Morgunblaðið - 23.01.2002, Blaðsíða 10
FRÉTTIR
10 MIÐVIKUDAGUR 23. JANÚAR 2002 MORGUNBLAÐIÐ
FORMAÐUR Samfylkingarinnar
segir að stóru verslunarkeðjurnar í
landinu hafi í skjóli einokunar keyrt
upp matarverð. Hreðjatak þeirra á
markaðnum hafi kallað fáheyrða
dýrtíð yfir neytendur og ríkisstjórn-
inni beri skylda til þess að feta í fót-
spor verkalýðshreyfingarinnar og
fara í viðræður við þessa aðila,
krefjast þess í nafni þjóðarheillar að
þeir sýni ábyrgð og lækki matar-
verð. Forsætisráðherra segir að
auðvitað eigi að fylgja því eftir að
stórir aðilar séu ekki að misnota
sína aðstöðu og 60% eignaraðild á
verslunarfyrirtækjum í matvælaiðn-
aði sé allt of há hlutdeild og auðvit-
að komi til greina af hálfu ríkisins
og Alþingis að skipta upp slíkum
eignum séu þær misnotaðar.
Horfur í efnahagsmálum voru til
umræðu utan dagskrár á Alþingi í
gær á fyrsta þingfundi eftir jóla-
leyfi. Málshefjandi var Össur
Skarphéðinsson, formaður Samfylk-
ingarinnar, en til andsvara Davíð
Oddsson forsætisráðherra. Verð-
bólgan, hækkun vísitölu neyslu-
verðs og verðþróun í þjóðfélaginu
komu þar mjög til umræðu og lýstu
bæði Össur og Davíð yfir ánægju
með framlag þeirra fyrirtækja sem
þegar hefðu gripið til þess ráðs að
lækka sitt vöruverð.
Ríkisstjórnin sögð hafa
farið í jólaköttinn
Það væri hins vegar synd að
segja að formaður Samfylkingarinn-
ar og forsætisráðherra hafi verið
sammála um stöðuna í efnahags-
málum þjóðarinnar nú um stundir,
þótt í máli beggja hafi mátt greina
að bjartara væri framundan. Sá
fyrrnefndi sagði ríkisstjórnina hafa
„farið í jólaköttinn“ og benti á að
verðbólga hafi milli desember og
janúar hækkað tvöfalt meira en ráð
var fyrir gert. Verðbólga síðustu 12
mánaða sé 9,4% hér á landi en ekki
nema 2% í samkeppnislöndunum.
„Munurinn er fjór- eða fimmfald-
ur. Þetta eru ákaflega uggvænleg
tíðindi fyrir samkeppnisstöðu okkar
Íslendinga og það er mjög erfitt
líka að við þessar aðstæður er ekk-
ert svigrúm til þess að lækka vexti
sem var þó bjargráðið sem mörg
fyrirtæki biðu eftir, einkum hin
smærri fyrirtæki sem ekki geta sótt
sér ódýrt fjármagn á evrusvæðið,“
sagði Össur Skarphéðinsson.
Hann benti á að við slíkar að-
stæður geti gamall vítahringur orð-
ið til að nýju þar sem verðbólgan
með aðstoð vaxtaokurs leggi til eldi-
við á sitt eigið bál. Hægt sé að grípa
inn í þessa þróun, en til þess þurfi
agaða efnahagsstjórn, til þess þurfi
agaða stjórn á ríkisfjármálum og
ekki síður þurfi að læra af mistök-
um síðustu ára.
1998 og 1999 að verða klassísk
ár fyrir hagstjórnarmistök
„Árin 1998 og 1999 eru að verða
klassísk í hagfræðinni sem dæmi
um hvernig afskiptaleysi og rangur
skilningur stjórnvalda á frelsi í
efnahagsmálum leiddi til ófara.
