Morgunblaðið - 10.03.2002, Blaðsíða 3

Morgunblaðið - 10.03.2002, Blaðsíða 3
MORGUNBLAÐIÐ SUNNUDAGUR 10. MARS 2002 B 3 skeytti hana við krossbandið. Það greri síðan að því er virtist vel, en hnéð veiktist við þetta þar eð hin sundurskorna sin er einmitt á miklum álagsstað hjá skíðamanni. Kristinn segir suma lækna taka sinbúta úr lærum og veltir því fyrir sér hvort það hefði verið hyggi- legra í stöðunni. En allt um það, endurhæfingin hófst og gekk þokkalega þótt Kristinn fyndi fyrir eymslum. Síðasta sumar æfði hann síðan með sænskum skíðamönnum og horfur gátu talist þokkalegar. Hann þurfti bara „að passa upp á álagið“, eins og hann kemst að orði. Í október 2001 féll hann síðan á æfingu í Austurríki , teygði innra liðband á sama hné og skemmdi liðþófa. Hann hélt sig hafa slitið liðbandið, en svo reyndist ekki. Læknir einn herti á liðbandinu og saumaði liðþófann og í fyrstu virt- ist allt vera í lagi. En svo bólgnaði hnéð. Kristinn var þá kominn til Noregs og Haukur Bjarnason, þjálfari Kristins síðustu fjögur ár- in, kom honum í skoðun þar sem í ljós kom að sýking var komin í hnéð eftir aðgerðina í Austurríki. „Haukur hefur reynst mér ótrú- lega vel í gegnum þessi vandræði og konan hans er heppin ef hann hugsar jafn vel um hana og hann hefur hugsað um mig,“ segir Krist- inn. Næstu sólarhringa var hann í einangrun í sjúkrarúmi þar sem enn var farið inn í hnéð og hreins- að út með saltvatni. Síðan var sett pensilín í æð. „Menn vissu ekki nema að þetta væri einhver stór- hættuleg streptókokkasýking sunnan úr Evrópu og tóku enga sénsa. Þetta setti mig rosalega mikið tilbaka, en í desember í fyrra byrjaði ég aftur að æfa. Hnéð virt- ist fyrst vera í lagi, en ég fann mig engan veginn sjálfur. Ég keppti í Adelboden, Kitzbühl og Wengen, en gekk illa, keyrði bara út úr og aftur fór hnéð að angra mig. Nú var það orðið svo slæmt að það hreinlega logaði allt eftir fyrstu ferð. Nú var það held ég fyrsta að- gerðin, krossbandaaðgerðin, sem þoldi ekki álagið lengur. Þegar hér var komið sögu var eiginlega sjálf- hætt, svona á mig kominn næ ég engum árangri, þvert á móti skaða ég mig bara meira með því að halda áfram.“ Davíð glottandi … En hvernig ertu á þig kominn svona dagsdaglega? „Ég geng líklega óhaltur, en ég skokka ekki eða hleyp og ég er ekki fljótur upp stiga.“ Þetta hlýtur að hafa verið erfitt þótt þú hafir ekki átt margra kosta völ? „Ákvörðunin sem slík var ekkert erfið, eins og þú segir þá var eng- inn valkostur. En það er alltaf leið- inlegt að hætta og ég mun örugg- lega sakna þessa tíma þó að ég sé líka á því að nóg hafi verið komið. Ég var vissulega orðinn nokkuð þreyttur á þessum eilífu ferðalög- um og að búa beinlínis í ferða- tösku. Nú tekur eitthvað nýtt við.“ Þú ert þá ekkert svekktur? „Ég get alveg sagt þér að ég er svekktur út af einu, en bara einu. Í draumnum vann ég gull og var á palli og hlýddi á þjóðsönginn. Mað- ur fær ekki þjóðsönginn leikinn fyrir silfrið. Eina skiptið sem ég hélt að ég fengi þjóðsönginn var á alþjóðlegu móti sem herlögreglan á Ítalíu stóð fyrir. Það var sæmilega sterkt mót og ég vann þar í svigi. Ég var kallaður upp á pall og það stikaði einhver generáll til mín með gullið. Í stað þess að leika þjóðsönginn, sagði sá ítalski, „Ég þekki til Íslands, það er mjög fal- legt land, nú hlýtur forsætisráð- herrann þinn að vera stoltur!“ Þetta var nú frekar broslegt og ég sá fyrir mér Davíð glottandi með hægri þumalinn vísandi upp í loft! Ég verð að segja að þetta voru talsverð vonbrigði, en það verður ekki á allt kosið.“ Konan og framtíðin Mitt í öllum stórmótunum og æf- ingunum um gervalla Evrópu og Bandaríkin hitti Kristinn sambýlis- konu sína, Hlín Jensdóttur, sem starfaði sem skíðakennari í Geilo. Hún stundar nú nám í ferðamála- fræði við Háskóla Íslands. Kristinn segir hana hafa hvatt sig til að halda áfram meðan enn var von og hún hafi staðið við hlið sína eins og klettur. „Þegar komið var að því að gefa þetta frá sér þá studdi hún þá ákvörðun líka. Þetta er ekki síður breyting á lífsmynstri hjá henni. Hún tók ríkan þátt í ævintýrinu, ferðaðist mikið og fylgdist með mér á mótum.“ Hvað ætlið þið að gera nú þegar tími er til að gera annað en að æfa og keppa? „Mig langar að mennta mig. Ég er bara með menntaskólanám.Það var enginn tími fyrir meira. Ég hef áhuga á ýmsu, smíðum, ljósmynd- un, tölvum. Ég er að athuga minn gang, en ég reikna með því að við Hlín förum til Noregs í sumar og ég fái mér þar bara vinnu. Maður þarf að fara að vinna fyrir sér núna, búinn að lifa á styrkjum í mörg ár. Í framtíðinni langar okk- ur að búa í Geilo, a.m.k. einhvern tíma. Við eigum bæði svo marga góða vini þar.“ Styrkjum segirðu … hvernig gengur það fyrir sig? „Jú, ég er búinn að vera atvinnu- maður í greininni, en það er ekki hægt nema að einhver borgi undir mann.Ég hef átt góða að, Afreks- mannasjóður ÍSÍ hefur hjálpað mér í 6–7 ár og verið rosagóður. Skíðasambandið hefur líka borgað mikinn kostnað fyrir mína hönd og ekki má gleyma fyrirtækjunum heima í Ólafsfirði sem hafa styrkt mig af myndarskap um árabil. Þar vildi ég fá að nefna þau og þakka þeim í leiðinni, Sparisjóð Ólafs- fjarðar, Ólafsfjarðarbæ, Þormóð ramma Sæberg, Sigvalda Þorleifs hf., Vélsmiðju Ólafsfjarðar, Garðar Guðmundsson, Árna Helgason, Sjómannafélag Ólafsfjarðar og Kristbjörgu ehf. Þessir aðilar hafa greitt meginhluta útgjalda minna í allmörg ár.“Kristinn á „botnferð“.

x

Morgunblaðið

Beinir tenglar

Ef þú vilt tengja á þennan titil, vinsamlegast notaðu þessa tengla:

Tengja á þennan titil: Morgunblaðið
https://timarit.is/publication/58

Tengja á þetta tölublað:

Tengja á þessa síðu:

Tengja á þessa grein:

Vinsamlegast ekki tengja beint á myndir eða PDF skjöl á Tímarit.is þar sem slíkar slóðir geta breyst án fyrirvara. Notið slóðirnar hér fyrir ofan til að tengja á vefinn.