu bóka Jóhanns, Marlíðendum.“ Jóhann Hjálmarsson er fæddur 2. júlí 1939 og hefur verið blaðamaður og bók- mennta- og leiklistargagnrýn- andi á Morgunblaðinu undan- farna fjóra áratugi. Hann hefur og ritað ótal greinar um menningarmál, stjórnað bók- menntaþáttum í útvarpi og verið í dómnefnd bókmennta- verðlauna Norðurlandaráðs. Ljóðaúrval Jóhanns Hjálmars- sonar væntanlegt Jóhann Hjálmarsson STEINN Steinarr hyllti Þorvald Skúlason í frægum ritdómi, í Helgafelli, árið 1942, með því að segja hann vera ævintýri nútímans á sviði íslenskra lista. Svo hrifinn var Steinn af myndum Þorvalds að hann gat með engu móti lýst því með viðunandi hætti hvar raunveruleg gæði þeirra lágu, heldur sagði þær búa yfir einhverjum dularfullum töfrum sem verki stundum á skoðandann sem sterkt vín. Að vísu nefnir Steinn að Þorvaldur sé gæddur máttugri lit- og formgáfu; að myndir hans séu hvorki fallegar né ljótar, og list hans einkenni hið einfalda og sterka. En ef kafað er ofan í þessa lýs- ingu er lesandinn varla mikið nær sanninum því al- mennar lýsingar af þessum toga gætu átt við svo margar aðrar myndir og listamenn. Þegar öll kurl koma til grafar er það augljós hrifning Steins, frem- ur en lýsing, sem tryggði Þorvaldi vegsemd, því skrifað stendur að ávinni mikill listamaður sér að- dáun annars mikils listamanns séu það meðmæli allra meðmæla. En hverjir voru þá þessir töfrar sem Steinn var að reyna að koma orðum að og virkuðu ölvandi á skynjun manna? Trúlega eru það sömu töfrarnir og þeir sem enn búa í verkunum og lýsa sér svo oft í tvöföldu sjónarspili. Umgjörðin – heildarskipanin – er í mjög hófstilltu jafnvægi, gjarnan sett saman af mettuðum gráum, brúnum og bláum tónum þar sem ríkir jöfn birta líkt og væri á sólarlausum degi. Töfrarnir koma hins vegar með ákveðnum form- hlutum sem Þorvaldur málaði í mun skærara ljósi, eins og geislum sólarinnar hefði tekist að brjóta sér braut gegnum skýjaþykknið og gylla ákveðna hluta flatarins. Með þessu tókst honum að skapa sérstakt and- rúmsloft, líkast því að náttúruleg birta þrengdi sér inn í annars tilbúið svið. Þessum sérstæða anga af raunverulegri upplifun í lit og ljósi tókst Þorvaldi að varðveita í verkum sínum, jafnvel eftir að þau voru orðin fullkomlega óhlutlæg. Slík sérkenni hitta augu áhorfandans með nærgöngulum hætti og geta valdið geðbrigðum áþekkum þeim sem snögg skipti milli dúr og moll í díatónskri tónlist framkalla. Það mætti kalla þau lífið í listinni. Þessi leikni sýnir hve vel Þorvaldur skildi virkni listarinnar. Hann vissi að heildin þarf að vera lát- laus og pottþétt. En hann vissi líka að töfrar mynda eru fólganir í eilitlum frávikum frá heildarsamræm- inu – óvæntum áherslum – sem skekja heildina og bregða á hana öðru ljósi, rétt eins og sólargeislinn serm brýst í gegn. Listasafn Íslands á einkar heildstætt og gagn- merkt safn af verkum eftir Þorvald, allt frá þriðja áratugnum þegar hann hélt sína fyrstu einkasýn- ingu til níunda áratugarins, þegar hann lést. Flest búa þessi verk yfir áðurnefndum töfrum sem gagn- tóku Stein og virka enn svo fersk að undrum sætir. Hvort sem um er að ræða fígúratífa tímabilið, fyrir og eftir heimkomu Þorvalds í stríðsbyrjun, Cobra- tímabilið á ofanverðum fimmta áratugnum, geo- metríska tímabilið á sjötta áratugnum, eða ljóð- ræna abstrakttímabilið á sjöunda, áttunda og ní- unda áratugnum, þá er eins og í verkum Þorvalds búi ætíð sérstæð birtuskil á mótum skins og skúra, eða dags og nætur. Þessi einkenni hvísla tilfinn- ingaþrunginni merkingu að áhorfandanum svo að honum finnst hann vera að uppgötva ákveðið nátt- úrufar – ytra sem innra – í fyrsta sinn. Nú er bara að drífa sig á þessa ágætu sýningu og deila hinum áfengu áhrifum með Steini heitnum. Sennilega eru þau orðin töluvert kröftugri nú en fyrir sextíu árum, þegar skáldið lét frá sér ritdóm- inn góða. Töfraljóminn thorvalski Morgunblaðið/Halldór B. Runólfsson Kona að lesa, frá 1938. Eitt af fígúratífum öndvegisverkum Þorvalds Skúlasonar á sýn- ingunni í Listasafni Íslands. MYNDLIST L i s t a s a f n Í s l a n d s Til 7. október. Opið þriðjudaga til sunnudaga frá kl. 13–16. MÁLVERK ÞORVALDUR SKÚLASON Halldór Björn Runólfsson TÓNLEIKAR með frumsömdum verkum eftir Önnu S. Þorvaldsdótt- ur verða annað kvöld kl. 20:30 í Dóm- kirkjunni. Flutt verða einleiks- og tvíleiksverk, samin á síðastliðnum tveimur árum. Flytjendur eru Anna S. Þorvaldsdóttir (selló), Arnbjörg H. Valsdóttir (söngur), Gyða Valtýs- dóttir (selló), Helgi Hrafn Jónsson (básúna), Magnea Gunnarsdóttir (söngur) og Oddný Sturludóttir (pí- anó). Anna er nemandi við tónsmíða- deild Listaháskóla Íslands. Verk tón- smíðanema í Dómkirkjunni Í SNEGLU listhúsi stendur yfir gluggasýning og eiga þar verk lista- konurnar Áslaug Saja Davíðsdóttir textílhönnuður, Guðný Jónsdóttir glerlistakona og málari og Sesselja Tómasdóttir listmálari. Þær eru all- ar nýir meðlimir Sneglu. Snegla er á horni Klapparstígs og Grettisgötu. Sýningin stendur til 6. október. Nýir listamenn í Sneglu ♦ ♦ ♦

x

Morgunblaðið

Direct Links

Hvis du vil linke til denne avis/magasin, skal du bruge disse links:

Link til denne avis/magasin: Morgunblaðið
https://timarit.is/publication/58

Link til dette eksemplar:

Link til denne side:

Link til denne artikel:

Venligst ikke link direkte til billeder eller PDfs på Timarit.is, da sådanne webadresser kan ændres uden advarsel. Brug venligst de angivne webadresser for at linke til sitet.