Frelsi þýðir nefnilega ekki að
stjórnvöld eigi að láta efnahagsmál-
in afskiptalaus. Í dag erum við öll
sammála um að það voru slæm mis-
tök, ákaflega slæm mistök, að grípa
ekki í tíma til aðgerða gegn við-
skiptahallanum. Við skulum læra af
þessu,“ sagði Össur ennfremur og
gat þess að verkalýðshreyfingin hafi
sýnt ábyrgð með því að kveðja rík-
isstjórnina með sér til baráttu gegn
verðbólgunni og frestun á uppsögn
kjarasamninga. Hann bætti því
einnig við að hann segði það „hik-
laust“ að „ákaflega jákvætt“ hafi
verið hvernig ríkisstjórnin brást við
því. Vonbrigði hafi hins vegar orðið
þess meiri þegar komið hafi í ljós að
stærsti liðurinn í hækkun vísitöl-
unnar voru verðhækkanir á opin-
berri þjónustu. Sagði hann að slíkt
hafi alls ekki átt að koma á óvart,
enda hafi fulltrúar Samfylkingar-
innar ítrekað varað við slíku og m.a.
stuðst þar við útreikninga Þjóð-
hagsstofnunar þar sem sýnt hafi
verið svart á hvítu að hækkanir rík-
isins hefðu umtalsverð verðbólgu-
áhrif. „Því var hafnað, enda lifa
menn í stjórnarráðinu eftir því
mottói að hafa beri það sem rangt
reynist fremur en fylgja útreikn-
ingum Þjóðhagsstofnunar,“ bætti
formaður Samfylkingarinnar við.
Yfirgnæfandi líkur á
að samningar haldi
Davíð Oddsson forsætisráðherra
(D) sagði ljóst að ríkisstjórnin muni
standa við það sem hún hafi þegar
tilkynnt verkalýðshreyfingunni að
hún muni gera varðandi hækkun á
útgjöldum. Sagði hann verulegar
líkur á því, „jafnvel yfirgnæfandi
líkur“ á því að það mark sem menn
hafi sett sér gagnvart uppsögn
kjarasamninga standist. Vísaði
hann til jákvæðrar þróunar á ýms-
um sviðum efnahagsmála, t.d.
styrkingar krónunnar og hækkunar
á verði hlutabréfa auk þess sem at-
vinnuleysi væri lítið og hefði verið
lengi.
„Þess vegna segi ég að það eru
miklar líkur á að þetta muni allt
saman ganga eftir en við verðum að
sjá mjög jákvæða hluti ganga fram
hvarvetna. Og þegar þetta gengur
eftir, þá mun það einnig ganga eftir
að verðbólgan á árinu verði kring-
um 3,5% sem er mjög viðunandi ár-
angur,“ sagði forsætisráðherra.
Með skírskotan til annarra landa
velti Davíð því einnig fyrir sér hvað
í efnahagsmálum væri rætt hér á
landi ef atvinnuleysi væri hér það
sama og í Evrópulöndunum, þetta
9–10%. Hér á landi væri atvinnu-
leysi ríflega 1% og miðað við stöð-
una í evrulöndum að því er atvinnu-
leysi áhrærir væri slíkt líklega
stærsti vandinn sem við væri að
glíma, enda „hörmung öll og mikil“.
Aðalatriðið sagði forsætisráð-
herra vera það að trúin á mark-
aðnum færi vaxandi og það væri
enn eitt dæmið um það að efnahags-
ástandið hér á landi sé að komast í
mjög gott horf og allar ástæður
væru til þess að fyllast bjartsýni.
