Morgunblaðið - 23.01.2002, Blaðsíða 4

Morgunblaðið - 23.01.2002, Blaðsíða 4
FRÉTTIR 4 MIÐVIKUDAGUR 23. JANÚAR 2002 MORGUNBLAÐIÐ FUNDUR Halldórs Ásgrímssonar, utanríkisráðherra í gær, með spænska utanríkisráðherranum Josep Piqué, en Spánn fer með for- mennsku í Evrópusambandinu fyrri hluta þessa árs, var jákvæður og er gert ráð fyrir fundum í næsta og þarnæsta mánuði um uppfærslu EES-samningsins og fríverslun á fiski í tengslum við stækkun Evr- ópusambandsins. Ísland fer með formennsku í EFTA frá áramótum. Halldór sagði í samtali við Morgunblaðið að fund- urinn hefði verið jákvæður. Til- gangurinn hefði verið að ná góðu sambandi við ríkið sem færi með formennsku innan ESB meðal ann- ars vegna hagsmuna sem tengdust stækkun Evrópusambandsins. Tvö mál bæri hæst í þeim efnum. Ann- ars vegar hugsanleg uppfærsla EES-samningsins með tilliti til breyttra aðstæðna. „Það liggur fyrir af okkar hálfu að við gerum ekki ráð fyrir neinum stórum breytingum á honum, en það hefur ýmislegt gerst eins og á sviði umhverfis-, félags- og menn- ingarmála sem er eðlilegt að taka tillit til,“ sagði Halldór. Hann sagði að þessari málaleitan hefði verið vel tekið og ákveðið hefði verið að funda nánar um þetta í næsta mánuði. Þá myndi spænski utanríkisráðherra einnig eiga fund með utanríkisráðherra Noregs síð- ar í þessari viku þar sem þessi mál- efni yrðu einnig á dagskrá. Halldór sagði að þeir hefðu einnig rætt um þau stóru hagsmunamál sem tengdust útflutningi á fiskaf- urðum og þá sérstaklega vegna þess að fríverslunarsamningar við umsóknarríkin féllu niður og svo- kölluð bókun níu tæki við. „Við leggjum á það áherslu að við njótum svipaðra kjara eftir stækkunina og við gerum fyrir hana og það er gert ráð fyrir að það verði tekið til frek- ari umræðu í marsmánuði,“ sagði Halldór ennfremur. Hann sagði að til þessa fundar hefði ekki verið efnt til að fá fram niðurstöðu heldur til að kynna sjónarmið okkar og koma hagsmunum okkar á framfæri. Svartsýni varðandi ástandið í Mið-Austurlöndum Halldór sagði að þeir hefðu einnig rætt ýmis önnur mál eins og Sam- einuðu þjóðirnar, Atlantshafs- bandalagið, Mið-Austurlönd og Rússland. Spænski utanríkisráð- herrann væri nýkominn frá Mið- Austurlöndum og það væri ríkjandi mikil svartsýni í sambandi við ástandið þar. Litlar vonir væru bundnar við að friðarferlið héldi áfram og ekkert sem benti til þess að Sharon væri að gera miklar til- raunir til þess. Halldór bætti því við að utanrík- isráðherra Rússlands væri jafn- framt í Madrid og rætt hefði verið um aukið samstarf við þá ekki síst á vettvangi Atlantshafsbandalagsins. Vonast væri til að hægt yrði að ganga frá samningi um það efni í tengslum við Reykjavíkurfund Atl- antshafsbandalagsins í maí. Ráðherrarnir undirrituðu samn- ing milli Íslands og Spánar til að komast hjá tvísköttun og koma í veg fyrir undanskot á skattlagningu á tekjur og eignir. Utanríkisráðherrar Íslands og Spánar ræddu málefni EFTA og ESB Gert ráð fyrir fundum í febrúar og mars Reuters Halldór Ásgrímsson utanríkisráðherra fundaði með Josep Piqué, utan- ríkisráðherra Spánar, í Madrid í gær, en Spánn fer nú með for- mennskuna innan Evrópusambandsins. VERKEFNI þeirra Björns Gísla- sonar og Bergs Guðmundssonar, nemenda í sjávarútvegsdeild Há- skólans á Akureyri, hlaut í gær ný- sköpunarverðlaun forseta Íslands en verðlaunin voru veitt við hátíð- lega athöfn á Bessastöðum. Var verkefnið, sem ber heitið Áframeldi þorsks, í hópi fimm verkefna sem tilnefnd voru til verðlaunanna en þau voru öll styrkt af Nýsköpunar- sjóði námsmanna á síðasta ári. Verðlaunaverkefnið er að sögn Björns og Bergs fyrst og fremst ætlað sem grunnupplýsingaöflun fyrir áframeldi á þorski og veiðar á lifandi fiski. Gaf niðurstaða verk- efnisins til kynna að þorskeldi geti skilað umtalsverðum