„Ég tel að vaxtalækkanir séu
ekki langt undan heldur skammt
undan. Ég tel að við munum sjá
fram á vaxtalækkanir þegar í næsta
mánuði. Þegar eftir næstu mælingu
á vísitölunni munum við sjá fram á
vaxtalækkanir til viðbótar öðrum
hlutum,“ sagði Davíð Oddsson og
bætti við: „Skattalækkanir, vaxta-
lækkanir, styrking á gengi, lækk-
andi verðbólga, lítið atvinnuleysi,
traustur kaupmáttur. Hver myndi
ekki vera ánægður með þess háttar
efnahagsástand í sínu landi?“
Kemur til greina að
skipta fyrirtækjum upp
Guðni Ágústsson (B) landbúnað-
arráðherra lýsti því yfir að hann
myndi kynna ríkisstjórninni tillögur
og niðurstöður s.k. grænmetis-
nefndar í næstu viku og það myndi
hafa í för með sér jákvæð áhrif á
markaðinn ásamt öðrum aðgerðum
ríkisstjórnarinnar.
Þeir sem þátt tóku í umræðunni
lýstu flestir yfir áhyggjum af sam-
þjöppun á sviði matvöruverslunar
og sagði formaður Samfylkingarinn-
ar að stóru matvörukeðjurnar hafi í
skjóli einokunar keyrt upp matar-
verð. „Hreðjatak þeirra á markaðn-
um hefur kallað fáheyrða dýrtíð yfir
neytendur,“ sagði hann og bætti við
að ríkisstjórninni beri skylda til
þess að feta í fótspor verkalýðs-
hreyfingarinnar og fara í viðræður
við stærstu verslunarrisana og
krefjast þess í nafni þjóðarheillar að
þeir sýni ábyrgð og lækki matar-
verð. Sagðist hann telja að þar ættu
að vera hæg heimatökin, þar sem
formaður einkavæðingarnefndar,
Hreinn Loftsson lögmaður, væri
stjórnarformaður Baugs.
„Ef fortölur duga ekki til þá er
það skoðun okkar í Samfylkingunni
að Samkeppnisstofnun eigi að fá í
hendur þau tæki sem hún þarf til
þess að skipa fyrir um breytingar,
þar á meðal að skipta upp slíkum
einokunarrisum ef hún telur þess
þörf til þess að vernda hagsmuni
neytenda,“ sagði Össur.
Fleiri þingmenn tóku í sama
streng, t.d. Ögmundur Jónasson
(Vg) sem sagði þróun í átt til einok-
unar hafa átt sér stað í skjóli rík-
isstjórnarinnar og Kristinn H.
Gunnarsson (B) taldi rétt og skylt
að berjast gegn hvers kyns einokun
á markaði. Vilhjálmur Egilsson (D)
gagnrýndi hins vegar allt tal um að
styrkja Samkeppnisstofnun í þessu
skyni og reyna með því að rífa niður
þann árangur sem hefði náðst í hag-
ræðingu í viðskiptalífinu.
Lokaorðin átti forsætisráðherra:
„Auðvitað á að fylgja því eftir að
stórir aðilar séu ekki að misnota
sína aðstöðu. Auðvitað er það þann-
ig að 60% eignaraðild á verslunar-
fyrirtækjum í matvælaiðnaði er allt
of há hlutdeild. Auðvitað er það
uggvænlegt og sérstaklega þegar
menn hafa á tilfinningunni að menn
taki ekki því mikla valdi sem þeir
hafa þar af skynsemi. Auðvitað
hlýtur að koma til greina af hálfu
ríkisins og Alþingis að skipta upp
slíkum eignum ef þær eru misnot-
aðar.“
Horfur í efnahagsmálum ræddar utan dagskrár á Alþingi í gær
Forsætisráðherra
segir vaxtalækk-
un skammt undan
Össur Skarphéðinsson, formaður Samfylkingarinnar, var málshefjandi.
Morgunblaðið/Árni Sæberg
Davíð Oddsson forsætisráðherra segir fulla ástæðu til bjartsýni.
Félagsmálaráðherra, Páll Pét-
ursson (B), mælti í gær fyrir frum-
varpi til laga um breytingu á lögum
um vatnsveitur sveitarfélaga.