hagnaði. Segja þeir Björn og Bergur því ástæðu til bjartsýni í þessum efn- um. Nýsköpunarverðlaunin voru veitt í sjöunda sinn en þau eru veitt þeim námsmönnum sem unnið hafa framúrskarandi starf við úrlausn verkefnis sem styrkt var af Ný- sköpunarsjóði námsmanna. Baldur Þórhallsson, formaður stjórnar Nýsköpunarsjóðs náms- manna, sagði við athöfnina í gær að nýsköpunarverðlaun forseta Ís- lands væru orðin að veigamiklum árlegum viðburði og væru mik- ilvæg hvatning fyrir háskólastúd- enta sem ynnu að rannsóknarverk- efnum á vegum Nýsköpunarsjóðs námsmanna. „Á starfsárinu sem nú er að líða bárust sjóðnum 232 um- sóknir um styrki og var sjóðnum kleift að styrkja 150 nýsköp- unarverkefni. Alls unnu 180 há- skólastúdentar að þessum verk- efnum en nokkur verkefni voru unnin af tveimur nemendum.“ Baldur sagði að sjóðurinn hefði haft til umráða tæplega 38 millj. kr. og notaði tækifærið til að þakka styrktaraðilum sjóðsins dyggan stuðning við hann. „Sérstaklega vil ég þakka menntamálaráðherra og borgarstjóra fyrir þeirra framlag til sjóðsins og þann skilning sem þau hafa sýnt á mikilvægi þess að námsmenn fái að takast á við krefj- andi rannsóknarverkefni yfir sum- armánuðina. Einnig vil ég þakka Akureyrarbæ, Kópavogsbæ, Garða- bæ og Seltjarnarnesi fyrir þeirra framlag.“ Þá þakkaði Baldur nýjum styrktaraðila sem komið hefði að sjóðnum á þessu ári, Framleiðni- sjóði landbúnaðarins, og fleiri að- ilum. Hvatning til áframhaldandi vinnu Eftir erindi Baldurs kynnti Krist- ín Einarsdóttir, formaður dóm- nefndar nýsköpunarverðlaunanna, verkefnin sem tilnefnd hefðu verið en þau eru auk verkefnisins um áframeldi þorsks, verkefni um notkun RFID-auðkenna í íslenskum landbúnaði, unnið af Benedikt Inga Tómassyni og Birni Brynjúlfssyni verkfræðinemum verkefnið Tauga- stjórnun á líkamsþyngd og fitubú- skap unnið af Páli Ísólfi Ólasyni líf- fræðinema, verkefnið Venjuleg kona – heimildarleikhús, unnið af Unni Ösp Stefánsdóttur og Birni Thors leiklistarnemum og verk- efnið Samlagshlutafélög – nýr val- kostur í íslensku viðskiptalífi?, unn- ið af Grími Sigurðssyni laganema. Sagði Kristín að vonandi væru þess- ar tilnefningar hvatning til nem- endanna um áframhaldandi vinnu á viðkomandi sviðum. Hlutu nemendurnir allir við- urkenningarskjal frá forseta Ís- lands, Ólafi Ragnari Grímssyni, við athöfnina í gær og sagði hann m.a. að sannarlega væri verið að heiðra við þetta tækifæri fjölbreytt safn verkefna. Þeir Björn Gíslason og Bergur Guðmundsson, sem eru höfundar verðlaunaverkefnisins, voru að vonum ánægðir með verðlaunin þegar Morgunblaðið ræddi við þá. Hlutu þeir 100.000 kr. í verðlaun. Nýsköpunarverðlaun forseta Íslands Verkefni um eldi þorsks fær viður- kenningu Morgunblaðið/Golli Ólafur Ragnar Grímsson afhendir Birni Gíslasyni og Bergi Guðmunds- syni nýsköpunarverðlaunin fyrir verkefni um áframeldi þorsks. TALSVERT uppistand hefur orðið meðal aðdáenda enska fótbolta- liðsins Liverpool vegna auglýsingar nokkurra stuðningsmanna fótbolta- liðsins Manchester United á tíu strætisvögnum í Reykjavík þar sem segir Manchester 6 – Liverpool 0. Hafa margir stuðningsmenn liðsins hringt í fyrirtækið Merkingu vegna þessa og meðal annars borist í tal hvort hægt væri að kaupa auglýs- ingu til að líma yfir þá ofangreindu. Samkvæmt upplýsingum Hilmars Eiríkssonar, framkvæmdastjóra Merkingar, sem sér um auglýsing- arnar á strætisvögnunum, vísa töl- urnar í auglýsingunni til þeirra ensku meistaratitla sem liðin unnu á síðasta áratug tuttugustu aldar, það er á árabilinu 1990-2000, en ekki til úrslita leiksins í gærkveldi þegar liðin mættust á Old Trafford leikvangi Manchester United í ensku úrvalsdeildinni. Manchester varð sex sinnum enskur meistari á áratugnum en Liverpool aldrei. Hilmar sagði að auglýsingarnar væru á langhlið