Sagði hann frumvarpið hafa tví-
þætt markmið, annars vegar verði
sveitarfélögum veitt fullt vald til að
ákveða rekstrarform vatnsveitu
sem þau reka, en hins vegar verði
eiganda vatnsveitu heimilað að
áskilja sér arðgreiðslur sem numið
geti allt að 7% af eigin fé vatnsveit-
unnar.
Fram kom í máli hans að með
breytingunum sé m.a. ætlunin að
tryggja samræmi við frumvarp til
raforkulaga sem iðnaðarráðherra
hyggst leggja fram á vorþingi, þar
sem mælt er fyrir um að öll raf-
orkufyrirtæki skuli vera sjálfstæð-
ir lög- og skattaðilar. „Þess eru
nokkur dæmi að sveitarfélög reki í
einu fyrirtæki eða stofnun héraðs-
rafmagnsveitu, hitaveitu og vatns-
veitu.
Ætla má að á næstu árum muni
þessi fyrirtæki og stofnanir sveit-
arfélaga taka þátt í samkeppnis-
rekstri á sviði raforkuframleiðslu
og verður þeim þá skylt að halda
þeim hluta starfsemi sinnar að-
skildum frá rekstri sem þau eiga
einkarétt á, þar á meðal rekstri
hitaveitu og vatnsveitu. Engu að
síður kann að vera hagkvæmt að
reka allar þessar veitur í einu fyr-
irtæki eða stofnun,“ sagði hann.
Í máli þeirra þingmanna sem
tóku til máls um efni frumvarpsins
kom almennt fram ánægja með
efni þess. Þó lýsti Karl V.
Matthíasson (S) yfir efasemdum
um réttmæti þess að láta arðsem-
issjónarmið ráða við jafn sjálfsagða
þjónustu og rekstur vatnsveitu
sem þar að auki væri ekki í sam-
keppnisumhverfi. Miklu fremur
ætti að líta til þess að halda rekstr-
inum „við núllið“.
Aðrir, t.d. Steingrímur J. Sigfús-
son, formaður Vinstri grænna,
höfðu áhyggjur af því að einka-
væða ætti nú vatnsveitur og réðu
mjög frá slíkum fyrirætlunum.
Sveitarfélög ákveði
rekstrarform vatnsveitna
HALLDÓR Blöndal (D) forseti
Alþingis skýrði frá því við upphaf
þingfundar í gær að við kosningar
í nefndir og ráð á síðasta fundi Al-
þingis fyrir jól, hinn 14. desember
sl., hafi orðið sú vangá við kjör í út-
varpsréttarnefnd að einu nafni var
ofaukið á listunum svo að lýst var
kjöri fleiri en kjósa skyldi. Þau
mistök væri nauðsynlegt að leið-
rétta í samræmi við þingstyrk að
baki listunum hvorum um sig.
Enginn hreyfði andmælum við
þessu og því lýsti forseti Alþingis
eftirfarandi rétt kjörin í útvarps-
réttarnefnd til næstu fjögurra ára.
Aðalmenn: Kjartan Gunnars-
son framkvæmdastjóri, Bessí Jó-
hannsdóttir sagnfræðingur,
Magnús Bjarnfreðsson skrifstofu-
stjóri, Kristín B. Pétursdóttir lög-
fræðingur, Árni Gunnarsson
framkvæmdastjóri, Lára V. Júl-
íusdóttir hæstaréttarlögmaður og
Ástráður Haraldsson hæstarétt-
arlögmaður.
Varamenn: Stefanía Óskars-
dóttir stjórnmálafræðingur,
Andri Þór Guðmundsson við-
skiptafræðingur, Kristján Einars-
son slökkviliðsstjóri, Steinþór
Gunnarsson viðskiptafræðingur,
Einar Karl Haraldsson kynning-
arráðgjafi, Ingimar Ingimarsson
nemi og Álfheiður Ingadóttir lög-
fræðingur.
Ofaukið í út-
varpsréttarnefnd