tíu vagna. Þær hefðu verið límdar á vagnana á föstudaginn var og yrðu uppi í eina viku og hefði stuðningsmönnum Liverpool verið gerð grein fyrir því. Hefðu sumir þeirra haft á orði að nauðsynlegt væri að mæta þessu útspili stuðningsmanna Man.Utd. Morgunblaðið/Golli Manchester 6 – Liverpool 0 UM þessar mundir er verið að leggja lokahönd á undirbúning að þorskeldi í tilraunaskyni hjá Hrað- frystihúsi Eskifjarðar hf. Veiðar hófust í gær á lifandi undirmáls- þorski og var hann settur í kvíar við svonefnda Baulhúsavík við Hólmanes gegnt Eskifjarðarbæ. Þar verður þorskurinn ræktaður upp í sláturstærð. Verkefninu var ýtt úr vör sl. sumar með frumathugun á framtíð- armöguleikum slíks eldis og í fram- haldi af því hófst vinna við öflun til- skilinna leyfa og leit að hentugum stað fyrir eldið. Eftir athugun á ýmsum stöðum varð Baulhúsavík fyrir valinu og voru settar upp tvær eldiskvíar þar. Gert er ráð fyrir að þorskurinn verði veiddur í snurvoð og settur lifandi í kvíarnar. „Við munum á næstu dögum og vikum telja í kvíarnar og stefnum á að vera með 20–30 tonn af þorski í hvorri kví,“ segir Elfar Aðalsteins- son forstjóri HE. Veiða þorsk til eldis LAGALEG úttekt sem utanríkis- ráðuneytið hefur látið gera sýnir að staðall um flokkun verktaka hjá Evr- ópusambandinu mun ekki hafa áhrif á aðgang íslenskra verktaka að inn- lendum markaði. Hætta var talin á að íslensk verktakafyrirtæki gætu ekki boðið í stærri verkefni hér á landi, nema í samvinnu við erlend fyrirtæki, eftir að flokkun verktaka á vegum Evrópusambandsins tæki gildi, en frumdrög þessarar flokkunar verða gefin út í maí og tekur þá staðallinn gildi. Vegna frétta um að hætta væri á að íslensk fyrirtæki gætu ekki boðið ein og sér í stærri verkefni hér á landi lét utanríkisráðuneytið vinna lagalega úttekt á stöðu þessara draga að staðli um flokkun verktaka (TC 330) sem nú er til meðferðar hjá Evrópsku staðlastofnuninni. Niðurstaðan er sú að staðallinn muni ekki hafa áhrif á aðgang íslenskra verktaka að inn- lendum markaði, en markmiðið með staðlinum er að einfalda og samræma þau viðmið sem notuð eru í aðildar- ríkjunum við skráningu fyrirtækja á lista yfir hæf fyrirtæki. Samkvæmt upplýsingum frá utan- ríkisráðuneytinu verður staðallinn ekki skyldubundinn og því geta aðild- arríkin ákveðið hvort þau kjósa að halda lista yfir viðurkennda verktaka samkvæmt staðlinum eða hvort þau vilja heldur meta hæfni þeirra í hverju tilviki fyrir sig. Hér á landi er ekki til slíkur listi yfir hæfa verktaka og hafa íslenskar innkaupastofnanir sett eigin viðmið um hæfni og getu fyrirtækja í útboðum. Ragnheiður Elfa Þorsteinsdóttir, starfsmaður viðskiptaskrifstofu utan- ríkisráðuneytisins, segir að þrátt fyr- ir staðalinn muni því íslensk fyrir- tæki, eftir sem áður, ekki þurfa vottun á grundvelli hans til að bjóða í verk sem tilskipun 93/97/ EBE um opinber útboð tekur til. Kjósi íslensk stjórnvöld hins vegar að gera notkun staðalsins skyldubundna hér á landi og taka upp slíkt skráningarkerfi þyrftu íslensk fyrirtæki vottun sam- kvæmt staðlinum til að bjóða í þau verk innanlands sem tilskipunin tek- ur til. Að sögn Ragnheiðar er sú ákvörðun alfarið á valdi íslenskra stjórnvalda en tilskipunin og ný drög að tilskipun um sama efni geri enga kröfu um slíkt. Flokkun verktakafyrirtækja hjá ESB Staðall útilokar ekki íslenska verktaka á innlendum markaði

x

Morgunblaðið

Beinir tenglar

Ef þú vilt tengja á þennan titil, vinsamlegast notaðu þessa tengla:

Tengja á þennan titil: Morgunblaðið
https://timarit.is/publication/58

Tengja á þetta tölublað:

Tengja á þessa síðu:

Tengja á þessa grein:

Vinsamlegast ekki tengja beint á myndir eða PDF skjöl á Tímarit.is þar sem slíkar slóðir geta breyst án fyrirvara. Notið slóðirnar hér fyrir ofan til að tengja á vefinn.